sunnudagur, júní 22, 2014

Rauðhærði bóndinn

Fyrir um áratug átti ég íbúð og kött í Reykjavík og var í skemmtilegri vinnu. Einn morguninn vaknaði ég sem oftar, settist upp og horfði ofan á tærnar á mér. Þá laust því ofan í höfuðið á mér að svona gæti lífið verið næstu fjörtíu árin. Sama íbúðin, sama vinnan, sennilega nýir kettir. Ég komst að þeirri niðurstöðu að ég vildi meira út úr lífinu, pakkaði mínu hafurtaski og hélt þvert yfir landið.

Á árshátíð Hreims í Ýdölum hitti ég rauðhærðan bónda sem ég bauð upp í dans. Höfum við dansað saman síðan. Þetta voru ekki flugeldar og læti. Við vorum ekki Burton og Taylor. Við vorum tveir vængbrotnir fuglar sem gátu flögrað saman.

Við höfum gengið í gegnum sorg og við eigum svo sannarlega gleði. Og ég finn eftir því sem tíminn líður hvað undirstaða lífs míns hefur styrkst. Hann styður mig í stríðinu. Hann hlustar á þusið yfir óréttlæti heimsins. Lætur sig hafa femíníska fyrirlestra um, ja, flestallt. Kúldrast með mér til fóta þegar strákarnir okkar leggja undir sig rúmið. Svo hlæjum við að öllu saman.
Kletturinn í hafinu. Stóra ástin í lífi mínu. Rauðhærði bóndinn minn.


Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...