föstudagur, mars 09, 2012

Þegar samúðin tekur völdin


Þann 20. okt. 2011 lagði meirihluti sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar fram þá tillögu að sameina Litlulaugaskóla og Hafralækjarskóla. Fannst mörgum kominn tími til. Sumir hefðu viljað sjá enn frekari sameiningu, þ.e. að Stórutjarnarskóli væri með. Meirihlutinn vildi það ekki og verður hann að svara fyrir það. En sameining Litlulaugaskóla og Hafralækjarskóla væri þá alla vega fyrsta skrefið i vegferðinni.
En svo byrjaði humm og ha. Í bókuninni er talað um ,,tvær starfsstöðvar” þótt Fræðslunefnd hafi lagt til að rekstur skólanna yrði kostnaðarreiknaður ,,annaðhvort” að Laugum eða Hafralæk og gerði þ.a.l. ráð fyrir að nýi skólinn yrði rekinn á einum stað. Þetta útskýrði skilningsríki meirihlutinn með því að fólk yrði að fá svigrúm til að vega og meta aðstæður.  Sérstaklega nýi skólastjórinn sem auglýst yrði eftir. Hann yrði auðvitað að fá tíma til að kynna sér aðstæður.
Þá var myndaður starfshópur og meirihlutinn setti honum erindisbréf. Þar kom klárlega fram að engar breytingar ætti að gera á skólahaldi skólanna. Þeir ættu að vera reknir í óbreyttri mynd. Hver er þá tilgangurinn með þessari sameiningu? Jú, sko, það verður að fara hægt í allar svona breytingar, þetta verður að gerast í sátt og samlyndi við samfélagið og nemendurna og foreldrana og starfsfólkið samt aðallega. Réttindi starfsfólksins, maður, við viljum ekki segja neinum upp. Fram þjáðir menn í þúsund löndum. Auk þess þá auglýsum við eftir nýjum skólastjóra sem mun leiða þetta til lykta, hann verður að fá svigrúm manstu?
Svo líður og bíður og réttindi starfsfólks eru skoðuð ofan í kjölinn, það má ekki segja neinum upp, nema skólastjóranum auðvitað, sú staða verður auglýst, það er jú hann sem á að sinna hinni raunverulegu sameiningu.
Svo allt í einu, alveg óvænt, eins og þruma úr heiðskíru lofti komst samheldni meirihlutinn að því að það þyrfti ekki að segja neinum upp! Ó, þvílík gleði, þvílík ánægja! Þetta vissu að vísu allir sem vildu vita en hey, lítið er ungs manns gaman.
En núna komst  kærleiksríki meirihlutinn í klípu. Ef það þarf ekki að segja neinum upp og það er bara einn skólastjóri til staðar hvort sem er þá er svo ósanngjarnt að segja honum upp. Það er svo ljótt að leggja í einelti. Skólastjórinn getur auðvitað sótt um stöðuna og ef hann reynist hæfastur þá fær hann hana auðvitað en af hverju þá að fara í gegnum ferlið? Svo gætum við lent í þeim ósköpum að einhver hæfari sækti um sem við neyddumst til að ráða. Og ef sá er ekki þóknanlegur, hvað þá? Guð minn almáttugur, hann gæti tekið upp á því að sameina skólana! Nei, nei, nei. Við getum ekki tekið svoleiðis sénsa.
Nei, miskunnsömu samherjarnir grétu söltum tárum yfir óréttlæti heimsins. Svona er ekki hægt að fara með fólk. Auðvitað segjum við ekki upp skólastjóranum, almáttugur, nei. Við skulum öll vera góð við hvert annað.
Já, það er gott að vera góður og miskunnsamur. Og hafa samúð með fólki.
Eins og t.d.;
Drengnum sem er einn í árgangi. Núna getur hann farið í bekk með jafnöldrum sínum... Nei, annars hann getur það ekki, það á nefnilega að reka skólana í óbreyttri mynd. Oh, silly me.
Jæja, það er þá alla vega hægt að mynda lið í fótbolta og keppa í frímínútum. Æ, aftur, sami feillinn.
Útsvarsgreiðendum sveitarfélagsins því sameiningin skilar hagræðingu. Nei, alveg rétt, það á ekki að breyta neinu. Það á bara að vera einn skólastjóri og hann keyrir á milli á kostnað útsvarsgreiðenda.
Foreldrinu sem hefur lýst yfir áhyggjum sínum af þessu hálfkáki og leggur til að skólinn verði sameinaður á einn stað. Nei, ekkert hlustað á það.
Starfsfólkinu sem býr núna við minna starfsöryggi en áður og hægt er að halda í óvissu enn lengur. Svo þegar það verður byrjað, vor eftir vor, að plokka út einn og einn starfsmann þá mun miskunnsami meirihlutinn auðvitað beita sér gegn svoleiðis óréttlæti. Hefur að vísu ekki gert það hingað til. En nú hlýtur að hafa orðið vakning. Er það ekki? Ha?
Nei, samúðin liggur nefnilega ekki þarna. Hún liggur hjá æðsta stjórnandanum, þessum með hæstu launin. Stjórnanda sem er með tapaða stjórnsýslukæru á bakinu og ófrágengna skaðabótakröfu. Þar liggur samúðin.
Kristilegu kærleiksblómin spretta, í kringum hitt og þetta.

mánudagur, mars 05, 2012

Löngunarlausa kynlífið

Þetta er líka löngunarlaus færsla, mig langar í rauninni ekkert að ræða þetta.

Nýverið setti ég fram spurninguna; Af hverju nauðga þeir? Þar velti ég upp þeirri spurningu hvort verið gæti að ungar konur legðu stund á löngunarlaust kynlíf. Virðist mér á ýmsu að það sé því miður raunin.
Fyrir rúmum áratug gekk yfir kynlífstískubylgja, ættuð beint frá kláminu, endaþarmsmök. Auðvitað var þetta í öllu finnanlegu klámi og ekki bætti úr skák að svokallað fræðslurit um kynlíf beitti sér ákaflega fyrir málefninu.
Hvað fullorðnir samþykkir einstaklingar gera kemur mér ekki við. Ég er ekki að setjast í dómarasæti um kynhegðun fólks. Hins vegar er það bara ósköp einföld staðreynd að konur upp til hópa fíla þetta ekki. Það eru örugglega einhverjar sem fíla það og það er bara allt í lagi. En með örlítilli rannsókn á netinu kemur klárlega í ljós að oftast nær er þetta eitthvað sem konur gera ,,fyrir karlinn." 
En það eru ekki fullorðnu konurnar sem ég hef áhyggjur af heldur unglingsstúlkurnar. Á þessum tímapunkti, fyrir ca. 10 árum, fóru ungar konur að koma í hrönnum inn á Heilsugæslustöðvar með mjög svæsnar sýkingar þar sem ,,farið var á milli gata" og hreinlætis ekki gætt. Þá komu líka inn ýmsir svæsnir áverkar þar sem ekki var varlega að farið heldur.
Kvað svo rammt að þessu að landlæknir mætti ásamt ungri konu sem vann með unglingum í Kastljós til að ræða þennan ,,vanda". Já, þeim fannst þetta vera vandi.
Fyrir átta árum var 15 ára piltur dæmdur fyrir kynferðisbrot gagnvart 13 ára kærustu sinni. Því miður finn ég ekki linkinn á fréttina á DV en þar var vitnað í dagbók stúlkunnar. Í annað skiptið sem þáu höfðu samfarir vildi hann endilega fara aftan megin. Það er sláandi að stúlkan segir í dagbókinni að þetta hafi verið mjög sárt en; ...hún verði að venjast þessu helvíti."
Þarna erum við komin að kjarna málsins.
Kynlíf byggist á nautn. Það á að vera gott, alltaf. Hvernig má það vera að ungar stúlkur trúa því staðfastlega að kynlíf sé eitthvað annað? Hvernig stendur á því að ungar konur halda að kynlíf eigi að vera á forsendum karla?
Sem betur fer er þessi tískubylgja gengin yfir en það er önnur komin í staðinn. Girl-on-girl action. Það er mjög algengt að sjá stelpur vera að kyssast á djamm-myndum og frægust er væntanlega sú þar sem stúlkan sem kærði par fyrir nauðgun sást ,,láta vel að" kærustu nauðgarans.
Þetta er ekkert óskaplega flókið. Gagnkynhneigðar stelpur hafa alveg jafn mikinn áhuga á því að slefa upp í aðrar stelpur og gagnkynhneigðir strákar hafa á því að slefa upp í aðra stráka. Afskaplega lítinn sem sagt, eiginlega engan. Þannig virkar nefnilega kynhvöt, einstaklingur hefur áhuga á kynferðislegum athöfnum með einhverjum sem vekur kynferðislegan áhuga hans. Gagnkynhneigð kona hefur ekki áhuga á öðrum konum. Hún hefur alveg jafn mikinn áhuga og gagnkynhneigður karl hefur á öðrum körlum. Take a minute to think about that.
Af hverju gera stúlkur þetta þá? Af hverju taka þær þátt í athöfnum sem þær hafa ekki áhuga á?
Af því að þeim er sagt að þetta sé svo ,,sexy". Þetta er svo flott. Það er verið að brjóta tabú og það er svo ,,spennandi." Hverjum finnst þetta sexy og hverjum finnst þetta spennandi er hins vegar önnur spurning. Er það ekki bara klámiðnaðurinn? Ég er alls ekki viss um það að öllum strákum finnist þetta eitthvað sérstakt. Það er bara búið að telja þeim líka trú um einhverja vitleysu.
Unga fólkið okkar er komið í þá stöðu að strákarnir eiga að gera einhverjar kröfur sem þeir eru ekkert endilega sáttir við og stúlkurnar eiga að verða við þeim kröfum þótt þær kæri sig ekkert um það. Stúlkurnar eiga að vera svo ,,hot" og ,,til í allt" að þær verða við kröfum sem þær kæra sig ekkert um og stunda kynlíf sem þær langar ekki til að stunda.
Og hvorugt kynið kynnist almennilegu kynlífi.
Getur þetta verið hluti af nauðgunarmenningunni sem við stöndum frammi fyrir núna?

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...