föstudagur, janúar 17, 2003

Jæja, þá er sem betur fer komið helgarfrí og maður getur lagst í rúmið. Ég er ekki alveg viss um hvort ég sé að leggjast í flensu eða hvort það er svona erfitt að losna við eiturefnin úr líkamanum. Það er alla vega hiti og hausverkur í gangi og nákvæmlega engin þolinmæði gagnvart föstudagsgalsanum sem tröllreið hér húsum.

Nemendur tilkynntu mér nokkrum sinnum í dag að ég væri svo leiðinleg. Mér er svo sem alveg sama þótt þeim finnist það enda kom ég ekki hingað til að fara í vinsældakeppni. En ástæðan fyrir því hvað ég er leiðinleg er sú að ég vil hafa vinnufrið í tímunum svo ég geti kennt þeim. Ef það eru hávaði og læti og ekkert heyrist í mér þá læra þau mest lítið, það segir sig alveg sjálft. Sömuleiðis ef þau eru að eyða tímanum í eitthvað allt annað en að vinna.

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að það sé alltof mikið meinlæti að neita sér um súkkulaði líka. Líf mitt var komið á það stig að ég hefði getað gengið í klaustur án þess að nokkur breyting yrði á lífi mínu. Það er ótækt, svo súkkulaði er komið aftur á matseðilinn.

Sá í einkamálaauglýsingu að 1/4 þjóðarinnar væri einhleypur eða á lausu. Ég er sem sagt ekki eitthvað weirdo, gott að vita það.

fimmtudagur, janúar 16, 2003

Ossið er voðalega andlaust í dag.
Ber helst til tíðinda að eitthvað hvítt og kalt hefur lagst yfir jörðu og börnin eru æst og uppvæg að vera úti í þessu.

Kommentabókin er Women are from Venus, Men are from Hell. Mun gáfulegri en hitt ruglið með svipuðum titlum. Og svo náttúrulega einhverjar íslenskar kommentabækur.

Svo er ég að fikta í Template án þess að það gerist sem ég vil að gerist.

Af hverju kemur bloggið hennar Þórdísar ekki inn?

Já, mér líst vel á að þú heitir
Órækja frændi.

miðvikudagur, janúar 15, 2003

Vá... Rosalega tókst mér að klúðra þessu.
Ok, tókst að redda því. Fræðslumiðstöð býður upp á styrki til næsta 1001 árs.
Ég stundaði miklar og erfiðar andlegar æfingar í gær. Ég hugsaði um lóðin. Undarlegt hvað það er miklu auðveldara að hætta e-u en að byrja á e-u. Það er t.d. mun auðveldara að hætta að reykja en að byrja að æfa. Hvurnig stendur á þessu? Þannig að ég er að hugsa um að hætta við að kaupa tölvu og fara í fitusog í staðinn.
Börnin eru brjáluð!!! Þar sem ég hef tekið einarðlega afstöðu gegn því að nöldra og öskra í staðinn þá er ég orðin illilega hás eftir daginn. Það versta við þetta er að ég er ekkert voðalega raddsterk. Í gegnum lífið þá hef ég bjargað mér með mein- og háðulegum athugasemdum en það gengur ekki alveg svona í grunnskóla. Þau eru svo viðkvæm greyin, maður má ekkert segja. Verst þykir mér að það er búið að afnema kennaraprikin. Ég sem hafði hlakkað þetta líka til að geta barið kennaraprikinu í borðið og vera með ,,hviss" og ,,hvass" yfir hausamótunum á þeim. Þessi djöfulsins sænska sálfræði þar sem allir eiga að vera svo góðir við alla.

Ái.. Súkkulaðikaka með kaffinu og ég alveg súkkulaðisjúk með afbrigðum. Ég stóðst freistinguna en erfitt var það. Það var einhvern tíma gerð rannsókn einhvers staðar þar sem það kom fram að konum þætti súkkulaði betra en kynlíf. Skil það vel, held ég gæti frekar lifað án karlmanna en súkkulaðis.
Ætli ég kvelji mig ekki í það að lappa heim. Athuga hvort ég sjái glitta í Stefán inn um safngluggana.

þriðjudagur, janúar 14, 2003

Það er búið að trufla mig svo mikið með vinnu í dag að ég hef bara ekkert komist til að blogga. Ég næ greinilega ekki heldur í bankann, launþeganum mínum til mikillar mæðu. Er ég þó búin að lofa bót og betrun nokkrum sinnum. Núna þarf ég að fara í felur aftur og enn einu sinni.
Börnin eru að ná sér eftir jólablúsinn og að komast í fyrra form. Ég er ekki ánægð.
Lenti í því fyrir jólin að ég var komin með nöldurtón í röddina. Var að reyna að fá börnin til að vinna en líka að reyna að vera góð við því, sem sagt að öskra ekki. Og þá small þessi líka fíni nöldurtónn inn. Ég varð gjörsamlega miður mín. Mér finnst nöldur vera kerlingarlegt þótt það séu til þvílíku karlkynsnöldurseggirnir að það hálfa væri nóg. Þótt ljótt sé frá að segja þá finnst mér oft vera beiskjusvipur á miðaldra konum. Maður sér það bara langar leiðir að þær eru ekki ánægðar í lífinu. Þetta eru auðvitað giftu konurnar. Svo þetta hræðilega nöldur. Konur detta sennilega í þetta af því að það er ekki ,,kvenlegt" að öskra eða reiðast. En nöldur er sá tjáningarmáti sem maður leiðir helst hjá sér. Það kemur fram í feminismanum að af því að það er ekki hlustað á konur þá annað hvort þagni þær eða endurtaki sig, nöldri sem sagt. Og af því að enginn nennir að hlusta á nöldur þá er það ákveðin þögn líka.
Einu sinni átti ég kærasta. (já, já, ég hef verið við karlmann kennd.) Ég ætlaði að vera voða góð við hann og gaf honum rándýr rimlagluggatjöld. Það lagðist að sjálfsögðu sendingarkostnaður við því við vorum úti á landi. Rimlatjöldin voru rifin upp til að skoða þau en voru svo bara látin liggja í reiðileysi dögum saman. Þar sem það þurfti að bora fyrir þeim og ég kann ekki á borvél þá átti hann að hengja þau upp. Fyrir nú utan að maðurinn var lærður smiður. Svo ég nefni það kurteislega hvort það eigi ekki að hengja upp tjöldin. Jú, jú, mjög fljótlega. Svo líður og bíður og ekkert gerist svo ég nefni þetta aftur. Þá lítur hann á mig glaðhlakkalegur og spyr: ,,Hva, ertu að fara að nöldra?" Eins og gefur að skilja entist sambandið ekki. Þannig að þið sjáið að konur eru settar í þá aðstöðu að nöldra.

mánudagur, janúar 13, 2003

Sjálfspíningarhvötin náði hámarki núna um helgina þegar ég dustaði rykið af lóðunum og reyndi svo að lofta þeim. Þar sem ég veit ekki almennilega hvað ég á af mér að gera nú þegar ég hef lagt allar syndir á hilluna þá datt mér í hug að hreyfa mig. Datt líka í hug að það gæti verið gott fyrir bakið að hita svolítið upp og teygja. Svo ég hoppaði og skoppaði um alla íbúð á laugardag og reyndi að rifja upp teygjuæfingar frá því í fornöld. Ekki veit ég hvað nágrannar mínir hafa haldið um fílaballettinn en þeir vita að ég er skrítin svo ég hef ekki miklar áhyggjur. Svo setti ég langminnstu lóðin á stangirnar, þetta eru handlóð sko, og jafhattaði þeim með erfiðismunum. Ég var niðurbrotin kona á sunnudeginum af harðsperrum. Er hins vegar ekki frá því að bakið sé pínulítið betra svo kannski get ég bara komið mér hjá því að fara til læknis. Ætli að ég neyðist þá ekki til að taka til í íbúðinni, ég var í stórslysahættu í þessu hindrunarhlaupi.
Úlla fannst það ekkert merkilegt að ég hefði sett það á alheimsnetið að ég saknaði hans, sagði að þetta væri ,,bara bloggsíða". Svo ég hætt við að hafa saknað þín, svínið þitt!
Nú á að verðlauna góðu börnin fyrir að hafa mætt í skólann svo við erum að fara í keilu. Það var aldrei sagt í Háskólanum í kennslufræðinni að maður þyrfti að kunna að skauta, skíða, synda og keila til að geta verið kennari. Ég sé fram á stórkostleg fjárútlát í námskeið.


Talandi um sundið að þá er orðið tímabært að ég geri syndajátningu á gamalsaldri. Ég kann ekki að synda. Gat einhvern veginn bara aldrei lært það. Skrópaði náttúrulega mikið í gaggó. Þegar ég var í 9. bekk (sem er núna 10.) þá áttum við að klára 9. stigið, Ég mætti einu sinni og þá átti að synda yfir laugina á tíma. Ég fór af stað, drukknaði úti í miðri laug, svamlaði upp á bakkann og fór heim án þess að kveðja kóng eða prest. Þegar einkunnaafhendingin var um vorið þá kom það í ljós að ég hafði ekki einasta náð 9. stiginu heldur fékk ég líka 9 í einkunn! Ég rúllaði blaðinu að sjálfsögðu saman og læddist út.
Ég var auðvitað voða fegin í menntó að þurfa ekki að fara í sund en sit núna uppi með það að vera ósynd með öllu. Hins vegar er ég alveg sannfærð um að ég hafi einhvern tíma séð að það væri gamalmennasundkennsla einhvers staðar og stefni þangað.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...