Færslur

Sýnir færslur frá júní 25, 2006

Afmælisgjöfin

Nýverið vorum við skötuhjú að ræða saman um leyndarmál og persónufrelsi í samböndum. Sagði ég honum þá eftirfarandi sögu: Fyrir nokkrum árum kom upp svipuð umræða á þáverandi vinnustað mínum. Mig minnir að einhver kona hafi farið í gegnum hirslur spúsa síns og fundið eitthvað sem henni líkaði ekki. Vinnufélaga mínum fannst þetta bara gott á hana, hún ætti engan rétt á að fara í gegnum dótið hans. Mér hins vegar fannst þetta fullkomlega eðlilegt. Vinnufelaginn sagði þá að í hans sambandi gæti hann ef hann vildi verið með lokaðan og læstan kistil og konan hans myndi virða það fullkomlega. Ég svaraði því til að ef hann væri maðurinn minn þá myndi þessi kistill hans vera læstur jafn lengi og það tæki mig að finna kúbein. Í gær átti ég afmæli. Ástmaður minn gaf mér forláta kúbein.