föstudagur, september 27, 2024

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhorfandi að þessu írafári öllu langar að benda á.

 


Embætti Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra hefur tekið ákvörðun um að hætta rannsókn í máli er varðar meinta byrlun, afritun á upplýsingum af síma einstaklings og dreifingu á kynferðislegu myndefni. Brotið var tilkynnt lögreglu þann 14.05.2021.

Við rannsóknina fengu sjö einstaklingar réttarstöðu sakbornings. Sakarefnið var þrennskonar og beindust allir þættir að einum sakborningi en einn þáttur að öðrum sakborningum. Hér að neðan er gerð grein fyrir sakarefninu.
Hér er strax ástæða til að gefa gaum; það eru þrenns konar sakarefni og sjö sakborningar. Allir þættir beindust aðeins að einum sakborninga en aðeins einn að öllum hinum. Við vitum að þessi eini allra þátta sakborningur er eiginkonan fyrrverandi. Þetta er mikilvægt því því hefur verið slengt fram að blaðamennirnir, hér verður notað málfræðilegt kyn þótt einn blaðamaðurinn sé kvenkyns, hafi beinlínis staðið að byrlun manns og þjófnaði á síma hans. Lögreglan staðfestir hér að rannsókn þeirra hafi aldrei beinst að þeim möguleika.

1. Líkamsárás, byrlun, 217. gr. eða 218. gr. almennra hegningarlaga. Einn aðili var undir rökstuddum grun um að hafa byrlað brotaþola lyf. Engin gögn í málinu gáfu lögreglu tilefni til að gruna aðra sakborninga um að hafa átt þátt í að byrla brotaþola. (feitletrun mín.)
Hér er þetta ítrekað. Lögreglan hafði aldrei neina ástæðu til að gruna blaðamennina um að standa að meintri byrlun. (Rökstuddur grunur þýðir að mínu áliti að játning liggi ekki fyrir, þess vegna meint.)

2. Brot á 199. gr. a. almennra hegningarlaga. Í málinu liggur fyrir að sakborningur sem náði síma af brotaþola kveðst hafa afhent fjölmiðli símann þar sem síminn var afritaður. Sakborningur vissi þá að í símanum var kynferðisefni sem ólögmætt er að dreifa nema með samþykki. Sannað er að sakborningur sendi sjálfum sér kynferðislegt myndefni úr síma brotaþola. Ekkert liggur fyrir um að þeir aðilar sem meðhöndluðu símann og efni úr honum eftir að hann var afhentur fjölmiðlum hafi dreift þessu kynferðislega myndefni. (Feitletrun mín.)
Í upphafi er sagt að sakarefnin séu þrenns konar og aðeins einn liður beinist að öllum sakborningum, þ.e blaðamönnunum. Það er ljóst að blaðamennirnir eru grunaðir um lið 3. Þessi liður er númer 2 og beindist því aldrei að blaðamönnunum.
Ég vona að áherslan sem var lögð á þessa rannsókn endurspegli vinnubrögð Lögreglunnar á Norðurlandi eystra í öllum kynferðisbrotamálum.

3. Brot gegn 228. gr. og 229. gr. almennra hegningarlaga. Að því er varðar þennan kærulið beindist rannsóknin aðallega að því að upplýsa um hver hefði afritað innihald símans sem fenginn var með þeim hætti sem áður hefur verið lýst. Framburður sakbornings sem afhenti fjölmiðlum símann hefur verið stöðugur allan tímann sem rannsóknin hefur staðið um að hann hafi afhent fjölmiðlum símann og þar hafi síminn verið afritaður. Sakborningurinn hefur einnig verið stöðugur í framburði um að hafa upplýst þá sem tóku við símanum hvernig síminn væri til kominn og hver ætti símann. Í júlí síðastliðnum upplýsti sakborningur um að hafa afhent fréttamanni RÚV símann í húsnæði RÚV í Reykjavík. Sá hafi kallað til annan starfsmann RÚV sem tók við símanum og fór með hann til þriðja aðila sem hann gat ekki upplýst um hver hefði verið. Þessir starfsmenn RÚV hefðu verið með símann í sólarhring og sakborningur hefði komið daginn eftir á RÚV og fengið símann afhentan aftur.
Þetta er reyndar frekar skrítið. Í lið 2 er sagt beinum orðum: "Ekkert liggur fyrir um að þeir aðilar sem meðhöndluðu símann og efni úr honum eftir að hann var afhentur fjölmiðlum hafi dreift þessu kynferðislega myndefni." Hins vegar fjalla lagagreinar 228 og 229 beinlínis um kynferðislega friðhelgi! Eitthvað skýtur þetta skökku við. Voru blaðamennirnir virkilega grunaður um að hafa verið að "hnýsast í heimamyndböndin?
XXV. kafli. Ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs.
 228. gr.
 [Hver sem brýtur gegn friðhelgi einkalífs annars með því að hnýsast í, útbúa, afla, afrita, sýna, skýra frá, birta eða dreifa í heimildarleysi skjölum, gögnum, myndefni, upplýsingum eða sambærilegu efni um einkamálefni viðkomandi, hvort heldur sem er á stafrænu eða hliðrænu formi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári, enda sé háttsemin til þess fallin að valda brotaþola tjóni.] 1)

En jafnvel þótt þeir hafi verið að "hnýsast í" heimamyndböndin þá var þeim aldrei dreift eða notuð til að valda viðkomandi tjóni! Bara til áréttingar það voru ekki blaðamennirnir sem sögðu frá heimamyndböndunum.
Ég skil þetta ekki. Af því að það eru myndbönd á símanum sem snerta umfjöllunarefnið ekkert þá er síminn og allt innihald hans heilagt og má ekki snerta? Jafnvel þótt, eins og margir vilja meina, að annað efni í símanum snerti almannahagsmuni? Er þetta ekki ansi langt seilst?

Blaðamennirnir hafa aldrei játað það að þeir hafi fengið símann og er það gert til að vernda heimildarmann/menn. Það voru fleiri með þessi sömu gögn í sínum tækjum. En þótt þeir hafi fengið símann þá skiptir það engu máli því þeir nefnilega mega fá gögn sem aflað hefur verið í heimildarleysi, það stendur í nefndarálitinu með breytingartillögunni að greinum 228 og 229:
Með hliðsjón af þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi þessu sem og samspili 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga telur nefndin æskilegt að einnig verði kveðið á um að ákvæði 3. gr. frumvarpsins eigi ekki við þegar háttsemin er réttlætanleg með vísan til almanna- eða einkahagsmuna. Er hér m.a. litið til þess að ákvæðið hamli ekki störfum og tjáningarfrelsi fjölmiðla, m.a. í þeim tilvikum þegar þeir fá aðgang að gögnum eða forritum sem hefur verið aflað í heimildarleysi og geti varðað almannahagsmuni. Hins vegar telur nefndin að um afmörkuð tilvik geti verið að ræða þegar um er að ræða einkahagsmuni og þurfi að meta heildstætt og túlka þröngt hvort refsileysisástæða eigi við í þeim tilvikum. Nefndin áréttar að XXV. kafli almennra hegningarlaga sætir nú endurskoðun. Telur nefndin rétt að þar til þeirri endurskoðun er lokið verði ákvæðin a.m.k. með þeim hætti sem lagt er til hér.

Mér sýnist á öllu að eina álitaefnið sem snýr að blaðamönnunum sé hvort umfjöllun þeirra falli undir almannahagsmuni. Ég fæ ekki séð að það ætti að vera í höndum lögregluembætta að meta slíkt, dómstólar hljóta að verða að skera úr um það.

Niðurstöður rannsóknarinnar eins langt og hún nær eru helstar eftirtaldar:
• Það liggur fyrir að einn sakborninga játaði* að hafa sett lyf út í áfengi sem hann færði brotaþola og hann drakk. Nokkrum klukkustundum síðar veiktist brotaþoli alvarlega. Ekki hefur tekist að sanna orsakasamband á milli byrlunar á lyfjum og veikinda brotaþola með óyggjandi hætti. Lögreglustjóraembættið á Norðurlandi eystra telur háttsemina varða við 217. gr. almennra hegningarlaga. Að því gefnu að brotið eigi aðeins undir 217. gr. gæti brotið verið fyrnt sem dómstólar hafa þó endanlegt mat á. Ef hægt væri að sanna orsakatengsl milli byrlunar og veikinda brotaþola er ekki líklegt að ákæruvaldinu tækist að sanna ásetning sakbornings til að valda brotaþola þeim skaða sem hann varð fyrir. Þá er vísað til andlegs ástands sakbornings á verknaðarstundu og eftirfarandi veikindi hans.** Af framangreindum ástæðum hefur verið ákveðið að hætta rannsókn á þessu sakarefni í málinu.

* Samt liggur bara fyrir rökstuddur grunur. Hér fer ekki saman hljóð og mynd. 

** Mér finnst það þyngra en tárum taki að þessi vesalings kona fái ekki að hafa veikindi sín í friði. Og það voru ekki blaðamenn sem báru þau á torg.


• Lögreglustjóraembættið á Norðurlandi eystra telur sakarefnið um að dreifa kynferðislegu myndefni af brotaþola sé líklegt til sakfellis á hendur einum sakborningi. Brotið felst í því að sakborningur sendi sjálfum sér kynferðislegt myndefni af eiginmanni sínum úr síma hans. Vegna veikinda sakbornings leikur vafi á um hvort hann hafi verið sakhæfur á verknaðarstundu. Sakborningur hefur hafnað beiðni um að undirgangast sakhæfismat og því hefur verið ákveðið að hætta rannsókn á þessum þætti málsins.

Ég veit eiginlega ekki hvort mér eigi að finnast þetta fallegt eða skelfilegt. "Við höldum að þessi einstaklingur sé ósakhæfur, jafnvel þótt ekkert sakhæfismat liggi fyrir, svo við ætlum bara ekkert að kæra hann." En hvað um Steina stera sem neitar líka sakhæfismati? Á líka að sleppa honum?

Þá má það teljast undarlegt að einstaklingur sem LNE telur ekki sakhæfan og margendurtekur að sé andlega veikur er fullkomlega marktækur þegar kemur að fullkomlega einhliða staðæfingum um að byrlun hafi átt sér stað þótt engin læknisfræðileg sönnun styðji það og að síminn hafi verið afhentur RÚV. Ja, hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?

• Sakarefni samkvæmt 228. og 229. gr. alm. hgl. lýtur að brotum á friðhelgi einkalífs meðal annars með því að hnýsast í, afrita, sýna, skýra frá, birta eða dreifa í heimildarleysi skjölum, gögnum, myndefni, upplýsingum eða sambærilegu efni um einkamálefni viðkomandi. Þar er afstaða Lögreglustjóraembættisins á Norðurlandi eystra að allir sakborningar í málinu gætu hafa sýnt af sér atferli sem getur flokkast undir brot á framangreindum ákvæðum. Sérstakar aðstæður sem varða einkahagsmuni eða almannahagsmuni geta gert framangreinda háttsemi refsilausa...


Bíð spennt, alveg spennt eftir öllum færslunum sem eiga eftir að koma eftir þetta fordæmi: "Sko, við gátum ekki sannað að Nonni hefði dreift nektarmyndum af Stínu en við erum alveg viss um að hann hefði getað gert það."

...Augljósar refsileysisástæður gætu almennt verið þær að aðili hafi verið að skipuleggja glæp eða játa á sig alvarlegan verknað í einkagögnum en endanlegt mat um slíkt liggur hjá dómstólum. Rannsóknin beindist hins vegar aðallega að því að reyna að upplýsa hverjir afrituðu símann, hvar og hvernig það var gert. Það liggur fyrir að birtar voru fréttir upp úr einkagögnum af símtækinu s.s. tölvupóstum, skjölum og spjallþráðum spjallforrita.

Er samt ekki veið að byrja á vitlausum enda hérna? Þarf ekki fyrst að meta það hvort umfjöllunin varðaði almannahagsmuni og ef dómstóll komst að því að svo væri ekki að þá ætti að rannsaka málið?
Þá er náttúrulega mjög þægilegt ef maður ætlar að brjóta lögin að hafa eins og eitt heimagert klámmyndband á öllum símum og tölvum og þá má aldrei skoða neitt.

• Það er mat Lögreglustjóraembættisins á Norðurlandi eystra að ekki hafi tekist að sanna hver afritaði símann, hvernig og hver afhenti öðrum upplýsingar um einkamálefni brotaþola. Þeir sem birtu fréttir upp úr gögnum símans fengu réttarstöðu sakbornings auk þeirra sem sannað er að höfðu verið í samskiptum við þann sakborning sem afhenti símann til fjölmiðla. Sakborningar sem störfuðu hjá fjölmiðlum neituðu að tjá sig hjá lögreglu og afhentu lögreglu engin gögn. Það er réttur þeirra sem hafa fengið stöðu sakbornings.* Lögregla óskaði ekki eftir því við sakborninga að þeir upplýstu um heimildarmenn sína enda lá það fyrir frá upphafi rannsóknar hver heimildarmaðurinn var í máli þessu.
* Já, það er réttur þeirra.
• Það er miður hve langan tíma rannsóknin tók en gildar skýringar eru á því. Rannsóknin var engu að síður samfelld. Veikindi eins sakbornings höfðu mikil áhrif á gang rannsóknarinnar sem og ágreiningur við sakborninga sem töldu sig ekki bera sömu skyldu og aðrir til að gefa skýrslu hjá lögreglu vegna stöðu sinnar sem blaðamenn.* Fjallað var um málið á þremur dómsstigum, auk þess sem gerðar voru vanhæfiskröfur á starfsmenn embættisins sem fjallað var um á tveimur dómsstigum og töfðu þessi málaferli rannsókn málsins mikið. Málið féll ekki undir forgangsmál í samræmi við almenn fyrirmæli ríkissaksóknara auk þess sem önnur atriði höfðu áhrif á rannsóknartímann. Ekki tókst að afla fullnægjandi stafrænna gagna þar sem þeim hafði verið eytt og réttarbeiðnir sem sendar voru erlendum tölvuþjónustu fyrirtækjum hafa enn ekki skilað árangri. Það liggur fyrir að ekki hefur tekist að sanna hver afritaði upplýsingar af síma í einkaeigu og með hvaða hætti þrátt fyrir að vísbendingar séu uppi um það. Af þessum sökum sem og vegna sjónarmiða um fyrningu hefur embættið ákveðið að hætta rannsókn í þessu máli gegn öllum sakborningum.

* Í alvöru? Finnst ykkur við hæfi að vera með svona blammeringar?

Embættinu er skylt samkvæmt sakamálalögum að taka til rannsóknar mál þar sem grunur er um refsiverða háttsemi óháð því hver það er sem tilkynnir brot eða er sakaður um brot. Embættið telur það hafa uppfyllt skyldur sínar. Aðilum máls hefur verið tilkynnt um málalok.
Embætti Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra veitir ekki frekari upplýsingar um málið.



All reacti






föstudagur, september 06, 2024

Haustmyrkrið

 


Þegar húmar haustið að

hugur tapar áttum.

Rúm og tími ráfa um

ryðst úr öllum gáttum.

 

Gamlir skuggar skríða fram

skaka kvísl og kyndlum.

Glámskyggn greina þykist þó

glóð í Churchill vindlum.

 

Reykfyllt stofa rís nú upp

á radar sýna minna.

Dáin von og drukkið fólk

drauma hvergi finna.

 

“Löngu liðið” hvísla ég

læðist fram úr vöknuð.

Finn í hjarta ást og eymd,

undarlegan söknuð.

 

laugardagur, ágúst 31, 2024

Meinlausu morðingjarnir

 Eins og flesta rekur minni til þá gekk Covid 19 yfir heimsbyggðina fyrir nokkrum árum. Covid 19 er það sem í sögulegu samhengi er yfirleitt kallað plága. Þegar við skoðum söguna þá sjáum við að þegar plágur ganga yfir heimsbyggðina þá verður mikið mannfall. Því miður varð mannfall í þessari plágu eins og  öðrum en mun minna en möguleiki var á. Það getum við þakkað vísindum og vísindafólki sem og ábyrgum stjórnvöldum í flestum löndum.

Vísindafólk er ekki skyggnt, það hefur ekki forspárgáfu. Það metur aðstæður og upplýsingar hverju sinni og leggur til aðgerðir byggðar á þeim upplýsingum sem liggja fyrir. Stjórnvöld fá þessar tillögur í hendur og ákveða svo framhaldið. Mig minnir mjög ákveðið að stjórnvöld hér á Íslandi ekki alltaf farið að fullu eftir tillögum vísindafólks en að miklu leyti.



Auðvitað voru þetta mjög íþyngjandi aðgerðir. Frelsi okkar var heft. Auðvitað eru skiptar skoðanir á því hvernig á að bregðast við hverju sinni og það er eðlilegt. Það er eðlilegt að stjórnvöldum sé sýnt aðhald og þau gagnrýnd. Þannig á það að vera. En gagnrýnin verður að vera rökstudd og skynsamleg. Og það voru margir sem komu fram með slíka gagnrýni. 

Það hins vegar að WHO sé að eitra fyrir mannkyninu eða það sé verið að sprauta örflögum í fólk til að njósna um það er hvorki rökstudd né skynsamleg gagnrýni. Ég eins og svo margir fleiri væntanlega sat heima hjá mér með yfirlætisfullt vorkunnarbros á vörum og hugsaði: „Aumingja fólkið.“ En þegar ungur, fílhraustur karlmaður sagði okkur, ginningarfíflunum, að hann neitaði að vera með grímu því að hann væri jú ekki veikur þá fóru að renna á mig tvær grímur. Það að hann sé ekki veikur þýðir ekki að hann sé ekki að bera með sér smit.  Við erum ekki öll hraustir, ungir karlmenn og hann getur smitað okkur. Sum okkar voru í krabbameinslyfjameðferð á meðan þessu stóð og hefðum illa þolað smit.

Mér var heldur ekki skemmt þegar barnshafandi konur voru boðaðar í bólusetningu og mótmælandi bólusetninga mætti og öskraði á þær að þær væru að „drepa börnin sín.“  Ég veit það alveg að þessar verðandi mæður voru búnar að velta því mikið fyrir sér hvort þær ættu að þiggja bólusetningu eða ekki og hvaða áhrif hún hefði á börnin. Mér finnst þetta svo ljót framkoma ég á eiginlega ekki til orð yfir hana.

Svo líður tíminn og hann sýnir fram á að kannski voru sumar aðhaldsaðgerðirnar óþarflega strangar. Það er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á. Ég efast alla vega ekki um að þríeykið okkar og stjórnvöld hafi gert sitt besta með þær upplýsingar og vitneskju sem lá fyrir hverju sinni.

Svo byrjaði að gjósa og fólk var flutt af skjálftasvæðum. Mikið af andstæðingum bólusetninga birtust þá og gagnrýndu aðgerðir stjórnvalda. Vísindamenn vissu ekkert hvað þeir voru að gera. Þá hugsaði ég: „A-ha! Þetta er menntunarandúð.“  Svo átti sér stað hræðilegt slys, maður féll niður um sprungu og lést.  Ég get ekki ímyndað mér skelfinguna og rekist ættingjar hér inn þá samhryggist ég og biðst afsökunar á að vera að tala um þetta. Á þeim tímapunkti fannst mér ljóst að vísindamenn hefðu svo sannarlega rétt fyrir sér og eina leiðin að hlýða þeim. Samt hélt, og nú ætla ég að nota hið fordómafulla hugtak „þetta fólk“ áfram að gjamma á samfélagsmiðlum um forræðishyggju stjórnvalda og vitleysi vísindamanna. Ég sat heima hjá mér fyrir framan skjáinn, dolfallin. Það er ljótt að segja það en ég ætla að segja það samt: Ég er komin á þá skoðun að „þetta fólk“ er ekki einhver meinleysisgrey sem vita ekki betur. Þetta er vont fólk sem vill öðrum illt. Það vill að fólk veikist og deyi. Það vill að fólk sé inni í brennandi húsum, það vill að fólk falli niður um sprungur. Undir yfirskyni góðmennsku og frelsisástar vill það glundroða og þjáningar

Ég er hætt að burtskýra þessa hegðun sem einfeldni, heimsku eða menntunarandúð. Þetta er illmennska.




sunnudagur, júlí 21, 2024

Vald ofbeldisins

 Það er kona sem ég þekki, þetta er ekki flökkusaga ég þekki konuna og hef þetta frá fyrstu hendi. Það er sem sagt kona sem ég þekki sem var í sambandi með manni. Það eru sennilega komin ein tuttugu ár síðan þetta var. Sambandið gekk hraðar en konan raunverulega vildi en þau voru farin að búa saman stuttu eftir að sambandið hófst. Eftir það fór sambandið hratt niður á við og endaði með því að maðurinn lagði hendur á konuna. Sem betur fer var sambandið ekki langt, engin börn og engar fjárskuldbindingar sameiginlegar svo konan rak manninn á dyr. Hins vegar áttu þau flugmiða sem höfðu verið greiddir með kreditkorti konunnar. Skyndilega fær hún aukarukkun fyrir breytingu á flugmiðanum hans. Minnir að þetta hafi verið svolítil upphæð á þessum tíma. Að sjálfsögðu mátti ekki færa aukagjald á hennar kreditkort án hennar samþykkis. Konan hringir í flugfélagið og fær að tala við afgreiðslukonuna sem hafði samþykkt breytinguna. Ég veit ekki hvernig samtalið var nákvæmlega en mig grunar að konan hafi ekki verið ánægð. Það endar með því að afgreiðslukonan segir: "Það var miklu þægilegra að tala við hann." Því miður gerist það oft að fólk er slegið út af laginu þegar það fær svona ótrúlegt bull framan í sig en sem betur fer gerðist það ekki í þetta skiptið. Konan svaraði að bragði: "Já, auðvitað var hann miklu þægilegri. Hann var að fá þig til að fremja lögbrot á minn kostnað."

Þó nokkrum árum seinna var þessi maður til umfjöllunar í fjölmiðlum vegna ofbeldismála. 

Það var miklu þægilegra að tala við hann. 

Þegar fólk verður fyrir ofbeldi þá fer það í uppnám. Oft missir það öryggistilfinninguna sem það hafði og býr við stöðugan ótta. Fólk sem verður fyrir langvarandi ofbeldi endar í svokölluðu "survival mode". Það er alltaf viðbúið árás og er bara að reyna að lifa af. Ofbeldimaðurinn stjórnar atburðarásinni algjörlega. Hann veit hvenær hann ætlar að vera með djöfulgang, hann veit hvað hann ætlar að gera, hvar, hvenær og hvernig. Hann veit að hann ætlar að vera til friðs í nótt og getur því sofið sallarólegur. Fórnarlambið veit ekkert af þessu. Það veit ekkert við hverju má búast, hvar, hvenær eða hvernig og er því alltaf á nálum. Skiljanlega yfirtekur ofbeldið líf fórnarlambsins, það getur um lítið annað hugsað og talar um lítið annað. Það er algjörlega tætt og í stöðugu uppnámi. 

Við vitum það öll að manneskja sem er í stöðugu uppnámi og er algjörlega tætt á sálinni er oft sögð "klikkuð" og þ.a.l. ómarktæk. Hugsið ykkur hvað þetta er gott fyrir ofbeldismanninn. Einstaklingur sem sýnir fullkomlega eðlileg viðbrögð við ofbeldi er dæmdur ómarktækur vegna þessara sömu viðbragða! En ofbeldismaðurinn sem er ekki tættur á sálinni og í uppnámi er svo rólegur og yfirvegaður. 

Það er svo miklu þægilegra að tala við hann. Svo miklu þægilegra að trúa honum. 




Lögreglan stöðvaði Gabby Petito og Brian Laundrie 12. ágúst 2021 vegna tilkynningar um rifrildi/átök. Gabby var í uppnámi og grátandi, Brian var rólegur og yfirvegaður. Lögreglan komst að þeirri merkilegu niðurstöðu a' Gabby væri gerandinn og Brian þolandinn í málinu og hann fékk að gista á hóteli um nóttina á kostnað skattgreiðenda. Brian drap Gabby í lok mánaðarins. Það hefur væntanlega verið miklu þægilegra að tala við hann svona rólegan og yfirvegaðan.


miðvikudagur, júlí 17, 2024

Heilaga vandlætingin

 Fyrir nokkrum árum síðan setti ég fyrirspurn inn á Turn-it-in grúppu á Facebook. Turn-it-in er forrit sem við kennarar notum til að sjá hversu mikið nemendur nota af vefnum eða verkefnum annarra nemenda í sínum verkefnum. Þetta var fyrir tíð opinnar gervigreindar. Fyrirspurnin snerist um hvort ég gæti stillt forritið þannig að það tæki ekki við verkefnum sem færu yfir 30% í líkindum (sem sagt að meira en 30% kæmu frá öðrum en nemandanum sjálfum). Þetta var í rauninni já eða nei spurning með rökstuðningi. Já, það er hægt og er gert svona... Nei, það er ekki hægt og ég veit það af því að...

Fljótlega fékk ég "svar" frá manni. Hann hafði enga hugmynd um hvort þetta væri hægt, hins vegar vildi hann fá að vita af hverju ég vildi geta gert þetta. Honum fannst líka 30% frekar lítið svigrúm. Allt í lagi, honum má vissulega finnast það, ég var bara ekki að biðja um hans skoðun á þessu. Þetta var 100% tæknileg spurning ekki heimspekileg. Ég man ekki hvort ég svaraði þessu en ég man að þetta fór í taugarnar á mér. Hélt maðurinn virkilega að mér hefði allt í einu dottið þetta í hug bara si sona? Ég hafði að sjálfsögðu velt þessu fyrir mér og það var að sjálfsögðu ástæða fyrir því að ég vildi geta gert þetta.


Nýverið var ég að reyna að fá son minn til að hlaða rafmagnshlaupahjólið sitt. Þá fór ég að hugsa hvernig boðhátturinn af sögninni að hlaða væri. Mér fannst líklegast að hann væri -hladdu- en fannst það eitthvað skrítið. Á Facebook er skemmtileg grúppa sem heitir Málspjallið og hægt að fá svör við íslenskutengdum spurningum. Ég set inn spurningu með, að ég hélt, gamansömum hætti. Ég þyrfti sem sagt að skipa stráknum að hlaða hjólið og vantaði boðháttinn. Ég fékk mörg svör, flest gamansöm og mörg þar sem fólk velti fyrir sér spurningunni af alvöru. Niðurstaðan er sú að að -hladdu- er rétt mynd. Eitt svarið var á þá leið að líklega væri boðhátturinn svona eða hinsegin en svo bætti viðkomandi við: "...en ég tala aldrei við fólk í boðhætti." Ókey... gott hjá þér...🙄


Þetta er mjög algengt á samfélagsmiðlum (skal viðurkennt að ég nota aðallega Facebook). Fólk er að spyrja um eitthvað eða velta einhverju upp og fyrr en varir er fullkomna og heilaga fólkið mætt: "Ég myndi sko aldrei..." 
Það er farið að gerast æ oftar núna á mínum efri árum að mér dettur í hug að svara en hætti svo við. Ég les aðrar athugasemdir og læka kannski þá sem ég er sammála. Og stundum skrolla ég bara áfram uppfull af sjálfumgleði yfir því hvað ég er þroskuð😉





föstudagur, júlí 12, 2024

Heimsókn í Reykjavíkurhrepp

Nýverið fórum við yngri sonurinn til Reykjavíkur þar sem hann fór á námskeið. Ég er að undirbúa hann fyrir forsetaframboð, ég ætla mér að verða skyld forseta! Námskeiðið var í Ármúlanum þannig að við fengum að gista hjá ættingjum nálægt Laugardalnum. Þegar allt þetta var skipulagt þá stóð ég í þeirri meiningu að bakverkurinn yrði á undanhaldi á þessum tímapunkti og við mæðginin gætum bara gengið þennan spöl. Svo fór nú ekki, bakverkurinn versnaði heldur og ég var nánast ógöngufær. Þar sem við voru bíllaus í borginni þá voru góð ráð dýr.  Ég ýki aðeins, við eigum góða að og okkur var oft skutlað.

 

Samgöngur.

Engu að síður þá var fólk í vinnu svo stundum þurftum við að redda okkur sjálf. Nú finnst mér nákvæmlega ekkert að því að nota strætó svo ég kveikti á Klappinu og lagði af stað. Þegar ég var í Reykjavík þá kostaði eitt far fyrir fullorðinn 630 kr. og ungmenni 315 kr. Ég sé að það hefur hækkað síðan upp í 650 kr. fyrir fullorðna og 325 kr. fyrir ungmenni, fannst mér nú nóg um samt. Miðinn gildir í rúman klukkutíma svo það er hægt að komast ansi langt og skipta um vagn. Það breytir því ekki að mér finnst verðið hátt. Auðvitað er hægt að kaupa mánaðarkort og árskort en það þjónaði litlum tilgangi fyrir vikudvöl.

Þótt ég sé þokkalega tæknilæs þá er ég samt komin á sextugsaldur og ég átti stundum erfitt með að skilja (kl)appið. Við ætluðum í eitt skipti í Kringluna og skv. appinu áttum við að skipta um vagn á Skeggjagötu. Ég veit alveg sirka hvar Skeggjagata er, hins vegar kom aldrei upp á skjánum stoppistöðin Skeggjagata sem varð til þess að við fórum fram hjá. Við enduðum á endastöðinni þar sem okkur var skipað út. Þegar ég spurði vagnstjórann hvar við gætum náð í vagn í Kringluna þá hafði hann enga hugmynd um það og nánast skipaði okkur út. Ég man þá tíð þegar vagnstjórar í Reykjavík þekktu leiðarkerfið eins og handarbakið á sér. Því er ekki að heilsa lengur greinilega. O tempora, o mores!

Við komumst nú samt í Kringluna. Þegar við ætluðum heim þá vildi drengurinn endilega prófa Hopp hjól svo mamman lét sig hafa það að fara á eitt slíkt. Þá komst ég að því að lengri ferðir eru dýrari á hopp hjólum en strætó. Styttri ferðir eru ódýrari. Orðin klár á apparatið þá notaði ég Hopp hjólin stundum eftir þetta. Eins og áður sagði þá eru styttri ferðir ódýrari og þetta er nokkuð þægilegur ferðamáti. Fyrir utan holurnar á gangstéttum og vegum. Það þarf að fara varlega.

Nú er það augljóst að Reykjavík er að reyna að gera einkabílnum örðugt fyrir. Endalausar þrengingar á götum og lítið um stæði. Það er allt í lagi ef það kemur eitthvað í staðinn. Því er ekki að heilsa. Strætó gengur með löngu millibili og er frekar dýr. Það þarf alltaf að ganga einhvern spotta. Mín persónulega skoðun; fjölga ferðum og lækka verðið, jafnvel hafa ókeypis.

 

Unglingarnir.

Eitt kvöldið fórum við drengurinn á leikvöllinn við Langholtsskóla. Það var fallegt veður og talsvert mikið af unglingum og börnum. Núna er ég komin á þann aldur að ég er orðin hrædd við unglinga svo ég var nú kannski ekkert yfir mig hrifin. En þarna söfnuðust þeir saman, sumir á vespum  og sumir veipandi Einhverjir piltar fundu svo leikfangabyssu sem einhver hafði skilið eftir/gleymt/týnt og dunduðu sér í talsverðan tíma til að slátra leikfangabyssunni. Þetta var eitthvað rafmagnsvætt og þeir hættu ekki fyrr en mekkanóið var komið í tætlur og og batteríin út og suður. Ég sagði auðvitað ekki neitt enda hrædd við unglinga en ég hneykslaðist óskaplega í hljóði.

Ég laumaðist líka til að taka mynd.


Seinna keyrðum við systir mín fram hjá Unglingavinnunni þar sem mökkur af unglingum í gulum vestum potuðu í beð. Seinna um kvöldið keyrðum við aftur fram hjá beðinu og ég gat ekki séð að arfinn hefði eitthvað minnkað. Systur minni finnst þetta sætt,  alveg eins og Hildi Eir.



Ég er ekki alveg þar…

 

Heimsending.

Þar sem ég er þarna ein heima einn daginn þá ákveð ég að prófa heimsendingu úr apóteki. Ég er ánægð með þetta; ég get sent inn lyfjaendurnýjunarbeiðni í Heilsuveru, svo get ég farið í Lyfjuappið og valið það sem mig vantar. Þegar ég er heima á Húsavík þá get ég sótt það í apótekið sjálft en þarna í Reykjavíkurhreppi er hægt að fá sent heim líka! Þvílíku dásemdar þægindin. Reyndar tímasetti ég þetta ekki rétt og missti því af sendlinum en samt, þetta er hægt😊

 

Bíó.

Eitt kvöldið ákváðum við forsetaefnið að skella okkur í bíó og sjá Inside Out 2. Höfum það í huga að þetta er teiknimynd en vissulega fórum við að kvöldi til og á sýningu með ensku tali. Nú það er við manninn mælt að þarna mætir slæðingur af unglingum. Um miðja mynd tekur stúlkan sem situr skáhalt fyrir framan mig upp símann sinn!  Hann lýsist auðvitað upp og truflar mig í bíó, ég borgaði mig inn! Og hvað er stúlkan að skoða? Neyðarskilaboð frá móður sinni? Nei. Hún er að skoða myndir af annarri stúlku. Og af því að síminn blastaði þarna upp nánast fyrir framan mig þá sá ég að þetta var svona upptillimynd með duckface svipnum. Ókey, ég get sagt ýmislegt um stöðu ungra stúlkna í heiminum, hún er ekki góð, og þær ómanneskjulegu kröfur sem til þeirra eru gerðar en, og þetta er mjög meiningarfullt en, það má alveg bíða með að skoða og læka þessar myndir sem svarar til einnar bíómyndar. 

Það er erfitt að vera unglingur, ég veit það.




fimmtudagur, júní 06, 2024

Nokkrar færslur um framboð.

Ég birti hér nokkrar færslur af Facebook, lítillega uppfærðar.


I. Framboðið sjálft.

Af því að fólk hefur verið að lýsa undrun sinni á þeirri rosalegu frekju og tilætlunarsemi Katrínar Jakobsdóttur að ætla sér að fara beint úr stól forsætisráðherra í forsetastólinn þá finn ég mig til knúna að leggja orð í belg.

Katrín talaði um það opinberlega að hún hafi verið búin að ákveða að hætta í stjórnmálum fyrir næsta kjörtímabil. Kannski talaði hún ekki um það opinberlega fyrr en í forsetaframboðinu en og nú ætla ég bara að segja það beint því það mun koma fram, við erum frænkur og hún var búin að tala um þetta við sína nánustu. Þannig að nei, ég er ekki hlutlaus. Ég veit alveg nákvæmlega hvaðan Katrín kemur.

Katrín sagði líka opinberlega að hún hefði hvatt Guðna Th. til að sitja eitt kjörtímabil til. Það hefði nefnilega verið fullkomin tímasetning. Katrín hefði hætt fyrir næstu þingkosningar sem eru 2025. Þá hefði hún haft þrjú ár til hvíldar og stjórnmálaöldurnar hefði lægt og hún hefði getað boðið sig fram til forseta 2028, 52 ára gömul. Þetta hefði verið fullkomið og með hreinum ólíkindum að Katrín hin alvalda eða skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins og við í „sóða-„ og „dauðasveitunum“ gátum ekki þvingað Guðna Th. til að sitja lengur.

En Guðni fékk bara alveg að ráða ráðum sínum sjálfur og ákvað að hætta. Hvað átti Katrín að gera í þeirri stöðu? Og ég ætla ekki að taka undir karlrembulegar fullyrðingar um valdasýki. Né heldur að forsætisráðherra megi ekki bjóða sig fram. Allar fullyrðingar um slíkt eru rangar eins og þjóðhetjan sjálf Ólafur Ragnar Grímsson kom inn á í kosningasjónvarpinu.

Sumir segja að Katrín hefði átt að bíða. Setjum þá sviðsmynd upp: Halla Tómasdóttir hefði verið kosin. Halla er 56 ára á þessu ári, hún getur vel setið næstu 12 ár, jafnvel lengur. Átti Katrín að bíða í 12, 16 eða 20 ár? Eftir 20 ár er Katrín orðin 68 ára. Ef Katrín hefði ekki verið í framboði í þetta skipti og fólk ekki ,,neyðst" til að kjósa taktískt þá hefði Halla Hrund getað unnið. Halla Hrund er 43 ára. Auðveld 20 ár þar.

Þá hefur verið gagnrýnt að hún hafi ekki sagt strax af sér eftir ávarp Guðna Th. og hafið forsetaframboðið. Tilkynning Guðna kom öllum á óvart og þá átti Katrín eftir að hugsa málið og ræða það við fjölskylduna sína. Þá var lokafrestur til að bjóða sig fram klukkan 12:00 þann 26. apríl. Katrín var búin að tilkynna framboð sitt vel innan þess ramma.

Katrín hefði getað boðið sig fram gegn sitjandi forseta eftir 4 ár. Er það samt? Hvernig hefði það litið út? Það er hefð fyrir því að sitjandi forseti sitji eins lengi og hann vill. Ástþór hefur að vísu neitað að samþykkja þá hefð en sitjandi forseta hefur aldrei verið skákað.

Mér finnst það alveg augljóst að fyrst Katrín vildi láta á þetta reyna þá var tíminn núna. Persónulega hefði ég viljað hafa hana áfram í stjórnmálunum en ég virði það að hún sé orðin þreytt.

 

II. Orðræðan

(Vinsamlegast athugið! Í þessari færslu er beitt kaldhæðni. Fyrir þau sem ekki vita hvað það er má sjá útskýringu hér.)

Eitt af því sem gekk linnulítið um netheima og gerir enn er sú fullyrðing að Katrín Jakobsdóttir hefði látið „gabba sig“ til að gefa eftir forsætisráðherrastólinn og fara í framboð til forseta. Af því að henni hefði verið „lofaður“ forsetastóllinn.

Ah, gamla, góða kvenfyrirlitningin aftur og enn.


Svona orðræða hefur linnulítið verið í gangi frá því að Katrín kom fram á sjónarsviðið. Iðulega kölluð „Kata litla“ sem er að sjálfsögðu til þess ætlað að gera lítið úr henni. Fyrst í stað var talað um að Steingrímur J. stjórnaði henni á bak við tjöldin og nú í seinni tíð að Bjarni Ben stjórnaði.



Af því að auðvitað getur kona ekki stjórnað sér sjálf, hvað þá öðrum. (Fyrir utan þegar hún er alvalda og stjórnar t.d. allri fjölmiðlaumræðu.)

Katrín hefur verið í stjórnmálum í meira en tuttugu ár. Hún hefur setið á Alþingi í sautján ár, var menntamálaráðherra i fjögur ár og forsætisráðherra sl. sjö ár. Varaformaður VG í tíu ár og formaður sl. ellefu ár. Auðvitað, auðvitað, veit þessi kona nákvæmlega ekkert um það hvernig lýðræðið virkar. Auðvitað gleypir hún það bara hrátt þegar henni er „lofaður“ forsetastóllinn af því auðvitað ber hún ekkert skynbragð á það að fyrst þurfi að fara fram kosningar. Á sl. tuttugu árum hafa nefnilega bara farið fram sex Alþingiskosningar þar sem VG hefur gengið misvel.

Og af því að hún er bara svona lítil kona þá getur Bjarni Ben auðvitað, auðvitað, bara gabbað hana og snúið í hringi alveg eins og honum hentar.

En stundum er líka talað um það hvað hún er vel menntuð, og tilheyrir þá einhverri neikvæðri elítu. Það náttúrulega ber Háskóla Íslands ekki gott vitni að svona rosalega einföld og vitlaus kona skuli fara svona auðveldlega í gegnum hann.

Nei, Katrín Jakobsdóttir tekur sínar ákvarðanir sjálf. Hún er bæði vel menntuð og vel gefin og veit að sjálfsögðu hvernig lýðræðið virkar á Íslandi.

PS.

Ég vona að ég sé ekki að „hijacka“ einhverjum orðum úr femínismanum í færslu um þessa voðalegu konu sem EKKERT, nákvæmlega EKKERT hefur gert fyrir konur á Íslandi. Eða þannig.



                                                Guði sé lof að þessi framúrskarandi femínisti vann!


III. Orð

Núna langar mig að tala um fyrirbærið -orð-.

Í forsetaþætti Heimildarinnar sagði Baldur Þórhallsson að haft hefði verið samband við „okkur“ úr „herbúðum Katrínar“ og hann beðinn um, jafnvel þrýst á hann að draga framboð sitt til baka.

Ég vil taka það strax fram að ég mun ekki væna Baldur um lygar. Hefði Katrín ekki boðið sig fram þá hefði ég verið í miklum vandræðum með atkvæðið mitt því mig langaði að fá konu í embættið en mig langaði líka mjög mikið að kjósa Baldur.

Það hefur aldrei komið skýrt fram hvaða mengi þetta „okkur“ spannar og því síður hugtakið „herbúðir Katrínar.“ Það er kannski vert að taka fram að Katrín varð undrandi á þessum fréttum og ekki var hún leikkonan í hópnum.

Baldur sagði sem sagt ekki í þættinum að það hefði verið talað við hann beint. Það var talað við „okkur.“ Það má því leiða að því líkum að einhver í „herbúðum Katrínar“ hafi talað við einhvern í „herbúðum“ hans.

Við tökum eftir að hann talar ekki um „kosningateymi“ né „kosningastjóra“. „Herbúðir“ er ansi vítt hugtak. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að „herbúðir“ spanni ekki bara kosningastjóra og kosningateymi heldur einnig dygga stuðningsmenn. Ég var yfirlýstur stuðningsmaður Katrínar og hef því þá væntanlega verið í hennar „herbúðum“. Mér er það bæði ljúft og skylt að taka það fram að ég hafði ekki samband við „herbúðir“ Baldurs og fór fram á að hann drægi framboð sitt til baka.

Reyndar sýndist mér að honum fyndist meira úr þessu gert en var ætlun hans. Mér gæti skjátlast.

Þegar fólk setur fram svona alvarlega fullyrðingu, mætti jafnvel segja ásökun, þá þarf að rökstyðja hana. Það verður að koma fram hver það var sem hafði samband og við hvern. Ef það kemur ekki fram þá eru þetta bara dylgjur.

Það var seinna gengið á Baldur og hann beðinn um nöfn og þá sagði hann að þetta hefði verið einkasamtal og ekki eðlilegt að nefna nöfn. Hann hefði verið að ræða þetta „almennt.“ Það má spyrja hversu eðlilegt það sé að varpa fram ásökunum byggðum á einkasamtölum opinberlega. Ég held nefnilega að Baldur hafi hlaupið á sig þarna og var svo að reyna að draga í land.

Það getur alveg verið að einhver úr „herbúðum Katrínar“ , ekki samt ég, hafi haft samband við einhvern í „herbúðum Baldurs“ og lagt það til að Baldur hætti við framboðið. Kannski var það í einkasamtali yfir kaffibolla eða jafnvel inni á bar. En þetta var enginn þungavigtaraðili í kosningateymi Katrínar.

Sú fullyrðing hefur verið sett fram að Baldur hafi sagt hinum frambjóðendunum hver þetta var. Sé það rétt og hafi þetta verið einhver þungavigtaraðili í „herbúðum Katrínar“ þá væri Steinunn Ólína búin að segja okkur hver þetta var.

Á meðan þetta er eitthvað almennt einkasamtal ónefndra aðila þá er þetta því miður bara dylgjur.




 

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...