miðvikudagur, febrúar 08, 2012

Kjaftagangurinn

Ég er ófrísk. Það er ósköp gleðilegt og velkomið en einnig mjög óvænt. Ég er orðin 41 árs og var eiginlega búin að gefa upp vonina um annað barn þegar þetta gerðist allt í einu.

Eins og flestar konur vita þá segjum við yfirleitt ekki frá þunguninni fyrr en eftir 12 vikur. Flest fósturlát verða á fyrstu 12 vikunum.
Ég hef misst einu sinni fóstur og ég hef líka misst barn á 24 viku meðgöngu. Fósturmissir er ein af þögguðum lífsreynslum kvenna en mjög algengur.
Það er sem betur fer ekki algengt að missa barn svo langt gengið en það gerist samt. Oft finnst engin ástæða. Í mínu tilviki fannst ástæðan og hún var sú að það vafðist upp á naflastrenginn. Bara hörmulegt slys.
Þegar ég uppgötva í lok október að ég er ófrísk þá ákveð ég að slaka bara á. Ég veit sem er að það eru meiri líkur á fósturmissi eftir því sem móðirin er eldri og það er líka meiri hætta á litningagöllum.
Vegna minnar forsögu er haft nánara eftirlit með mér svo á níundu viku fer ég í snemmsónar upp á Kvennadeild. Þar sést til mín.
Ég er ósköp ánægð þegar ég er gengin þessar 12 vikur en þá á ég eftir að fara í hnakkaþykktarmælingu. Fólk má hafa allar þær skoðanir sem það vill á Samþættu líkindamati. Þetta er mitt val og ég vel að fara í matið.
Hnakkaþykkt er fín og allt lítur vel út. Niðurstöðurnar í blóðsýninu eru hins vegar ekki nógu góðar. Þar koma fram auknar líkur á þrístæðu 13 og 18. 1 á móti 42. Þrístæður 13 og 18 þýða að ef barnið deyr ekki í móðurkviði þá deyr þáð á fyrstu dögum eða mánuðum lífs síns. Ég þarf væntanlega ekki að taka fram hversu gríðarlegt áfall þetta var.
Þetta var á föstudegi og fæðingarlæknirinn minn pantaði tíma fyrir mig í fylgjusýnatöku næsta mánudag. Sá galli er á gjöf Njarðar að það er 0,5 -2 prósenta líkur á fósturmissi eftir fylgjusýnatöku. Ég er eins og áður sagði 41 árs. Ég hef ekki orðið ófrísk í þrjú ár og líkurnar á annari óléttu litlar. Hættan var ekki nema 2,5% svo mér fannst áhættan ekki þess virði. Auk þess sagði fæðingarlæknirinn minn að þrístæðum 13 og 18 fylgdi svo mikil fötlun að hún sæist mjög líklega í 16 vikna sónar og nánast alveg örugglega í 20 vikna sónar. Ég tek því þá ákvörðun að fara ekki í fylgjusýnatökuna heldur bíða yfir jól og áramót eftir 16 vikna sónar. Auðvitað var biðin erfið. Ekki bætti úr skák að á þessum tímapunkti frétti ég að ónefnd kona í sveitinni hefur frétt af óléttunni og er að segja frá henni.
Fyrirgefið mér frekjuna, en eru þetta ekki mínar fréttir? Ég vil ekki vera þessi ,,Aumingja hún." ,,Guð, hún er búin að eiga svo erfitt." Ég vil hafa mínar vondu fréttir í friði. Ég vil eiga mínar erfiðu stundir í friði og fá að sleikja sárin í friði. Ég kæri mig ekki um vorkunnsemi. Svo get ég sagt frá því seinna þegar ég er búin að jafna mig. Á sama hátt vil ég geta sagt frá mínum góðu fréttum þegar mér hentar. Án þess að nokkrum manni komi það auðvitað við þá er tengdamóðir mín mun viðkvæmari en margur hyggur. Ef stúlkubarnið sem ég missti ber á góma þá tárast hún og verður klökk. Þess vegna var ég ekki búin að segja frá þunguninni. Ég var bara búin að segja minni nánustu fjölskyldu og vinum. Ég ætlaði ekki að segja tengdamóður minni frá þessu fyrr en ég væri orðin örugg.
Ég fer í 16 vikna sónar sem kemur sem betur fer mjög vel út. Á þessum tímapunkti hins vegar er ég komin með skrítið útbrot. 20 vikna sónar kemur einnig mjög vel út svo það er allar líkur á því að barnið sé heilbrigt. Guði sé lof og dýrð fyrir það:)
Hins vegar hafa útbrotin fært sig talsvert upp á skaftið. Allt í allt eru 6 læknar búnir að koma að þessum útbrotum. Í síðustu viku var tekinn úr mér bútur og sendur í ræktun. Niðurstaðan er: Gestational Pemphigoid. Það er ágætt að vita hvað er að en þetta er auðvitað ekki það besta sem gat gerst. Þetta getur nefnilega haft áhrif á fóstrið. Í sjálfu sér er ekkert við þessu að gera nema bara éta sterana sína, fara í vaxtarsónar og vona það besta.
En daginn áður en ég fékk þessar fréttir frétti ég að ónefnda konan hafi heimsótt tengdamóður mína og sagt henni að ég væri ólétt.
Ókey, það er farið að sjá á mér. Ég var að bíða eftir því að geta sagt tengdamóður minni frá því að ég væri ófrísk og það væri allt í lagi. Ég get að vísu ekki sagt henni að það sé allt í lagi en mig langaði að segja henni að ég væri ófrísk og það væru mestar líkur á að það væri allt í lagi.
Ég veit að þetta er lítið samfélag. Ég veit að fólki finnst gaman að tala. En þetta er mitt líf, mínar fréttir.  Það hljóta að vera einhver andskotans takmörk einhvers staðar!


Update í september.
Litli kútur fæddist síðla maímánaðar  og er sprækur og fínn.



Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...