laugardagur, janúar 31, 2009

Hitt og þetta

Mér finnst þetta mér undarlegur farsi sem er í gangi í stjórnarmynduninni. Framsóknarflokkurinn lofaði stuðningi. Voru skilyrðin sett fram með loforðinu? Ekki sá ég það í fréttum. Það er augljóst að kosningabarátta er komin í gang og hún skiptir meira máli en stjórnun landsins. Mér finnst allir flokkar vera sekir um þetta. Minn líka.

Það er þorrablót í kvöld og litli kútur er að fara í pössun í fyrsta skipti. Það er ljóst að mamman verður ekki langt fram á nótt að djamma.

Litla fatlafólið virðist ekki ætla að vinna sér það til lífs að læra á kassann.

Farinn að færa sig upp á skaftið.

föstudagur, janúar 30, 2009

Skilyrðin

Eru Sjálfstæðismenn búnir að ná í Sigmund?

Framhaldssagan

Eftir að hafa ausið úr skálum pirringsins í gær þá dró ég djúpt andann og sagði við sjálfa mig: ,,Ásta, þú ákvaðst það sjálf að taka kettlinginn með þér heim. Þú hefðir getað látið svæfa hann á þriðjudaginn þegar þú varst með þau mæðgin hjá dýralækninum. Þú vissir að hann kynni hvorki á kassann né að þrífa sig. Þú ákvaðst að reyna að kenna honum þetta. Þú veist að þú ert með ungabarn á heimilinu og að þú ert með ofnæmi. Samt tókstu þessa ákvörðun. " Eftir þetta hleypti ég kettlingnum inn í íbúðina og klappaði honum heilmikið.

Litla fatlafólið

fimmtudagur, janúar 29, 2009

Kvart og kvein

Ókey. Staðreynd málsins er sú að ég hélt ég væri búin að finna heimili fyrir kettlinginn sem gæti tekið hann í gjörgæslu. Ég er nefnilega með vægt kattaofnæmi. Ég get alveg umgengist ketti en það er ekki heppilegt að ég búi með þeim. Ef ég væri ekki með barn á brjósti þá myndi ég bara skófla í mig ofnæmislyfjum en... 
Ræfilstuskan skítur í sandinn í svefnherberginu. Við sofum þar öll þrjú svo mér er ekki vel við það. En ef hann venst á kassann svona þá verður bara að hafa það. Hins vegar hef ég hann grunaðan um að alla vega míga hist og her. Enda greip ég hann glóðavolgan inni í stofu. Þreif hann upp, rak trýnið ofan í pissið og fór með hann í kassann inni á baði. Þar drullaði hann. Já, aftur kominn með drullu. Hann kann ekki að þrífa sig svo eftir drullið ætlaði hann bara að stökkva af stað. Ég greip hann aftur og setti bossann ofan í vaskinn. Vinkona mín fékk sinn kött agnarsmáan og kenndi honum að þrífa sig svona. Þetta væri svo sem allt í lagi ef strákurinn hefði ekki verið á orginu allan tímann. Hann er farinn að vera eitthvað ergilegur núna upp á síðkastið, veit ekki hvort tennurnar séu eitthvað að mynda sig, hann slefar líka heil ósköp. Svo þegar ég er búin að stússa í kattaskítnum þarf ég að blanda ábótina fyrir strákinn. Ég skrúbba á mér hendurnar og veit að þær eru hreinar en það er samt eitthvað við þetta sem mér líkar ekki. Núna er ég búin að loka ræfilinn frammi í forstofu alveg eins og var gert á býlinu. Sem er ekki gott, hann fær ekkert TLC þannig.
Dýralæknirinn talaði um mánuð og það eru ekki komnir nema tveir dagar. Ég er ekki að gefast upp, ég er bara að fá útrás.

miðvikudagur, janúar 28, 2009

Allt er þá þrennt er

Í þriðja skipti skítur hann í hornið. Þangað er nú kominn kassi. Þótt í svefnherberginu sé.

Hey, come on!  Mér finnst þetta alveg jafn spennandi og fylgjast með hvenær stjórnin félli.

Hmmm....

Kötturinn kúkaði aftur, á sama stað í svefnherberginu. Ef hann kúkar alltaf á sama stað hvort sem er af hverju getur hann þá ekki kúkað í kassann?

Stevie Wonder

Í haust stakk Lilla af. Sem þýddi auðvitað að hún fékk ekki pilluna sína í einhvern tíma. Þegar hún skilaði sér í hús var haldið áfram að gefa henni pilluna þar til að ljóst var að hún var kettlingafull. Í nóvember eignast hún 3 kettlinga, eina læðu og tvo högna. 2-4 vikum seinna drepast læðan og annar högninn með stuttu millibili. Hinn högninn þráast við en fólki finnst hann eitthvað undarlegur. Núna er hann orðinn tveggja mánaða. Hann gengur á, hann kann ekki á kassann, hann étur á sig gat þegar hann kemst í mat og er með drullu. Það er alveg ljóst að hann sér illa en hvort hann sé eitthvað vangefinn líka er ekki vitað. Í gær fór ég með Lillu til dýralæknisins og lét taka hana úr sambandi. (Hún verður kettlingafull í gegnum sprautuna og stingur af þegar hún er á pillunni svo það var ekkert annað í stöðunni.) Ég tók skrítna kettlinginn með mér og lét skoða hann. Hann gekk aðeins um á skoðunarborðinu og húrraði út af. Svo reyndi dýralæknirinn að veifa einhverju fyrir framan hann en hann veitti því enga athygli. Svo annað hvort er hann hálfblindur eða staurblindur. Dýralæknirinn áttaði sig strax á því að ég er aumingjagóð með afbrigðum og vil ekki láta svæfa hann fyrr en í fulla hnefana svo núna er kettlingurinn kominn heim.  Í gær pissaði kettlingurinn í kassann, (húrra!) og rakti sig um alla íbúð. Hann er mjög kattalegur, hann er ekki með einhverja undarlega hegðun.  Í morgun heyrði ég í honum í svefnherberginu og hann pissaði þar og kúkaði:( Góðu fréttirnar eru að hann er ekki með niðurgang.
Dýralæknirinn sagði að við skildum gefa honum mánuð og sjá til. (Braveheart var ekkert yfir sig ánægður.) Svo nú er bara að sjá til hvernig þetta þróast.

mánudagur, janúar 26, 2009

Þar kom að því

sonur minn er farinn að ná í lyklaborðið þegar við erum í tölvunni.
Bloggfærslurnar eru enn allar mínar en eitthvað varð skjárinn undarlegur áðan.

(Er þetta ekki góð tilbreyting frá þjóðfélagsumræðunni:))


Hin svo kallaða ríkisstjórn

,,Hér verður að vera starfhæf ríkisstjórn sem nýtur trausts."

Ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs nýtur ekki trausts. Það þarf ekki að sitja á löngum fundum og ræða það út og suður.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...