föstudagur, ágúst 28, 2015

Að meta hæfi

Það væri að bera í bakkafullan lækinn að rifja upp áratugalanga sameiningar(hörmunga)sögu
grunnskóla í núverandi Þingeyjarsveit. Við skulum samt, að gefnu tilefni, rifja upp andstyggilegar og vita þarflausar bréfasendingar sveitarstjóra Þingeyjarsveitar til fjögurra kennara Þingeyjarskóla í vor.
Það lá ljóst fyrir að segja þyrfti upp kennurum (ekki skólastjóra) vegna fyrirhugaðs flutnings grunnskóladeilda Þingeyjarskóla á eina starfsstöð. Fjórir einstaklingar voru valdir út og fengu áðurnefnd bréf. Skv. 641.is eru bréfin vægast sagt undarleg:
Í bréfunum eru settar fram dylgjur um hvers vegna viðkomandi kennarar séu ekki nógu góðir kennarar til að gegna áfram störfum við Þingeyjarskóla á komandi skólaári. Bréfin eru í raun óformleg uppsagnarbréf, en kennurunum er þó gefin kostur á því að andmæla innihaldinu.
Tilgangur þessara bréfasendingar er óljós enda óþarfi í uppsagnaferli að senda svona bréf. 
Að vísu tókst einum aðila að andmæla efni bréfsins og hélt vinnu. Skelfing hlýtur starfsgleðin þó að vera takmörkuð eftir svona trakteringar. Finnst mér þessi aðferðafræði til háborinnar skammar svo ég segi það hreint út. Þá hef ég fyllstu ástæðu til að ætla, án þess þó að fullyrða neitt þar um, að viðkomandi kennarar hafi fengið starfslokasamninga og þá ágæta einmitt vegna þessara ófaglegu og klúðurslegu vinnubragða. Væri það bæði rétt og sjálfsagt. Mér sem útsvarsgreiðanda finnst þó að sameiginlega sjóði okkar mætti nýta til þarfari verka en að þrífa upp mistök kjörinna sem handvalinna fulltrúa sveitarfélagsins.

En svo ég snúi mér nú að gefna tilefninu.
Í gær birtist á visir.is viðtal við Corneliu Thorsteinsson en hún er ein af kennurunum* sem var sagt upp í vor. Viðtalið er tekið vegna umræðu um byrjendalæsi en það sem stakk mig var þetta:
...þegar skipulagsbreytingar voru gerðar á skólanum í vor var gerður starfslokasamningur við Corneliu.
„Ástæðan sem mér var gefin er að ég hafi verið minna hæf en aðrir. En einnig að ég væri erfið í samskiptum og samstarfi.
(Feitletrun mín.)
Í vor þegar þessi ósköp gengu á var talað um dylgjur, jú, ég áttaði mig á því. En í bréfinu sem sent var segir:
Fram hefur farið samanburður á hæfi allra starfsmanna skólans. Eftir yfirferð gagna og þeirra upplýsinga sem fyrir liggja, bendir vinna sem farið hefur fram á vegum sveitarstjórnar vegna skipulagsbreytinga til þess að aðrir starfsmenn standi þér framar þegar kemur að því að ákveða hverjir muni áfram gegna störfum við Þingeyjarskóla.
Ég veit ekki hreinlega hvað ég hélt en sennilega vildi ég ekki trúa því sem ætti þó að blasa við. En eftir að ég las þetta viðtal þá hlýt ég að spyrja:

Hvaðan koma þessar upplýsingar? Hver segir að konan sé erfið í samskiptum og samstarfi? Hverjir  gætu mögulega haft þessa skoðun og komið henni á framfæri aðrir en samstarfsfólk konunnar?
Fólk sem er að keppa við hana um vinnuna!

Við erum öll mannleg, við vitum öll hvaða þýðingu þetta hefur. Ég álasa ekki fólki fyrir að reyna að halda lífsviðurværi sínu. En ég álasa svo sannarlega því ,,fagfólki" sem batt svona um hnúta. Það hlýtur hver heilvita maður að sjá að svona vinnubrögð geta ekki gengið enda vona ég svo sannarlega að mér skjátlist. Í guðs bænum segið að mér skjátlist!

En það hlýtur að vekja furðu að þau fyrstu fjögur sem voru valin koma öll úr Litlulaugadeild. Okkur finnst öllum betra að vinna með fólki sem við erum vön að vinna með og það voru fleiri starfandi í Hafralækjardeild. Einn kennari bjargaði sér fyrir horn eins og áður sagði og þá lenti kennari úr Hafralækjardeild í niðurskurðinum. En aðeins eftir, takið eftir, að um þessa tilhögun var efast á opinberum vettvangi og dregið í efa að hún stæðist lög um meðalhófsreglu.
Þá verður líka að teljast undarlegt að einstaklingar sem yfirgáfu Hafralækjardeild í vor, hvort sem það var sjálfviljugt eða óviljugt, eru komnir aftur til starfa í óauglýstar stöður.
Einhverjum verr innréttuðum en mér gæti dottið í hug orðið "slagsíða." En ekki mér. Ég trúi á tilviljanir.

Megi vináttan blómstra.

*Þeim hjónum var sagt upp. Heimilið var sem sagt svipt báðum fyrirvinnum sínum. Stay classy, Þingeyjarsveit.

mánudagur, ágúst 24, 2015

Ónýt sjálfsmynd þjóðar



Við höfum öll heyrt þessa sögu: Nokkrir smákóngar í Noregi undu ekki yfirgangi Haraldar hárfagra og fóru til Íslands. Hér settust þeir að til að njóta frelsis og sjálfstæðis. Synir þessara frelsishetja urðu miklir garpar, svo miklir að við erum enn að lesa af þeim sögurnar í Íslendingasögum. Slíkur og þvílíkur er uppruni íslensku þjóðarinnar. Sei, sei, já.

Þessi útgáfa hentaði Íslendingum afskaplega vel á nítjándu öld og öndveðri tuttugustu á meðan barist var fyrir sjálfstæðinu. Niðurlútir og langsveltir nýlendubúarnir þurftu svona tröllasögur til að ljúga í sig þróttinn. Ljúga segi ég því auðvitað stenst þetta enga skoðun.
Fyrir það fyrsta þá voru það engir smákóngar sem komu til Íslands, það voru yngri bræður sem fengu ekkert land. Við getum alveg gefið okkur að þeir hafi verið höfðingjasynir en ég er nokkuð viss um að þeir hafi ekki fjölmennt á skipin og skipt á milli sín verkunum. Nei, ég er nokkuð viss um að það hafi verið sirka einn höfðingjasonur á hverju skipi og fullt af vinnumönnum, þrælum jafnvel. Bergþórshvoll var fullur af fólki. Það var ekki bara höfðinginn Njáll og synir hans (fyrir nú utan að hvorki Njáll né Gunnar voru höfðingjar heldur bara stórbændur.) Nei, húsið var fullt af vinnumönnum, ambáttum og þrælum.  

Þessu hefur verið svarað á þá leið að m.a.s. þrælarnir okkar hafi verið konungbornir sbr. Melkorka. Þið vitið, Melkorka sem Höskuldur Dala-Kollsson keypti á Írlandi og nauðgaði svo reglulega.
Já, talandi um það. Við erum svo ægilega stolt af víkingunum okkar, þessum sem gerðu strandhögg í öðrum löndum og drápu mann og annan. Við erum svo stolt af þeim að við töluðum um „útrásarvíkinga“ í brjálæðinu sem gekk yfir hér um árið, í hreinu heiðurs- og viðurkenningaskyni. Réttara hugtak yfir víkinga sem við ættum frekar að nota er þjófóttir morðingjar. Já, elskurnar mínir, þetta voru ómerkilegir þjófar. Svolítið fyndið hvað við erum svo hneyksluð og miður okkar yfir Tyrkjaráninu þegar hingað komu Alsírbúar og gerðu nákvæmlega það sama á Íslandi og æðislegu forfeðurnir okkar gerðu á öldum áður. Okkar finnst bara ekkert töff við þetta Tyrkjarán.

Þetta er sem sagt sjálfsmynd þjóðarinnar. Við erum wannabe höfðingjar, uppfull af þrælsótta og lúffum um leið og einhver frekjuhundur kemur á vettvang og þykist flagga frumburðarrétti. Við föllum að fótum þeirra eins og hundar og leyfum þeim að traðka á okkur á skítugum skónum af því, já, af því að við trúum því virkilega að einn daginn muni okkar tækifæri til skítseiðisháttar koma. Og við ætlum sko að nýta það. Við ætlum svo sannarlega að nýta það. Þess vegna getum við ekki sameinast gegn frekjuhundinum þótt við vitum að sameinuð getum við sigrað hann. Af því að ef við lokum á möguleika „höfðingjans“ þá getum við ekki komist í hlutverk höfðingjans sem er okkar erfðaréttur! Fyrir þau okkar sem erum ekki af réttu kyni eða réttri ætt þá mun þetta tækifæri aldrei koma. Enda eigum við ekki að vilja svona andstyggðar tækifæri. Við þurfum að átta okkur á að samtakamátturinn er sterkari en höfðinginn. Og við þurfum svo sannarlega að átta okkur á að hér eru engir kóngar og hafa aldrei verið. Við þurfum nýja sjálfsmynd sem þjóð. Og þá getum við kannski siðmenntast.


Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...