mánudagur, október 26, 2020

Að semja við narsissista

Október 2017. 
Narsinn: Ég mun aldrei selja minn hluta. 
Við: Ókey, viltu þá kaupa okkur út? 
N. Nei! 

 Haust 2018. 
N: Ég vil selja allt mitt. 
V: Ókey, við skulum kaupa þig út. 
N: Nei! Ég vil selja allt mitt bara öllum nema ykkur! 

 Október 2018 
N: Það eina sem ég er tilbúinn að semja um er að allt verði selt í einum pakka og húsið ykkar verði í þeim pakka. 
V: Fyrirgefðu, hvað!? Þú vilt sem sagt hleypa upp öllu okkar lífi, flæma fjölskylduna frá Hálsi og börnin úr skólanum sínum?*

 Mars 2019. 
V: Allt í lagi, við gefumst upp á þessu rugli og samþykkjum að allt verði verðmetið þar með talið húsið okkar. 
Við skrifum strax undir fundargerðina. 
Hann hefur ekki enn skrifað undir hana. **

 2020 Nýjar fundarraðir. 
Unnið áfram í því ferli sem hann sjálfur lagði til.
N frestar og tefur og kemur með hvern fyrirsláttinn á fætur öðrum.

Október 2020
N: Ég vil ekki selja! Þú vilt selja!

Ég hef að sjálfsögðu gögn sem staðfesta þessa frásögn.

 
Hægt er að setja íslenskan texta á myndbandið.

*Honum hefur tekist þetta ætlunarverk sitt með dyggri aðstoð skósveina sinna.

**Þriðji meðeigandinn  sem er búinn að biðja um að vera keyptur út í 10 ár tók 6 mánuði í að skrifa undir. 



miðvikudagur, september 23, 2020

Fíasól og Skuggi

Skuggi

Fíasól


Skuggi kom til okkar 2016 ásamt Batman bróður sínum. Því miður varð (sic.) Batman fyrir bíl ári seinna svo Skuggi varð einn. Hann er afskaplega rólegur köttur en vill hafa hlutina á sínum forsendum. Hann vill ekki láta halda á sér og klappa sér en honum finnst ósköp notalegt að liggja á gólfinu og fá strokur. Honum finnst líka ofboðslega gott að borða.


Fíasól kom 2018. Við fengum hana sem högna og skírðum Messi. Seinna kom í ljós að hún var lítil stelpurófa. Við ætluðum bara að láta hana heita Messi áfram en vinkona mín kom í heimsókn og kallaði hana Fífí og Fíusól. Fíasól smellpassaði svo hún hefur heitið það síðan. Fíasól er mikill veiðiköttur og er því með bjöllur og trúðakraga. Sá siður hefur haldist frá því að hún var kettlingur að hún fær (laktósalausa) mjólk á morgnana. Hún fékk hana á eldhúsbekknum svo hundurinn næði ekki mjólkinni. Hún kemur enn á morgnana og vill oft láta lyfta sér upp eins og þegar hún var lítil þótt hún geti auðveldlega stokkið😉

Á kvöldin fá þau blautmat sem fóstri þeirra gefur þeim. Þau mæta og bíða.

 Þannig er mál með vexti að lausaganga katta er bönnuð á Húsavík. Þau frændsystkinin eru vön því að fá að fara út og hægara sagt en gert að breyta útiköttum í inniketti. (Fyrir nú utan nú að leigusalinn vill ekki ketti.) Því biðlum við til einhverra góðhjartaðra kattavina þar sem lausaganga er leyfð ef þeir gætu mögulega passað kettina okkar í vetur🙏





sunnudagur, september 06, 2020

Hús til leigu.

Húsið okkar.

Hús okkar á Hálsi í Kaldakinn er til leigu, alla vega næstu 5 mánuði. Húsið er búið húsgögnum.

161 fm, þrjú svefnherbergi, eitt gestaherbergi með rennihurðum, tvö baðherbergi, eldhús og stofa.

Leiga: 130.000 þús.

Hægt er að semja um leigu á herbergjum ef fleiri vilja leigja saman.

Gott væri ef leigjendur gætu leyft tveimur köttum að búa með sér.

Marteinn:  marteinngunnars@gmail.com, GSM 893-3611.


Einnig er hægt að fá lítið eins herbergis hús til langtímaleigu.








föstudagur, júlí 10, 2020

Ófrægingarherferð narsissistans

Eftir Lauren Norris.
Þýtt að hluta, fengið héðan:
Hvað er ófrægingarherferð (smear campaign)?
Ef þú hefur einhvern tíma haft einhvern náinn í lífi þínu með narsissíska persónuleikaröskun narcissistic personality disorder þá þekkirðu væntanlega ófrægingarherferðina vel.
Ófrægingarherferð er þegar narsissistinn býr til falskan veruleika um þig með lygum og blekkingum.
Ég las frábæra tilvitnun hjá Greg Zaffuto í “From Charm to Harm and Everything in Between With a Narcissist” sem lýsir þessu vel:
„Narsissistar óttast opinberun eða sannleikann um sjálfa sig, SÉRSTAKLEGA ef þeim finnst sér ógnað.
Þeir munu rægja viðkomandi, trúverðugleika og æru með lygum, hálfsannleika og illgjörnu slúðri.
Narsissistinn leikur á tilfinningar og kenndir áheyrandans með sögu sem er nógu trúleg án þess að hægt sé að setja NÁKVÆMLEGA fingur á hverjar ásakanirnar eru, en er nógu áhrifamikil og illgjörn til að skapa tortryggni áheyrandans gagnvart skotmarki narsissistans.
Narsissistar snúa algjörlega upp á veruleikann með röngum niðurstöðum og mála sjálfa sig ALLTAF sem fórnarlömbin. Með þessu réttlæta þeir illgjarnt slúðrið sem þeir bera út til að eyðileggja mannorð einstaklings sem þeir upplifa að hafi lítillækkað þá á einhvern hátt. Eða þeir óttast að sannleikurinn um þá og það sem þeir gerðu einstaklingnum óverðskuldað komi í ljós.
„Ófrægingarherferðin“ og „illgjarnt baktalið“ er sóknar-vörn til að þagga niður í skotmarkinu/fórnarlambinu, vekja ótta, eyðileggja og aðallega til að vernda brothætt gervi narsisstans sem góðs manns.“
ÁSTÆÐUR ÓFRÆGINGARHERFERÐARINNAR?
Nokkrar algengar ástæður eru:
  1. Þú sagðir eða gerðir eitthvað sem lét þá líta illa út. Þeir gera hvað sem er til að laga ímynd sína og láta þig líta illa út í staðinn.
  2. Ómeðvitað veit narsissistinn að þú hefur áttað þig á honum svo hann byrjar að skíta þig út svo ef þú myndir segja einhverjum frá þá trúir þér enginn.
  3. Þeir eru að missa stjórnina á þér og eru að reyna að ná henni aftur.
HVAÐ FELST Í ÓFRÆGINGARHERFERÐINNI?
Lygar.
Þeir búa eitthvað til um þig eða það sem þú átt að hafa sagt eða gert
Oft er þetta gert undir yfirskyni „umhyggju“ gagnvart þér en er í raun aðeins leið til að dreifa óhróðri og lygum um þig.
Þetta getur spilast á mismunandi hátt. Narsissistinn segist hafa þetta frá áreiðanlegri „heimild“ en staðfestir aldrei þá heimild. … Eða þeir bara hreinlega ljúga og búa til hluti.
Stundum blanda þeir hálfsannleik í söguna. T.d. segja þeir frá því að þú hafir hent einhverju í þá en sleppa fyrri hlutanum þar sem þeir níddu þig niður og hótuðu ofbeldi.
Narsissistinn hættir aldrei. Hann mun reyna að eyðileggja sambönd þín og orðspor hjá fjölskyldu þinni, vinum, vinnufélögum jafnvel fólki sem þekkir þig ekki.
Sorglegast er að fólk hefur enga hugmynd um að þetta er ófrægingarherferð. Narsissistinn er svo lævís og varkár í „upplýsingagjöf sinni“ að fólk áttar sig ekki á hvað er að gerast.
Það er ekki ólíklegt að narsissistinn nái að snúa fólki gegn þér sem bæði þekkir þig vel og hefur þekkt þig lengi.


sunnudagur, júlí 05, 2020

Davíð og Golíat

Þann 2. júlí birtist grein í Fréttablaðinu þess efnis að ungur maður, Davíð Atli Gunnarsson, hefði ekki komist inn í viðskiptafræðideild Háskólans á Akureyri. Davíð var heldur undrandi á þessum móttökum enda dúxaði hann úr Framhaldsskólanum á Húsavík árið á undan. Ég kenndi Davíð í Framhaldsskólanum og get lítið annað sagt en að Háskólinn á Akureyri er að missa frá sér mjög góðan nemanda. Davíð er bæði samviskusamur og greindur og ég veit fullvel að hann yrði fljótur að vinna upp þann viðskiptafræðigrunn sem strandar á. Hann hefur unnið í bókabúðinni á Húsavík undanfarið ár og hefur vafalítið bætt þar í sarpinn.

Hins vegar átta ég mig vel á að Háskólinn verður að hafa eitthvert viðmið, einhver inntökuskilyrði. Orð gamalla kennara vega lítils og með réttu. Það breytir því þó ekki að með ströngum inntökuskilyrðum sínum er HA, á ákveðinn hátt,  að mismuna nemendum eftir búsetu.

Og þá komum við að vanda málsins; Framhaldsskólinn á Húsavík er lítill skóli, hann getur ekki boðið upp á allar þær brautir og áfanga sem stóru skólarnir geta. Vissulega erum við að tala um fjármuni, hver skóli fær fjárframlag frá ríkinu eftir fjölda nemenda. Það liggur í hlutarins eðli að 100 nemenda skóli fær mun minna framlag en 1000 nemenda skóli.  Í beinu framhaldi má spyrja: Er einhver tilgangur að halda úti svo litlum skólum? Ég spyr beint á móti: Er einhver tilgangur með því að halda byggð í landinu?

Auðvitað væri það ósköp þægilegt ef við byggjum öll á suðvestur horninu en hver yrkir þá jörðina? Er hægt að vera með alla útgerð frá Reykjavík? Koma tekjur ferðaþjónustunnar allar frá suðvestur horninu?

Ég veit að við erum öll sammála um að sextán ára börn eru börn, sjálfræðisaldurinn var hækkaður úr sextán árum upp í átján 1997. Það hlýtur að vera skiljanlegt að börn vilji nema í sinni heimabyggð. Það hlýtur að vera skiljanlegt að foreldrar vilji hafa ósjálfráða börn sín hjá sér. Verði litlu skólarnir aflagðir þá er sú hætta til staðar að sumir nemendur sæki ekki þá menntun sem hugur þeirra stendur til. Sú hætta er einnig til staðar að fjölskyldur flytji frá heimahögum sínum til að geta veitt börnum sínum menntun. Nú þegar fara nemendur í stærri skólana einmitt til að geta fengið þá menntun sem hugur þeirra stendur til.

Eins vondur og Covid faraldurinn er þá hefur hann samt kennt okkur í framhaldsskólum landsins að það er hægt að sinna nánast allri kennslu í gegnum netið. Ekki svo að skilja að fjarnám sé eitthvað nýtt undir sólinni en nú reyndi öðruvísi á. Kennarar og nemendur reyndu nýja hluti og nýjar nálganir og búa nú yfir heilmikilli reynslu. Netkennsla kemur aldrei í staðinn fyrir viðveru í skóla og mannleg tengsl en við vitum að þetta er hægt. Margir skólar eru að huga að breytingum og ætla að setja hluta námsefnis og kennslu á netið. Ég sé fyrir mér að framhaldsskólar vinni saman og að nemendur litlu skólanna geti tekið í fjarnámi þá áfanga sem ekki er hægt að kenna í þeirra skóla. Ég ætla ekki að þykjast geta útfært slíkt en von mín er sú að framvegis muni nemendur sem t.d. hyggja á viðskiptafræðinám geta tekið þá áfanga í fjarnámi frá öðrum skóla. Þetta er gert að hluta nú þegar og hlýtur að vera hægt að víkka út slíkt samstarf allra skóla landsins.


fimmtudagur, júlí 02, 2020

Þjóðremba?

Ég starfa sem íslenskukennari og kenni Snorra-Eddu. 
Nú, eins og gengur þá nota ég glæru-sjó og hef gaman að því að myndaskreyta þau. Þá nota ég auðvitað myndir af norrænu goðunum. (Stel mikið frá Peter Madsen.)


Nýverið pantaði ég svo stuttermaboli með myndum úr Eddunni, Fenrisúlfi, Hata og Skolla og víkingabardaga. Það var ekki fyrr en nokkru seinna að það hvarflaði að mér að einhverjir gætu haldið að ég væri nýnasisti. Ég er feit miðaldra kerling úti í sveit. Lifi ósköp rólegu lífi. Ef eitthvað fer í pirrurnar á mér þá eru það frekir, hvítir karlar. Svo ég ákvað að engum gæti mögulega dottið svona vitleysa í hug.  Þar fyrir utan þá ákvað ég í þessu eintali sálar minnar við sjálfa mig, að þetta væri menningararfur sem við ættum öll rétt á. Ég ætlaði ekki að leyfa einhverjum löngu dauðum nasista-vitleysingum að stela frá mér myndskreytingu menningararfsins.

Í dag birtist auglýsing frá KSÍ. Já, ókey, ég skil gagnrýnina. En...
Við höldum úti landsliðum, ekki rétt? Aðrar þjóðir halda úti landsliðum. Við erum land að keppa við önnur lönd, þjóð við aðrar þjóðir. Þetta byggist á þjóðrembu, við sameinumst um að standa með "okkar" liði, gegn "hinum." 
Við sem búum hér erum öll Íslendingar hvernig sem við erum á litinn og hverju sem við trúum. 

fimmtudagur, júní 04, 2020

Ferðast innanlands

Fjölskyldan á Hálsi hefur rekið litla ferðaþjónustu undanfarin ár svo við höfum verið bundin heima við og lítið getað ferðast. Núna koma engir gestir til okkar og öll í sumarfríi í stutta stund svo við nýttum tækifærið og ferðuðumst sjálf aðeins um landið.

Vígalegur
Strákarnir luku vormóti á Akureyri í íshokkí á fimmtudagskvöldi svo við ákváðum að fara ekki mjög langt og gistum á Hótel Blöndu á Blönduósi.  Við fengum fjölskylduherbergi svo við sváfum öll fjögur í sama herberginu eins og við vildum. Er skemmst frá því að segja að herbergið er rúmgott, rúmin góð og sváfum við öll vel. Morgunverður var innifalinn og vel útilátinn. Það vantaði kúpul á eitt ljósið í herberginu sem var aðeins leiðinlegt á hótelherbergi en okkur leið vel og strákunum fannst gaman. Starfsfólkið var líka mjög kurteist oog elskulegt. Mælum eindregið með Hótel Blöndu.

Við vorum búin að panta á Hótel Blöndu þegar okkur var bent á að við yrðum að kíkja á Sögusetrið á Sauðárkróki svo við keyrðum aðeins fram og til baka. En það var fullkomlega þess virði! Við keyptum fjölskyldupakka á tæpar 9 þús. Fyrst er safn um Sturlungaöldina en svo er hægt að fara í 10 mínútna sýndarveruleika um Örlygsstaðabardaga. Það var mjög skemmtilegt, ég skil loksins alla þessa steina sem falla á hendur manna í Njálu. Strákunum fannst þetta auðvitað algjörlega frábært og vildu helst fara strax aftur. Frábær sögukennsla. Svo var hægt að klæða sig upp og taka myndir.


Þá litum við aðeins inn í Glaumbæ. Það var áhugavert en við erum auðvitað með Grenjaðarstað í næsta nágrenni.

Húsbóndann langaði að skoða Borgarvirki á leiðinni á Borðeyri. Ég hafði ekki hugmynd um þennan stað og það var mjög áhugavert að skoða hann.


Þessa nótt gistum við á Borðeyri í Tangahúsi. Við fengum neðri íbúðina fyrir okkur. Eina sem ég hef yfir þessari gistiaðstöðu að kvarta var að það vantaði tilfinnanlega sófa. Að öðru leyti mjög fínt.
Um kvöldið gengum við út á tangann og strákarnir náðu að fleyta kerlingar í fyrsta skipti. Svo allt í sáum við sel og svo annan. Þeir voru alveg jafn forvitnir um okkur og við um þá og góndum við á hvert annað í svolitla stund. Því miður tók ég ekki símann með í göngutúrinn svo það eru engar myndir af selunum. Við höfðum öll gaman að þessu.

Daginn eftir keyrðum við við Hólmarvíkur og litum inn á Galdrasafnið. Það er fróðlegt en byggir talsvert á lestri og strákarnir höfðu ekki mikla þolinmæði með foreldrum sínum sem vildu helst fá að lesa sem mest. En nábrókin náði vissulega athygli þeirra...


Við fengum okkur hádegismat á Café Riis á Hólmavík. Einhver besta pizza sem við yngri sonurinn höfum fengið og hinir ánægðir með með fiskinn og lamba file-ið. Flott gamalt hús og skemmtilegur staður. Ég verð að segja frá því að mér fannst dásamlega skemmtilegt að vertinn (kvk) var með rúllur í hárinu. Ég man eftir konum með rúllur úr æsku minni og fannst þetta frábært. Ég kunni ekki við að taka mynd þótt mig langaði😉

Síðustu nóttina gistum við í Heydal. Að öðrum ólöstuðum var það skemmtilegasti staðurinn. Þau hafa breytt útihúsunum í gróðurhús með sundlaug og strákarnir fóru strax þangað og vildu helst vera þar. Þau eru með tvo hunda, einn kött og talandi páfagauk. Hundurinn Loki reyndi að leiða okkur í ógöngur í kvöldgöngunni, hljóp yfir ána og þóttist svo ekki komast til baka. Yngri drengurinn var miður sín og reyndi mikið að hjálpa honum svo Loki fékk alla þá athygli sem hann vildi😁 Drengurinn skildi ekkert í vonsku móður sinnar sem sagði honum að skilja hundinn bara eftir og koma. Svo hljóp hundspottið fram úr okkur.


Kobbi páfagaukur bauð góðan daginn. Hann býður líka góða nótt ef honum finnst fólk sitja of lengi fram eftir í matsalnum. Hann hermir líka eftir símanum og svarar honum.




Ef fólk er að ferðast með börn þá mæli ég eindregið með Heydal.

Það er mjög gaman að sjá hversu mikil uppbygging hefur orðið víða í ferðaþjónustu og mikið að í boði. Hvet fólk eindregið til að ferðast um landið okkar í sumar.

þriðjudagur, júní 02, 2020

Fljúgandi apar

Sjálfsdýrkandi myndar ekki auðveldlega djúpa tengingu eða tilfinningasambönd við fólk og eiga þessir einstaklingar oft yfirborðskennd vinasambönd sem oft byggja á aðdáun og gagnrýnisleysi „vina“ sem fá einungis að kynnast upphafinni sjálfsmynd narsissistans. Átök eru því ekki algeng í þessum tengslum. Oft eru þetta einstaklingar sem sjálfsdýrkandinn velur vegna þess að honum steðjar ekki ógn af þeim og öðlast mikilvægi hjá eða nær valdi yfir, til að mynda með að vera hjálplegur gagnvart þeim, til dæmis með því að veita þeim fría þjónustu og því upplifaður sem einstaklega góður vinur. Þessir einstaklingar virðist stundum hreinlega „dýrka“ narsissistann og eru tilbúnir að ganga fram til að tala máli hans eða verja hann og myndu til dæmis hringja í börnin, makann eða aðra til að tala máli hans óafvitandi að þau er lítið annað en tól í stjórnunarleik hans. 
Í neti narsissistans. 






 

þriðjudagur, maí 26, 2020

Í neti narsissistans

Mjög upplýsandi grein sem ég hvet fólk til að lesa þótt hún sé löng.


Í neti narsissistans

Undanfarnar vikur hefur borið á aukinni umræðu um ofbeldi í samfélaginu meðal annars vegna álags sem myndast hefur inni á heimilum í einangrun. Ástæður þess að fólk beitir ofbeldi geta verið fjölmargar en stundum getur verið um að ræða ákveðna persónugerð sem kallast „Sjálfsupphafningar-persónuleikaröskun" eða „sjálfsdýrkandi" (narsissisti).


Sjálfsdýrkandinn er einstaklega slyngur í að spila hlutverk fórnarlambsins og næla sér í stuðning úr nærumhverfinu. Til að ná því fram svífst hann ekki neins og segir það sem honum dettur í hug til að ná í samkennd. Afar mikilvægt er að biðja fólk sem þig grunar að gætu verið sjálfsdýrkendur um staðreyndir. Þeir segja setningar eins og „hún er búin að senda mér fullt af ljótum skilaboðum ...“; „hún er búin að hafa af mér allar eigur ...“; „ég er bara á götunni ...“. Biðjið um að fá að sjá gögn eða aðra haldbæra hluti sem ekki er hægt að hrekja en fyrst og fremst skulið þið biðja um hina hlið málsins nema þú kjósir að vera eins og korktappi í ólgusjó narsissistans. Staðreyndir eru gjarnan í hrópandi ósamræmi við orðin. Hann bregst oftast ekki vel við slíkri bón og ásakar þig um að standa með hinum aðilanum og fær þig þannig til að draga þig í hlé, gjarnan með því að vekja hjá þér sektarkennd, til að halda friðinn. Hann kemst því oft langt í ásökunum sínum án þess að fólk sjái nokkurn tíma haldbær gögn. Þessar upplýsingar eru einstaklega mikilvægar í heimi lögmennskunnar þar sem narsissískir einstaklingar geta keyrt upp lögmannskostnað einungis byggt á orðum sínum og komast oft upp með það í lengri tíma að leggja ekki fram haldbær gögn máli sínu til stuðnings og mála sig sem fórnarlamb. 

miðvikudagur, maí 13, 2020

Nýtt cover

Jæja, ég er orðin leið á þessu coveri á facebook-inu mínu.
Ég hélt að Jón Björn Hreinsson myndi kannski sjá sóma sinn í að taka út þetta skítakomment þar sem hann leggur til að fjölskylda með tvö börn á grunnskólaaldri yrði mökuð út í skít. En greinilega ekki. Hann þóttist ekki kunna það en blokkaði okkur svo. Hvort skyldi nú vera flóknara?
Þannig að ókeypis auglýsingum mínum fyrir örvæntingu hans og einsemd er hér með lokið. Vilji einhver kona skoða garpinn mæli ég með að viðkomandi afli sér upplýsinga hjá systur hans.







sunnudagur, maí 10, 2020

Mæðradagurinn

Varúð: Persónuleg færsla.

Ég hef einhverra hluta vegna gert frekar lítið úr mæðradeginum þegar kemur að sjálfri mér. Ég hringi í mömmu eða sendi blóm en ég minni strákana mína ekki á hann. Ekki eins og ég læt manninn minn vita af konudeginum með góðum fyrirvara og meiningum. Þetta er bara svona og var í raun ómeðvitað.
Það var ekki fyrr en í fyrradag að ég sá þessa færslu á facebook að ég áttaði mig á þessu.


Mig langaði alltaf til að eignast börn. Ég veit ekki af hverju. Einn harðsvíraðasti trúleysingi sem ég þekki segir að allar lífverur hafi þörf fyrir að bera erfðaefni sitt áfram. Kannski er það umhverfið sem þrýstir á því guð veit að nóg er af fólkinu.
Ég veit ekki af hverju og ætla ekki einu sinni að reyna að svara því en mig langaði að eignast börn og ég veit að fullt af konum langar að eignast börn. Við getum það bara ekki allar.
Og þó svo að ég hafi verið svo heppin að ná að eignast tvo stráka þá er það ekki sjálfgefið.

Ég hef svo sem sagt þessa sögu áður. Í fyrstu tilraun missti ég fóstur. Það er svo þögguð lífsreynsla að ég hélt raunverulega að ég væri ein af fáum konum sem hefðu lent í því. Svo kom nú upp úr dúrnum að æði margar konur hafa misst fóstur. En þið vitið þetta er lífsreynsla kvenna og svoleiðis þarf að þagga. Sem er skrítið því barnsfeðurnir finna svo sannarlega til líka.

Í næstu tilraun var ég gengin 24 vikur á leið þegar barnið hætti að hreyfa sig. Þetta gerðist í júlí og allir í sumarfríi. Fæðingin var framkölluð og við jörðuðum litlu stúlkuna okkar sem átti að heita Þórhildur en var nefnd Björg. Hún hvílir hjá langömmu sinni og langafa sem áttu 5 stráka og ég veit að þau hugsa vel um hana.

Þar sem það voru sumarfrí fengum við ekki niðurstöðu úr krufningunni. Við vildum vita hvað hefði gerst og systir mín læknirinn fullvissaði mig um að læknirinn sem framkvæmir krufningar á litlum krílum væri mjög vandvirkur og virðingarfullur. Ég efast reyndar ekki um að allir læknar séu það en á þessum tímapunkti skipti þetta mjög miklu máli að heyra.

Svo tók við biðin. Ég vissi ekkert hvað hafði gerst. Hvort það væri einhver genagalli eða eitthvað að hjá mér. Hvort ég gæti yfir höfuð eignast börn. Við vorum byrjuð að huga að húsbyggingu en hættum að hugsa um hana. Hversu stórt þyrfti húsið að vera? Til hvers að byggja hús? Allt í einu var ekki tilgangur með neinu.

Við hugsuðum mikið. Ég grét. Maðurinn minn var reiður út í heiminn. Fjölskyldan mín var miður sín. Systir mín á tvær flottar stelpur svo við vissum að ættboginn héldi áfram en okkur langaði í fleiri börn. Það var jafnvel rætt að systur mínar myndu gefa mér egg eða ganga með fyrir mig ef það kæmi í ljós að eitthvað væri að. Þess vegna get ég ekki verið á móti staðgöngumæðrun.

Í huganum ættleiddi ég tvær kínverskar stúlkur. Þá var ástæða til að byggja hús og halda áfram. Ég hugsa stundum um þessar stúlkur sem ég átti í mánuð í huganum. Kunningjakona mín sagði að ég ætti þær einhvers staðar og mér finnst það falleg og hugguleg tilhugsun.

Svo kom upp úr dúrnum að það hafði vafist upp á naflastrenginn, þetta var sorglegt slys.
Við erum alveg ofboðslega heppin. Við fengum að eignast tvo stráka og við vitum svo sannarlega að það er ekki sjálfgefið.

Munum bara að þetta getur verið erfiður dagur. Það eru ekki allar konur mæður sem vilja og það er alveg ofboðslega erfitt.



þriðjudagur, apríl 28, 2020

Góður kúnni

Í mínu ungdæmi (eldgamla daga) voru viðskiptavinir verðlaunaðir fyrir trygglyndi. Ég man að ég fékk að skipta plötu, sem ég vann í félagsvist, í plötubúðinni í Glæsibæ þótt það væru fingraför á henni af því að ég var góður kúnni. ( Á enn þá ágætt vínylplötusafn.) Á vídeóleigunum fékk maður fimmtu hverja spólu frítt eða u.þ.b. 
Núna hins vegar er því þannig farið að þegar fyrirtækið hefur nælt í kúnnann þá er ekkert gert til að halda honum.

Fyrir nokkrum árum var hringt í mig og mér boðin prufuáskrift að Skjá einum á lægra verði. Ég þáði það og sagði svo áskriftinni upp eftir prufutímann. Nánast samdægurs var hringt í mig aftur og mér aftur boðin prufuáskrift. Ég lék þennan leik nokkrum sinnum.
Mér var boðin tilboðsáskrift að Stöð tvö fyrir jólin sem ég þáði.
Mamma mín hefur verið tryggur áskrifandi að Stöð tvö árum saman, henni eru aldrei gerð nein tilboð. Tólfti hver mánuður frítt, er það í alvöru of mikið?

Við vorum hjá ónefndu tryggingarfyrirtæki. Í okkur hringir ung kona sem segist vera að mig minnir tryggingamiðlari. Hún býðst til þess að fara yfir tryggingarnar okkar og athuga hvort við getum fengið ódýrari tryggingar. Ég þigg það og hringi í mitt fyrirtæki og bið um að hún fái afrit af tryggingunum: "Á ég ekki bara að fara yfir þetta hjá þér og gera þér nýtt tilboð?" 

Af hverju erum við ekki verðlaunuð fyrir trygglyndi? Af hverju þurfum við sí og æ að leika nýja bráð fyrir fyrirtæki að næla í? Svo þegar er búið að krækja í okkur þá þá getum við átt okkur.

Þetta fer í taugarnar á mér. Ég nenni ekki að standa í því með ca. árs millibili að láta banka og tryggingafélög gera mér tilboð. Ég geri það af því ég vil ekki láta snuða mig. Hvernig væri nú að verðlauna trygglyndi og góða kúnna?



mánudagur, apríl 27, 2020

Klimt og konurnar

Fyrir aldamótin síðustu, áður en ég fór að vinna á geðdeildinni, vann ég í nokkra mánuði í e.k. mynda- og plakatabúð á Laugaveginum. Mér fannst það ágætt, hef alltaf haft gaman að myndum plakötum. Það er kannski ekki rétt að segja að þetta hafi verið plaköt, þetta voru svona vandaðri eftirprentanir. Svo var innrömmunarverkstæði á efri hæðinni.
Einhverju sinni vorum við eigandinn að ræða um myndir og ég segi henni að mér finnist ein myndin vera hálf klámfengin. 


Hún var ósammála mér og sagði, eins og merkilega margar konur af þessari kynslóð, að henni fyndist kvenlíkaminn miklu fallegri en karllíkaminn. (Ég aðhyllist gríska skólann í þessu.)
Hvað um það, fólk má vera ósammála. Nema hvað að stuttu seinna mæti ég til vinnu og þá er búið að ramma myndina inn og hengja upp á vegg. Ég tók því persónulega og sagði upp stuttu seinna.

Eftir þetta fór ég að kynna mér verkið og málarann. Eins og sennilega flestir hafa áttað sig á þá er þetta verk eftir Gustav Klimt og heitir Danae. 

Danáa þessi kemur úr grísku goðafræðinni. Hún var dóttir  Akrisíosar konungs í Argos. Akrisíos spurði véfréttina í Delphi hvort hann myndi ekki eignast son. Véfréttin sagði svo ekki vera hins vegar myndi hann eignast dótturson sem myndi drepa hann. Akrisíosi leist nú ekki vel á þetta svo hann lokaði Danaá inni, annað hvort í turni eða kjallara. Seifur sem alltaf var á höttunum eftir fallegum konum fréttir þetta og vill endilega líta á stúlkuna. Hún er svo kirfilega lokuð inni að ekki einu sinni guðirnir komast inn. Þá breytir Seifur sér í gullregn og rignir inn. Hann verður svo hrifinn af stúlkunni að hann barnar hana þar og þá.

Já, einmitt, hvar á ég að byrja? Stúlkan er sem sagt lokuð inni og Seifur breytir sér í gullregn (golden shower á ensku, ég mana ykkur að gúgla) og barnar hana án þess svo mikið að kynna sig. 

Klimt þessi sérhæfði sig í að mála erótískar myndir. En, eins og flestir vita, þýðir erótík almennt og yfirleitt berar konur. Hann er einn af þessum sem frelsaði kvenlíkamann. Það sem hins vegar er merkilegt (og sumum gæti þótt óþægilegt) að flestar beru konurnar hans Klimts eru annað hvort mjög syfjaðar eða beinlínis sofandi. Kvenlíkamanum er  stillt upp algjörlega passívum til áhorfs.

Frægasta mynd Klimts er Kossinn. Hún þykir mjög rómantísk og er til víðs vegar í ýmsum útgáfum.



Í bókinni um Klimt eftir Gottfried Fliedl segir að maðurinn og konan séu samofin í phallískri mynd. Maðurinn er ráðandi aflið í myndinni, hann tekur um höfuð konunnar og sveigir það að sér svo hann geti kysst hana á kinnina. Hún er algjörlega óvirk (passive.) Hún sýnir algjöra uppgjöf á hnjánum frammi fyrir manninum.

föstudagur, apríl 24, 2020

Hvar er ég?

Um aldamótin síðustu vann ég í um þrjú ár á nokkrum geðdeildum landspítalans. Á þessum tíma lærði ég þá dýrmætu lexíu að sjúklingurinn er eitt og geðsjúkdómurinn annað. Sjúklingur í maníu er ekki endilega sá sami og manneskjan sem ber sjúkdóminn dags daglega. 
Í minningunni þykir mér vænt um þennan tíma og minnist hans með hlýju. Ég lærði mikið og þroskaðist vonandi eitthvað. Stundum fæ ég nostalgíska þrá eftir sumrunum við sundin blá. Þá minnist ég fallegu konunnar sem sat við gluggann í reykherberginu og söng rámum rómi: Finnst þér Esjan ekki vera sjúkleg.
Ég vona að ég sé ekki að bregðast trúnaði þótt ég segi aðeins frá þessum tíma. Ég geri ráð fyrir að flestir viti að geðsjúkdómar geta verið illvígir og stundum fylgja miður skemmtilegir hlutir. Sjálf gekkst ég upp í því að vera hörkutól og geta gengið til flestra verka; ég þreif upp úrgang og ælu og plástraði eyðnismituð sár. Það var bara einu sinni sem ég þurfti frá að hverfa og á samstarfsmaður minn sem vann verkið ævarandi aðdáun mína. 

Svo kláraði ég námið og fór að kenna. Eitt sumarið vantaði mig pening og ákvað að fara í sumarvinnu á minn fyrri vinnustað. Þá brá svo við að eitthvað hafði breyst. Ég fór út að ganga með skjólstæðingi deildarinnar. Á miðri leið hóstaði hann eða snýtti myndarlegri horslummi í lófann, skoðaði stutta stund og henti svo frá sér í grasið við stíginn. Ég fékk hroll niður bakið. Þegar við komum inn sagði ég frá þessu á vaktinni. Í staðinn fyrir að hrylla sig eins og ég þá varð allt starfsfólkið mjög glatt. Hann hafði nefnilega hent slummunni frá sér en ekki stungið henni í vasann! Ég stóð bara þarna gapandi, hvar var ég eiginlega?
Þetta var augnablikið þar sem ég áttaði mig á að þessu tímabili í lífi mínu væri lokið. Svo var ég auðvitað inni á geðdeild.

Það hafa komið stundir þar sem þessi spurning kemur upp í hugann, ég litið í kringum mig og er ekki við Sundin blá.
Ein slík stund var í morgun þegar ég las erlendar fréttir.
Hvar er ég eiginlega?



miðvikudagur, febrúar 26, 2020

Sannleikshallinn


Kona nokkur var ákærð fyrir líkamsárás. Kæran gegn konunni var síðar felld niður og gæti einhverjum dottið í hug að það eitt myndi nægja til að konan teldi sig hreinsaða af ákærunni. Svo er ekki. Hún hefur skrifað bók um málið, talað inn á hlaðvarp og fengið talsvert pláss á ljósvakamiðlum. Margir telja að það sé eðlilegt þar sem „báðar hliðar verði að heyrast.“

Það væri auðvitað ósköp þægilegt ef til væri einhver heilagur sannleikur en því miður er það ekki svo einfalt. Upplifun einstaklingsins skiptir máli. Ef einstaklingur upplifir eitthvað sem einelti t.d. þá er það einelti. Jafnvel þó svo að gerandinn hafi alls ekki meint það þannig. Það er vissulega sanngjarnt; einhver upplifir vanlíðan vegna einhvers þá ber að taka tillit til þess. (Nema auðvitað þegar það er verið að kynferðislega áreita konur, þá eru þær bara óþarflega viðkvæmar.) En þegar kemur að sakamálum þá skiptir ásetningur öllu máli. Ef viðkomandi ætlaði sér ekki að ræna/særa/drepa þá er það reiknað til refsilækkunar. Hins vegar held ég að flestallt ofbeldisfólk telji sig alls ekki vera ofbeldisfólk. Það telur sig væntanlega vera í fullum rétti annars myndi það ekki beita ofbeldi eða upplifi hegðun sína alls ekki sem ofbeldi. Þannig að þetta er alls ekki  einfalt.



Í samfélagssáttmálanum samþykkjum við að setja okkur undir vald dómstóla. Þá er til þess menntað fólk fengið til að vega og meta það sem er sagt og gert. En það sem við segjum er alls ekki alltaf í samræmi við það sem við gerum. Það er ekki nóg með að flestir upplifa sig alltaf í rétti þeir fegra líka hlut sinn. Það hefur örugglega enginn þá sjálfsmynd að hann sé lyginn og ómerkilegur ofbeldisseggur.
Vegna þessa er það nokkuð viðurkennt sem almenn sannindi að það séu tvær hliðar á öllum málum og einhvers staðar í miðjunni felist sannleikurinn.



En er það svo? Hvað ef önnur manneskjan segir fullkomlega satt og hin algjöra lygi? Þá erum við komin með talsverðan sannleikshalla, ekki satt? Þá er miðju „sannleikurinn“ mikli orðinn 50% lygi.


Auðvitað gætu báðar hliðar sagt meira en bara helmingssannleikann og þá fáum við væntanlega sannleikann út en með þessari aðferðafræði þá margborgar sig að ljúga því helmingnum er alltaf trúað, ekki satt? Sá sem segir sannleikann er samt dæmdur 50% lygari á meðan lygarinn er líka bara metinn sem 50% lygari. Það er miklu verra þegar sannleikurinn er dreginn í efa en að komast upp með lygina.

Ég hef enga lausn á þessu. Ég var bara að spekúlera…






föstudagur, janúar 24, 2020

þriðjudagur, janúar 07, 2020

Rússnesk rúlletta?

Þann 19. des. sl. féll snjóflóð á veginn við Ljósavatn í Ljósavatnsskarði. Snjóflóðið var um 500 metrar og lokaði veginum í ca. 16 klukkutíma. Maðurinn minn og tveir synir okkar höfðu verið á Akureyri fyrr um daginn. Vegna jólainnkaupa voru þeir seinna á ferð en vanalega og komust ekki heim. Eyddu þeir nóttinni í góðu yfirlæti í Stórutjarnaskóla ásamt fleira fólki.


Ég er þakklát öllum góðum öflum að þeir voru heilir á höldnu. Á sama tíma spyr ég mig hvernig þetta gat gerst. Hvernig stendur á því að seint á árinu 2019 getur 500 metra snjóflóð fallið á hringveg 1 á Íslandi algjörlega óforvarendis?  Þetta er þekkt snjóflóðasvæði. Eru ekki til einhverjar græjur sem meta hættuna á snjóflóðum?  Einhverjar aðferðir til sjá fyrir líkurnar á snjóflóði?

Snjóflóðið komst í fréttir en lítil umræða skapaðist um það og lítill áhugi.  Eini maðurinn sem velti fyrir sér alvarleika málsins var Einar Sveinbjörnsson en hann setti eftirfarandi færslu á facebook:




Þetta er vissulega ekki mikil umferð en dágóð engu að síður. Kannski má líkja þessu við rússneska rúllettu, að líkurnar á að lenda í snjóflóði séu ekki mjög miklar! En það vill þannig til að ca. 20 börn á aldrinum 0.5-16 ára aka þennan veg tvisvar á dag flesta virka daga vetrarins. Annars vegar á leið í skólann sinn og svo aftur heim. Þar á meðal drengirnir mínir svo málið er mér talsvert skylt. Það snjóar og snjóar og mér líður ekki vel.

Þann 1. jan. sl. birti Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri Þingeyjarsveitar Bréf til íbúa.  Get ég ekki skilið upplýsingarnar þar öðruvísi en svo að ekkert reglubundið snjóflóðaeftirlit sé á veginum á þessari stundu! Dagbjört og Halla Bergþóra lögreglustjóri á Norðurlandi eystra hafa nú báðar sent beiðni til snjóflóðavaktar Veðurstofu Íslands og til Vegagerðarinnar og óskað eftir reglubundnu snjóflóðaeftirliti á svæðinu. Dagbjört hafði áður sent inn slíka ósk en henni virðist hafa verið hafnað. Mér þætti gaman að vita hvaða forsenda var fyrir þeirri neitun í ljósi flóðsins þann 19. desember. 

Ég skora á snjóflóðavakt veðurstofu Íslands að hefja reglubundið eftirlit á veginum í Ljósavatnsskarði.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...