Ég er komin á þann stað i lífi mínu að ég get ekki lesið nokkurn skapaðan hlut án gleraugna. Nýverið var ég að vinna í tölvunni og þurfti þá gleraugu. Við hjónin kaupum gleraugu nánast í tugatali, frúin hefur þann ávana að leggja þau frá sér hér og hvar. Aðallega hvar. Hófst því leit að gleraugum. Leitin tók svolítinn tíma en hafðist að lokum. Hins vegar kom ég gleraugunum ekki upp á nefið á mér því þar var fyrirstaða, nefnilega gleraugu. „Jæja,“ hugsaði ég, „er ég nú komin þangað.“ Lífsleiðin er nefnilega mörkuð vörðum. Sumar eru stórar: byrja í skóla, fermast, útskrifast, gifta sig, eignast börn.. Allir þessir stóru pólar. En svo eru það litlu vörðurnar. Sækja um kreditkort, fara til útlanda, vinna í fyrsta skipti. Missa vinnu í fyrsta skipti, brjóta bein. Engir stórir hlutir en samt hlutir sem hafa áhrif. Hár marka nokkrar vörður, fyrst hár á réttum stöðum og svo röngum. Liturinn á hárinu er ein varðan. Fyrsta hvíta hárið var þvílíkt áfall að ég lagðist í rúmið.
Frúin sem var flæmd frá Hálsi ásamt fjölskyldunni sinni.