föstudagur, desember 28, 2012

Femme fatale


Undanfarið hefur þjóðin fengið að fylgjast með leit lögreglunnar að strokufanganum Matthíasi Mána Erlingssyni. Mikið hefur verið gert úr flóttanum og á stundum jaðrað við hetjudýrkun. Já, hetjudýrkun. Það ætti svo sem ekki að koma á óvart þar sem fjölmiðlar hafa nýverið byrjað á þeim undarlega andskota að upphefja menn eins og Annþór nokkurn, Börk og Jón stóra.
Því miður stjórnast umfjöllun fjölmiðla af eftirspurn og svona ,,fréttir" fá flestar flettingar. Þá hafa fjölmiðlar margir sett upp athugasemdakerfi sem hafa reynst hinar hroðalegustu rotþrær. Þjóðarsálin er ekki fögur. En svona virkar þetta sem sagt. Sú frétt sem fær flestar flettingar og lengsta umræðuhalann selur best.
Ég hef enga sérstaka skoðun á fangelsismálum Íslendinga. Mér þætti gott ef e.k. betrunarvist ætti sér stað en ég átta mig einnig á að iðulega er um hefnd samfélagsins að ræða. Mér þykir það í sjálfu sér gott og gilt. Mér er það ekki til efs að fórnarlömbum líði betur vitandi af árásarmönnum sínum á bak við lás og slá á meðan þau ná sér. Þá hef ég einnig skilning á þeirri viðurkenningu samfélagsins að á viðkomandi hafi verið brotið og þeim brotlega sé refsað. Hins vegar veit ég líka að stundum koma menn verri úr fangelsi en þeir fóru inn.
Nú er ég orðin svo gömul sem á grönum má sjá og fyrir mér er Matthías Máni ungur maður. Það breytir því ekki að 24 ára gamall var faðir minn giftur maður, faðir og fyrirvinna og er svo um marga menn. Jafnvel yngri. Mín hrörnun stjórnar ekki þroska annarra og Matthías Máni er fullorðinn maður. Um það verður ekki deilt.
Það er engum vafa undirorpið í mínum huga að þessi (ungi) maður eigi við sálræna erfiðleika að etja og geðlæknir eða sálfræðingur myndi gera honum meira gagn en fangelsisvist. Þá er einangrunarvist úrræði sem ég vona og treysti að sé ekki misnotað.
En Matthías Máni braut af sér og hann braut alveg hrikalega af sér. Hann réðist á annan einstakling, barði hann með kertastjaka og reyndi bæði að kæfa með kodda og síðan kyrkja. Hann ætlaði sér að drepa fórnarlamb sitt. Og ætlar sér enn.
Þrátt fyrir þetta þá virðist vera ákveðin samúð með Matthíasi. Það er vel. Það má vel ræða aðbúnað fanga og hvað má betur fara. Það sem truflar mig hins vegar er hvernig alla vega hluta ábyrgðarinnar hefur verið varpað á fórnarlambið. Í Nærmynd DV er fyrirsögnin:
Í þessari fyrirsögn liggur að fórnarlambið hafi hrundið þessari atrburðarás af stað með því að ,,spila með" Matthías. Þá er nafnorðið -drengur- iðulega notað um Matthías t.d. ráðvilltur drengur. Það er gert til að ýta undir aldursmuninn á honum og fórnarlambi hans sem er 31 árs og fyrrverandi stjúpa. 7 ára aldursmunur er alla jafna ekki mikill aldursmunur en í þessu tilfelli leikur grunur á ástarsambandi á milli Matthíasar og fórnarlambs hans. (Mig minnir þó að fórnarlambið hafi alltaf þvertekið fyrir það.)
Það virðist, einhverra hluta vegna, breyta gríðarmiklu í huga fólks. Matthías, fullorðinn maðurinn, er skyndilega drengur sem þessi fullorðna kona fór illa með. Af hverju það liggur svo beint við að sé kona eldri í sambandi þá hljóti hún að vera að fara illa með sinn sér yngri ástmann er mér fyrirmunað að skilja. En þar sem ungi maðurinn í þessu tilviki trylltist og reyndi að drepa hana þá hlýtur hún auðvitað að hafa gert eitthvað til að verðskulda það. Konur hafa jú einstakan hæfileika til þess að reita menn til reiði
Mér er það fullkomlega ljóst að fáir hugsa svona þótt aðeins hafi borið á því í athugasemdahölum og útvarpsþáttum enda er það ekki þetta sem truflar mig hvað mest í þessari umræðu. Nei, það sem truflar mig mest er að fyrir ári síðan var svipuð umræða uppi, annar ,,ástar"þríhyrningur sem hafði endað með ósköpum.
18 ára stúlka kærði þrítugan mann fyrir nauðgun. Þarna er aldurmunurinn 12 ár. Stúlkan 6 árum yngri en Matthías Máni. (Hér er miðað við viðburðatíma en ekki rauntíma). Ég man ekki til þess að ungur aldur stúlkunnar hafi nokkurn tíma skipt máli í umræðunni né þá aldursmunur þeirra tveggja. Ein ágætis grein var skrifuð en ekki meir. Ef aldur stúlkunnar var nefndur að öðru leyti var ávallt einhver reiðubúinn að benda á að hún væri nú orðin lögráða (og þar með lögríða nokkuð fyrr). Þar með var það mál útrætt.
Ef við skoðum orðapörin þá held ég að þau sé svona: strákur - stelpa, piltur - stúlka, drengur - telpa.  Var nokkurn tíma talað um að 18 ára telpa hefði kært nauðgun?
Nei, það var aldrei gert. Hins vegar var það nefnt nokkrum sinnum að hinn kærði væri nú svo góður drengur.
Það er alveg ljóst að trúin á femme fatale lifir góðu lífi í þjóðarsálinni.



laugardagur, nóvember 17, 2012

Er bókmenntafræði gervivísindi eða misskildi ég þetta svona herfilega?


Nú eru komin ein 20 ár síðan ég sat í bókmenntafræðinni. Ég fór þaðan í kennslufræðina og svo í kennslu og hef því aldrei ,,starfað" sem bókmenntafræðingur og er því kannski farin að ryðga eitthvað í fræðunum. Hins vegar hélt ég að ég beitti mínu námi í kennslunni. Nú eru hins vegar farnar að renna á mig tvær grímur.
Það fyrsta sem mér var kennt í bókmenntafræðinni var það að höfundurinn væri ,,dauður". M.ö.o. að álit höfundarins á því sem hann hefði skrifað skiptir engu. Höfundurinn heldur að hann sé að segja eitthvað ákveðið en þar sem hann er spegill samtíma síns þá speglar hann margt fleira í verki sínu. Þá getur hann einnig verið að segja eitthvað allt annað en hann heldur. Það nefnilega gerist stundum að fólk telur sig vera einhverrar skoðunar en er það bara alls ekki. Þannig að þegar við ætluðum að túlka eitthvert verk þá þýddi ekkert að hringja í höfundinn og spyrja hann að því hvað hann væri að segja. Hann hefði enga hugmynd um það.
Nú má vel vera að þetta sé ekki lengur kennt. Hugvísindi eru nefnilega lifandi vísindi og alltaf að koma upp nýjar hugmyndir og aðferðir.
Okkur voru líka kenndar nokkrar aðferðir til að nálgast efnið. Þessar aðferðir (Literary theory) voru nokkrar m.a. út frá sósíalísku raunsæi, súrrealisma, Freudísku sjónarhorni, táknfræði...

Það eru sem sagt til ýmsar bókmenntakenningar og svo beitir lesandinn eða bókmenntafræðingurinn þeirri aðferð sem honum finnst passa á viðkomandi verk. Það væri í raun ekki til neinn heilagur sannleikur, aðeins vel rökstudd túlkun.
Þessar bókmenntakenningar væru hjálpartæki við lestur og túlkun því enginn er hlutlaus. Ef við byggðum bara á eigin skoðun þá værum ,,við" út um allt.  Þess vegna notum við ákveðna aðferðafræði.
Út frá þessu hef ég gengið. Það er vissulega til einn heilagur sannleikur í raunvísindum. Það er engum vafa undirorpið að 2+2=4. En þegar það kemur að húmanískum fræðum þá er bara allt annað uppi á teningnum.
Þegar ég hef kennt bókmenntir þá hafa nemendur mínir óttast að þeir túlki ekki rétt. Það er ekki til nein ein rétt túlkun. Ég leyfi mér reyndar að halda því fram að til sé röng túlkun en það er nú bara vegna þess að unglingar hafa gaman af því að reyna að ganga fram af fólki og ögra. Ég hef bæði fengið skemmtilegar og nýstárlegar bókmenntaritgerðir og þótt ég sé ekki endilega sammála einhverri túlkun þá gerir það hana svo sannarlega ekki ranga.
Þannig að þegar ég las grein Önnu Bentínu á Smugunni 13. nóv. þar sem hún segir:

 ,, Kynjafræðin hafnar að hægt sé að framleiða „hlutlausa“ og „réttmæta“ þekkingu. Slík aðgreining  hefur í för með sér andstöðu við grundvallarhugsjónir femínisma um jafnrétti. Að setja sig á stall sem hlutlausan rannsakanda og líta á þátttakendur í rannsóknum sem „viðföng“ setur rannsakandann og hennar markmið ofar þátttakendunum   Að nota kynjafræði sem greiningartæki á samfélaginu er ein leið sem hægt er að fara, en hún er ekki eina leiðin. "

Þá fannst mér það ríma alveg nákvæmlega við minn skilning á húmanískum fræðum.
Hins vegar virðist mér á viðbrögðum að mér og Önnu skjátlist svona hrapalega. Og ég er bara alveg í öngum mínum. Ég er hreinlega að velta því fyrir mér hvort ég eigi að skila BA gráðunni minni!

mánudagur, október 29, 2012

Andskotans aumingjaskapur er þetta, Sigmundur Davíð.

Það er alveg greinilegt að Sigmundur Davíð og stuðningsmenn sjá ekki fram á öruggan sigur í profkjöri og ætla því að reyna að þvinga honum í efsta sætið.
Ég hvet Sigmund Davíð til að taka slaginn eins og hugrökkum foringja sæmir og fagna þá sigri eða tapa með reisn.
Annað er bara andskotans aumingjaskapur.

PS.
Ef þú vilt fara í meiðyrðamál við lítilmagnann eins og þú átt kyn til þá heiti ég Ásta Svavarsdóttir og bý í Þingeyjarsveit.

þriðjudagur, september 25, 2012

Hlutdeild í launum


Bændur búa við mikinn lúxus. Þeir búa í víðáttunni og njóta náttúrufegurðar, kyrrðar og friðar. Skepnurnar ganga værukærar á beit í grænu grasinu fyrir utan gluggann. Svo hafa þessir forréttindapúkar greiðan aðgang að eggjum, kjöti og mjólk.
Er því ekki eðlilegt að þetta fólk sem hangir heima hjá sér allan daginn og ,,vinnur" þegar því hentar taki að sér hross í hagagöngu ókeypis? Er það einhver aukavinna? Eða láti hey fyrir lítið? Eða splæsi lambalæri eða tveimur? Jafnvel heilu skrokkunum?
Það er alveg slatti af fólki í fullri vinnu á fullum launum annars staðar sem finnst þetta eða hvaðeina sem því dettur í hug eðlileg krafa af því það tengist viðkomandi býli á einhvern hátt. Mér finnst það ekki.
Grasið er grænt af því að það er búið að bera á það milljóna króna virði af áburði. Flestar skepnur þurfa að vera á húsi allan veturinn og þeim þarf að gefa hey. Hey sem þarf að slá með dráttarvélum, snúa nokkrum sinnum, raka í garða og loks rúlla, allt með tilheyrandi tækjum sem öll kosta sitt.
Þá þarf að gefa skepnunum tvisvar á dag og mjólka kýrnar tvisvar á dag. Smala kindunum og sinna sauðburði.
Þetta veit ég af því að maðurinn minn er bóndi. Hann vinnur að meðaltali 12 tíma á dag alla daga vikunnar, alla daga ársins. Ekkert sex vikna sumarfrí hér.
Hér er vissulega kyrrð og friður. Það er líka hálftíma akstur í næstu verslun. 
Ef ég fæ massíft hjartaáfall þá tekur það sjúkrabílinn um 20 mínútur að mæta á svæðið og svo þrjú korter að koma mér á sjúkrahúsið. Þ.e. ef Víkurskarðið er ekki ófært.
Miðað við vinnuframlag og stundir ættum við að vera forrík. Því fer fjarri. Við erum mjög nálægt fátækramörkum, ef ekki undir þeim.
Gúglið bara laun bænda, þau eru lág.
Eggin, mjólkin og kjötið eru ekki fríðindi sem til falla bara si svona aukreitis, það er búið að hafa fyrir þessu öllu saman. Þetta er hluti af laununum okkar.
Fyndist fólki eðlilegt að ganga að einhverri annarri stétt og heimta hlutdeild í laununum þeirra?

föstudagur, september 14, 2012

Íslenskt ævintýr


Inngangur.

Einu sinni var ungur maður sem hét Tvírekur. Tvírekur var silfursmiður góður sem sérhæfði sig í smíði armbanda. Tvírek langaði til að sjá sig um í heiminum áður en hann festi rætur og fór á flakk.
Tvírekur hafði ekki ferðast lengi þegar hann kom í þorpið Nepó. Nepó lifði á námavinnslu. Þorpið átti gull-, silfur- og demantanámur. Flestir þorpsbúa höfðu viðurværi sitt af því að vinna í námunum.
Tvírekur ákvað að staldra við og fékk vinnu í silfurnámunni. Svo gerðist það sem einstaka sinnum hendir unga menn, hann varð ástfanginn af stúlku.
Tvírekur var alveg sáttur við að setjast að í Nepó því auk námanna voru níu fyrirtæki sem sérhæfðu sig í að vinna demanta, silfur og gull.
Þrjár hreinsunarstöðvar sáu um að forvinna demantana, silfrið og gullið. Þá voru sex smiðjur sem sérhæfðu sig í vinnslunni og þar af var eitt, Caterva,  sem sérhæfði sig í silfurarmböndum. Tvírekur sá ekki betur en framtíðin væri björt. Vissulega var erfitt að fá vinnu hjá skartgripasmiðjunum þar sem fólk vildi frekar vinna þar en í námunum og margir höfðu sérhæft sig til þess. En hann efaðist ekki um að einn daginn fengi hann tækifæri. Því varð úr að Tvírekur settist að í Nepó með henni Doreen sinni.


2. kafli.

Eins og við mátti búast stökk Tvírekur ekki beint í starf hjá Caterva. Hann efaðist þó ekki um að hans tími myndi koma. Þegar hann sá auglýst starf hjá Factio, silfurhreinsunarstöðinni, sótti hann um það og fékk. Þá fékk hann einnig hlutastarf hjá Pravum sem smíðaði silfurhálsmen. Þar var Brynhildur, eldri kona og flakkari eins og hann,  yfirmaður og varð þeim vel til vina. Undi Tvírekur nú glaður við sitt.
En þar sem vinnan í námunum var mjög erfið og illa launuð þá var hún ekki eftirsótt. Þorpsbúarnir vildu betra líf en þar sem litla sem enga aðra vinnu var að hafa í þorpinu þá flutti fólk í burtu. Þegar fór saman að lítið kom úr námunum og eftirspurn eftir skartgripum minnkaði þá var ekki nema um eitt að ræða: Sameina fyrirtæki.
Sumir vildu sameina öll fyrirtækin undir eitt og búa þar með til fjölbreytta og volduga skartgripasmiðju. Bæjarráðið vildi það ekki því þá þyrfti að segja upp fólki. Var ákveðið að sameina fyrirtækin eftir þeim tegundum sem þau sýsluðu við. Gullframleiðslan var sett undir Grex, silfurframleiðslan undir Caterva og demantarnir undir Secta.


3. kafli.

-Hvernig gengur með Brynhildi?
-Ekki vel, frú. Hún telur sig yfirmann yfir Pravum og hlýðir mér ekki.
-Það er svona, þetta flakkarapakk. Okkar fólk á að sitja í þessum stöðum, ekki flakkarar.
-Það vill því miður þannig til að við eigum engan sem getur sinnt þessari stöðu.
-Ekki enn þá en það kemur að því. Losaðu okkur við Brynhildi sama hvað það kostar, Ríkharður. Því lengur sem hún situr því erfiðara verður að losna við hana.
-En mun bæjarráðið samþykkja ....
-Vertu ekki svona barnalegur.


Með sameiningunni varð að fækka forstjórum, núna voru hreinsunarstöðvarnar og hálsmenjasmiðjurnar aðeins útibú með útibússtjórum.
Brynhildi fannst, eins og fleirum, eðlilegt að sér væri boðin útibússtjórastaðan hjá Pravum þótt um stöðulækkun væri að ræða. En það var ekki gert heldur var staðan auglýst. Hún gat auðvitað sótt um en Ríkharður, forstjóri Caterva, sótti það ekki stíft.
Þar sem hún var búin að festa rætur í Nepó með fjölskyldu sinni ákvað hún að sækja um stöðuna, enda hafði hún allt til að bera sem óskað var eftir ásamt reynslunni. Fór eigi að síður svo að annar flakkari fékk stöðuna. Var látið að því liggja að Brynhildur hefði aldrei verið starfi sínu vaxin.
Sá Brynhildur sína sæng útreidda og flutti burt með fjölskylduna.


4. kafli.

Tvíreki líkaði mjög vel við Brynhildi og vildi hafa hana áfram sem yfirmann. Leyndi hann ekki þeim stuðningi. Að auki voru þau Brynhildur ágætis vinir. Innfæddir héldu saman. Tvírekur var ekki útilokaður, en hjartanlega velkominn var hann ekki heldur.
Hinn nýi yfirmaður, Bauer, frétti af þessum stuðningi og varð strax Tvíreki afar óvinveittur. Allt sem Tvírekur lagði fram var ómögulegt. Var þó aldrei sýnt fram á hvað væri ábótavant.
Varð ástandið að endingu óbærilegt og sagði Tvírekur upp hlutavinnu sinni hjá Pravum.
Tvírekur óttaðist mjög að með stuðningi sínum við Brynhildi og leiðindunum við Bauer væri hann fallinn í ónáð hjá Ríkharði. Sá ótti virtist þó ástæðulaus.
Aukin eftirspurn varð á silfri til notkunar í lyklaborðum svo ákveðið var að búa til undirdeild frá Factio sem sérhæfði sig í því. Var Tvírekur beðinn um að hafa yfirumsjón með deildinni sem nefnd var Dolus. Með Tvíreki yrði einn starfsmaður ásamt íhlaupafólki. Þótti Tvíreki vænt um þetta traust.


5. kafli.

Leið nú árið og vissi Tvírekur ekki betur en allt gengi vel. En á uppgjörsfundi fyrir árið tilkynnti Ríkharður að því miður hafi eftirspurnin eftir silfri í lyklaborð ekki verið jafnmikil og vonir stóðu til og yrði því að leggja Dolus niður og segja upp þeim tveimur starfsmönnum sem þar höfðu unnið.
Tvírekur vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Hann skildi ekki af hverju hann gat ekki horfið aftur að starfi sínu í Factio, Dolus var jú, aðeins undirdeild. Hann var löggiltur silfursmiður og kominn með talsverða reynslu.
Fyrst fékk hann engin skýr svör. Þegar hann gekk eftir þeim var látið að því liggja að hann hefði aldrei verið starfi sínu vaxinn.


6. kafli.

-Þú stendur þig vel , Ríkharður. Tryggð þín verður launuð. Þú og þínir þurfa ekkert að óttast. Afkoma ykkar er örugg.
-Þakka þér, frú, þakka þér kærlega.


Tvírekur var miður sín. Hann og Doreen voru komin með börn og buru og þótt Doreen hefði haldið áfram vinnu sinni í námunum þá var hann samt aðalfyrirvinna heimilisins. Hann vissi ekki hvað hann átti að gera. Helst vildi hann taka upp föggur og fara með fjölskylduna en börnin voru fædd í Nepó og þekktu ekkert annað. Hins vegar hafði sá uggur vaknað í brjósti Tvíreks að þeirra biði ekki mikið betra hlutskipti, verandi börnin hans.
Doreen var líka fædd og uppalin í Nepó og vildi ekki fara. Ekki bætti úr skák að hún kenndi honum um hvernig komið var. Af hverju þurfti hann að setja sig upp á móti yfirmönnunum? Vissi hann ekki hvernig hlutirnir gengju fyrir sig? Hvurs lags bjáni var hann eiginlega?
Tvírekur ákvað því að harka af sér. Hann fékk vinnu í námunum þar sem alltaf vantaði fólk. Hann sótti silfur handa Ríkharði og þjónkunarfólki hans svo það gæti haft góða vinnu og átt betra líf en hann og börnin hans.  Sú vitneskja veitti ekki mikla starfsánægju.
En svo birti aðeins til. Hálsmenjadeild Grex hafði samband og bauð honum hlutastarf. Það var ekki mikið en það var þó alla vega eitthvað. Það var líka viðurkenning á því að hann væri ekki ómögulegur. Kannski gæti hann unnið sig inn með tíð og tíma...



Niðurlag.

Skömmu síðar var fleira fólk ráðið til starfa hjá Factio vegna stöðugrar eftirspurnar silfurs í lyklaborð. Þótti Tvíreki það furðum sæta. Ekki leið á löngu þar til Dolus var endurreist. Tvírekur sótti ekki um þær stöður. Hann vissi hvað til síns friðar heyrði.
Bæjarráðið ákvað að fara í frekari sameiningu og sameinaði Grex undir Caterva. Var Ríkharður settur yfir hið sameinaða fyrirtæki. Skyldmenni hans urðu fljótlega fjölmenn í fyrirtækinu.

Köttur úti í mýri setti upp á sér stýri. Úti er ævintýri




All characters appearing in this work are fictitious. Any resemblance to real persons, living or dead, is purely coincidental.

fimmtudagur, september 13, 2012

,,Ég get bara ekkert gert fyrir þig."

Um daginn dó blandari heimilisins svo ég fór í ónefnda verslun á Húsavík til að kaupa nýjan. Ég hef alltaf (fyrir utan smá vesen með þvottavélina) fengið fyrirtaks þjónustu hjá fyrirtækinu.
Þar sem blandarinn er aðallega notaður til að blanda skyrdrykki þá keypti ég lítinn og nettan blandara sem heitir Smoothie to go. 
Líða nú nokkrir dagar og ég hæstánægð með nýja blandarann.
Í gær gerist það að ég er að skrúfa glasið á en finnst það ekki smella rétt en get ekki skrúfað það lengra og set af stað. Átta mig þá á að eitthvað er ekki í lagi og stoppa strax og skrúfa glasið í sundur. Þá hefur þéttingin í lokinu losnað, hefur farið í hnífinn og er komin í þrjá hluta.

Ég hugsa með mér að þetta sé nú ekki mikið mál, hringi í ónefndu búðina og spyr hvort þau geti ekki útvegað mér nýjan hring. Og, nota bene, ég er alveg tilbúin að líta á þetta sem minn klaufaskap og borga fyrir hringinn.
Ungi maðurinn sem svarar segist þurfa að hringja í Heimilistæki og athuga með varahluti.
Stuttu seinna hringir hann aftur.
,,Nei, því miður. Það eru bara ekki til neinir varahlutir í Melissa."
,,Bíddu, ertu að segja mér að græjan sé mér ónýt út af þessu smotteríi?"
,,Já, það er bara þannig."
Merkingarþrungin þögn. Svo segi ég:
,,Mér finnst það nú alveg með ólíkindum."
Ungi maðurinn, meðvitaður um merkingarþrungu þögnina svarar með merkingarþrungnum tóni:
,,Ég get bara ekkert gert fyrir þig."
,,Ég er þá að hugsa um að beita fyrir mig ábyrgðinni, græjan er enn í ábyrgð." (Ég get alveg haldið því fram að hringurinn eigi að vera kyrr á sínum stað og annað sé galli á tækinu.)
,,Nei, hún virkar ekki á svona."
,,Jæja. Voru þetta Heimilistæki sem þú hringdir í?"
,,Já."
,,Blessaður."
Svo hringdi ég sjálf í Heimilistæki og fékk þær upplýsingar að það eru ekki búnir til varahlutir í smátæki. Neytendur beware.
Hins vegar fór ungi maðurinn þar inn í verslunina, tók upp annan pakka og hringurinn er á leiðinni í pósti mér að kostnaðrlausu.

sunnudagur, september 02, 2012

Perfect timing!

Þegar ég ákvað að flytja í Aðaldalinn þá fékk ég vilyrði fyrir hvolpi. Mér fannst það alveg tilvalið að fá mér hund fyrst ég væri nú að flytja í sveit. Þegar ég kom að skoða aðstæður komst ég, því miður, að því að gæludýrahald væri bannað á skólalóðinni.
Hins vegar var ákveðið að samræma reglur hins nýlega sameinaða sveitarfélags þann 18. des. 2008 og gæludýrahald var leyft á lóðinni.
Stuttu seinna flytur nýráðinn þjónustufulltrúi sveitarfélagsins inn í við hliðina á mér með tvo hunda. Þvílík tilviljun!

laugardagur, september 01, 2012

Aðflutt og útskúfuð

Um vorið 2005 var auglýst eftir kennara í Árbót. Ég sótti um og fékk starfið. Ég stóð í þeim leiða misskilningi að það vantaði kennara á landsbyggðina en það er klárlega rangt. Alla vega er nóg af réttindakennurum hér.
Mér var fljótlega gert ljóst að yrði af uppsögnum yrði ég látin fara fyrst. Ég nýkomin með allt mitt hafurtask þvert yfir landið. Gaman.
Liðu nú samt 5 ár á meðan ég hékk á vinnu. En börnum í sveitum landsins fækkar sífellt. Svo kom skellurinn. 
Á þessum 5 árum gerðist hins vegar ýmislegt. Ég kynntist manni og gifti mig. Maðurinn minn er bóndi svo við erum átthagafjötruð hérna. Nú eru líka komin börn.
Ég seldi íbúðina mína í Reykjavík og setti aleiguna í óseljanlegt hús.
Það varð efnahagshrun og atvinnuleysi sem var nánast óþekkt á Íslandi varð alvöru vandamál. Skyndilega eru fjölmargir umsækjendur um stöður sem þar til hafði verið erfitt að manna.
Ég varð fertug og komst þar með í óvinsælasta hóp atvinnuumsækjenda.

Hér er enga vinnu að hafa. Ég sæki um það litla sem er auglýst. Fæ þá vinnu að sjálfsögðu ekki því annað hvort er engin alvara á bak við auglýsinguna eða búið að úthluta henni til vinar eða vandamanns.
Hér ræður klíkan öllu. Auðvitað verður því mótmælt hástöfum en það þarf ekkert nema skoða stöðuveitingar síðustu ára til að staðfesta orð mín.

Ef ég elskaði ekki manninn minn þá þyrfti ég ekki að vera hérna. Getiði ímyndað ykkur hvers lags álag það er á hjónaband?

Ég ætlaði ekki að tala um þetta í von um að eyðileggja ekki möguleika mína á vinnu. En ég get ekki séð að ég hafi neinu að tapa byrjandi mitt þriðja ár í atvinnuleysi.


föstudagur, ágúst 31, 2012

Ögmundur, aftur.

Að öllu gamni slepptu þá er það algjörlega óþolandi þegar verið er að setja verklagsreglur til að komast hjá klíkuráðningum og persónulegu mati valdhafans til að ráða þann sem honum er þóknanlegastur að það sé hægt að skauta fram hjá því með einhverju bulli um ,,persónulega kosti." Hvaða persónulegu kostir eru þetta? Að vera valdhafanum  þóknanlegur?
Hvernig stendur svo á því þegar þessar ráðningar eru kærðar og dæmdar ólögmætar sí og æ að ekkert er gert?
Leggjum þessa kærumöguleika bara niður. Þeir eru tilgangslausir.

fimmtudagur, ágúst 30, 2012

Rosalegur klaufaskapur hjá Ömma og Norðurþingi

Það vita það allir að ef maður vill ákveðið fólk í stöðurnar þá er langbest að auglýsa ekki!
Svo til að sýnast þá auglýsir maður það sem skiptir ekki máli.

Í alvöru. Þetta vita nú allir.

þriðjudagur, ágúst 21, 2012

Smokkur eður ei.

Nú hef ég lítillega fylgst með máli Julian Assange og hef í sjálfu sér litla skoðun á því hvort um ,,samsæri" sé að ræða til að koma honum til Bandaríkjanna. Hins vegar finnst mér varhugavert að grunaður glæpamaður geti sett einhverja skilmála fyrir því hvort honum náðsamlegast þóknast að mæta í yfirheyrslu.
En það var ekki það sem ég ætlaði að tala um heldur smokkaleysið.
Nú sá ég á dv.is (nenni ekki að leita að því) frétt um málið og í umræðuhalanum sem fylgdi var mörgum sem þótti sakarefnið mjög ómerkilegt en Assange er sakaður um kynferðisbrot að því leyti að hafa ekki notað smokk í annars samþykktum samförum. Þetta er alveg sorglega gamaldags og fyrirsjáanlegt viðhorf. Gamaldags að því leyti að það felur í sér að kona sem stundar frjálsar ástir á í raun allt illt skilið.
Nú er ég af AIDS-kynslóðinni og það var hamrað á því að við ættum að nota smokkinn. Þess vegna finnst mér sjálfsagt að fólk noti smokk í one-night-stand. Og mér finnst fullkomlega eðlilegt að annar aðilinn geri það að skilyrði hvort sem það er karlinn eða konan. Í þessu tilviki voru það konurnar. Í tilfelli kvenna er það ekki bara hætta á kynsjúkdómum sem smokkurinn minnkar, og Assange er greinilega mjög léttur á bárunni, heldur er hann einnig getnaðarvörn.
Að fólki finnist það í alvöru ómerkilegt smámál að kona fái kynsjúkdóm eða verði þunguð gegn vilja sínum bara til að karlinn fái það betur er sorglegt.

miðvikudagur, júlí 25, 2012

Að gera fólk vanhæft.


Ég hef gaman af flestu bresku sem og glæpasögum. Það leiðir því af líkum að ég hef afskaplega gaman af bæði Lewis og Barnaby ræður gátuna.
Síðastliðna helgi var sýnd Barnaby –mynd og gott sjónvarpskvöld því í vændum. Því miður missti ég af byrjuninni en þegar ég kem inn í myndina þá er e.k. yfirmaður á staðnum, nefndur Undradrengurinn ef minnið bregst ekki, sem er að líta eftir vinnubrögðum vina okkar. Líklega hefur hann átt að bæta afköst deildarinnar eða eitthvað þvíumlíkt en eins og fyrr sagði þá missti ég af byrjuninni. Undradrengurinn fór í taugarnar á Barnaby og hann sinnti ekki því sem hann lagði til. Henti m.a. tímaskema sem hann átti að fylla út. Þetta átti klárlega að vera hliðarbrandari í myndinni og fyrst í stað hló ég að þessu. Þegar líða fór á þá fannst mér þið? ﷽﷽﷽﷽﷽﷽ er ir ekki vinnunni sinni. En hvað nfn skoða afköst deildarinnar eða þvra yfirmaður einhvers staðar og njetta ekki alveg jafnfyndið. Þetta minnti mig nefnilega leiðinlega mikið á viðbjóðs fyrirbærið einelti á vinnustað.
Ég ætla aðeins að greina þetta þótt mér sé að sjálfsögðu fyllilega ljóst að þetta er bara bíómynd og allt í plati.
Nú var þessu stillt upp þannig að Undradrengurinn var yfirmaður Barnaby svo hann var klárlega í yfirburðastöðunni. En Barnaby er gamall jaxl og eðlilegt að ætla að upp til hans sé litið og álit hans skipti máli. Enda fylgdi félagi Barnabys honum algjörlega að málum og öll deildin að því er virtist. Þannig að yfirmaðurinn naut engrar virðingar. Það er væntanlega mjög erfitt að vera yfirmaður einhvers staðar og njóta ekki virðingar og fólk fer sínu bara fram. Sbr. þegar Barnaby laug því að allir á Tæknideildinni væru veikir.
Þá var maðurinn sífelldlega uppnefndur, aldrei kallaður neitt annað en Undradrengurinn og vissulega í háðungarskyni.
Það sem stakk mig mest var þegar Barnaby henti tímaskemanu. Því ,,Undradrengurinn” hefur væntanlega verið fenginn til að hagræða eða skoða afköst deildarinnar eða þvíumlíkt. Þegar deildin neitar að vinna með honum þá er verið að koma í veg fyrir að hann geti unnið vinnuna sína. M.ö.o. hann er gerður vanhæfur. 
Þarna langar mig að staldra við því við tölum oft svo fjálglega um hæfi og vanhæfi eins og það sé öllum auðþekkjanlegt og auðvitað eigi bara að reka fólk ef það sinnir ekki vinnunni sinni. En hvað nú ef  svona er í pottinn búið? Það er nefnilega ekkert erfitt að gera fólk vanhæft. Það er vissulega erfiðara fyrir undirmann að gera yfirmann sinn vanhæfan en ef undirmennirnir flestir eða allir taka sig saman þá er það ekkert svo ýkja erfitt. Þá hlýtur það að vera mun auðveldara fyrir yfirmann að gera undirmann sinn vanhæfan.*
Nú ætla ég ekki að  fabúlera upp einhver dæmi önnur en það sem nefnt er. En mér sýnist þetta vera hægðarleikur fyrir einhvern sem þannig er innréttaður. Nú eða ef það þarf að losa sig við óæskilegt fólk og/eða rýma til fyrir því rétta.


* People bullied at work recognize when they are being set up to fail. They are typically targeted because of their superior technical or social skills. Objectively they are not poor performers or failures. So, bullies engineer ways to sabotage and undermine the good worker. Then, when the outcome falls short, the target takes the blame. But the entire problem was manufactured by the bully.

fimmtudagur, júlí 19, 2012

Tannlæknaraunir - framhald

Fyrir ári síðan fyrir ég til tannlæknis eins og ég gerði ítarlega grein fyrir hér. Tönnin hefur verið tiltölulega í lagi síðan ég fór til hins tannlæknisins, ekki alveg 100% en tiltölulega í lagi. Ég ætlaði bara að bíða eftir að minn tannlæknir kæmi aftur en þá tekur hann upp á þeim óskunda að hætta! Lovely.
Í júní tek ég eftir því að tannófetið er farið að verða viðkvæmt aftur. Þolir illa að fá á sig eitthvað hart.  Brauð með korni og múslí er stórhættulegt. Svo ég ákveð að hringja í hinn tannlækninn og þá jafnvel að óska eftir að verða hans skjólstæðingur til frambúðar. Þá er hann farinn í frí í einhverjar 6 vikur. Fine.
Ég ákveð þá að venda mínu kvæði í kross og finna tannlækni á Akureyri. Hitti ég hann í gær. Jú, það er alveg ljóst að það er viðkvæmur blettur í tönninni. Hann heldur að það sé slit. (Okey?) En hann gæti þurft að taka upp alla fyllinguna þótt honum finnist það ólíklegt. Já, þakka þér fyrir.
Nú skulum við fara í gegnum þetta:
Ég er hjá tannlækni sem ég er ánægð með.
Fyrir ári síðan er hringt frá HANS stofu og mér boðinn tími hjá nema. Ég held í fávisku minni að þá hljóti tannlæknirinn minn að bera ábyrgð á nemanum.
Neminn klúðrar. Það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað.
Það er í sjálfu sér allt í lagi svo framarlega sem það verður lagað. Nei. Neminn fer auðvitað aftur suður í skólann um haustið.
Nú myndi einhverjum detta í hug að tannlæknirinn minn myndi koma aftur úr fríi eða hvar sem hann var en nei. Hann lætur ekki sjá sig.
Þa´ fer ég til annars tannlæknis sem ber auðvitað ekki a´byrgð á hinum svo ég borga honum fyrir hans framlag, eðlilega.  Hefði ég farið aftur til hans vegna þessarar viðgerðar þá hefði viðgerðin á viðgerðinni verið ókeypis. Þegar mig vantar viðgerð á viðgerðinni þá er hann kominn í sumarfrí. Í millitíðinni hættir minn tannlæknir.
Þegar ég er að vega kosti mína og meta þá geri ég mér grein fyrir því að með því að fara til tannlæknis á Akureyri þá verð ég að borga þriðja aðilanum fyrir viðgerð á sömu (djöf...) viðgerðinni. En ég ákveð að láta mig hafa það því í rauninni held ég að tannhálsinn sé enn ber og það sé ekki svo dýrt að laga það.
En nú er sá möguleiki kominn upp að kannski þurfi að taka upp alla fyllinguna. Hvað kostar það? Hver á að bera kostnaðinn af því?
Við hvern á ég að tala? Tannlæknadeildina? Tannlækninn minn, þann upphaflega? Hver ber ábyrgð á nemanum?

þriðjudagur, júlí 10, 2012

Tómatsósubrandarinn og strætóferðin eilífa

Best að ég klári þetta fyrst ég byrjaði á því.

Þegar ég var krakki, sennilega einhvers staðar á forgelgjunni, gekk brandari. Hann var einhvern veginn svona:
Tveir gamlir menn sitja saman á bekk. Þá sjá þeir álengdar þriðja manninn. -Er þetta ekki Jón? spyr annar. -Nei, þetta er Jón, svarar hinn. -Ó, mér sýndist þetta vera Jón segir þá hinn fyrri.
Brandarinn gekk sem sagt út á það að þeir væru orðnir heyrnarsljóir, ha,ha.

Svo gerist það eitt sinn heima að fjölskyldan sest að snæðingi og það vantar tómatsósu á borðið. Pabbi stendur upp til að sækja hana. Þá segir mamma: -Tómatsósan er í ísskápnum. Pabbi er eitthvað annars hugar eða hefur misheyrt og svarar: -Nei, tómatsósan er í ísskápnum. Þá fer eldri systir mín að hlæja og klykkir út minnug brandarans. -Ó, ég hélt að tómatsósan væri í ísskápnum.
Þetta fannst fjölskyldunni óskaplega fyndið.
Verandi það barn sem ég var þá áttaði ég mig greinilega ekki á að þetta var svona 'staður og stund' brandari og asnast til að segja frá þessu í skólanum. Asnalegasti brandari ever. Og hann var rifjaður upp. Aftur og aftur og aftur og aftur. Og einu sinni til. Jafnvel tvisvar. Árum ef ekki áratugum saman. Því saumaklúbburinn var starfræktur áfram eftir útskrift og óskiljanlegi brandarinn var reglulega rifjaður upp þar.

Ég var bráðþroska. Þegar ég var tólf ára þá var eitthvað vesen með strætó, sumir bílstjórarnir vildu rukka fullorðinsgjald en aðrir ekki. Ég hafði staðið í svona stappi nokkrum sinnum en það var alveg á hreinu að 12 ára áttu að borga barnafargjald. Í eitt skiptið er ég að taka strætó og bílstjórinn rukkar mig fullorðinsgjald. Ég segi honum að ég sé ekki nema tólf ára og enn þá í barnaskóla. Hét 6. bekkur þá. Það skipti engu máli, ég átti að borga fullorðinsgjald. Á næstu stoppistöð koma tvær bekkjarsystur mínar inn og þær borga barnafargjald. Ég var enn þá frekar reið eftir samskiptin  svo ég fer fram í og segi honum að við séum bekkjarsystur og hvort þær eigi ekki að borga fullorðinsfargjald eins og ég. Minn tilgangur var sá að þær staðfestu að ég væri bara tólf ára. Það kemur eitthvað á blessaðan bílstjórann en til að vera sjálfum sér samkvæmur rukkar hann þær um fullorðinsgjald. Frekar óheppilegt, vissulega. Ég man ekki hversu fljótlega þær tóku þetta upp en það var tekið upp og ég útskýrði málið, að ég hélt og því væri þar með lokið. Nei. Þetta var eitt af því sem var tekið upp aftur og aftur og aftur....
Það liðu því miður nokkuð mörg ár þar til ég spyrnti við fótum og lét vita að mér þættu þessar eilífu upprifjanir alveg óskaplega leiðinlegar.
Eins og ég hef áður sagt frá þá varð ég fyrir einelti í grunnskóla. Ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að það hefðu bara verið ákveðnir einstaklingar sem stóðu fyrir því. En ég er að átta mig á því núna að auðvitað var þetta hluti af eineltispakkanum þótt ómeðvitað hafi verið.
Því einelti viðgengst ekki í tómarúmi, það viðgengst þar sem það er viðurkennt. 

Að klippa vængina af englunum

Það eru notaðar ýmsar aðferðir við uppeldi á börnum. Ein er að segja sögur og ævintýri sem fela í sér ákveðinn boðskap. Stundum eru ævintýrin mjög einföld og til þess ætluð að stöðva ákveðna hegðun.
Á mínu æskuheimili var sagt við okkur systurnar að ef við klipptum út í loftið með skærum þá værum við að klippa vængina af englunum. Ég man ekki nákvæmlega hvenær þetta var sagt við mig fyrst, ég man bara að ég var barn og mamma sagði þetta og við ræddum það eitthvað nánar mæðgurnar að það væru litlir englar allt í kringum okkur. Ég held ég fari rétt með að þetta komi frá ömmu minni. Svona ævintýri eitthvert sem oft fylgir fjölskyldum. Nú má vissulega ræða um hindurvitni og annað slíkt en auðvitað var þessu ætlað að stöðva óæskilega hegðun. Í sjálfu sér sé ég ekkert rangt við að nota fallega hugmynd til þess að stöðva hegðun. Nægar eru skammirnir.
Fyrir mér var þetta alveg skýrt; ég klippti ekki út í loftið með skærunum. Hins vegar varð mér það á seinna meir í handavinnutíma í skólanum að segja þetta þegar einhver var að klippa út í loftið. Bekkjarsystur mínar höfðu sjaldan eða aldrei heyrt neitt jafn hallærislegt. Þetta var rifjað upp reglulega og ég fékk að heyra árum saman. Þótti ógurlega fyndið.
Um daginn náði sonur minn í skæri og klippti út í loftið.
Ég veit hvað mig langar að segja.
Ég veit líka af hverju ég segi það ekki.

sunnudagur, júní 10, 2012

Bara að spá.

Eins og flestir sveitungar mínir vita þá var settir Starfshópur til að vinna að sameiningu skólanna. Starfshópurinn skilaði síðan af sér tillögu. Í greinargerð með tillögunni segir:

Starfshópurinn er einhuga um þessa tillögu í heild sinni, nema hvað varðar yfirfærslu starfsmanna í efstu stjórnunarlögum yfir til nýrrar stofnunar. Starfshópurinn vísar því til sveitarstjórnar að taka ákvörðun um hugsanlegar uppsagnir og ráðningar í efstu stjórnunarlögum þar sem einstaklingar innan starfshópsins eru vanhæfir til þeirrar ákvarðanatöku.

Ef ég skil þetta rétt, og mér gæti vissulega skjátlast þá á sveitarstjórn að taka ákvörðun um uppsagnir og ráðningar í efstu stjórnarlögum. 

Sveitarstjórn tók málið fyrir á fundi og meirihlutinn ákvað eftirfarandi:


„Sveitarstjórn samþykkir það sem starfshópur leggur til og að engum starfsmanni verði sagt upp við sameiningu skólanna í eina stofnun. Samþykkt að vísa ákvörðun ásamt tillögu til skólaráða Hafralækjarskóla og Litlulaugaskóla til umsagnar.“ 

Ókey, þetta ætti að vera nokkuð ljóst. Það á ekki að segja neinum upp. Er það ekki nokkuð klárt?

Það næsta sem gerist er þetta. Þarna er verið að auglýsa störf sem eru setin. Það getur vel verið að það þurfi lögum samkvæmt að auglýsa stöðurnar en það hefur ekki verið gert hingað til, eða hvað? Ef einhver sækir um stöðu þá missir einhver vinnuna sína. Heitir það ekki uppsögn? Og þarna verður klárlega breyting í efsta stjórnunarlagi en sveitarstjórn hefur ekki tekið neina ákvörðun um slíkt.
Það getur vel verið að þetta sé sameiningunni óviðkomandi en ég er samt svolítið hissa.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...