Færslur

Sýnir færslur frá ágúst 7, 2005
Það saxast ágætlega á kassana. Flest allar bækurnar komnar þangað sem þær eiga að vera. Það er sko kerfi í gangi. Ég er búin að vera þokkalega dugleg í dag. Ja, eftir að ég komst að því að DVD spilarinn er bilaður. Tray error. Hann hefur verið kenjóttur undanfarið en ég hef það sterklega á tilfinningunni að það sé á líka dýrt að láta gera við hann og kaupa nýjan. Veit ekki alveg hvort það sé eitthvað sem ég á láta fara í taugarnar á mér eða ekki. Stóra systir hringdi í mig áðan. Ég var alveg óðamála að segja henni frá nýja örtrefjaklútnum sem ég keypti í Kaskó í gær. ,,Hann SOGAR alveg í sig rykið!" Ég veit bara ekki hvað er að koma yfir mig.
Þá er sveitavargurinn búinn að bregða sér í kaupstaðarferð. Þar sem hvorki Bónus né Hagkaup eru á Húsavík þá var ég búin að fá upplýsingar um að það væri hagkvæmast að kaupa inn í Kaskó. Svo ég fór auðvitað þangað. Þeir áttu reyndar ekki hnetunammið mitt svo ég keypti það í Úrval. Sá líka bókaverslun en ákvað að hemja mig með það. Á slatta af ólesnum fræðibókum. Keypti heilan helling af hreinlætisvöru. Ætla að láta laugardaga vera tiltektardaga svo ég detti nú ekki í sama farið og í Reykjavík. Ég skildi fjölskylduna eftir í djúpum skít. Ég hef samt fulla trú á að þeim finnist svakalega gaman að þrífa íbúðina fyrir mig og bonda rosa mikið og allt:)
Ég verð að lesa fyrir svefninn. Undanfarið hef ég verið að lesa fræðibækur. Fann ólesinn reyfara í bókasafninu áðan. Skelfing varð ég fegin.
Jeddúddamía, þar var ég gripin í bólinu. Ég vakna yfirleitt um hálftíuleytið hérna og finnst það ágætur tími en í dag vakna ég um hádegið við að það er bankað á dyrnar. Sprett fram í fullvissu þess að rafvirkinn sem átti að koma í gær eða dag sé mættur. Ríf upp hurðina með úfið hár og stýrur í augum og byrja að skófla taugrindinni frá hurðinni til að maðurinn komist inn. Nei, þá er þetta samkennari minn af lóðinni að bjóða mér til síðdegiskaffis. Gvöð, ég vona að hann hafi ekki séð DV og haldi að ég sé svo örvæntingarfull að ég reyni að draga alla karlmenn inn í hús!
Náði Stöð 2 inn í gær mér til mikillar gleði. Hún er að vísu bæðu skýjuð og snjóug en það er betra en ekkert, í bili. Komst m.a.s. að því að ég næ Bíórásinni þegar Sýn er ekki að senda út. Gat lagað kranann á þvottavélinni, ég hafði bara skrúfað eitthvað illa á í fyrra skiptið. Varð ægilega hamingjusöm og plöggaði rafmagninu í samband og byrjaði að þvo. Gleymdi þarna tiny little thing en baðherbergisgólfið er skínandi hreint fyrir vikið. Mikið er það æðislegt að hafa þvottavélina inni í íbúðinni hjá sér. Núna verð ég alltaf í hreinum fötum! Eftir skúringuna setti ég afrennslisrörið á réttan stað en það eitt og sér dugar ekki til. Maður þarf að fóðra meðfram og eitthvað vesen. Er því búin að vera heima við og fylgjast með lekamálum. Fóðra upp á nýtt eftir hverja vél, ég er ekki að finna neina brilljant lausn á þessu. Hins vegar kom húsvörðurinn í heimsókn fyrr í dag og kom ofn og eldavél í gang. Það var nú ágætt, þá þarf ég ekki að hita pizzuna á útigrillinu aftur.
Fæðingarorlof feðra er bráðnauðsynlegt jafnréttismál. Sérstaklega fyrir konur því þær hafa síður verið ráðnar í stöður vegna mögulegra barneigna og svo hafa þær verið fældar úr störfum sínum þegar börnin eru á leiðinni. Þetta er líka bráðnauðsynlegt fyrir börnin því lengi vel var hugarfarið það að mæður ættu börnin ein og feður sinntu þeim lítið, jafnvel hreint ekki neitt. Því miður þá er enn fjöldi barna sem hefur lítið sem ekkert af feðrum sínum að segja. En fyrst og fremst er þetta nauðsynlegt fyrir feðurna sjálfa að fá að njóta þess að vera feður og tengjast börnum sínum. Fyrir nokkru kom þó í ljós að ákveðinn galli var á þessu þegar afar tekjuhár maður fór í fæðingarorlof og nánast hreinsaði út sjóðinn. Það er ömurlegt til þess að vita að nokkrir menn geti eyðilagt þetta þarfa fyrirkomulag vegna fáránlega hárra launa sinna. Það er gott að hafa góðar tekjur en mánarlaun sem telja í nokkrum milljónum eru út í hött. Ég hreinlega skil ekki hvað fólk gerir við svona mikið af peningum.
Það er búið að vera þvílíkt heitt í dag og nú er komin hellidemba. Bíð þá með könnunargöngutúrinn. Eldavélinni þóknast ekki að hitna, kraninn á þvottavélinni lekur, Stöð 2 kemur ekki inn og húsvörðurinn er í fríi. Svo ég hef um tvennt að velja, taka upp úr kössum eða liggja á netinu. Wanna take a wild guess? Hitti fólk í dag og fékk svör við ýmsu. Það var ágætt, var farið að líða dálítið Ásta er ein í heiminum. Það voru allir á ferð og flugi nefnilega en nú er vinna að hefjast í skólanum. Lovely, lovely.
Almáttugur. Rétt búin að vera hér í tvo daga og strax orðin alræmd í Aðaldalnum. Kann DV reyndar afskaplega litlar þakkir að styggja fyrir mér bráðina! Vona bara að blaðið berist ekki hingað á landsbyggðina.
Mynd
I'm on line! I'm on line! Og ekki jafn erfitt eins og ýmislegt annað. Innhringisambandið er að vísu skelfilega hæggengt en hva... Flutti í Aðaldalinn um helgina. Tók litlu systur með til að hjálpa. Þegar við vorum að vesenast í kössunum þá heyrðum við muu og litum út um gluggann. Þetta er útsýnið úr stofunni hjá mér. Lífið er gott. Náðum ekki að tengja sjónvarpið því Aðaldælingar hafa kerlingu í veggnum en ekki karl svo við gátum ekkert horft á sjónvarp um helgina. Fór svo áðan og keypti T-tengi á Akureyri um leið og ég skutlaði litlu systur í flugið heim. Keypti vitlaust tengi! Stundum er maður bara vitlaus. Svo ég rúllaði á Húsavík og keypti tveggja karla snúru þar. Sætur strákur sem afgreiddi mig með þetta og útbjó snúruna:) Næ Ríkissjónvarpinu inn en ekki Stöð 2. Já ég gerðist áskrifandi að Stöð 2 í tilefni flutninganna. Fúlt að borga fyrir áskrift að einhverju sem maður nær ekki. Best að hringja í húsvörðinn og röfla.