laugardagur, mars 24, 2012

Að auglýsa stöður

Ég er þeirrar skoðunar að auglýsa eigi flestar (helst allar) stöður innan sveitarfélagsins. Mér er ljóst að margir eru ósammála mér í því og nota rök á við: ,,Það þarf að þekkja til samfélagsins." Ég vísa því á bug. Hvað þýðir þetta: Að þekkja til samfélagsins? Þýðir það ekki einfaldlega að þekkja valdahlutföllin? Að rugga ekki bátnum?  Viljum við búa í svoleiðis samfélagi?
-->Fólk flytur burt í stórum stíl því miður svo það er skiljanlegt í slíku samfélagi að vilja halda þeim sem eru. Þess vegna m.a. eru stöður iðulega ekki auglýstar. Þá eru líka notuð trikk eins og að búa fyrst  til hlutastarf sem þarf ekki að auglýsa og svo þegar ,,réttur” einstaklingur er kominn í starfið þá er það stækkað.  Þegar stöðurnar eru auglýstar þá eru kröfurnar klæðskerasniðnar að viðkomandi. Stundum vantar ekkert nema að umsækjandi eigi að heita þessu nafni. Samt kemur fyrir að utanaðkomandi sækir um og hefur kostina til að bera. Þá er honum samt hafnað, skaðabæturnar greinilega ásættanlegur fórnarkostnaður.
Auðvitað er þetta ekki algilt en gerist of oft. 
Það er ekki það að ég skilji ekki hugsunina á bak við þetta. Þessa þörf fyrir að vernda það sem þó er til staðar.  Það er hins vegar fullvissa mín að þegar til lengdar lætur þá verður þetta innanmein banabiti samfélagsins. 
Í fyrsta lagi þá erum við ekki að fá hæfasta fólkið í stöðurnar. (Vissulega kemur það fyrir að sá hæfasti eða mjög hæfur fær stöðuna í handvalinu en myndi viðkomandi ekki fá hana hvort eð væri?) 
Í öðru lagi þá sitja ekki allir sveitungarnir við þetta borð. Það eru bara ,,réttu” sveitungarnir sem njóta þessara vildarkjara. Þegar fólk horfir upp á það árum saman að sumir fái alltaf bestu bitana á meðan aðrir eru úti í kuldanum þá ríkir ekki mikil samstaða né ánægja í samfélaginu.
Stefán Jón Hafstein segir í grein sinni Rányrkjubú:
  Hér glímum við ekki bara við það að pólitískum venslamennum er hyglað – smátt og smátt læra hinir að ekkert þýðir að bjóða fram krafta sína. Við fáum ekki bara kerfi sem upphefur þá löku heldur rekur burt þá hæfu. Niðurstaðan er rökrétt: Öll pólitík verður persónupólitík. Ef til vill er höfuðgallinn við kenninguna um frjálshyggjuhrunið að gleyma þessu grundvallaratriði í íslenskri stjórnmálamenningu: Hún er óskiljanleg ef menn vita ekki hver er hvurs og hvurs er hvað.

 

þriðjudagur, mars 20, 2012

Til glöggvunar

Nýverið birti fréttavefurinn 641.is frétt um stofnfund Fundafélagsins. Á fundinum var rætt um skólasameininguna og fluttu starfandi skólastjórar erindi. 
Ég mætti ekki á þennan fund, vissi ekki að þetta væri umræðuefnið en skv. fréttinni fannst fundarmönnum ýmislegt óskýrt. Kemur það mér ekki á óvart. Vil ég hér reyna að skýra það sem hægt er að skýra.

Fram kemur að; 
,,Þó er álitamál um "starfsstöðvar", þ.e. hvort greiða eigi akstur fyrir kennara." 
Nei, það er ekki nokkurt álitamál. Það ber að greiða kennurum fyrir að akstur á milli starfsstöðva. Mögulega má dekka það þannig að kennarinn mæti bara á annan staðinn þann daginn og á hinn þann næsta en um leið og hann þarf að keyra á milli ber að borga honum fyrir það.


Þá segir:
,,Skipulagning stundatöflu og skóladagatals ætti að geta orðið sameiginleg hjá skólunum fyrir næsta skólaár. Það myndi óhjákvæmilega þýða að lengja þyrfti skóladaginn ef ákveðið væri að efla samstarf bekkja milli starfsstöðva (skólanna tveggja). 
      Rætt hefur verið um að hafa mismunandi árganga saman í hvorum skóla fyrir sig.”

Já, þetta er nú það sem maður var að vona, að einhver ,,sameining” ætti að eiga sér stað. Ef við hins vegar lesum erindisbréfið sem Starfshópnum var sett þá kemur annað í ljós:

Markmið sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar með sameiningu skólanna í nýja stofnun með tveimur starfsstöðvum er að halda starfsemi á báðum stöðum en þróa jafnframt aukið samstarf starfsfólks, nemenda og foreldra. Sú þróun og það samstarf verði leitt af skólastjórnendum, starfsfólki, nemendum og foreldrum í samráði við fræðsluyfirvöld sveitarfélagsins. Gengið verði út frá því að óbreyttu* að allar deildir skólanna verði reknar áfram þar sem þær eru í dag og hvor grunnskóladeild bjóði upp á kennslu 1. – 10. bekkjar á báðum starfsstöðvunum. (leturbreytingar mínar.)

Það á að halda starfsemi á báðum stöðum. Það á sem sagt ekki að sameina á einum stað. Og vinsamlegast takið eftir að það eru engin tímamörk þarna inni, þetta er markmið sveitarstjórnar með sameiningunni.
Samstarf getur einungis átt sér stað með tveimur aðilum, einn aðili þarf ekki að þróa með sér samstarf. Það eiga sem sagt að vera tveir skólar um ókomna tíð.
Eins og kemur berlega fram í síðustu setningunni, allar deildir verða reknar þar sem þær eru og boðið upp á kennslu 1.-10. bekkjar á báðum stöðum.
Það liggur því í augum uppi að það á ekki að efla samstarf á milli bekkja og það á svo sannarlega ekki að hafa mismunandi árganga í hvorum skóla fyrir sig.

Þá ber auðvitað að hafa í huga að um leið og t.d. mismunandi árgangar eru komnir í hvorn skóla fyrir sig þá einhverjum kennurum orðið ofaukið og grípa þarf til uppsagna. En meirihlutinn ákvað: ,,...að engum starfsmanni verði sagt upp við sameiningu skólanna í eina stofnun."
 

*að óbreyttu var skotið þarna inn og þess vegna samþykkti ég bréfið. Held enn í þá von að þetta opni glufu fyrir breytingar.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...