þriðjudagur, júlí 10, 2012

Tómatsósubrandarinn og strætóferðin eilífa

Best að ég klári þetta fyrst ég byrjaði á því.

Þegar ég var krakki, sennilega einhvers staðar á forgelgjunni, gekk brandari. Hann var einhvern veginn svona:
Tveir gamlir menn sitja saman á bekk. Þá sjá þeir álengdar þriðja manninn. -Er þetta ekki Jón? spyr annar. -Nei, þetta er Jón, svarar hinn. -Ó, mér sýndist þetta vera Jón segir þá hinn fyrri.
Brandarinn gekk sem sagt út á það að þeir væru orðnir heyrnarsljóir, ha,ha.

Svo gerist það eitt sinn heima að fjölskyldan sest að snæðingi og það vantar tómatsósu á borðið. Pabbi stendur upp til að sækja hana. Þá segir mamma: -Tómatsósan er í ísskápnum. Pabbi er eitthvað annars hugar eða hefur misheyrt og svarar: -Nei, tómatsósan er í ísskápnum. Þá fer eldri systir mín að hlæja og klykkir út minnug brandarans. -Ó, ég hélt að tómatsósan væri í ísskápnum.
Þetta fannst fjölskyldunni óskaplega fyndið.
Verandi það barn sem ég var þá áttaði ég mig greinilega ekki á að þetta var svona 'staður og stund' brandari og asnast til að segja frá þessu í skólanum. Asnalegasti brandari ever. Og hann var rifjaður upp. Aftur og aftur og aftur og aftur. Og einu sinni til. Jafnvel tvisvar. Árum ef ekki áratugum saman. Því saumaklúbburinn var starfræktur áfram eftir útskrift og óskiljanlegi brandarinn var reglulega rifjaður upp þar.

Ég var bráðþroska. Þegar ég var tólf ára þá var eitthvað vesen með strætó, sumir bílstjórarnir vildu rukka fullorðinsgjald en aðrir ekki. Ég hafði staðið í svona stappi nokkrum sinnum en það var alveg á hreinu að 12 ára áttu að borga barnafargjald. Í eitt skiptið er ég að taka strætó og bílstjórinn rukkar mig fullorðinsgjald. Ég segi honum að ég sé ekki nema tólf ára og enn þá í barnaskóla. Hét 6. bekkur þá. Það skipti engu máli, ég átti að borga fullorðinsgjald. Á næstu stoppistöð koma tvær bekkjarsystur mínar inn og þær borga barnafargjald. Ég var enn þá frekar reið eftir samskiptin  svo ég fer fram í og segi honum að við séum bekkjarsystur og hvort þær eigi ekki að borga fullorðinsfargjald eins og ég. Minn tilgangur var sá að þær staðfestu að ég væri bara tólf ára. Það kemur eitthvað á blessaðan bílstjórann en til að vera sjálfum sér samkvæmur rukkar hann þær um fullorðinsgjald. Frekar óheppilegt, vissulega. Ég man ekki hversu fljótlega þær tóku þetta upp en það var tekið upp og ég útskýrði málið, að ég hélt og því væri þar með lokið. Nei. Þetta var eitt af því sem var tekið upp aftur og aftur og aftur....
Það liðu því miður nokkuð mörg ár þar til ég spyrnti við fótum og lét vita að mér þættu þessar eilífu upprifjanir alveg óskaplega leiðinlegar.
Eins og ég hef áður sagt frá þá varð ég fyrir einelti í grunnskóla. Ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að það hefðu bara verið ákveðnir einstaklingar sem stóðu fyrir því. En ég er að átta mig á því núna að auðvitað var þetta hluti af eineltispakkanum þótt ómeðvitað hafi verið.
Því einelti viðgengst ekki í tómarúmi, það viðgengst þar sem það er viðurkennt. 

Að klippa vængina af englunum

Það eru notaðar ýmsar aðferðir við uppeldi á börnum. Ein er að segja sögur og ævintýri sem fela í sér ákveðinn boðskap. Stundum eru ævintýrin mjög einföld og til þess ætluð að stöðva ákveðna hegðun.
Á mínu æskuheimili var sagt við okkur systurnar að ef við klipptum út í loftið með skærum þá værum við að klippa vængina af englunum. Ég man ekki nákvæmlega hvenær þetta var sagt við mig fyrst, ég man bara að ég var barn og mamma sagði þetta og við ræddum það eitthvað nánar mæðgurnar að það væru litlir englar allt í kringum okkur. Ég held ég fari rétt með að þetta komi frá ömmu minni. Svona ævintýri eitthvert sem oft fylgir fjölskyldum. Nú má vissulega ræða um hindurvitni og annað slíkt en auðvitað var þessu ætlað að stöðva óæskilega hegðun. Í sjálfu sér sé ég ekkert rangt við að nota fallega hugmynd til þess að stöðva hegðun. Nægar eru skammirnir.
Fyrir mér var þetta alveg skýrt; ég klippti ekki út í loftið með skærunum. Hins vegar varð mér það á seinna meir í handavinnutíma í skólanum að segja þetta þegar einhver var að klippa út í loftið. Bekkjarsystur mínar höfðu sjaldan eða aldrei heyrt neitt jafn hallærislegt. Þetta var rifjað upp reglulega og ég fékk að heyra árum saman. Þótti ógurlega fyndið.
Um daginn náði sonur minn í skæri og klippti út í loftið.
Ég veit hvað mig langar að segja.
Ég veit líka af hverju ég segi það ekki.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...