mánudagur, desember 26, 2016

George Michael, öll hin og æskan.

Í minningunni eru unglingsárin böðuð töfraljóma sem er mjög skrítið því mér fundust unglingsárin hvorki sérstaklega góð né skemmtileg. Níundi áratugurinn var örugglega ekkert merkilegri en aðrir áratugir þótt í minningunni hafi aldrei verið gerðar skemmtilegri bíómyndir né betri tónlist. Reyndar hafa mér orðið á þau mistök að horfa á myndir seinna meir frá þessum tíma og sitja agndofa yfir draslinu. Ég hef því áttað mig á eins og auðvitað allir gera að töfrarnir sem lifa í minningunni voru töfrar sálar minnar sem var að komast til vits og ára og uppgötva heiminn.
Það hafa því ekki öll átrúnaðargoðin komist í gegnum fullorðinssíuna, Limahl situr t.d. eftir og núna langar mig nánast að gráta yfir vinsældum Working Girl.
George Michael hins vegar fylgdi mér stöðugt, alveg frá sumrinu 1984. Í minningunni er þetta ótrúlega gott sumar. Ég var í unglingavinnunni sem hafði aðsetur í Langholtsskóla. Við hlustuðum á vinsældapoppið og spiluðum Kana. Snickers kostaði 35 krónur. Wake me up before you go-go var smellur sumarsins. 


Það er agnarlítill möguleiki að George Michael sé ekki sætasti söngvari sem uppi hefur verið né besti lagasmiðurinn, þótt mér finnist það ósennilegt. Kannski er það bara sú staðreynd að hann fullorðnaðist með mér, var súkkulaðistrákur fyrir táningsstelpuna, töffari fyrir menntaskólapíuna og alvarlegur og sorgmæddur fyrir ungu konuna sem vissi ekki hvernig hún átti að fóta sig í veröldinni. Líf mitt hverju sinni var auðvitað aðalatriðið en tónlistin hans var passandi undirspil.



Ég veit að lífið heldur áfram, við eldumst öll og deyjum þótt ég hafi aldrei gert beinlínis ráð fyrir að það kæmi fyrir mig. Átrúnaðagoð æskunnar voru fjarlægir vinir og gott að vita af þeim einhvers staðar úti í hinum stóra heimi. Nú eru þau að hverfa eitt af öðru, Michael Jackson, Whitney Houston, David Bowie, Prince og núna George Michael. Ég þekkti þetta fólk auðvitað ekki neitt svo ég get illa syrgt þessa einstaklinga sem slíka. En ég syrgi  það sem þau stóðu fyrir. Ég syrgi tímabil og ég syrgi æsku mína sem verður fjarlægari með hverju fráfalli.

George Michael, ég þakka þér samfylgdina. Einhvers staðar er rosalegt band að spila.





föstudagur, desember 23, 2016

Litla prinsessan

I
Einu sinni voru kóngur og drottning í ríki sínu.  Reyndar var ríkið bara einn gamall kastali, heldur í niðurníslu, en ríki engu að síður. Þau áttu sér fimm börn, fjórar stúlkur og einn pilt.
Þar sem smákonungsdómur hafði verið niðurlagður þurftu konungurinn og drottningin að vinna fyrir sér. Þau ræktuðu blóm og kanínur og hjálpuðu börnin til framan af. Nema litla prinsessan. Litla prinsessa var hvorki yngst né minnst en hún var með svo slæmt mígreni að hún átti mjög erfitt með að vinna. Hún var því hálfgert súkkulaði í Hinu konunglega fjölskyldufyrirtæki og því kölluð litla prinsessa. Því skal ekki neitað að ákveðin beiskja bjó líka að baki nafngiftinni, hin systkinin voru andstyggðar smásálir og vildu meina að litla prinsessa hefði alltaf heilsu til að sinna hugðarefnum sínum og skemmtunum.
Þar kom að að kóngurinn og drottningin urðu gömul og þreytt. Þá kom upp úr dúrnum að prinsinn hafði hvorki áhuga á blóma- né kanínurækt og miðdóttirin ekki heldur. Hinar systurnar tvær, þessar andstyggilegustu, vildu hins vegar gína yfir Hinu konunglega fjölskyldufyrirtæki. Litla prinsessa sá að hún yrði að verja arfleifð foreldra sinna og ákvað að vera með. Hún fullyrti að hún yrði duglegri að vinna ef hún ynni í sínu eigin fyrirtæki en væri ekki undir öðrum. Fjölskyldan ræddi þetta fram og aftur og var að lokum ákveðið að leyfa litlu prinsessu að vera með. Fjölskyldan vildi meina að hún gæti aldrei nokkurn tíma staðið á eigin fótum hvort sem væri og engan prins var að sjá. Gamli kóngurinn og drottningin og systkinin tvö gáfu því systrunum þremur HKF með því skilyrði að því yrði haldið við og rekið áfram. Játtu þær því allar.

II
Líður nú tíminn en litla prinsessa vinnur heldur minna ef eitthvað er. Áhugamál og skemmtanir njóta heilsu hennar en vinnan síður. Skiljanlega, hinar systurnar tvær eru svo leiðinlegar alltaf hreint og gerðu alls konar kröfur. Litla prinsessa vildi vinna með fallegu blómin en ekki þrífa kanínubúrin, hún fékk svo slæmt mígreni af því. En fyrst hún ætti líka að vinna leiðinlegu vinnuna þá fannst henni eðlilegt að hún fengi hærra kaup. Vondu systurnar fullyrtu að hún væri á hæsta tímakaupinu, eins og hún gæti eitthvað gert að því að hún væri með mígreni og gæti ekki mætt á hverjum degi í vinnuna né unnið allan daginn. Svo bættu þær glottandi við „Fool me once, shame on you, fool me twice, shame on me.“
Það var svo erfitt að vinna með systrunum og andrúmsloftið var svo erfitt að nú tók litla prinsessa upp á því að hverfa langtímum saman. Hún var búin að ná sér í sykurpabba sem vildi allt fyrir hana gera og skildi hvað hún þurfti að þola. Helgarfrí teygði sig í tvær vikur. Hún sást ekki á háannatímum, hvorki mæðra- né feðradag. Gott á þessar ömurlegu systur, þær skyldu fá að sjá hversu mikið munaði um hana.
Einn daginn tilkynnti litla prinsessa að hún væri hætt og farin, hún ætlaði að búa með sykurpabbanum. Systurkvikindin urðu bara guðs lifandi fegin. Fullyrtu að nú gætu þau aftur fengið fólk í heimsókn því litla prinsessa væri nefnilega svo öfundsjúk út í börn að hún hrekkti þau og hræddi sem varð til þess að fáir komu í heimsókn í gamla kastalann. Nei, það voru engin takmörk fyrir skepnuskapnum.

III
Þegar litla prinsessa fór að búa með sykurpabba átti sér stað stórkostlegt karftaverk: Hún fékk heilsuna aftur! Skyndilega gat hún unnið eins og hestur, hvaða erfiðisvinnu sem var, heilu og hálfu sólarhringana ef því var að skipta. En auðvitað gátu vondu systurnar ekki glaðst yfir því. Nei, þeim fannst þarna vera komin staðfesting þess að litla prinsessa hefði ekki verið jafnveik og hún vildi vera láta og hefði leikið á þær og nánast alla í kringum sig. Þær gátu auðvitað ekki skilið að það að losna undan þrúgandi áhrifum þeirra var kraftaverkið. Já, og sykurpabbi ætlaði víst ekki að borga alveg allt, alltaf...
Fyrst þessar ömurlegu systur gátu hvorki glaðst með litlu prinsessu né skilið að hún hefði unnið miklu meira í HKF en þær héldu, já hún hafði hreinlega unnið alla vinnuna þá ákvað hún að hefna sín grimmilega. Hún ákvað að taka af þeim HKF. Hún átti sinn hlut og þær skyldu fá að borga hana út með blóði, svita og tárum. Nei, litla prinsessa var ekkert fífl.


To be continued...

http://palifiagirl.deviantart.com/


All characters and events depicted in this story are entirely fictitious. Any similarity to actual events or persons, living or dead, is purely coincidental.

sunnudagur, desember 18, 2016

Ruslapeningar

Nýverið var lögð fram fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar fyrir árin 2017-2020. Allt virðist vera í lukkunnar velstandi. Þá mætti sveitarstjórinn okkar í viðtal þann 20. júlí síðastliðinn til að fagna opinberlega öllum milljónunum sem eru þegar byrjaðar að rúlla niður af Þeistarreykjum í sveitarsjóð.
Þess vegna kemur á óvart að um hækkanir í gjaldskrá er að ræða. Sérstaklega kemur á óvart hækkun sorphirðugjalds um 15%. Sorphirðugjald var einnig hækkað á síðasta ári um 10%

Það lofaði mér því svo sem engin/n að sorphirðugjaldið myndi standa í stað hvað þá að mér dytti nokkurn tíma í hug að það myndi lækka, guð forði okkur frá svoleiðis vitleysu. Ég er líka mjög ánægð með umhverfisþáttinn og flokka með gleði í hjarta. True story.
Hins vegar veit ég að Brennslan á Húsavík var skelfilega dýr og því kannski ekki alveg út í hött að halda að sorphirðan myndi ekki hækka. Þá var talað um að meðaltal sorpmagns hvers íbúa í Þingeyjarsveit væri talsvert yfir landsmeðaltali* og flokkunin ætti að spyrna við því umframmagni. Aðallega auðvitað vegna þess að við höldum að íbúar annarra sveitarfélaga hafi verið að lauma í gámana okkar. Þá áttum við að njóta "samlegðaráhrifa" vegna samstarfs við Skútustaðahrepp. En þetta gengur sem sagt ekki betur en það að sorphirðugjaldið hækkar árlega. Eða það verð ég að ímynda mér, ekki gefur sveitarstjórnin neinar skýringar frekar en fyrri daginn. Og ekki er neinn héraðsmiðill hér lengur sem veitir valdhöfum aðhald.

Það er svo sem ekkert nýtt að íbúar fái ekki að njóta ágóða gæða né heppni sveitarfélagsins eins og við fengum að sjá á ljósleiðaratengingunni sem mun kosta sveitarfélagið mest lítið. En það er nú gott að meirihlutinn haldi fast um peninga sveitarfélagsins svo útvaldir geti notið þeirra. Og þau sjálf, auðvitað.






*Byggist á minni. Finn ekki skriflegar heimildir fyrir þessu.

þriðjudagur, desember 13, 2016

Er ekki kominn tími til að Tengja?

Það er verið að ljósleiðaravæða Þingeyjarsveit. Stóra kosningaloforð Samstöðu sem Sigmundur Davíð og íbúar sveitarfélagsins borga fyrir. Heimilið á Hálsi ákvað að tengjast. Við höfum undanfarið verið í viðskiptum við Magnavík og erum mjög ánægð með þá þjónustu en ókey, þetta er ljósleiðari.
Það er búið að leggja leiðarann og svo var okkur sagt að það yrði hringt í okkur og þá yrðum við að kaupa okkur þjónustuaðila og Tengir, sem leggur leiðarann, myndi koma og plögga okkur í samband. 
Fyrir síðustu mánaðarmót er hringt í okkur og tilkynnt að við getum keypt keypt okkur þjónustuaðila. Við erum í viðskiptum við Símann svo ég hringi þangað og kaupi Heimilispakkann. Í kaupbæti og af því að það eru að koma jól fæ ég einhvern karakkapakka til reynslu í desember. Ljómandi, krökkunum leiðist það ekki. Ég reyni að hringja í Magnavík en næ ekki í hann. Þar sem ég veit ekki alveg nákvæmlega hvenær þeir koma þá ákveð ég að áskriftirnar verði bara að skarast.
Núna er kominn 13. desember og mennirnir eru ekki enn mættir til að tengja okkur. Samt er meira en vika síðan að vinkona mín sem býr skammt frá var tengd. Svo frúin hringir:



"Já, góðan daginn. Þið hringduð fyrir mánaðamótin og sögðuð okkur að kaupa þjónustu og þið eruð ekki enn komnir."

"Já, sko við hringdum í alla svo allir væru klárir og svo tengjum við hjá þeim sem panta fyrst"'
"Sniðugt, svo allir pöntuðu strax svo sumir þurfa bara að bíða?"
"Nei, það pöntuðu nefnilega ekki allir strax svo þess vegna þarf að bíða"
"Ég pantaði strax. Af hverju þarf ég að bíða?"
"Það er ekkert hægt að tengja bara svona hist og her. Það þarf að vera smá uppsöfnun."
"Þú varst enda við að segja að þeir sem pöntuðu fyrst yrðu tengdir fyrst."
"Já."


Viðmælandi minn tilkynnti mér líka að þeir kæmu líklega í næstu viku, þeir hefðu líka bara lofað að tengja fyrir jól. Þannig að ég sé fram á að tengjast 23. desember.
Ég skil að þetta skarist, ég næ því. Ég skil líka að það sé betra að fólk sé tilbúið þegar þeir koma. Það er á allan hátt betra fyrir fyrirtækið. Það er ekkert sérstaklega gott fyrir kúnnann. Nú er ég í þeirri stöðu að borga áskrift sem ég get ekki notað, með fríðindi sem ég get ekki notið. Eins undarlega og það kann að hljóma þá er ég ekkert sátt við það.




Uppfært 14. des.
Ljósleiðarinn er tengdur😏

laugardagur, nóvember 19, 2016

"Lára klára elskar Ívar"

Ég segi sjaldan sögur úr kennslunni, aðallega vegna þess að mér finnst það ekki við hæfi en ekki vegna þess að mér finnist ekki gaman. Unga fólkið á Húsavík er almennt og yfirleitt yndislegt fólk :)
En núna er ég svo extra ánægð með unga fólkið að ég verð bara að deila því.

Í einum áfanganum lesum við smásöguna "Lára klára elskar Ívar" eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur sem birtist í Ég elska þig : frásagnir af æskuástum : níu sögur eftir ísl. höf. 1990. Þessi saga er tekin fyrir í bókinni Orðagaldri sem er ætluð til kennslu í framhaldsskólum.
Sagan fjallar um hina 13 ára gömlu Láru sem flytur úr Kópavogi til Reykjavíkur og þarf að byrja í nýjum skóla. Skyndilega stendur Lára frammi fyrir allt öðrum heimi, afar harðri unglingaveröld þar sem er asnalegt að ganga vel í skóla og útlitið skiptir öllu. Lára verður líka skotin í ríka, sæta gæjanum honum Ívari. Eftir að hafa slegið í gegn á árshátíð skólans fer Lára í fylleríspartý heima hjá honum sem endar með því að þau "sofa saman". Eða þannig hafði ég alltaf túlkað söguna.
Þegar við nemendur vorum að ræða söguna um daginn fullyrti unga fólkið, og alveg sérstaklega strákarnir, að Ívar hefði nauðgað Láru. Ég varð hálfundrandi á þessari túlkun. Þegar ég les söguna aftur með þessum gleraugum, og ég hef lesið hana nokkrum sinnum, sé ég að þetta fer ekkert á milli mála:
    Ég reyndi að mótmæla þegar Ívar klæddi mig úr fötunum, reyndi að stympast við þegar hann lagðist allsber ofan á mig, en hann sagði bara láttu ekki svona, ég veit að þú vilt þetta, þið viljið þetta allar. Og ég var svo full að ég gat ekki barist á móti. Lá bara þarna eins og dauðyfli, angandi af ælu og brennivíni og lét hann fara sínu fram. Táraðist af skömm og sársauka og ógeði þegar hann ruddist frekjulega inn í mig, kreisti aftur augun til að þurfa ekki að horfa framan í heimskulegt fésið á honum. Ástin var horfin út í veður og vind. Ekkert eftir nema tvær sjúskaðar druslur, Lára og Ívar. Stjarna kvöldsins og draumaprinsinn hennar. (Olga, 1990, bls. 241.)
Ég verð að viðurkenna að ég skil bara ekki hvernig mér gat mögulega dottið eitthvað annað í hug en að þetta væri nauðgun í hin skiptin sem ég hef lesið söguna. Kannski vegna þess að söguhetjan sem einnig er sögumaður bregst ekki við eins og um nauðgun hafi verið að ræða. Lára læðist út um morguninn og fer til vinkonu sinnar og sagan endar eins og það sé frekar að birta til. 
Tek aftur upp tólið og hringi heim til Möggu. Eftir
þrjár hringingar svarar rnamma hennar.
- Þetta er Lára. Má ég koma?
- Já, Lára rnín, gerðu það. Við Magga höfum verið að bíða eftir þér.
Vinir sem vaka eftir manni heila nótt, mjó1kurglas og kleina, hlýr svefnpoki, koss
á kinn ...
Það getur verið að eg lifi þetta af.
(Olga, 1990, bls. 242.)
Kannski hef ég nálgast söguna á röngum forsendum, þetta á jú að vera saga af æskuást. En hvað sem því líður þá er unga fólkið orðið meðvitað og sá strax að þetta var ekki í lagi. Það er ekki ekki annað hægt en að gleðjast yfir því.






mánudagur, nóvember 07, 2016

Til hvers er KÍ?

Undanfarin ár hefur staðið nánast blóðug barátta á milli Félags framhaldsskólakennara og Vísindasjóðs FF og FS. Nú er svo komið að báðir aðilar hafa ráðið sér lögfræðinga, já nokkra, og hvert lögfræðiálitið er skrifað á fætur öðru. Svo virðist sem persónuleg kerkja sé hlaupin í aðila og stjórni talsvert. Þetta er svo sem gott og blessað. Ef deiluaðilar borguðu þessu ósköp sjálfir, svo er ekki. Við félagsmenn borgum þennan sirkus fullu verði fyrir báða aðila. 
Ég er ekki að taka afstöðu í þessu máli, báðir málsaðilar hafa nokkuð til síns máls. Og bara svo það sé sagt þá tel ég að allir viðkomandi séu hæfir og starfi sínu vaxnir. Fólk er ósammála og deilir. Það er eðlilegt. Það truflar mig hins vegar ákaflega að því hafi verið hleypt í þennan farveg og á þetta stig. Framhaldsskólakennarar eru með lausa samninga, lífeyrismálin okkar eru í uppnámi og verið er að eyða tíma og orku í þessi ósköp.

Undanfarið hef ég verið talsvert hugsi yfir tilgangi KÍ. Satt best að segja hefur hvarflað að mér að betra væri fyrir Félag framhaldsskólakennara að segja skilið við sambandið. Ég á bágt með að skilja að í þessu bákni, því bákn er þetta orðið, sé enginn ferill eða viðbrögð við svona aðstæðum. Að vísu er upphafs þessarar deilu  að leita hjá KÍ svo kannski eðlilegt að annar aðilinn beri ekki traust til sambandsins. 

Margir leikskólakennarar landsins hafa líka velt fyrir sér tilgangi KÍ.

Grunnskólakennurum landsins er nóg boðið og sitja samningslausir líka. Þeirra samningsaðilar eru búnir að gera tvo samninga sem báðir hafa verið felldir. Samt situr þetta fólk sem fastast frekar en að játa sig sigrað og hleypa nýjum vöndum að.

Getur verið að KÍ sé klíka útvalinna sem er ekki í nokkrum tengslum við félagsmenn sína?


sunnudagur, október 30, 2016

Litlu konurnar

Einhvern tíma þegar ég var í bókmenntafræðinni var talað um rýran hlut kvenna í bókmenntakanónunni og loks þegar einhver konan gaf út ljóðabók þá hét hún "Ein lítil kvæðabók" eða eitthvað þvíumlíkt. Hún var alla vega "lítil" á einhvern hátt. Kennarinn sagði að þetta væri dæmigert, konur reyndu að láta lítið fyrir sér fara og ef þær gerðu það ekki sjálfar þá sæi samfélagið um það.

Þessi tími rifjaðist upp fyrir mér nýverið því ég sé alveg ítrekað í kommentakerfum talað um Katrínu Jakobsdóttur, formann næststærsta stjórnmálaflokks Íslands sem "Kötu litlu." 

Það má vera að Katrín sé heldur lágvaxin en ég fæ ekki séð að t.d. Birgitta Jónsdóttir sé mikið hærri. Samt dettur engum í hug að tala um "Gittu litlu."



Enda er fáránlegt að uppnefna fólk eftir útlitseinkennum eða aldri. Aldrei var Davíð Oddsson uppnefndur "Eyrnastór" eða Óttarr Proppé "Ljóska." Engum dettur í hug að tala um "Simma litla" þótt hann sé aðeins ári eldri en Katrín.(Og afsakið að ég setji þetta á prent I'm just trying to make a point.)
Því miður er það enn viðurkennd aðferðafræði að gera lítið úr konum, t.d. með því  að höggva í útlit eða aldur.  En hvorugt á við því Katrín er, eins og áður sagði, hvorki sérstaklega lágvaxin né mikið yngri en almennt gengur og gerist með stjórnmálamenn. Þá hafa sumir skeytt því við að "Gráni gamli" stjórni enn á bak við tjöldin því að sjálfsögðu getur kona ekki stjórnað stjórnmálaflokki svo vel sé.
Þetta snýst að sjálfsögðu um það eitt að gera lítið úr einstaklingi sem sumir upplifa sem hættulegan pólitískan einstakling. 
Katrín Jakobsdóttir er mjög fær stjórnmálamaður og það er nákvæmlega ekkert lítið við hana. Hættið þessari kvenfyrirlitningu.

mánudagur, október 10, 2016

Tæknifrúin: Heilsuvera

Tæknin á að auðvelda okkur lífið og í þessu tilfelli gerir hún það svo sannarlega.
Ef ég þarf að endurnýja lyfseðla þá er símatími hjá Heilsugæslunni á milli 9-10 á morgnana. Á þessum tíma er ég yfirleitt bundin í vinnu og geri ráð fyrir að fleiri séu það líka. Nýverið var mér hins vegar bent á vefinn Heilsuvera þar sem ég get beðið um endurnýjun á lyfseðlum í gegnum vefinn. Ég get sem sagt endurnýjað þega ég man eftir því, um helgar t.d. 

Það þarf rafræn skilríki til að geta skráð sig inn á vefinn. Ég held ég fari rétt með að bankarnir ætli að taka upp rafræn skilríki nú um áramótin og afnema auðkennislykla svo við þurfum hvort sem er að fá okkur rafræn skilríki. 
Til að geta nota rafræn skilríki í símanum þarf nýlegt símkort. Hægt er að athuga hvort símkortið virki er hægt að slá inn númerið sitt á vef Auðkennis. 
Best held ég að sé að fara í sinn banka og láta virkja skilríkin. Ég er í Arion banka sem er ekki á Húsavík en elskulega fólkið í Íslandsbanka gerði þetta fyrir mig.

Minnkum símaálagið á Heilsugæslunni og auðveldum sjálfum okkur lífið.

laugardagur, október 08, 2016

Telur Félag grunnskólakennara óþarft að auglýsa stöður?

Öll störf skulu auglýst laus til umsóknar á opinberum vettvangi. Skal það gert með 14 daga fyrirvara að jafnaði. Þó er ekki skylt að auglýsa afleysingastörf, svo sem vegna fæðingarorlofs, námsleyfis eða veikinda, eða störf þar sem ráðning skal standa 12 mánuði eða skemur eða tímavinnustörf. Ef sveitarfélag lítur svo á að ráða skuli í starf með uppfærslu innan starfsgreinarinnar eða frá hliðstæðum starfsgreinum er heimilt að auglýsa á þeim vettvangi einum.
Eftir verulega ósmekklega aðferðafræði við einhliða uppsagnir kennara Litlulaugadeildar Þingeyjarskóla 2015 kom í ljós um sumarið sama ár að fv. skólastjóri skólans, sem var sagt upp þótt engar formlegar kröfur væru þar um og fv. aðstoðarskólastjóri Hafralækjardeildar sem hafði að sögn sagt upp sjálfur* voru þau ráðin aftur að skólanum án auglýsingar. Þessi gjörningur verður í ljósi undanfarans að teljast afar óeðlilegur. 
Ekki er hægt að telja að um tilfærslu innan stofnunar sé að ræða þar sem bæði voru með uppsögn í vasanum þótt mismunandi væru.
Haustið 2015 hefði verið hægt að telja að um tímabundna ráðningu væri að ræða en nú er 12 mánaða tímaramminn liðinn og viðkomandi enn í óauglýstum störfum við skólann. 

Til samræmis við hlutverk mitt sem erfiða konan sendi ég fyrirspurn á Félag grunnskólakennara um hvort því finnist þetta eðlileg vinnubrögð um miðjan ágúst síðastliðinn. Ég hef í gegnum tíðina talað við ýmsa starfsmenn án þess að fá skýr svör enda erfitt fyrir óbreytta starfsmenn að taka ábyrgð á einhverjum fullyrðingum svo ég sendi fyrirspurnina beint á formann félagsins. Ég sendi sýnilegt afrit (cc.) á ritstjóra 641.is þar sem ég vissi að hann var að velta fyrir sér að senda fyrirspurn á sveitarstjórn. Ég fæ svar þess efnis að frekari upplýsingar þurfi svo hægt sé að taka afstöðu til málsins. Ég upplifi svarið sem "dismissive" þ.e. að verið sé að vísa umleitaninni á bug en svara um hæl að ég geti gefið allar þær upplýsingar sem þurfi ég þurfi bara að vita hverjar þær séu. Tæpum sólarhring seinna hefur svar ekki borist svo ég sendi aftur póst þar sem ritstjórinn og formaður KÍ fá sýnilegt afrit (cc.) Pósturinn er harðorð ítrekun og ég áskil mér rétt til að fjalla um samskiptin á þessari bloggsíðu. Þá fæ ég svar samdægurs þess efnis að ég sé óþarflega óþolinmóð og að "hótanir" séu ekki vænlegar til árangurs og svo með spurningum um hver ég sé og hvort ég hafi áhuga á að sækja um og hvaðan upplýsingarnar komi.
Þessu svara ég öllu og bæti við að ég muni sýna biðlund. Þá fæ ég  það svar að lögfræðingur félagsins verði settur í málið. Þetta svar berst 17. ágúst síðastliðinn.

Síðastliðinn mánudag 3. okt. finnst mér ég hafa sýnt næga biðlund og sendi fyrirspurn á lögfræðing félagsins hvort eitthvað hafi komið út úr eftirgrennslan. Miðvikudaginn 5. okt. berst mér svar þar sem mér er bent að tala við formanninn og cc-að á formanninn. Þetta þykir mér sérstakt en sendi sömu fyrirspurn á hann. Það hefur ekki enn borist svar en fimmtu- og fösturdagur voru eins og allir vita venjulegir virkir dagar.

Það eru nokkrir möguleikar í stöðunni:

a) Erindið gleymdist.
Þá finnst mér samt eðlilegt að ég sé látin vita af því. Shit happens, það er bara þannig.

b) Erindið hefur ekki enn komið inn á borð lögfræðingsins.
Þá á lögfræðingurinn að segja mér það.

c) Að ég hafi verið dæmd erfið og hlutdræg kona sem verið sé að humma fram af sér.
Það veit Guð heilagur að ég er erfið kona og ég er svo sannarlega mörkuð af samskiptum mínum við forvera viðkomandi stofnunar og hlutdræg eftir því þótt ég virkilega reyni að vera það ekki. Ég hef aldrei reynt að leyna því. Hins vegar geta erfiðar konur haft rétt fyrir sér. Og hvaðan kæmu þessar upplýsingar ef þetta er tilfellið? Væntanlega frá aðila innan stofnunarinnar sem er í náðinni og þ.a.l. alveg jafn hlutdrægur og ég. Ég hefði haldið að það væri einmitt tilgangur stéttarfélags að kanna báðar hinar hlutdrægu frásagnir og komast að hlutlausri niðurstöðu.

d) Skólinn hafi verið að losa sig við vanhæfa einstaklinga og reyna að forðast að fá þá aftur til starfa og félagið horfi því í gegnum fingur við skólann.
Annað eins hefur gerst, mikil ósköp. En við komum aftur að hvaðan þær upplýsingar komi. Þær geta ekki komið frá öðrum en hlutdrægum aðila. Þeir einstaklingar sem sagt var upp voru dæmdir og léttvægir fundnir en það var gert á forsendum vægast sagt hæpins hæfismats. Aftur og enn fyndist mér eðlilegt að félagið myndi meta þetta.

Ég vona að það sé einhver einföld skýring á þessu svaraleysi því það hlýtur að vera öllum grunnskólakennurum í óhag ef stéttarfélagi þeirra finnst eðlilegt að stöður séu ekki auglýstar.

Ég er alls ekki að útiloka þann möguleika að rétt hafi verið að öllu staðið hjá skólanum en það er þá eðlilegt að það sé upplýst.

*Eftir því sem ég best veit. Kannski fékk hann starfslokasamning og var á tvöföldum launum líka í heilt ár.

fimmtudagur, október 06, 2016

Prelude

Eins og útsvargreiðendum í Þingeyjarsveit ætti að vera orðið ljóst þá gerði sveitarstjórnin allmerkilegan starfslokasamning við fv. skólastjóra Þingeyjarsskóla sem tók gildi í fyrra. Samningurinn hafði í för með sér að viðkomandi var á tvöföldum launum hjá okkur útsvarsgreiðendum í heilt ár. Gleður sig allt gott fólk við þá staðreynd á meðan það borgar reikninginn frá Tengi.

Árið 2013 vildi meirihluti sveitarstjórnar endilega gefa öllum kennurum Þingeyjarskóla eina kennslustund í kennsluafslátt og skólastjórnendum enn fleiri því það var svo ægilega erfitt að vinna við sameinaðan skóla. Kom þá upp úr dúrnum að sveitarstjórnin gat það ekki þar sem hún ásamt öðrum sveitarstjórnum landsins hefur afhent samningsumboð til kjarasamninga til Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Nú velti ég því fyrir mér hvort svona starfslokasamningar, sem virðast almennt gerðir við skólastjórnendur, standist þetta afsalaða samningsumboð. Starfslokagreiðslur hljóta að falla undir kjör skólastjórnenda og þá ætti sambandið að vera samningsaðilinn.

Annars er ég bara að drepa tímann að meðan ég bíð eftir svari frá formanni og lögfræðingi FG um auglýsingaskyldu starfa. Tekur lygilega langan tíma að svara erindinu.





föstudagur, september 30, 2016

"Það er nú eitt helvítið."

Þann 17. september síðastliðinn lést tengdamóðir mín, Þórhildur Vilhjálmsdóttir. Ég hefði svo gjarna viljað skrifa minningargrein um tengdamóður mína en þegar til átti að taka þá áttaði ég mig á því að í raun þekkti ég konuna lítið sem ekkert. Jú, vissulega þekkti ég Tótu en ég þekkti hana aðeins sem fullorðna, veika konu sem hafði að miklu leyti lokað sig af frá heiminum og samskiptum við annað fólk. Þegar við fórum að skoða gömul albúm til að finna góða mynd sá ég að þarna var saga sem ég þekkti ekki.

Þórhildur Björk Vilhjálmsdóttir fæddist að Rauðá, Ljósavatnshreppi, þann 1. júní 1938. Hún ólst upp á músíkölsku og listrænu heimili. Hún spilaði á gítar og seinna meir greip í stundum í munnhörpuna og sögina heima við. Faðir Tótu var listasmiður og smíðaði helst eða gerði upp kistur ef ég hef skilið rétt. Tóta málaði svo myndir á húsgagnið, annað hvort upp úr sjálfri sér eða ofan í mynd sem var fyrir.
Frænka hennar sagði mér nýverið frá því að Tóta hefði stundum komið í Rauðá til vikudvalar til að mála. Frænkunni hafði fundist mjög skemmtilegt að vera hjá Tótu og fylgjast með. Frænkan hafði nú reyndar laumað því að mér áður að hvinið hefði í tengdó í þessum listaferðum ef tóbakslaust varð í Rauðá.
Tóta gaf mér fyrir nokkrum árum dýrgrip sem hún og pabbi hennar gerðu í sameiningu. Það er hilla sem hann bjó til en hún skóf í skuggamyndir.

Hillan góða (létt ófókuseruð.)

Þegar ég skoðaði albúmin sá ég virka og lifandi konu sem hafði hin ýmsu áhugamál. Fyrir utan listsköpunina þá hafði hún líka áhuga á praktískum hlutum og sinnti fuglahaldi fjölskyldunnar og garðyrkju. Hún kom líka að sauðfjárhaldinu.
Þá sótti hún hin ýmsustu námskeið og veigraði ekki fyrir sér að fara gangandi með Singer saumavélina í saumaklúbbana því hún tók aldrei bílpróf.
Auðvitað var hún bundin í báða skó yfir börnum lengi vel enda átti hún ein fimm stykki. Því miður fór það svo að hún fékk ekki langan tíma fyrir sjálfa sig því þegar hún var fimmtug fékk hún heilablóðfall sem sló hana niður. Hún varð hölt og vinstri handleggurinn var henni ónýtur. Eftir þetta hélt hún sig til baka og má því miður segja að hún hafi koðnað niður.
Heilinn var samt alltaf í lagi og hún hélt honum við með lestri bóka og brennandi áhuga á fótbolta, aðallega þeim enska.
Þegar ég kom inn í fjölskylduna þá var EM 2006 í gangi og við tengdamamma fylgdumst saman með því. Karlpeningurinn á Hálsi hafði engan áhuga á boltanum. (HHG bjó ekki heima þá.)
Fyrir utan sameiginlegan bókaáhuga og tilfallandi fótboltaáhuga minn náðum við því miður ekki meira saman. Nema að einu leyti: Báðum leiddust okkur húsverkin. Eða eins og tengdamamma mín orðaði það: "Það er nú eitt helvítið." Ég gæti ekki verið meira sammála.
Takk fyrir samfylgdina,Tóta.



mánudagur, september 26, 2016

20 ár

Í dag eru liðin tuttugu ár síðan faðir minn lést, nýlega orðinn 55 ára gamall. Fimmtudaginn 26. september klukkan hálfníu um kvöldið. Við systur vorum nýkomnar heim frá að sækja langa sjónvarpssnúru til að geta tengt sjónvarpið inn í herbergi hjá honum. Við héldum að það væri meiri tími. En sem betur fer var samt ekki meiri tími. Maður sem hafði alltaf verið þrekinn var kominn undir 60 kíló. Við vorum bara að bíða.
Biðin var erfið. Það var erfitt að horfa upp á pabba sinn, manninn sem allt gat, lúta í lægra haldi fyrir hinum óboðna gesti. Að sjá líkamann veslast upp en heyra vit hans í röddinni og greina sál hans í augunum. Hann sjálfur var þarna allan tímann, vissi nákvæmlega hvað var að gerast. Ósáttur við örlög sín en æðrulaus.

Ég veit eiginlega ekkert hvað ég var að gera árið eftir að hann dó. Ég held að engin okkar mæðgna viti það. Lífið hélt einhvern veginn áfram á sjálfstýringu. Ég varð meðvituð um að ódauðleiki minn væri tálsýn. Það var hoggið stórt skarð í varnargarðinn sem verndaði mig fyrir brimróti tímans.

En lífið heldur áfram. Þetta erfiða síðasta ár er orðið lítill hluti af sögu lífs hans. Ég get framkallað alla hina kaflana jafnauðveldlega. Hinn sérstaki dans hans stendur þó upp úr.

Þau eru orðin nokkur árin síðan að ég hugsaði að nú væri gott að hringja í pabba og fá ráð. Mér finnst samt skrítið að börnin mín hafi aldrei hitt og muni aldrei kynnast manninum sem lifir svo ljóslifandi í minningu minni.

laugardagur, september 24, 2016

Ágætu Framsóknarmenn

Nú er það þannig að ég er ekki í Framsóknarflokkinum svo í rauninni ætti ég að vilja að þið hélduð Sigmundi Davíð sem formanni. Ég þarf auðvitað ekki að rekja þessa sögu alla en maður sem telur sig hafinn yfir að tilheyra efnahagsumhverfi á ekki að stjórna því. Hann á ekki að sitja beggja vegna borðsins þegar hann semur um mikla hagsmuni fyrir þjóð sína. Eftir ósköpin sem skullu yfir í apríl og hvernig hann hefur svo brugðist við er ljóst að mun færri geta hugsað sér að kjósa Framsóknarflokkinn en áður. Þetta vitið þið. Ykkur ætti einnig að vera ljóst að ykkar helsti samstarfsflokkur í gegnum tíðina mun ekki fara í samstarf með ykkur eftir kosningar á meðan Sigmundur Davíð er í brúnni. Ekki nema auðvitað með mikilli eftirgjöf af ykkar hálfu. Sjálfstæðisflokkurinn fyrirgefur ekki að reynt sé að kúga hann til hlýðni. Formenn flokkanna hafa ekki talast við mánuðum saman.
Sigmundur Davíð verður aldrei aftur forsætisráðherra Íslands. Sem þýðir að á meðan hann er formaður Framsóknarflokksins mun forsætisráðuneytið ekki falla í skaut Framsóknar.

Sigurður Ingi hefur á stuttum tíma náð að verða mun landsföðurlegri en Sigmundi Davíð nokkurn tíma. Það fylgir honum líka ákveðin ró og yfirvegun. 

Þótt ég muni ekki kjósa Framsóknarflokkinn þá bý ég í þessu landi. Það er mér ákaflega í hag að vinnufriður sé í þinginu. Fasísk orðræða Sigmundar Davíðs er mér líka ákaflega ógeðfelld. Daður við rasisma, paranojan, öll framgangan veldur hér sundrungu og ófriði í samfélaginu.
Svo ég bið ykkur lengstra orða að kjósa Sigurð Inga sem formann á komandi flokksþingi jafnvel þótt það hafi í för með sér að þið fáið meira fylgi. 


miðvikudagur, september 21, 2016

Að missa boltann á lokametrunum

Ég var spurð að því í dag, í góðu og skemmtilegu spjalli, hvort ég teldi að meirihluti sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar gerði ekkert gott. Ég sagði viðmælanda mínum og langar að nú að segja opinberlega að ég tel svo alls ekki vera. Þessi sveitarstjórn hefur nefnilega gert margt gott; 

Núna eru að koma tekjur af Þeistareykjum sem var ekki sjálfgefið. Að öðrum ólöstuðum þá veit ég að Arnór hefur unnið mikið og gott starf varðandi það og á þakkir skildar.

Það er loksins komin af stað uppbygging við Goðafoss sem var orðin aðkallandi. Það hafðist og er þakkarvert.

Umhverfisvæn sorphirða er að hefjast sem er ábyrgðarhluti á þessari einu jörð sem við eigum.

Það sem truflar mig á stundum er  hvernig hlutirnir eru gerðir.

Það var löngu orðið tímabært að sameina skóla, við vitum það öll. Þessi meirihluti tók loksins af skarið og er það vel. Hins vegar var aðferðafræðin við sameininguna og framkoman við fólk
hræðileg. Sérstaklega sú einfalda staðreynd að það var engin sameining, annar skólinn var bara lagður niður.

Nú er verið að ljósleiðaravæða sveitarfélagið og gengur vel. Auðvitað hefur heppni spilað inn í og góðar tímasetningar en sveitarfélagið hefur náð mjög góðum samningum og styrkjum. Það er hreint út sagt mjög vel að verki staðið og eiga þau hrós skilið fyrir það. En svo er ekki hægt að leyfa íbúunum að njóta þessara góðu samninga. 

Það er þetta klúður á lokametrunum sem truflar mig. Svakaleg fínt samspil eða sóló og stundum hraðaupphlaup og svo er skotið í stöngina. Þetta er beinlínis grátlegt.


mánudagur, september 12, 2016

Ljósleiðaravæðingin - framhald

Samkvæmt nýjum upplýsingum sem ég hef fengið í hendur kostar tengingin allt í allt 180.340.000 án virðisauka. 
75 milljónirnar sem þegar eru komnar frá ríkinu dragast frá þessari tölu. Hafið í huga að ég veit ekki hvort einhver virðisauki sé í þessari tölu. Það er heldur líklegt að styrkur fáist fyrir 250 tengingum allt í allt (en ekki öruggt) og verður þá framlag ríkisins allt í allt 123.750.000.
Tengigjöld miðað við 250 heimili eru 50.403.000.
Vinsamlegast hafið í huga að þessar upplýsingar eru þvert á fyrri upplýsingar, þ.e. 180 milljónirnar eru ekki fyrir utan styrk né tengigjöld.

Fáist ekki meiri styrkur verður framlag Þingeyjarsveitar í mesta lagi tæpar 55 milljónir eða ca. 220 þús. á heimili miðað við 250 tengingar. 

Fari allt á besta veg gæti framlag Þingeyjarsveitar orðið 5.847 milljónir.* Það er um 25.000,- á hvert heimili. Það ívið lægra en 750 þúsundin sem upphaflega var talað um.

Þessar tölur miðast allar við að 250 heimili tengist. 
Ég ítreka fyrirvara vegna virðisaukaskatts.

Ég vil svo þakka Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir að ljósleiðaravæða Þingeyjarsveit og minnihlutanum fyrir að tryggja okkur betri samninga.


*Til að setja í samhengi má benda á að þetta er lægri upphæð en starfslokasamningur fv. skólastjóra kostaði sveitarfélagið.

föstudagur, september 09, 2016

Íbúar niðurgreiða kosningaloforð Samstöðu

Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2014 setti Samstaða fram tvö stór loforð: íbúakosningu um skólasameiningu og ljósleiðaravæðingu sveitarfélagsins. Tvö helstu baráttumál nýja meðlimsins. Loforðið um ljósleiðarann var svohljóðandi:



Frambjóðendum Samstöðu er ljóst að verkefnið er dýrt en "mikilvægt fyrir alla framþróun." Hvergi er þó nefnt hér að hvert heimili þurfi að borga fyrir lagninguna. Ég held að flestir hafi þó gert sér grein fyrir því en það er ekki nefnt.

Þann 5. nóvember 2014 skrifar Árni Pétur Hilmarsson pistil í Hlaupastelpuna (og 641.is birti svo) þar sem hann setur fram rök og hugmyndir meirihlutans um ljósleiðaravæðinguna. Undir lokin segir svo:
Miðað við frumútreikninga þá er verkefnið stórt og kostnaður rétt rúm milljón pr. heimili. Okkar fyrstu áætlanir gera ráð fyrir því að kostnaðarhlutdeild hvers heimilis verði um 250 þúsund, því verður niðurgreiðsla sveitarfélagins og samstarfsaðila umtalsverð.

Ekki er útséð um aðkomu opinbera sjóða að framkvæmdinni. Þau heimili sem ætla sér að koma inn síðar bera mun hærri kostnað. (Leturbreyting mín.)
Hér  er gert ráð fyrir því að það kosti ríflega milljón að tengja hvert heimili við ljósleiðara, heimilið beri af því 250 þús. króna kostnað en sveitarfélagið og samstarfsaðilar þess greiði þessi rúmlega 750 þús. sem út af standa. Gríðarlega kostnaður fyrir sveitarfélagið en fullkomlega þess virði að mati fulltrúans. Þarna eru þessar 250 þúsund krónur fyrst nefndar.

Í nóvember 2014 er gerð Viðhorfskönnun meðal íbúa Þingeyjarsveitar í nóvember 2014, aðallega um skólasameininguna en þá var íbúakosningin mikla búin að koðna niður í viðhorfskönnun. En í viðhorfskönnuninni flutu með spurningar um ljósleiðaravæðinguna.
Þar var spurt annars vegar hversu líklegt það væri að heimilið tæki inn ljósleiðara ef stofngjaldið yrði 250 þús. og hins vegar ef það væri 200 þús. Það er dálítið erfitt að lesa í könnunina þar sem ólíklegt er að þeir sem töldu mjög líklegt að þeir tækju inn ljósleiðara fyrir 250 þús. hafi verið spurðir um 200 þúsundin. Ég ætla samt að leyfa mér að álykta að líkurnar hafi aukist.

Um áramótin vænkast skyndilega hagur Strympu þegar þáverandi forsætisráðherra tilkynnir í áramótaávarpi sínu að:
Á nýju ári verður hafist handa við eitt stærsta framfaramál sem hægt er að ráðast í til að styrkja innviði og byggðir landsins. Hafin verður vinna við átaksverkefni við að ljósleiðaravæða allt landið, hvern einasta bæ, hvern dal og fjörð og tengja þannig landið allt við hraðbraut upplýsinga og samskipta.
10 apríl síðastliðinn berast svo fréttir af því að Þingeyjarsveit hafi fengið styrk frá Fjarskiptasjóði upp á 75 milljónir fyrir 150 tengingar. Gleðst allt gott fólk yfir því. Takið eftir að þessi styrkur er fyrir árið 2016 og ekkert sem segir að ekki sé mögulegt að fá styrk líka 2017.

Þann 3. júní sl. berast svo þær fréttir að tilboði Tengis upp á 180.340 milljónir hafi verið tekið og að það sé talsvert undir kostnaðaráætlun sem hljóðaði upp á 322 milljónir. Næææs...
En bíðum nú hæg, stofnkostnaður hvers heimilis er enn 250 þúsund! Hvernig má það eiginlega vera? Hér hefur allt gengið okkur í hag; góður styrkur og tilboð talsvert undir kostnaðaráætlun. Af hverju lækkar ekki stofnkostnaður heimilanna?

Skv. mínum heimildum, og eftir minni, er samningurinn nokkuð flókinn en fyrst ber að nefna að samið hafði verið um að það fyrirtæki sem fengi verkið fengi styrkinn. Tilboðin eru því fyrir utan styrkinn. Í beinu framhaldi af því má samt spyrja hvort kostnaðaráætlunin sé með styrkinn innifalinn eða ekki.
Díllinn er sá að Þingeyjarsveit þarf aldrei að borga meira en 180.340 milljónir. Þessi tala miðast við að ca. 70-80% heimila taki inn ljósleiðarann, borgi sín 250 þúsund og áskriftina. Tilboðin voru víst einnig fyrir utan stofnkostnað heimilanna. Taki fleiri heimili inn ljósleiðarann þá getur þessi upphæð lækkað umtalsvert fyrir Þingeyjarsveit.

Vissulega eru 180 milljónir mikill peningur: Það samt talsvert minna en upphaflega var gert ráð fyrir þegar 250 þúsundin voru fyrst nefnd. Af hverju fá heimilin ekki að njóta þess? Það er vegna þess að pólitísk ákvörðun hefur verið tekin um að lækka ekki stofnkostnaðinn. Og taki fleiri heimili inn ljósleiðarann og borgi þar með áskriftargjaldið (sem ætti að vera komið í ljós núna)  og kostnaður sveitarfélagsins lækkar umtalsvert þá munu heimilin samt ekki njóta þess. Sama gildir þótt sveitarfélagið fái fleiri styrki frá Fjarskiptasjóði. Verði einhver ágóði af verkefninu telur sveitarstjórnin eðlilegt að sveitafélagið njóti hans til góðra verka.
Góðu verkin eru margvísleg eins landsmenn hafa fengið að reyna.
En auðvitað þarf sveitarfélagið að eiga fyrir starfslokasamningum og tvöföldum launum fyrir útvalda. Og launum sveitarstjórans og oddvitans auðvitað. 





laugardagur, september 03, 2016

Tæknifrúin: PDF skjöl

Við kennarar þekkjum það vel að ljósrita greinar eða aðra texta fyrir nemendur. Iðulega er svartur rammi í kringum skjalið og blekeyðslan skelfileg þegar stór bunki er ljósritaður.
Nú í seinni tíð skönnum við textann inn og deilum með nemendum á netinu og komum þannig í veg fyrir pappírs- og blekeyðslu. Hins vegar eru skjölin stundum skökk og jafnvel á hliðinni þegar skannað er upp úr A5 skjölum. Það er hægt að snúa skjalinu (hægrismella, rotate) í tölvunni en það er erfitt að vista það þannig, alla vega í ókeypis Acrobat reader.
Mér leiddist þetta óskaplega og eins og alltaf var til lausn á netinu. Ég prófaði ýmislegt en það forrit sem ég er ánægðust með heitir PDFescape. Á þessari síðu hleð ég inn skjalinu og svo get ég snúið síðunum, rétt þær af, hvíttað yfir svarta rammann og/eða verkefni sem ég tel óþörf í það skiptið. Svo vista ég skjalið og hleð því niður.

Ef ég vil sameina PDF skjöl eða "splitta" þeim þá þarf ég að nota annað forrit. Yfirleitt leita ég bara í hvert skipti "split PDF" eða "merge PDF". Ég nota oft þessa síðu. Þið sjáið að hún býður líka upp á "convert" sem er þægilegt að hafa við hendina. Stundum eru nemendur með önnur ritvinnsluforrit en Word. Ég nota að vísu alltaf Zamzar síðuna en það er bara smekksatriði.

Það er til hellingur af ókeypis forritum á netina og um að gera að leita bara og fikta sig áfram. En útrýmum endilega svörtu römmunum!


Dæmi um scan.

laugardagur, ágúst 13, 2016

Fordæmalaus staða

Það kom illa fram hjá mér í gær í síðasta pistli en ég sendi fyrirpurn til SÍ um venjur í starfslokasamningum. Fyrirpurnin var svona:

a) er venja í starfslokasamningum að launþegi haldi bæði launum sínum og öllum hlunnindum á starfslokatímabili?
b) er venja í starfslokasamningum að launþegi haldi starfslokagreiðslum á starfslokatímabili þótt hann fái aðra vinnu i) annars staðar ii) hjá sama launagreiðanda?

Svarið sem ég fékk var já við hvoru tveggja, SÍ legði til að þetta væri gert í starfslokasamningum sinna umbjóðenda og það fengist yfirleitt í gegn. SÍ er Skólastjórafélag Íslands.*

Nú sendi ég ekki sömu fyrirspurn til Grunnskólakennarafélags Íslands svo ég veit hreinlega ekki hvort þetta sé venja í starfslokasamningum grunnskólakennara. Reyndar hallast ég að þeirri skoðun að starfslokasamningar kennara séu sjaldgæfir þótt þeir hafi verið gerðir við nokkra kennara hér í Þingeyjarsveit í fyrra.
Einn Fésbókarvinur minn benti á þá staðreynd að aldrei myndi skólaliði fá slíkan samning. Það er auðvitað ömurlegur raunveruleiki að það eru aðeins hinir hæstlaunuðustu sem fá starfslokasamninga og þar með betri kjör en aðrir.
Hvað er það t.d. annað en hrein launahækkun að fá greiddan bifreiðastyrk án þess að þurfa að hreyfa bílinn?

Fái fólk á biðlaunum hjá sveitarfélagi vinnu hjá sveitarfélagi, þótt það sé hinum megin á landinu, þá skerðast biðlaunin sem laununum nemur. En ekki hjá flestum skólastjórnendum með starfslokasamning, aldeilis ekki. Ekki nóg með það né heldur að þeir geti fengið starf á nákvæmlega sama vinnustaðnum; þeir geta fengið nákvæmlega sama starfið og launin sem því fylgja og haldið starfslokagreiðslunum!

Sá möguleiki var, að sögn,** til staðar hér í Þingeyjarsveit. Í leiðara ritsjóra fréttamiðilsins 641.is Lengi getur vont versnað segir:
En miðvikudaginn 27. maí gerast óvæntir hlutir. Þann dag var fráfarandi skólastjóri ráðinn til eins árs í 50% stjórnunarstöðu sem verkefnastjóri hjá Þingeyjarskóla og á samkvæmt heimildum 641.is, að vera teymisstjóri yfir 4-7. bekk, án kennsluskyldu. Hann á auk þess að vera staðgengill skólastjóra þegar hann er ekki við.   (Leturbreyting mín.)
Uppsagði skólastjórinn á starfslokagreiðslunum er staðgengill nýja skólastjórans. Hefði nýi skólastjórans forfallast einhverra hluta vegna hefði uppsagði skólastjórinn tekið við starfinu.

Reyndar þarf ekki svona kúnstir til. Skv. starfslokasamningum flestra skólastjórnenda má ráða þá hvar sem er í hvað sem er. Svo sá möguleiki er fullkomlega til staðar að skólastjóra sé sagt upp vegna skipulagsbreytinga og fái starfslokasamning, sæki um gamla starfið sitt og fái. 
Þetta er auðvitað mjög gott fyrir viðkomandi, sérstaklega ef hann er að nálgast eftirlaunaaldur og vill hækka launin sín svo eftirlaunin verði hærri eða er að fara í fæðingarorlof. Sveitarfélög gætu vel komið til móts við fólk í svoleiðis stöðu eða einhverja viðkunnanlega í fjárhagserfiðleikum og tvöfaldað laun þeirra í eitt ár. Jafnvel lengur. 

Það virðist alla vega fullkomlega löglegt...



*Ég vil að það sé á hreinu að mér er djöfullega við að losa sveitarstjórnina svona úr snörunni.
**Finn þetta ekki staðfest formlega neins staðar.

föstudagur, ágúst 12, 2016

Starfslokasamningurinn - Lokaorð (vonandi)

Eftir langa mæðu, kæru, tímaeyðslu og fjárútlát hafa íbúar Þingeyjarsveitar, og raunar allir, fengið aðgang að starfslokasamningi fv. skólastjóra Þingeyjarskóla. Samningi sem átti að vera opinber frá upphafi þar sem opinberir aðilar eru að sýsla með opinbert fé.
Ég hef að vísu ekki eytt neinum fjármunum í ferlinu, nema óbeint, en Þingeyjarsveit lét lögfræðing svara upphaflegu erindi mínu, lögfræðingur sendi andsvar við kærunni og lögfræðingur las yfir úrskurðinn.
Svo þegar samningurinn loksins berst þá er ekkert í honum sem kallar á þessa leynd. Ekkert. Það eru engar upphæðir, engar persónuupplýsingar. Þetta er, og afsakið orðbragðið, algjört prump. Þetta er svo ómerkilegt að ég hreinlega trúði því ekki að ég hefði fengið allt í hendur. 

Ekki misskilja mig, samningurinn er vissulega veglegur (ég fer nánar í það á eftir). Þetta er miklu meira en almennir launþegar geta átt von á en samningarnir sem kennararnir gerðu eru samt sem áður áþekkir. En við vissum það fyrir, við vitum það vel að starfslokasamningar eru gerðir til að tryggja uppsögðum launþega betri kjör en almennir kjarasamningar. 

Þar sem engin lög eða reglur gilda starfslokasamninga er erfitt að vita hvað sé eðlilegt og venjulegt í slíkum samningum. Ég veit að KÍ aðstoðaði við gerð samningsins svo ég tel eðlilegt að ætla að KÍ viti hvernig starfslokasamningum er almennt háttað hjá skólastjórnendum og kennurum. Ég sendi því fyrirspurn á lögfræðing KÍ sem vísaði henni til formanns viðkomandi aðildarfélags. Skv. því svari þá leggur SÍ það til fyrir sitt fólk og nær yfirleitt fram.

Þetta vissi Þingeyjarsveit allan tímann. Þau voru með samninginn í höndunum, þau vissu að það eru engar upphæðir í honum, þau vissu að úrskurðarnefndin hafði sett það fordæmi í úrskurðum sínum að afhenda ætti starfslokasamninga. Þau vissu að þau voru með tapað mál í höndunum, lögfræðingurinn hlýtur að hafa sagt þeim það. Ég vissi það ekki. Ég veit það hins vegar núna þegar ég horfi á samninginn. Svo af hverju þessi endalausa leynd? 

Samstaða lofaði opinni og gegnsærri stjórnsýslu. Eitthvað tjatt á persónulegum fundum er ekki opin og gegnsæ stjórnsýsla. Það sem útsvarsgreiðendur vilja vita er hvernig er verið að verja fjármunum þeirra. Og það er fullkomlega eðlileg krafa. Það varð efnahagshrun á öllu landinu fyrir ekki löngu síðan vegna óábyrgrar fjármálastjórnunar. 
Samstaða og sveitarstjórinn hennar myndu gera vel í því að segja íbúum meira og betur hvað er að gerast og hvernig fjármunum er varið. Sú saga gengur t.d. að flutningur bókasafns Litlalaugaskóla hafi kostað 10 milljónir. Það er fjarri öllu sanni en hvar eru þær upplýsingar að finna? Af hverju stendur þetta hvergi á heimasíðu sveitarfélagsins? 
Ritstjóri 641.is bauð sveitarstjórninni dálk á síðunni. Af hverju var það ekki þegið? Átti ekki að stofna
facebook síðu? Hvar er hún? Ef við vitum hvað þið eruð að gera þá myndum við ekki tortryggja ykkur. Það helst í hendur.

Útreikningar.
Skv. starfslokasamningnum þá á við útreikning mánaðarlegra greiðslna að taka meðatal slíkra greiðslna á tímabilinu 1. feb. 2014 - 31. jan. 2015.
Nú vill svo skemmtilega til að hérðasmiðillinn 641.is lét reikna út fyrir sig helstu útsvarsgreiðendur í Þingeyjarsveit árin 2014 og 2015. Skólastjórinn fyrrverandi komst ekki á topp 10 listann 2014 en hafði verið útreiknuð og deildi miðillinn því með mér þegar ég óskaði eftir því. Skv. útreikningum 641.is (með fyrirvara um útreikningana að sjálfsögðu) var skólastjórinn með 683.042 í laun á mánuði 2014. Það eru 8.196,504 á ári. (átta milljónir, eitt hundrað nítíu og sex þúsund, fimm hundruð og fjórar.)
Skólastjórinn kemt á listann fyrir árið 2015 og þá með 1.011.243 kr á mánuði. Það eru 12.134,916 á ári. (tólf milljónir, hundrað þrjátíu og fjögur þúsund, níu hundruð og sextán.)
Hún er því að fá 3.938,376 (tæplega fjórum milljónum) meira árið 2015 en árið á undan. Það er auðvitað alveg eðlilegt þar sem viðkomandi er bæði á fullum starfslokagreiðslum frá ÞIngeyjarsveit og í 50-70% vinnu hjá Þingeyjarsveit á sama tíma. Það eina sem ég hnýt um er að starfslokin tóku gildi 31. júlí 2015 og nýja starfið hófst 1. ágúst 2015. Það þýðir að séu starfslokagreiðslurnar þær sömu og launin árið á undan þá eru launin fyrir 50-70% deildastjórastöðu 787,680 þús. á mánuði. 
Mikið svakalega hafa grunnskólakennarar samið vel síðast!

Tek við leiðréttingum vegna útreikninga.

fimmtudagur, ágúst 11, 2016

Sporslur á sporslur ofan

Samkomulagið er í ellefu liðum. Engar tölur eru gefnar upp í samningnum. * Það vekur athygli mína að strax í 3. lið er tiltekið að starfsmaður beri engar vinnuréttarlegar skyldur gagnvart vinnuveitanda á því tímabili: "... nema vinnuveitandi ráði hana aftur til starfa á því tímabili."

Í 7. lið er tiltekið að starfsmanni sé heimilt að ráða sig til annarra starfa "þar með talið vinnuveitanda / Þingeyjarskóla án þess að ofangreindar greiðslur á starfslokatímabili skerðist"

Eflaust eru svipuð ákvæði í hinum starfslokasamningunum en þetta er sá fyrsti sem var gerður og því frumgerðin.  Því vaknar óneitanlega sú spurning að ráðning viðkomandi í annað starf við skólann hafi verið löngu ákveðin. Ég get auðvitað ekkert fullyrt um það til eða frá en sá grunur vaknar.

Hvað varðar "ofangreindar greiðslur" þá er kveðið á um þær í 4. lið samningsins:


Nú er ég enginn sérfræðingur í starfslokasamningum og það getur vel verið að fólk haldi öllum hlunnindum. Venjulegt launafólk sem á rétt á biðlaunum fær nú yfirleitt bara föst dagvinnulaun auk fastrar ómældrar yfirvinnu. Hér er hins vegar um öll hlunnindi ræða, m.a. "tilfallandi" greiðslur.

Þá á bifreiðastyrkur að vega upp á móti kostnaði sem starfsmaður leggur út. Vissulega er dýrt að aka á milli starfsstöðvanna að Hafralæk annars vegar og Litlulaugum hins vegar og eðlilegt að starfsmaður beri ekki kostnað af því. En að útsvarsgreiðendur greiði óekna kílómetra sem sporslu tel ég í hæsta máta óeðlilegt.
Þá fær viðkomandi starfsmaður full laun á tíma sem undir öllum venjulegum kringumstæðum er orlofstími auk þess að fá síðan greitt orlof í lok samningstímans.

Þeir sem áhuga á að kynna sér nánar kostnað okkar útsvarsgreiðenda vegna viðkomandi starfsmanns geta skoðað upphæðir hér og hér. Það getur verið áhugavert að setja tölurnar í samhengi við annan kostnað sveitarfélagsins en ég læt öðrum það eftir.

* Ég rakst á fundargerð frá Flóahreppi þar sem heildarkostnaður vegna starfslokasamnings var gefinn upp.

Afsökunarbeiðni

Jæja, þá er ég komin með starfslokasamninginn í hendur. Formálinn sem tiltekinn var í úrskurði var lítilfjörlegur og gerði ég meira úr honum en efni stóðu til. Hins vegar er plaggið ekki nema ein síða með engum upphæðum og átti ég bágt með að trúa að það hefði kallað á neitun, kæru og ársbið eftir úrskurði að fá það í hendur. Engu að síður, ég hljóp á mig og ég biðst afsökunar á því.

sunnudagur, ágúst 07, 2016

Úrskurður

Síðastliðinn fimmtudag barst mér í sniglapósti úrskurður frá Úrskurðarnefnd um upplýsingalög. Úrskurðurinn er ekki enn kominn á heimasíðu nefndarinnar en lokaorð bréfsins eru svona: 



Nefndin heldur sig því við þá stefnu sína að fjármálagjörningar stjórnvalds geti ekki farið leynt nema mikið liggi við. Nefndin setur heldur enga fyrirvara né vill að yfir eitthvað sé strikað eins henni er þó heimilt.

Það er meira en ár síðan ég lagði fram kæruna og verður biðtíminn að teljast alltof langur. Ekki er þó við nefndina að sakast heldur ríkisvaldið, augljóslega þarf að veita meiri fjármunum til nefndarinnar. Þessi langi biðtími auðveldar stjórnvaldi að liggja á upplýsingum því loksins þegar úrskurður liggur fyrir eru mál nánast fallin í gleymskunnar dá og allir búnir að missa áhugann.
Í þessu tilfelli t.d. þá tekur starfslokasamningurinn til tímabilsins 25. feb. 2015 til og með 31. júli 2016. Hann er runninn út á tíma loksins þegar við fáum að sjá hann.

Ég hef ekki enn fengið samninginn í hendur, skrifstofa Þingeyjarsveitar var í sumarfríi síðustu viku en ég býst fastlega við að hann berist mér í tölvupósti á morgun. Ég setti beiðnina fram í tölvupósti og því ber að svara á sama hátt. Nema auðvitað þau vilji kæra úrskurðinn sem vekur þá mjög áleitnar spurningar.

23. gr. Birting og aðfararhæfi úrskurða.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál skal birta úrskurð þeim sem fór fram á aðgang að gögnum og þeim sem kæra beindist að svo fljótt sem verða má.
Ef nefndin hefur tekið til greina beiðni um aðgang að gögnum ber að veita aðgang að þeim jafnskjótt og úrskurður hefur verið birtur, nema þess sé krafist að réttaráhrifum hans verði frestað skv. 24. gr.
Úrskurður samkvæmt lögum þessum um aðgang að gögnum eða afrit af þeim er aðfararhæfur, nema réttaráhrifum hans hafi verið frestað.
  (Upplýsingalögin)*

Ferillinn.
Þann 18. maí 2015 sendi ég inn beiðni um aðgang að gögnum. Í byrjun júní fékk ég bréf frá lögfræðingi Þingeyjarsveitar þar sem beiðnni var hafnað. 10. júní 2015 sendi ég kæruna til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Þingeyjarsveit var gefin kostur á að svara sem og hún gerði með greinargerð frá lögfræðingi. (Þar sem ég var kölluð "kvartandi". ) Mér var gefinn kostur á að svara sem ég gerði. En fram kemur í úrskurðinum að athugasemdir hafi ekki borist. Ég er lítillega móðguð þar sem ég er frekar ánægð með andsvarið mitt en það er svona, kona fær ekki allt sem hún vill. En það skiptir engu, stefna og vilji Úrskurðarnefndarinnar er alveg skýr.
Rétt er að taka fram að ég naut aðstoðar ungs lögfræðings við allt ferlið sem las yfir og lagaði það sem þurfti og veitti ráðgjöf. Naut ég þar ættartengsla.

Formatið fyrir beiðnina fékk ég frá formanni óstofnaðra Samtaka erfiða fólksins, Styrmi Barkarsyni, þar sem ég er virkur meðlimur. (Ég vona að hann fyrigefi mér að deila formatinu.)

Ég fer í gegnum þetta svo fólki viti að svona ferli er svolítið mál og ákvörðunin var erfið, ég ætla ekkert að neita því. Hins vegar á stjórnsýsla að vera opin og gegnsæ og stundum þarf að hjálpa henni að vera það.
(Svo og þeim sem geta ekki farið eftir kosningaloforðunum sínum.)

Ég geri ekki ráð fyrir að birta samninginn opinberlega þótt hann sé nú formlega orðinn opinber. Vilji fólk sjá hann ætti að nægja að biðja um hann á skrifstofunni. Vilji fólk aðrar upplýsingar eins og t.d. um aðra starfslokasamninga eða laun og fríðindi sveitarstjórnarfulltrúa er velkomið að nota fyrrnefnt format.


*17. gr. í eldri lögum sem úrkurðað er eftir.

miðvikudagur, júlí 27, 2016

Ríkið - Hvað er það? Hver er það?

Stuttu eftir síðasta pistil vorum við kunningi minn að ræða um gullmolann á Þeistareykjum og ljósleiðarlagninguna hér á þá sagði hann: „Þið íbúarnir eruð í rauninni að niðurgreiða ljósleiðarann fyrir sveitarfélagið og hjálpa því að gera það söluvænna. Sveitarfélagið myndi aldrei fara út í ljósleiðarvæðinguna nema nógu margir séu tilbúnir að taka þátt og borga. Þar með er líklegra að fleiri vilji flytja hingað.“

Ég gat ekki neitað þessu en var samt hálfhissa. Ég hef alltaf litið á sveitarfélagið sem okkur en ekki við vs. sveitarfélagið. Öll uppbygging í sveitarfélaginu hljóti að vera íbúum þess til góðs. Hitt er auðvitað óumdeilt að ákveði einhver að flytja héðan þá tekur hann ljósleiðarann ekki með sér. Spurningin er hins vegar hvort ljósleiðarinn auðveldi sölu hússins/búsins. Það er hægt að halda þeim þræði endalaust áfram en það er ekki það sem ég varð hissa á.

Ég hallast helst að því að ég og kunningi minn höfum gjörólíka sýn á ríkið og hlutverk þess. Sveitarfélögin eru vissulega hluti ríkisvaldsins.
Nú eru u.þ.b. hundrað ár síðan ég sat í heimspekilegum forspjallsvísindum þar sem rætt var um uppruna ríkisins. Sjálf hef ég alltaf aðhyllst hugmyndina um Samfélagssáttmálann og held að sú kenning sé almennt viðurkennd en það eru til aðrar kenningar.
Í þessu kennaramyndbandi er farið í gegnum þær á einfaldan hátt:



Fyrst ber að nefna Evolutionary theory, og afsakið innilega að ég skuli ekki hafa þetta á íslensku en ég finn
ekki íslensku þýðinguna í fljótu bragði og vil ekki íslenska út í bláinn. Hún byggir á því að áframhaldandi
þróun hafi átt sér stað frá frumstæðum fjölskyldum. Þ.e. pabbinn hafi stjórnað fjölskyldunni, svo hafi ættfaðirinn tekið við, þá þorpshöfðinginn og svo koll af kolli eftir því sem fjölgaði í hópnum. Þetta passar reyndar ágætlega við stjórnsýsluna hér þar sem helstu ættarlaukar sitja í sveitarstjórn.,,Ófínni" ættirnar láta það yfir sig ganga enda ekki öðru vanar og kjósa þetta yfir sig aftur og aftur og aftur...

Force theory. Byggist á þeirri hugmynd að valdamiklir einstaklingar taka stjórnina í sínar hendur. Aðrir eru neyddir undir vald þeirra hvort sem þeim líkar betur eða verr. Fólkið lætur að stjórn af ótta við að vera annars refsað. Þetta passar vel við líka því hér þorir fólk ekki að gagnrýna af ótta um afkomu sína. Við höfum nú aldeilis dæmin um það.

 Divine right theory er sú hugmynd að útvaldir einstaklingar hafi þegið umboð frá Guði til að stjórna öðrum. Blessunarlega laus við það fyrirkomulag á Íslandi en eimir auðvitað eftir í hugmyndum um að sumir séu svo miklu „hæfari“ en aðrir.

Social contract theory eða samfélagssáttmálinn. Allir helstu heimspekingar hölluðust að þessari hugmynd eins og Hobbes, Locke og Rousseau, að vísu með mismunandi skilgreiningum en ég ætla ekki að elta ólar við það.
Samfélagssáttmálinn byggir á þeirri hugmynd að fólk hafi komið sér saman um að láta ákveðin réttindi eða hið algjöra frelsi til að gera hvað sem er fyrir ákveðið öryggi. Þannig sé ríkið fyrir fólkið en ekki fólkið fyrir ríkið.


Margir telja hins vegar að svo hafi ekki farið og ríkið hafi, alla vega sums staðar, þróast út í andstæðu sína. Karl Marx taldi t.d. ríkið vera verkfæri yfirstéttarinnar:


En hvernig virkar ríkið? Söguskoðun Karls Marx byggir á ákveðinni skýringu á virkni ríkisvaldsins, sem er nokkuð vel þekkt: Ríkið er verkfæri yfirstéttarinnar til að stjórna undirstéttinni. Það er hluti af einskonar „yfirbyggingu” samfélagsins, stjórnrænum og hagrænum tengslum, sem ráðast af undirbyggingu þess, sem eru hagrænu öflin. Samkvæmt þessari kenningu fylgir form ríkisvaldsins kröfum þeirra framleiðsluaðferða sem eru ríkjandi í samfélaginu á hverjum tíma. (Herbert, bls. 12)

Sveitarfélögin eru annað af tveimur opinberum stjórnsýslustigum landsins og eiga að sinna ákveðnum verkefnum. Þau verkefni eru helst:

• Stjórnsýslu, sem felst m.a. í því að annast heilbrigðis- og byggingareftirlit og veita ýmis konar leyfi til atvinnustarfsemi og athafna.
• Velferðarþjónustu við einstaklinga, eða afmarkaða hópa þeirra, svo sem félagsþjónustu, rekstur grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla, æskulýðs-, íþrótta- og tómstundastarfsemi, o.s.frv.
• Tæknilega þjónustu, sem íbúarnir njóta almennt séð, svo sem gatnagerð, veituþjónustu, brunavarnir o.s.frv. (Sveitarfélögin á Íslandi.)

Ég veit svo sem ekkert hvort hægt sé að halda því fram að ljósleiðaravæðing eigi að vera þarna undir o.s. frv. Ég veit líka að íbúar annarra sveitarfélaga hafa borgað tengigjald alveg eins og ríkari hreppir hafa borgað allt. Mér finnst virkilega að sveitarfélagið eigi að borga þetta 250 þúsund króna tengigjald fyrir hvert heimili. Ekki vegna einhverra kommúnískra manifestóa heldur einfaldlega vegna þess sveitarfélagið hefur mokað öðru eins og meiru til undir rassgötin á útvöldum. Heimilin eiga þetta einfaldlega inni. Fólkið, sem hefur skapað þessa fjármuni og á þá, á að njóta þeirra. Fólkið sem hefur streist við að búa hér og stuðla þar með að því að þetta sveitarfélag geti verið til, verið lögaðili og átt landareignir eins og Þeistareyki.
Vissulega er það ekkert sjálfgefið að þessir peningar velti inn og ég veit að vel hefur verið haldið á spöðum. Núverandi oddviti hefur farið þar fremstur í flokki að öðrum ólöstuðum og á þakkir skildar. Það breytir því þó ekki að þeir fjármunir sem þarna skapast tilheyra sveitarfélaginu og með vísun í samfélagssáttmálann þá geri ég því skóna að við séum sveitarfélagið.
Eða erum við eitt og sveitarfélagið annað? Eiga þessir fjármunir bara að fara í vasann á vanhæfum yfirmönnum? Eða borga sektirnar og lögfræðikostnaðinn fyrir stjórnsýsluafglöpin?

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...