laugardagur, nóvember 08, 2014

Látum helvítin neita því

Þessi frasi: „Let them deny it“ eða „Let the bastards deny it“ er kenndur bæði við Nixon og Johnson fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Merking frasanna, látum þá neita því eða látum helvítin neita því er sú að setja fram einhverja algjöra ósvinnu og láta andstæðinginn eyða tíma, orku og trúverðugleika í að neita því. Þá er líka búið að strá fræinu, þar sem er reykur þar er eldur.
Ég mundi eftir þessum frasa nýverið þegar ég las grein Ara Teitssonar Menntaþankar á 641.is. Ari fjallar þar um hin endalausu skólasameiningarmál sveitarfélagsins og setur fram þessa ótrúlega ósmekklegu fullyrðingu:

Á nýafstöðnum sveitarfundi í Ýdölum voru lagðar fram þrjár skýrslur varðandi skólamál sveitarfélagsins og þar komu fram ýmsar athygliverðar upplýsingar.(Skýrslurnar má finna á heimasíðu Þingeyjarsveitar).
Af skýrslu Haraldar Líndal má ætla að ekki sé gætt nægs aðhalds í rekstri Þingeyjarskóla og árlega megi spara þar mikla fjármuni án breytinga á staðsetningu skólastarfs. Ekki voru birtar sambærilegar tölur um rekstur Stórutjarnarskóla en þar til þær verða lagðar fram verður að gera ráð fyrir rekstur sé með svipuðum hætti þar. (Skástrikun mín.)

Það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að sama ónæga aðhaldið í fjármálum sé í gangi í Stórutjarnaskóla og í Þingeyjarskóla. Nákvæmlega ekki neitt. Það hlýtur að vera hægur vandi að sýna ársreikninga ef út í það er farið. (Og hér eru þeir.*)
Reykdælingum er hins vegar ákveðin vorkunn. Þeir sjá fram á að skólinn þeirra sé að fara. Einhverra hluta vegna hafa þeir sem standa í baráttunni tekið þann pól í hæðina að andskotast út í Stórutjarnaskóla til að verja sinn eigin.
Aðalsteinn Már segir í aðsendri grein í sama miðli:

Ég er mjög ósáttur við vinnubrögð í Þingeyjarsveit þegar kemur að skólamálum. Það á að skoða heildarmyndina í öllu sveitarfélaginu, horfa fram á veginn, hugsa stórt, og taka djarfar ákvarðanir. (Skáletrun mín.)

Mér er alveg sama hvort sameinaður Þingeyjarskóli sé á Litlulaugum eða Hafralæk, það klagar ekkert upp á mig. Ég er líka tiltölulega sannfærð um að allt skólahald Þingeyjarsveitar mun að lokum færast á einn stað. En hvað varðar notkun á Stórutjarnaskóla í varnarstríði Reykdælinga langar mig að benda á eftirfarandi:


  • Það er ekki starfsandavandi með tilheyrandi sálfræðikostnaði í Stórutjarnaskóla.

  • Húsnæði Stórutjarnaskóla er í toppstandi og hægt að senda alla nemendur Þingeyjarsveitar þangað strax eftir helgi án þess að kosta til þess krónu í viðhald eða endurbætur á húsnæðinu núna né í náinni framtíð.

Eru talsmenn Reykdælinga vissir um að þeir vilji halda þessum málflutningi til streitu?

*Stórutjarnaskóli er innan við 10% yfir meðaltali á meðan Þingeyjarskóli er slagar í um 60% yfir meðaltal. Það er himinn og haf á milli þarna.

mánudagur, nóvember 03, 2014

Stærsta barnið á heimilinu


Fyrir mörgum árum síðan heyrði ég móður mína ræða það við einhverja vinkonu sína að pabbi minn væri stærsta barnið á heimilinu. Ég hef væntanlega verið á forgelgjunni (pre-teen) því á þessum tímapunkti tók ég öllum hlutum bókstaflega. Eflaust hefur mamma mín verið að fíflast (ég alla vega vona það) en pabbi minn setti alveg ótrúlega niður þegar ég heyrði þetta. Ég sá hann ekki í réttu ljósi í talsverðan tíma.

 Ég hef heyrt þessa fullyrðingu síðan en blessunarlega sjaldnar og sjaldnar. Það er allt rangt við þessa fullyrðingu. En samt lýsir hún svo nákvæmlega tvískinnungnum sem við höfum búið við.
Því var þannig farið á mínu heimili að pabbi vann úti en mamma heima við. Pabbi fór frakkaklæddur í vinnuna með vindil og skjalatösku. Hann „skaffaði“ og sá um flest utan heimilis. Að þessi fullorðni, ábyrgðarfulli maður sem fór út í heiminn á hverjum degi væri krakki var eitthvað sem gekk ekki upp í höfðinu á mér.
Að heyra svo fleiri konur segja þetta um aðra menn var eiginlega alveg óþolandi.  Sérstaklega vegna þess að þær voru alltaf með þetta þolinmóða, skilningsríka píslarvættisbros á andlitinu. Þetta viðbjóðslega bros sem sagði hljóðlaust: „Boys will be boys.“ Argh!!!


Skilaboðin og skilningurinn á hlutverkum kynjanna var þessi:
Karlarnir ráða öllu og stjórna. Þeir bera ábyrgð á öllum hlutum og konum er ekki treyst til að koma að
Et tu, John Lennon.
stjórn heimsins, hvað þá fjármálum. En, innst inni eru karlar litlir strákar sem konur eiga að hugga og vera góðar við og vera fullorðni og þroskaði aðilinn í sambandinu. Bíddu, hvað!?!
Þvílíka, andskotans kjaftæðið. Og þetta töldu konur sér trú um alveg lon og don. Kannski var það eina leiðin til að þola misréttið, ég veit það ekki.  En hitt veit ég:
Pabbi minn var ekki stærsta barnið á heimilinu. Hann var fullorðinn og þroskaður maður. Alveg nákvæmlega eins og afi minn og maðurinn minn og reyndar flestallir karlmenn sem ég þekki. Auðvitað hef ég hitt óþroskaða karlmenn. Ég hef líka hitt óþroskaðar konur.
Þetta er óþolandi orðatiltæki og lítilsvirðandi gagnvart karlmönnum. Hættum endanlega að nota það.


                  Sýnishorn af þolinmóða, skilningsríka píslarvættis ógeðs brosinu á 0.28.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...