laugardagur, október 16, 2004

Jáhá. Það er víst almennari skoðun en ég hélt að kennaramenntunin sé í rauninni ekki háskólamenntun. Það var verið að segja mér frá einhverri könnun sem einhverjir drengir gerðu (mér tókst blessunarlega að missa af þessu) sem gaf það til kynna að kennaranámið væri skítlétt og alveg sama prógrammið og var í gangi áður en kennaranámi var breytt í háskólanám. Svo ekki sé talað um færsluna hjá málbeininu. Ég ætla að leyfa mér af alkunnum menntahroka mínum að taka það fram að ég kem úr Háskóla Íslands svo ég á ekki hagsmuna að gæta í þessari umræðu (annarra en þeirra auðvitað að þetta er að bitna á laununum mínum).
Ég sá í kommentakerfinu hjá málbeininu:,,Orðið sem nú fer af Kennaraháskólanum, með fullri virðingu fyrir þeim sem sannarlega eiga heima og eru þar af fullum "heilindum", er að þeir sem meika ekki lögfræðina eða hagfræðina fara í stjórnmálafræði. Þeir sem gefast upp á stjórnmálafræðinni fara í Kennaraháskólann." (Ágúst Flygenring)
Ung kona sem er nýútskrifuð úr KHÍ og var að byrja að kenna í haust var að segja okkur að af því að henni gekk alltaf vel í námi og var með háar einkunnir þá var fólkið í kringum hana mjög hissa á því að hún vildi verða kennari.
Ég get eiginlega ekki séð að ef Kennaraháskólinn er í raun svona skítléttur að kennarar eigi að gjalda fyrir það. Þetta heitir Kennaraháskólinn, þetta er viðurkennt háskólanám. Fólk verður að hafa lokið stúdentsprófi til að komast inn. Svo þegar fólk hefur lokið sínu háskólanámi og er byrjað að vinna í sinni réttindavinnu þá er bara allt í einu komið: ,,Nananananaaa... Þetta er ekkert alvöru háskólanám, nanananananaaa...." Mér finnst það nú bara heldur skítt. Það hlýtur að vera á ábyrgð yfirvalda að gæta þess að það sem er boðið upp á sem háskólanám standi undir þeirri nafngift. Það er ekki hægt að koma eftir á og segja eitthvað annað.
Og í staðinn fyrir að auka þá kröfurnar í Kennaraháskólanum (og best að taka það fram núna að ég hef enga trú á að þetta sé rétt) að þá á að borga kennurum á þeim forsendum að þeir séu í raun illa menntaðir! Eigum við þá ekki bara að breyta skólanum aftur í það að vera Kennaraskóli sem þarf ekki stúdentspróf inn í. Gera hann að starfsgreinaskóla. Af hverju erum við að blekkja fólk og telja því trú um að það sé í háskólanámi þegar svo er ekki? Mér finnst reyndar eðlilegt að gera þá kröfu til fólks sem er að koma börnum til mennta að það sjálft sé menntað en mér getur svo sem skjátlast í því.

fimmtudagur, október 14, 2004

Skrapp í Verkfallsmiðstöðina og hitti samkennarana. Það var ágætis pepp og gaman. Verkfallspósturinn segir frá heimsókn nokkurra kennara til Sigurðar Geirdals bæjarstjóra í Kópavogi: ,,Hann sagði að grunnskólakennarar væru með mörg hundruð þúsund á mánuði og væru illa menntaðir og gætu ekki borið sig saman við háskólamenntað fólk. Er það nema von að illa gangi við samningaborðið þegar viðsemjendur okkar eru ekki betur upplýstir en þetta?" Nei, það er ekki skrítið.
Við vorum líka að velta fyrir okkur hvað fólki væri eitthvað sama um þetta verkfall. Einn vinnufélagi stakk upp á því að það væri svo mikið að gera hjá fólki og það væri svo upptekið af sér og sínu (ekki illa meint btw) að það hefði bara hvorki tíma né áhuga á að spá í þetta. Þeir sem ættu börn kæmu þeim einhvern veginn einhvers staðar fyrir og svo mallaði þetta bara. Að það væri komið upp ákveðið andvaraleysi í þjóðfélaginu. Og ekki misskilja mig, ég er ekki bara að tala um verkfallið þótt mér finnist þetta koma mjög skýrt fram varðandi það. Það er orðið mikið eins og hver og einn sé að hokra í sínu horni og sinna sínu.
Svo koma upp umræður að fólk eigi að semja sjálft við sína vinnuveitendur og eigi ekki að þurfa að vera í verkalýðsfélögum. Ég get ekki ímyndað mér að það geti orðið til góðs. Það halda allir að hann eða þetta ,,ég" geti alltaf samið betur en náunginn.
Þetta er svona eins og með skólasjóraflokkana. Skólastjórar eru bara mannlegir eins og gengur. Hvað ef kennari er á öndverðum meiði í pólitík? Hvað ef skólastjóranum bara beinlínis líkar ekki við kennarann? Þá getur hann refsað og umbunað alveg eftir eigin hentugleika. Ég vil taka það fram að ég hef ekki heyrt um svona tilvik og mínir yfirmenn virðast skipta þokkalega réttlátt niður. En ég er auðvitað með alla þrjá pottana svo auðvitað er ég sátt.
Æðstu ráðamenn þjóðarinnar hafa sýnt það að þeir geta ekki verð hlutlausir og það eru ekki þeir ,,hæfustu" sem eru verðlaunaðir. Þess vegna finnst mér það vafasamt að setja það í hendur einhvers einstaklings að meta það hversu ,,hæf" ég er og hversu há laun ég á skilið. Þá vil ég frekar að það sé bundið í samninga.
Ja hérna hér. Ég er bara búin að fá heilan helling af heimsóknum í dag. Og það á vinnutíma. Ekki get ég legið á netinu og lesið bloggsíður í minni vinnu.

miðvikudagur, október 13, 2004

Í sumar vann ég sem ófaglærður starfsmaður á geðdeild. Undarlegt alveg að ég skyldi þurfa þess eftir þessi rífandi laun síðasta vetur. Það vill bara þannig til að í sumar duttu útborguð laun niður í 130 þús. sem ég efast nú samt ekki um að sumum finnist rosalega gott. En þegar það er búið að borga húsnæðislánin og hina og þessa reikninga og svo auðvitað fara í lúxusferð með Iceland Express til Svíþjóðar til vera við fermingu (einmitt, hvað er ég kvarta, lifi bara eins og drottning) þá var bara ekkert mikið eftir. Svo stóð auðvitað til að klæða ættaróðalið með bárujárni (já, ég sé það núna að ég veit greinilega ekki aura minna tal). Bárujárnið var reyndar valið vegna þess að það er ódýrast. Svo vissi ég að það myndi skella á verkfall.
En ég fann alla vega launaseðil frá því í sumar þegar ég vann sem ófaglærður starfsmaður, maður þarf ekki einu sinni að hafa grunnskólaprófið. Útborguð laun fyrir júlí voru 94.662,- Nú ber að hafa það í huga að skattkortið mitt var hjá Fræðslumiðstöð svo ofboðslega háu tekjurnar mínar þaðan yrðu ekki skattlagðar svo ég borgaði fullan skatt af spítala-laununum. Ég er nú ekki mjög skattfróð en í fyrra var persónuafslátturinn á mánuði 26.825,- Svo ef við mínusum það þá hefði ég átt að fá útborgað 121.487,- Vinsamlegast takið eftir að kennaralaunin án yfirvinnu eru 130.922,- og eins og ég hef komið inn hérna einhvers staðar þá er sú yfirvinna sem ég hef mjög sjaldgæf í kennarastéttinni eða einn kennari í hverjum skóla, félagsstarfskennarinn.
Mér finnst að sjálfsögðu rétt að taka fram að spítalavinnan er vaktavinna og þennan mánuð skipti ég á 6 dag- og/eða kvöldvöktum fyrir 6 næturvaktir en ég tók engar aukavaktir svo ég vann ekki meira en 100% vinnu þennan mánuðinn.
Ég vil nú bara gjarna fara að komast aftur í vinnuna mína. Hátekjuvinnuna miklu sem fólk með stúdentspróf eitt að vopni slær út í launum og er svo bara hneykslað að maður sé ósáttur við kjörin. Almáttugur að kennarar skuli dirfast að bera sig saman við aðra launþega í landinu. Ég er búin að öðlast djúpstæðan skilning á því af hverju það gengur svona illa að semja ef þetta er viðhorfið.
Bendi á bloggið hans Daníels Freys. Hann hefur verið mjög skeleggur að setja fram sjónarmið kennara og útskýra stöðuna.
Eitthvað vesen á Blogger... urr...
You are Marilyn Monroe!
You're Marilyn Monroe!


What Classic Pin-Up Are You?
brought to you by Quizilla

Audda... Eins og eithvað annað hafi komið greina.

þriðjudagur, október 12, 2004

Við systurnar fórum í heilsubótargöngu á nýverið, held alveg örugglega um helgi, og þá heyrðum við í partíi og var að spila gamalt eighties lag. Ég þaut alveg beina leið í reykmettaðan kjallarann á Otrateignum. Ah, nostalgían. Svona ,,list" var vinsæl í þá tíð

og skreytti margan vegginn og gott ef ekki plötualbúmin. Var ekki Duran Duran með svona umslag.
Alla vega, ég var sem sagt líka að muna að Live Aid á að koma út á diski 1. nóv. Bíð spennt.
Það er umræða núna í gangi um auglýsingar Kennarasambandsins og málflutning kennara, að við séum að væla og fara fram á samúð. Það fannst mjög klárlega í byrjun að fólk hafði mjög lítinn skilning á kjarabaráttu kennara. Það héldu allir að kennarar hefðu samið svo vel síðast. Ég hélt það reyndar líka þangað til annað kom í ljós. Þess vegna eru þessar auglýsingar til að sýna fólki að þetta er ekki rétt, við erum á skítakaupi.
Það sem kom mér mest á óvart þegar ég byrjaði að kenna er hvað þetta er mikil vinna. Ég hef unnið víða og þetta er erfiðasta vinnan sem ég hef verið í. Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju ég er svona þreytt allar helgar. Og það er ekki bara ég. Það þarf ekki nema líta yfir kennarastofuna rétt fyrir jól eða á vorin og sjá að þar eru allir á síðustu bensíndropunum.
Ég vona að ég móðgi ekki neinn þegar ég segi að 18-25 börn geta verið mjög fjörug. Maður þarf að vera vakandi fyrir öllu sem er að gerast í stofunni. Nú getur verið að fólk hlæi og hugsi: ,,Hva, alltaf er ég vakandi í minni vinnu." Ertu alveg viss? Koma aldrei nokkur augnablik þar sem þið gleymið ykkur aðeins í huganum, flettið Mogganum, farið og fáið ykkur kaffi, lendið á smá kjaftatörn? Þetta gerist ekki hjá kennurum. Við erum á tánum hverja einustu mínútu. Þar sem er mikið af börnum þar er mikill hávaði. Hafið þið unnið í hávaða?
Það eru fundaseturnar, sumar hverjar vitatilgangslausar og ég er ekki einu sinni byrjuð í endurmenntuninni. Og svo þarf að undirbúa kennsluna. Það eru mjög margir sem hreinlega skilja þetta ekki. Og þá erum við byrjuð að tala um talsvert ósýnilega vinnu. Jú, auðvitað get ég setið uppi í skóla og búið til tímaáætlun, ég geri það iðulega. En svo dettur manni í hug heima hjá sér að það gæti verið skemmtilegra eða betra að gera þetta öðruvísi eða eitthvaðð sem hægt er að gera seinna. Þá byrjar maður að fletta í bókum eða leita á netinu eða setja niður nýja áætlun.Ég er nefnilega alltaf að hugsa um kennsluna. Ég hélt að það væri af því að ég er tiltölulega nýbyrjuð en heyri að hinir kennararnir eru svona líka.
Svo er ákveðið að það eigi að vera skóli fyrir alla. Það er mjög falleg hugsun og alveg er ég hlynnt öllu sem heitir víðsýni og fordómaleysi. En hvað þegar nemendurnir með námserfiðleikana og hegðunarvandann eru orðnir hluti af 25 manna bekk? Getur kennarinn sinnt öllum? Ætli að mesta púðrið fari í þann sem er með mestu lætin? Hverjir sitja þá á hakanum? Meirihluti bekkjarins kannski?
Svo kemur Fræðslumiðstöð líka með þetta einstaklingsmiðaða nám sitt kjaftæði. Ég hef sagt það áður og ég segi það enn, ég vinn ekki tuttuguogfimmfalda vinnu á einföldu skítakaupi. Það kemur væntanlega á óvart en ég er hlynnt einstaklingsmiðaðri námsskra, hún gengur bara ekki upp í bekkjarkerfi.
Og nú ætla ég að hætta mér inn á hættusvæði. Sumir foreldrar eru ekkert í lagi. Ég veit um kennara sem þurfti lögreglufylgd í skólann vegna hótana. Ég veit um kennara sem hafa fengið kæruhótanir. Flestallir kennarar lenda í því einhvern tíma á sínum kennsluferli að fá foreldri upp á móti sér og þurfa að sitja undir svívirðingum, hótunum og klögunum. Og kennarar hafa engan rétt. Við verðum bara gjöra svo vel að sitja undir þessum viðbjóði. En við skulum hafa það á hreinu að 99.5% foreldra eru hið besta fólk.
Fyrst ég er byrjuð að tala um foreldra. Ég er mjög hlynnt foreldrasamstarfi og hef átt gott samstarf við foreldra. Það er alltaf best þegar kennarar og foreldrar geta unnið saman að velferð nemenda. Þetta tekur engu að síður dálítinn tíma. Mér finnst það alveg þess virði en mér finnst líka að það megi alveg taka tillit til þess. Samstarfskennari minn einn lýsti því að hann hefði opnað tölvupóstinn sinn rétt fyrir háttinn og þar hefði verið bréf frá foreldri. Hann var byrjaður að svara þegar hann áttaði sig á því að þetta var vinna.
Svo eru hlutir mismunandi eftir skólum. Í fyrra var ákveðið að vinna öll mál á einstaklingsgrunni. Það er hvatningarkerfi svo það eru ansi margir punktar sem maður getur þurft að færa inn í Stundvísi. Þá er líka hægt að gera skólasóknarsamning. Það er nú bara heljarmikil bókhaldsvinna.

Að endingu.
Ég heiti Ásta Svavarsdóttir.
Ég er 34 ára.
Eftir fjögurra ára Háskólanám (BA í bókmenntafræði og kennsluréttindi) er ég með 191.000 í grunnlaun.
(Tvöfalt leyfisbréf + 3 pottar vegna teymisvinnu m.a.)
Í fyrra sá ég um félagsstarf nemenda og var að meðaltali með 5 yfirvinnutíma í viku plús 5 umframkennslutíma.
Ég fékk útborgað 175.000 á mánuði.

Ég er kennari.
Þótt skömm sé frá að segja þá skrópaði ég á fundinn í Háskólabíói. Ég er algjör stéttasvikari.

Bætti Sveita-Hörpu á vinstri vænginn. Ég treysti á að öll réttarböll og þorrablót verði auglýst skilmerkilega!

Þar sem ég er búin að klára upload kvótann fyrir mánuðinn á myndasíðunni (mér til mikillar furðu náttúrulega) þá get ég ekki birt mynd af Kolfinnu strax. Það er auðvitað bara alveg glatað.

mánudagur, október 11, 2004

Er þetta Jessica Simpson dæmi ekki eitthvað undarlegt? Ég hef tvisvar dottið inn í myndbönd með henni. Í bæði skiptin var hún að flytja gamalt lag (cover) og ég hélt að ég hefði slysast inn í .... hmmm eitthvað annað en tónlistarmyndband tilfæringarnar voru þvílíkar.

sunnudagur, október 10, 2004

Ég komst í skanner. Þetta er Jósefína.


Þetta er Snotra.


Og þetta er Krúsi.


Þá vantar bara mynd af Kolfinnu en því verður reddað snarlega.

Ég lenti í smá umræðum í dag um menningu. Tilefnið var útvarpsþáttur á Sögu þar sem var verið aðtala um menningu og tveir þátttakenda höfðu farið á einhverja voða menningarviðburði. (Ég er kannski ekki alveg hlutlaus enda enn í sjokki eftir Mósaík menningarofursnobbið.) Þá vildi sá þriðji nefna til menningarviðburðinn Idol sem væri nýbyrjaður. Yfir þessu var viðmælandi minn yfir sig hneykslaður.
Ókey, ég er miður mín yfir því að Séð og heyrt sé eitt mest lesna blað landsins en ég fylgist með Idol og hef gaman af. Hvarflar samt ekki að mér að halda að það sé menningarviðburður. But then again, af hverju ekki? Þetta er samtímamenning. Samtíma-popp-menning eins og litla systir nefndi það. Það sem mér finnst vera lýsandi fyrir hugmyndir okkar um menningu er kvikmyndagagnrýni sem ég las fyrir mörgum árum um Dead Man. Gagnrýnandinn skildi ekkert í myndinni og sagði það beinum orðum. Þ.a.l. var niðurstaðan sú að myndin hlyti að vera stókostlegt listaverk! Nei, elskan, myndin er tómt djöfulsins bull.
Ég held að hugmyndir okkar um menningu og listaverk séu búin að gera menningu og listaverk okkur framandi. Við erum upptekin af einhverju uppprumpuði snobbi. Og ef einhver ,,klíka" segir að eitthvað sé listaverk þá trúir meirihlutinn því eins og nýju neti af því að hann heldur að list sé hvort sem er eitthvað óskiljanlegt. Sem er slæmt því meirihluti fólks fer á mis við öll þau stórkostlegu listaverk sem til eru í heiminum. But then again, hver segir til um það hvað sé list og hvað ekki? Ég held að maður verði að fara eftir eigin skoðun og því hvernig verkin tala til manns. Og því hljóta skoðanir á list að vera mismunandi. Ég veit það alla vega með fullri vissu að myndin Óbærilegur léttleiki tilverunnar er ekki stórkostlegt listaverk heldur klén ljósblá ræma. Ég veit það líka með fullri vissu að Milan Kundera er ekki stórkostlegur rithöfundur heldur viðbjóðslegt karlrembusvín. Og ég veit það með fullri vissu að ég vil sjá Sixtínsku kapelluna aftur áður en ég dey.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...