laugardagur, mars 26, 2016

Rasisma gefið gildi

Síðastliðinn fimmtudag mætti forsætisráðherra í löngu tímabært viðtal hjá fjölmiðli. Hann er forsætisráðherra íslenska ríkisins og íslenska ríkið á útvarpsstöð, RÚV, svo það hefði mátt vera eðlilegt að hann mætti þangað. Það gerði hann þó ekki. Hann og annað framsóknarfólk telur að RÚV sé sérstaklega í nöp við Framsóknarflokkinn þótt aðrir séu ekki sammála því. Látum það liggja á milli hluta. Á Íslandi er rekin önnur stór útvarpsstöð, Bylgjan. Forsætisráðherra var í viðtali við Fréttablaðið þennan sama dag þar sem farið var um hann mjúkum höndum. Þar sem sömu eigendur eru að Bylgjunni og Fréttablaðinu má ætla að um hann væri farið sömu silkihönskunum þar. En forsætisráðherra valdi að fara í viðtal við jaðarútsvarpsstöðina Sögu sem er þekkt fyrir harða hægristefnu og hefur lengi legið undir ámæli um rasísk viðhorf og hatursorðræðu.
Framsókn hefur lengi dorgað í "gruggugu vatni". Er skemmst að minnast kosningarbaráttu flokksins í Reykjavík í síðastliðnum kosningum sem og þjóðernissinnaðra áherslna á Landsfundi.
Forsætisráðherraembættið er (annað) okkar æðsta embætti og svo sannarlega það valdamesta. Þegar forsætisráðherra þjóðarinnar veitir fjölmiðli viðtal þá gefur hann þeim fjölmiðli ákveðið gildi. Þegar forsætisráðherra velur einn fjölmiðil til að veita viðtalið sem beðið hefur verið eftir þá gefur hann þeim fjölmiðli mikið gildi. 
Skilaboðin eru skýr.

miðvikudagur, mars 23, 2016

Hagsmunir og hæfi

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í Sigmundarmál nóg er rætt og ritað en það er samt tvennt sem ég vil koma inn á:

Í 3. grein II kafla stjórnsýslulaga Sérstakt hæfi segir:
 3. gr. Vanhæfisástæður.
Starfsmaður eða nefndarmaður er vanhæfur til meðferðar máls:
   1. Ef hann er aðili máls, fyrirsvarsmaður eða umboðsmaður aðila.
   2. Ef hann er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar.
   3. Ef hann tengist fyrirsvarsmanni eða umboðsmanni aðila með þeim hætti sem segir í 2. tölul.
   4. Á kærustigi hafi hann áður tekið þátt í meðferð málsins á lægra stjórnsýslustigi. Það sama á við um starfsmann sem fer með umsjónar- eða eftirlitsvald hafi hann áður haft afskipti af málinu hjá þeirri stofnun sem eftirlitið lýtur að.
   5. [Ef hann á sjálfur sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta, venslamenn hans skv. 2. tölul. eða sjálfseignarstofnun eða fyrirtæki í einkaeigu sem hann er í fyrirsvari fyrir. Sama á við ef næstu yfirmenn hans hjá hlutaðeigandi stjórnvaldi eiga sjálfir sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta. Verði undirmaður vanhæfur til meðferðar máls verða næstu yfirmenn hans aftur á móti ekki vanhæfir til meðferðar þess af þeirri ástæðu einni.]1)
   6. Ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.
Eigi er þó um vanhæfi að ræða ef þeir hagsmunir, sem málið snýst um, eru það smávægilegir, eðli málsins er með þeim hætti eða þáttur starfsmanns eða nefndarmanns í meðferð málsins er það lítilfjörlegur að ekki er talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á ákvörðun.

   1)L. 49/2002, 1. gr.

Ólafur Jóhannesson sem var nú eðal framsóknarmaður sagði í bók sinni Stjórnarfarsréttur I-II
sem gefin var út 1974:

Nú sýnir reynslan, að dómgreind stjórnvalds er varlega treystandi, þegar það sjálft eða nánir vandamenn þess eru við mál riðnir og eiga hagsmuna að gæta í sambandi við málsúrslit. Afstaða þess mótast þá oft – vitandi eða óafvitandi – af þessum persónulegum hagsmunum. Þegar þannig stendur á, er næsta lítil trygging fyrir réttum og hlutlægum ákvörðunum stjórnvalds. Réttaröryggi sýnist því best borgið, ef stjórnvald er almennt talið vanhæft til ákvörðunar í máli, þegar málsúrslit varða það sjálft eða nákomna vensla menn þess verulega.(Leturbreyting mín.)

Í öðru lagi þá hafa stjórnmálamenn þurft að líða fyrir gerðir maka sinna sbr. Þorgerður Katrín. Hún er hætt stjórnmálaafskiptum og þegar það var rétt svo ámálgað að hún færi í forsetaframboð þá var kúlulán eiginmannsins umsvifalaust dregið fram í dagsljósið. Forsetaframboðið náði ekki lengra.


Ber mér að gjalda maka míns?

Þá vil ég ítreka þá skoðun mína að fólk sem leggur ekki til það sem því ber í samfélagssjóði á ekki að höndla með þá. Hvort sem það eru alþingismenn eða sveitarstjórnarfólk.
Taki til sín sem eiga.

mánudagur, mars 21, 2016

Nokkur orð um femínisma


Í gær rakst ég á myndband sem heitir Girl destroys feminism in 3 minutes! Myndbandið er, undarlegt nokk, að finna á síðunni Only for Men. Fólk getur kynnt sér síðuna. Þá vekur það athygli mína að málflytjandi er kynnt sem "girl" en ekki einstaklingurinn  Lauren Southern. 

Lauren Southern þarf ekki að vera femínisti mín vegna. Mér finnst verra að hún skuli fara rangt með máli sínu til stuðings. Jenna Christian rekur það ágætlega í spistli sínum A Reply to Lauren Southern.

Það sem mig langar að koma inn á er sú furðurlega krafa að konur eigi að berjast fyrir réttindum allra annarra líka. Helst fyrst. 
Vinsamlegast hafið þann fyrirvara að ég er ekki talsmaður allra femínista heimsins. Nei, við erum ekki í einni allsherjar sellu sem sendir reglulega út tilskipanir.

Lauren Southern skilur ekkert í því að femínistar beiti sér ekki fyrir réttindum karla.
Ábyrgir feður skildu  ekkert í því á sínum tíma að femínistar skyldu ekki beita sér fyrir réttindum forsjárlausra feðra.
Einhverjir skildu ekkert í því að femínistar skyldu ekki mótmæla hvataferð vopnaframleiðenda.
Gúglið bara "Hvar eru femínistar núna?" Af nóg er að taka.

Orðið femínisti kemur af orðinu femin sem merkir kona.  Femínistar vilja vinna að jöfnum rétti kvenna gagnvart körlum í heiminum. Við erum að berjast fyrir hálfu mannkyninu.* Er það ekki nóg?
Nei, það er ekki nóg af því að konur eru skv. mýtunni umönnunaraðilar og eiga fyrst að hugsa um alla aðra og svo sig. Þess vegna er svo mikilvægt að femínistar taki tillit til þarfa allra annarra, sérstaklega karla, áður en hugað er að réttindum og þörfum kvenna. 
Ég er orðin alveg rosalega leið á þessu.
Er þessi krafa gerð til annarra hópa? Voru samtök LGBT fólks spurð að því hvort þau mótmæltu hvataferð vopnaframleiðenda? Af hverju ekki?
Eru ábyrgir feður að beita sér fyrir réttindum kvenna? Af hverju ekki?

Af því það er eðlilegt að allir aðrir hópar einbeiti sér að sínum réttindum. Réttindi kvenna hins vegar mega sitja á hakanum.




* Reyndar tel ég að aukin réttindi kvenna komi körlum mjög vel og minnki ósanngjarnar kyngerviskröfur sem eru svo sannarlega gerðar til þeirra líka.

sunnudagur, mars 20, 2016

Bubbi, ég elska þig.

Ég held það hafi verið árið 1982, það var alla vega sama ár og hið stórkostlega félag Læðupúki sléttunnar var stofnað í hitakompunni í Álfheimunum. Gummi kom með gamlan ferðaplötuspilara og nokkara plötur, m.a. A Hard Day's Night með Bítlunum. En það var platan Breyttir tímar með Egó sem heillaði mig. Sú plata kom frá Diddu, nú skáldkonu svo ég neimdroppi aðeins. Litli bróðir hennar var í félaginu og kom með plötur. Plágan með Bubba datt líka inn í hitakompuna. Ég er enn með þessar plötur því Didda gaf okkur þær. Ég vona það alla vega, annars hef ég stolið þeim.
Eftir þetta var ekki aftur snúið, ást mín á Bubba var hrein og tær. Fullkomlega platónsk. Ég hélt því staðfastlega fram árum saman að
það væru textarnir en eflaust hefur tónlistin og Bubbi sjálfur átt þar stóran hlut að máli líka.
Eftir þetta keypti ég allt sem Bubbi gaf út. Fannst allt frábært þótt það væri misfrábært. Sögur Bubba (og Dóra) af landinu ýtti undir landsbyggðarómantík sem hafði þær afleiðingar að nú er ég virðuleg bóndafrú. Sem er kannski nokkuð undarlegt þar sem Bubbi söng um sjávarþorp og verbúðalíf. En það er svona. Ég fór nú samt líka í fisk.
Bubbi náði að snerta einhvern streng í sálinni á mér alveg eins og þjóðinni allri. Hann sló taktinn með samtíðinni og hjartað í mér sló í takt. Hann söng um það sem var að gerast hverju sinni. Hann söng líka um depurðina sem rímaði fullkomlega við unglingaangistina mína. Ég fílaði verkalýðsbaráttuna og töffaraskapinn. Mér fannst það ferlega væmið þegar hann söng um að Það væri gott að elska en verst þótti mér þegar hann fór að mæra Geir Haarde og útrásarvíkinga. Það voru svik við málstaðinn. En ég hélt áfram að fylgjast með. Ég veit alveg hvað Bubbi er að gera. Ég fylgist að vísu ekki með honum á samfélagsmiðlum, ég vil ekki láta manninn Bubba eyðileggja fyrir mér listamanninn Bubba.
En ástæðan fyrir þessum skrifum er að þetta misseri kenni ég ljóð og ljóðaskilning. Ég útbý efnið að nokkru leyti og reyndin er sú að ég dett alltaf í Bubba. Krakkarnir sögðu að það væri allt í lagi, ég mætti alveg kenna Bubba, mér fyndist hann greinilega bestur. Það er rétt, mér finnst hann bestur.
Bubbi, ég elska þig.
 
 


Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...