Færslur

Sýnir færslur frá desember 19, 2004
Úff, maður gerir lítið annað en að borða þessa dagana. Ég verð með jólaboð á morgun og ætla að elda kalkún í fyrsta skipti á ævinni. Er þetta ekki bara stór kjúklingur? Er að fatta svona ýmis tæknileg vandamál varðandi eldunina núna. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Fékk heilan helling af jólagjöfum. Litla frænka lék alveg rosalega á mig. Í fyrra spurði hún hvort mig langaði í trefil. Og ef svo væri þá hvernig trefil. Þá ég fattaði að trefill væri í einum jólapakkanum eins og kom í ljós. Fyrir skömmu spurði hún mig hvort mig langaði í Vinaspilið. Svo var ég í heimsókn og sá glitta í pakka sem var eins og spil í laginu. Ég var auðvitað ofboðslega góð með sjálfa mig og þóttist aldeilis vita hvað leyndist í pakkanum. Kemur ekki bara Popp-punktsspilið í ljós í gærkvöldi! Þá hafði mín lært af mistökunum síðast og ákvað að plata Ástu frænku svona svakalega.
Mynd
Það er til alveg ægilega fín mynd af Jósefínu þar sem hún situr við aðventuljósið í glugganum. Ég er búin að leita að þessari mynd út um allt en finn bara ekki. Svo þá verður það næst besta að duga. GLEÐILEG JÓL
Jemundur!!! Ég á eftir að kaupa fyllinguna í kalkúnann!
Mynd
Helgileikurinn. Við uppfærðum helgileikinn aðeins. Hirðingjarnir voru rapparar og vitringarnir bissness fólk. Þetta var mjög skemmtilegt og krakkarnir stóðu sig alveg frábærlega.
Ég er orðin alveg rosalega þreytt á því að vakna upp með höfuðverk á hverjum einasta degi. Verkjalyf redda þessu þokkalega en mér meinilla við að taka verkjalyf á hverjum degi. Ég vil bara að þessi pest gangi yfir. Þetta tekur alltof laaaangaaaan tíma! Hins vegar var ég að komast að því hjá Hrund að það er hægt að búa til síðu fyrir dýrin sín ! Og nú megið þið geta þrisvar hvað er að fara að gerast.
Fórum í kirkjugarðsrúntinn í dag. Settum kransa hjá ömmum og öfum og svo auðvitað pabba. Skelfing líður tíminn hratt. Amma Ásta dó 1980, amma Didda 1988, pabbi og afi Egill 1996 (og Jakob frændi) og afi Ármann 1999. En það er svona, lífið heldur áfram. Fór með litlu systur í hesthúsið og var eitthvað að dúllast. Ég fer nú meira með svona upp á punt og mér til tilbreytingar. Svo fórum við í jólainnkaupin. Bye, bye, sweet money. Verst finnst mér að ég er búin að vera með einhverja luðru núna í hálfan mánuð. Ekki nóg til að vera veik en nóg til að mér ,,líði ekki jafn glæsilega og venjulega". Það er samt eins og flensan sé að brjótast út núna. Var orðin slöpp á föstudaginn og svo hefur þetta verið að ágerast. Stíflað nef og hóstakjöltur og svoleiðis. Held ég hafi aldrei lent í svona hæggengri og langvinni pest áður. Ég er komin í jólafrí enda í algjörri forrétindavinnu á háum launum. Yeah, just eat your heart out and see if I care.
Mynd
Litla stærri frænka og Jósefína eru jafngamlar. Efri myndin var tekin þegar þær voru báðar á fyrsta ári og hin myndin í fyrra. Varð bara að birta þessa mynd. Þær eru svo sætar að það hálfa væri hellingur.
Ég bara búin að vera veik núna um helgina. Sem gengur auðvitað ekki þar sem jól eru að ganga í garð svo hitalækkandi og hóstasaft eru búin að halda mér gangandi. Sá á mbl.is að það hefði verið mikil ölvun um helgina svo ég tók sénsinn á að fara í innkaup í trausti þess að margir lægju heima í þynnku. Ég virðist hafa veðjað þokkalega rétt því það var ekki brjáluð traffík og ég fékk bara pínulítið pirringskast sem ég sá strax eftir. Er að reyna að vinna í þessu. Alltaf að reyna að þroskast... dahhh. Sniðugt að sjá á bloggrúntinum að það eru allir á kafi jólaundirbúningi. Lítið bloggað og færri heimsóknir. Það er bara eins og það á að vera.