föstudagur, október 24, 2014

Sameining framhaldsskóla

Það hefur sýnt sig með afgerandi hætti að núverandi ríkisstjórn vill skera niður og spara í menntunarmálum eins og frekast er unnt. Það er einnig sorglega augljóst að menntamálaráðherra er sérstaklega illa við litlu framhaldsskólana á landsbyggðinni. Skýtur þetta reyndar mjög skökku við miðað við yfirlýsta landsbyggðaást ríkisstjórnarinnar. En eflaust bætir flutningur Fiskistofu upp niðurskurð og lokanir nokkurra landsbyggðaframhaldsskóla með tilheyrandi brottflutningi menntaðs fólks.
Ein af hugmyndunum sem hafa iðulega komið upp á yfirborðið er að sameina Framhaldsskólann á Húsavík og Framhaldsskólann á Laugum. Vissulega eru báðir framhaldsskólar en þeir eru gjörólíkir að öðru leyti. Framhaldsskólinn á Laugum hefur tekið upp breyttar kennsluaðferðir eða svokallað vinnustofufyrirkomulag sem hefur reynst vel. Framhaldsskólinn á Húsavík er hins vegar hefðbundnari bóknámsskóli. Nemendur eru alveg jafn mismunandi á landsbyggðinni og í borginni og finnst mér í alla staði eðlilegt að þeir eigi val eins og aðrir. Vinnustofufyrirkomulag hentar sumum og hefðbundið bóknám öðrum.
Verði skólarnir sameinaðir þá er auðvitað ekki vitað hvernig að því verður staðið; verða skólarnir sameinaðir á öðrum staðnum? Ef svo er þá vil ég benda á að það er hálftímaakstur á milli staða og veðurfar og færð er talsvert öðruvísi hér á Norðurlandi en í Reykjavík. Ég veit það, ég hef búið á báðum stöðum.
Þá er sá möguleiki til staðar að skólarnir verði færðir undir eina yfirstjórn og starfræktar tvær starfsstöðvar. Reynslan hefur sýnt að slíkt fyrirkomulag hefur ekki reynst vel.
Þá langar mig að benda menntamálaráðherra á að standi vilji til að sameina framhaldsskóla þá finnst mér mun eðlilegra að sameina Menntaskólann í Reykjavík og Kvennaskólann sem standa við sömu götu þótt hún heiti tveimur nöfnum.

Verði þessir skólar sameinaðir þá standa líkur til þess að þeir verði sameinaðir undir Laugaskóla. Núna eru fleiri nemendur í þeim skóla og skólameistari skólans situr nú á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Fyndist mér í raun óeðlilegt ef hún héldi ekki merki síns skóla á lofti.

Það er hér sem ég fer að hafa verulegar áhyggjur. Það hefur nefnilega komið til tals að setja framhaldsskólana á könnu sveitarfélaganna. Eða eins og Ingvar Sigurgeirsson, okkar helsti menntamálafrömuður, segir í úttekt unninni fyrir Þingeyjarsveit nýverið:
Líkur eru á því að í framtíðinni taki sveitarfélög yfir rekstur framhaldsskóla...
Verði Framhaldsskólinn á Húsavík sameinaður Framhaldsskólanum á Laugum undir forsvari Laugaskólans þá fer sameinaður skóli undir Þingeyjarsveit.
Af því tilefni hef ég aðeins eitt við Norðurþing að segja:

miðvikudagur, október 22, 2014

Fiffaða kosningaloforðið

Jæja, þar kom það loksins formlega, Samstaða viðurkennir það sem flest okkar hafa vitað lengi að kosningaloforðið hennar um íbúakosningu í hluta sveitarfélagsins er ólöglegt. Það er ágætt. Ég verð samt að segja, gott fólk, að mér finnst það alveg með ólíkindum að fólk sem er með samanlagða um 36 ára reynslu af sveitarstjórnarstörfum skuli ekki fletta þessu upp eða tala við lögfræðing áður en loforðið er sett fram. Það hefðu verið mun vandaðri vinnubrögð. Það tók mig alveg heilar 5 mínútur að komast að þessu.
Það eina sem er samt vont við þennan ólöglega gjörning, að mati oddvitans, er að hann gæti verið kærður og þess vegna á bara að vera skoðanakönnun. Whatever keeps you within the law, dear.

Skoðanakönnunin á að ná til allra kjörgengra íbúa en:
Gengið er út frá því að þrátt fyrir að könnunin nái til allra kjörgengra íbúa sveitarfélagsins þá verði skilgreint hvert viðhorfið er á skólasvæði Þingeyjarskóla eins og stefnt var að með íbúakosningunni. Það var alltaf megin markmið að leita eftir sjónarmiðum íbúa á skólasvæði Þingeyjarskóla og verður það gert með þessum hætti.
Þannig að þrátt fyrir að lögfræðingurinn segi:
Mér þykir við hæfi að minna á að ákvarðanir um breytingar á skólahaldi snúa ekki eingöngu að hagsmunum nemenda og foreldra þeirra, auk hagsmuna starfsfólks skólanna og t.d. verktaka sem sinna skólaakstri. Þessi mál snúast að jafnaði líka um fjárhagslega hagsmuni sveitarfélagsins og þar með allra íbúa þess. (Feitletrun mín.)
 Þá eru skoðanir íbúa á skólasvæði Þingeyjarskóla veigameiri en annarra útsvarsgreiðenda. Hvort sem þessir íbúar eiga börn í skóla eður ei.
Til hvers á þá eiginlega að tala við okkur hin, mér er spurn? Bara til að þykjast?

Mér þykir vænt um að Þingeyjarsveit sé búin að taka Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands aftur í sátt þrátt fyrir að hafa keypt af henni skýrslu hér um árið sem var ekki skeinipappírsins virði. Þá þykir mér dálítið broslegt að Félagsvísindastofnun sé núna að gera skoðanakönnunina sem var afþökkuð 2009 (eða 2010).

Þetta verður síðasti pistill minn um sveitarstjórnarmál í Þingeyjarsveit að sinni. Ég er alveg búin að missa áhugann á þessu.





mánudagur, október 20, 2014

Hraunið

Ég horfði auðvitað á Hraunið þótt ekki væri nema til að vera samræðuhæf. Það er ákveðið skylduáhorf á íslenskar bíómyndir og þætti. En ég ber alltaf ákveðinn kvíðboga fyrir því enda var Hrafn Gunnlaugsson okkar helsti leikstjóri þegar ég var að komast til vits og ára.

 Ég horfði á fyrsta þáttinn í endursýningu og vissi að leikurinn væri ekki upp á marga fiska svo ég lokaði bara augunum fyrir því. En sumt var mjög illa leikið, krakkar, í alvöru.
Þá höfðu aðalleikari og leikstjóri mætt í viðtal og lofað plottið alveg í hástert. Nei, það var ekki gott. Plott sem byggir á því að aðallöggan liggi á hleri og verði óvænt vitni að einhverju er ekki gott plott. Þetta gerðist alla vega tvisvar ef ekki þrisvar, ég var ekki alveg að telja. Hann fann m.a.s. hundhræið þegar hann fór út að skokka.
Helgi er ósköp klisjukenndur karakter, náskyldur skandinavískum reyfarlöggum með persónulegu vandamálin sín. Geisp...
Þá fór þátturinn í gær alveg ósegjanlega í taugarnar á mér.  Ég veit að slúbbertar og slordónar hóta lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra öllu illu og er auðvitað ekkert annað en andsk.. aumingjaskapur. En ef barni lögreglumanns er rænt á Íslandi þá ætla ég rétt að vona að hann fari ekki í svona amerískt sóló. Persónulega finnst mér ekkert annað en allsherjar útkall koma til greina og tekið á málinu af fullri hörku. Annars eru glæpamennirnir búnir að vinna.

Hins vegar er ég ægilega glöð með Grétu. Ég byrjaði að brosa um leið og hún gekk inn í rammann. Töff,  sjálfsánægð stelpa sem biður ekki afsökunar á tilveru sinni. Hörkunagli.
Takk fyrir þennan karakter, takk, takk, takk.




Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...