laugardagur, febrúar 05, 2005

Manifesto

Þar sem mér varð það á að leggja orð í belg um meinta krísu drengja í grunnskólum landsins þá ætla ég að gera formlega grein fyrir skoðun minni á þeim málum.
Skólinn er fundinn upp af karlmönnum fyrir drengi og er sniðinn að þörfum og þroska drengja. Stúlkur eru fljótari að þroskast en drengir en námið þyngist ekki verulega fyrr en um gagnfræðiskólaaldur þegar drengirnir eru að ná stúlkunum í þroska. Mér er minnisstætt að hafa heyrt að stúlkum myndi henta betur að læra önnur tungumál fyrr en þau eru kennd í grunnskóla. Lengi vel máttu stúlkur ekki einu sinni læra hvað þá fara í skóla. Langt fram eftir síðustu öld voru karlkennarar í meirihluta í grunnskólum landsins þótt kynjahlutfall nemanda hafi verið svipað enda almenn skólaskylda sett á 1907. Engu að síður þá nægir að fletta útskriftarbókum frá framhaldsskólum landsins langt fram á síðustu öld til að sjá að mikill meirihluti nemenda í framhaldsskólum voru drengir. Og ég held að það sé tiltölulega nýskeð að stúlkur urðu fleiri í háskólum landsins. Stúlkur voru að verða fleiri um það leyti sem ég var í framhaldsskóla enda byrjuðu þá að heyrast raddir þess efnis að: ,,Menntunin er nú ekki allt." Þessi mikla menntun kvenkynsins hefur ekki skilað sér í auknum launum og eru konur enn þá hálfdrættingar á við karlmenn í launum.
Nú er sem sagt þessi umræða komin upp að skólakerfið henti drengjum ekki nógu vel af því að stúlkurnar eru að standa sig betur. Sér í alvöru enginn að það er eitthvað rangt við þessa umræðu? Af hverju mega stúlkurnar ekki standa sig betur? Þegar stúlkur stóðu sig verr þá var hlegið og hæðst að allri umræðu um kynbundna slagsíðu í skólakerfinu. Ég lifði þá tíma að það var beinlínis ,,ókvenlegt" að vera góð í raungreinum. Slæmt gengi stúlkna í raungreinum var alltaf afsakað með því að þær voru bara ekki nógu klárar. Og nú má velta fyrir sér af hverju raungreinum er gert svona hátt undir höfði.
Rannsóknir sýna að drengir fá 90% af athygli kennarans. Rannsóknir sýna líka að þótt stúlkur rétti oftar upp hönd þá eru drengir oftar spurðir. Mér finnst þessi umræða fáránleg. Skólakerfið hefur ekki breyst að neinu ráði seinustu 50 eða 60 ár. Skólastofa, kennari, bekkur og bækur. Hvað hefur breyst? Jú, það má ekki lengur lemja börn. Voru það barsmíðarnar sem hentuðu drengjunum svona vel? Ég efast um það. Svo eru konur í meirihluta starfsliðsins. Hvað á að gera? Setja kynjakvóta? Það er allt í lagi mín vegna. Ég treysti auðvitað á að þá verði settir kynjakvótar víðar. Eins og t.d. í stjórnunarstöðum.
Það sem hefur breyst sem ég tel að hafi mesta þýðingu er sjálfstraust stúlknanna og sú vitneskja þeirra að þær megi gera eitthvað annað í lífi sínu en verða heimavinnandi húsmæður. Mér finnst það alveg með ólíkindunum að konur megi bera skarðan hlut frá borði árum, áratugum og öldum saman og það sé allt í lagi en þegar stúlkur skara fram úr drengjum í einhvern tíma þá er rokið upp til handa og fóta og allt sett í gang til að ,,leysa vandann."

Að þessu sögðu þá ætla ég aðeins að deila reynslu minni úr grunnskólanum. Ég verð ekki vör við þennan mun í skólanum mínum. Besti nemandinn minn er drengur. Af fjóru hæstu nemendunum í skólanum eru tveir drengir og tvær stúlkur. Af þremur meðlimum spurningaliðsins okkar sem varð hverfismeistari um daginn er ein stúlka og tveir drengir. Ræðumaðurinn okkar var stúlka. Í liði Breiðholtsskóla sem var keppt við voru þrír drengir og ræðumaðurinn drengur. Í beinu framhaldi má benda á kynjaskiptinguna í Gettu betur keppninni.
Hins vegar vil ég taka það fram að ég hugsa ekki um nemendur mína sem stráka og stelpur. Þeir eru einstaklingarnir Jón og Gunna, Siggi og Stína. Ég verð ekki heldur vör við svona kynbundna hugsun hjá öðrum kennurum þótt hún hljóti eflaust að sleppa inn einhvers staðar. Við erum jú bara mannleg. Reyndar til að gæta allrar sanngirni þá var stelpustóð í skólanum í fyrra sem var með svolítið vesen og var tekið á.
Því miður sýnir samanburður við aðra skóla á samræmdum prófum að skólinn minn kemur ekki nógu vel út. Það eru ýmsar ástæður fyrir því sem ég ætla ekki að tíunda hér. En það liggur ljóst fyrir að bóklegt nám hentar ekki öllum. Og ég vil halda mig við einstaklingsmuninn hér, því þótt tölfræði sýni lítillega að stúlkur séu almennt betri í þessu en drengir almennt betri í einhverju öðru þá sýnir tölfræðin að einstaklingsmunurinn er mun meiri.
Nú hefur verið rætt talsvert um einstaklingsmiðað nám. Einstaklingsmiðað nám inni í bekk gengur ekki upp. Á fyrsta árinu mínu reyndi ég að verða við þessu og var komin með þrefalt námsefni í gang þegar ég sá að ég hafði hvorki tíma né orku til að standa í þessu. Ég sagði Gerði fræðslustjóra frá þessu á fundi nýverið og hún var alveg sammála mér. Enda stendur til að leggja niður bekkjarkerfið. Það breytir að sjálfsögðu öllu. Þá myndi hver einasti kennari í skólanum, list- og verkgreinakennarar líka, vera með 15 nemendur í umsjón og útbúa ásamt nemandanum og foreldrum hans námsáætlun fyrir nemandann.
Í fyrra var ég þátttakandi í teymi sem var að þróa samstarf bók-, list- og verkgreina. Við gerðum tilraun í samfélagsfræðinni hjá mér þar sem krakkarnir máttu skila verkefni um Jón Sigurðsson hvernig sem þau vildu, bara ekki skriflega. Ég kenndi báðum 8. bekkjunum þá og leyfði þeim að flæða yfir bekkjarlínur. List- og verkgreinakennararnir og tölvukennarinn voru með í þessu. Verkefnin sem ég fékk voru kvikmynd, útvarpsþáttur, tréristur, minningabók, vefsíður, flettiplakat og myndasaga. Að öðrum ólöstuðum þá ætla ég að segja frá myndasögunni. Drengurinn sem teiknaði hana er mjög listrænn og teiknaði mjög skemmtilega. Jón og Ingibjörg voru skopparar og mikill húmor í sögunni. Það eru alveg hreinar línur að þessi drengur veit allt um Jón Sigurðsson og ég er sannfærð um að hann lærði meira með þessari aðferð. Ég er reyndar sannfærð um að flestir lærðu meira. Ég var með vefsíðu um þetta en svo var skipt um vefþjón svo síðan er ekki lengur á vefnum. Ég get samt örugglega sett hana upp aftur.
Einstaklingsmiðað nám miðar að því að koma til móts við nemandann þar sem hann er sterkur og leyfa honum að nálgast námsefnið á sínum forsendum. Námsefnið er það sama og niðarstaða námsins verður svipuð þótt leiðin að markmiðinu sé margvísleg.
Í Fellaskóla stendur til að opna Listasmiðju sem ég held að muni nýtast okkur frábærlega í einstaklingsmiðuðu námi. Því miður stendur okkur fjárskortur fyrir þrifum. Og ég held að hann standi ansi mörgum grunnskólum fyrir þrifum. List- og verkgreinar sitja á hakanum af því að þær eru dýrari en þær bóklegu. List- og verkgreinar eru þær greinar sem margir krakkar myndu njóta sín mjög vel. Í Fellaskóla er mikið tónlistarlíf, alla vega tvær hljómsveitir starfræktar, mikill áhugi á leiklistinni og margir mjög drátthagir. Þessa getu getur maður nýtt til náms eins og ég sagði áðan. Nú ætlum við 8. bekkjar kennarar í íslensku að samhæfa okkur og fara í Gunnlaugs sögu Ormstungu á sama hátt, leyfa þeim að skila hvernig sem er. Og ég hef fyllstu trú á að það verði mjög skemmtilegt.
Tilgangurinn með þessum langa pistli er sá að mér finnst kynbundin umræða vera á villigötum. Ég vil beina athyglinni að einstaklingnum og leyfa öllum að njóta sín.

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Ég er ekki bláa höndin. Nei! Ég er fjólubláa höndin!
Hún á afmæli í dag, hún á afmæli í dag. Hún á afmæli hún Jósóó... Hún á afmæli í dag.

fínapína

Hún er 15 ára í dag, hún er 15 ára í dag. Hún er 15 ára hún Jósóó... Hún er 15 ára í dag.
Til hamingju með afmælið krúttaðasta tútta sem til er.

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Þegar við systur vorum litlar þá máttum við ekki fá gæludýr. Þ.a.l. var það fyrsta verk stóru systur þegar hún flutti að heiman að fá sér kött. Hún og meðleigjandinn fengu sér fyrst högna sem var skírður Sesar en því miður stakk hann af við fyrsta tækifæri. Nokkru seinna kom lítil læða inn á heimilið.

Kleópatra kettlingur

þessi dama var skírð Kleópatra. Hún lenti í því að vera tekin of snemma frá mömmu sinni og þróaði upp einhver ægileg sálfræði issjú út af því. Hún reyndar ákvað að stóra systir væri mamma hennar og elti hana helst út um allt . Allir aðrir voru hins vegar óvinir. Einu sinni var hún í pössun heima hjá pabba og mömmu og ég ætlaði að láta hana sofa hjá mér í kjallaraherberginu. Þegar ég hélt á henni niður snerist hún í höndunum á mér og sneri sig lausa. Svo þurfti ég að sækja hana upp allan stigann. Hendurnar á mér voru allar útklóraðar eftir hana og ég er enn með ör eftir 18 ár.
Þegar stóra systir flutti annað þá vildi hún taka Kleó með sér en samleigjandinn gerði tilkall til hennar líka svo það lá við forræðisdeilu. Sem betur fer fékk systir hana.
Svo var ákveðið um svipað leyti og stóra systir var ófrísk að Kleópatra fengi að eiga kettlinga. Hún eignaðist fimm stykki, hvern öðrum sætari.

Kleópatra og kettlingarnir
(Jósefína liggur í hálsakotinu á mömmu sinni.)

Eins mikill vargur og Kleó var þá var hún fyrirmyndar mamma. Mér er minnisstætt í eitt skipti þegar allir kettlingarnir voru sofandi að þá ætlaði hún að læðast fram og fá sér að borða en þá vaknaði einn og gaf frá sér mjálm og hún hentist til baka í körfuna, fleygði sér á bakið með spenana upp.
Svo þegar þeir voru orðnir eldri þá lék hún stundum við þá með skottinu svo hún gæti aðeins hvílt sig. Og þegar þeir voru orðnir enn eldri þá lagðist hún bara í gangveginn svo hún gæti haldið þeim öllum á einum stað.
En þannig er Jósefína tilkomin. Hún er hérna fremst með mömmu sinni.

Kleópatra

Við hinar systurnar vildum endilega fá einn kettling og völdum Jósó af því að hún var líkust mömmu sinni. Pabbi ætlaði eitthvað að malda í móinn þegar Jósefína var kominn og sagði eitthvað á þá leið að annað hvort færi hann eða kötturinn! Mamma benti honum þá vinsamlegast á að hann vissi hvar hurðin væri en kettlingurinn ekki. Pabbi og Jósefína urðu líka bestu vinir. Hún sat oft ofan á ristinni á honum þegar hann var að sækja Moggann á morgnana.
Kleópatra var alltaf á pillunni og endaði á því að fá krabbamein í spenana. Hún var orðin talsvert veik þótt hún væri alltaf vel hress og var svæfð um sumarið 2001 rétt áður en þær mæðgur fluttu til Svíþjóðar. Kleópatra hafði róast með árunum og áttað'i sig alveg á því að stelpurnar væru bara börn þoldi og þeim meira en fullorðnum enda þótti stelpunum afskaplega vænt um Kleó sína. Það var því voða sárt þegar það þurfti að svæfa hana.
Litla systir kom og skoðaði flautuna í bílnum. Þetta mun vera afskaplega eðlileg flauta og skoðunin skýrir á engan hátt þetta freakish accident í gær. Þar fór lögsóknin. Ég er enn stokkbólgin og teipuð, þarf að baða mig í kvöld svo það er nett vesen í gangi. Samstarfsfólk mitt og nemendur hlógu bara að mér. Ekkert tillit tekið til þjáninga minn frekar en fyrri daginn. Fólk viðist ekki átta sig á að ég er stórslösuð!

Stóra systir benti mér á Sirrý-þáttinn. Já, ég veit allt um helv... umhverfisáhrifin.

þriðjudagur, febrúar 01, 2005

Road rage strikes back

Eins undarlega og það kann að hljóma þá er ég dálítið glannalegur bílstjóri. Ja, kannski ekki glannalegur heldur meira svona eina viti borna manneskjan á götunum. Alla vega eru hugsanir eins og: ,,Haltu áfram!" ,,Af hverju ertu hérna vinstra megin'" ,,Djö... fífl eru þetta!" ,,Af hverju fá öll þessi fífl ökuleyfi?!" orðnar mjög ráðandi í höfðinu á mér undir stýri þessa dagana.
Í morgun lendi ég í því að einhver kelling svín-læðist fram fyrir mig til að stoppa á beygjureininni til athuga vel og vandlega hvort hún kæmist inn á aðalgötuna, eins og ég vissi að hún gæti ef hún hefði drullast áfram, en stoppið varð þess valdandi að ljósin skiptu og við þurftum að bíða heillengi eftir umferðinni á aðalgötunni. Þegar við loksins komumst inn á fór ég auðvitað fram úr og sendi henni verulega illt augnaráð. The Evil Eye.
Seinnipartinn í dag er ég á leiðinni heim og loksins búin að losna við öll fíflin fyrir framan mig því þau höfðu vit á að vera hægra megin þegar eitt fíflið bráðnauðsynlega verður að svína fram fyrir mig. Ég þarf auðvitað að negla niður, skipta um gír og flauta. Nema hvað að ég hef aldrei flautað á nýja bílnum mínum (Subaru Legacy '97, jájá, ég er að verða kerling). Einhverra hluta vegna, mér óskiljanlegra, nota ég hægri þumalfingur á flautuna. Dúndra honum svona niður í miðjuna. Miðjan ýtist niður en sprettur svo upp aftur og fleygir þumalfingrinum langt upp í loftið og í óeðlilega afstöðu gagnvart restinni af hendinni sem var að ýta af öllu afli niður. Þetta var frekar sárt. Þegar ég er komin heim og búin að leggja þá ætla ég ekki að geta drepið á bílnum því ég gat varla snúið lyklinum og verður mér þá ljóst að lófinn er stokkbólginn í framhaldi af þumlinum. Ég hljóp auðvitað beina leið til læknisins (skyldmenni) og lét líta á þetta. Ég er sem sagt stokkbólgin og get átt í þessu næstu 6 vikurnar.
Mér finnst þetta eiginlega bara nokkuð gott á mig og vona að ég læri af reynslunni, því hver er fíflið núna, Ásta mín?

Hins vegar er ég ekki frá því að þetta sé mjög alvarlegur hönnunargalli á bílnum og er virkilega að íhuga multi-mílljón króna lögsókn.

mánudagur, janúar 31, 2005

Hvaða skóli ætli hafi orðið Hverfismeistari Breiðholts í Nema hvað? Fellaskóli auðvitað. Kom eitthvað annað til greina? Nehei!
Hvað lið er flottast? Þetta auðvitað.


(Vantar ræðumanninn okkar en nýjustu myndirnar voru ekki komnar.)

Hvaða skóli varð hverfismeistari breiðholts í ræðukepnninni í fyrra? Nú Fellaskóli auðvitað.

Hvaða skóli er langflottastur? And Fellaskóli of course.

Finnst mér gaman að kenna í langbesta skóla landsins? JJEEEBBBBB!!!!

sunnudagur, janúar 30, 2005

Þvílíka dásemdarblíðan í dag. Ég og hálf Reykjavík vorum bara úti að sporta okkur. Svo fór ég í stutt stopp til mútter og festist yfir sjónvarpinu. En það er líka bara fínt. Helgarnar eru til að hvíla sig. Það er óvenju mikið við að vera í félagslífi Fellskælinga um þessar mundir og gamla konan hefur bara ekki jafnmikið úthald og unglingarnir.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...