miðvikudagur, desember 07, 2022

Froskur útgáfa

 Eins og dyggir lesendur vita þá er ég mikill myndasöguaðdáandi. Þess vegna hef ég verið mjög hrifin af Froski útgáfu og er að safna innbundnu Tinnabókunum. 

Núna á Froskur 10 ára afmæli og er í tilefni af því að selja tilboðspakka með talsverðum afslætti. Þar sem ég bý úti á landi þá skoða ég alltaf sendingarkostnaðinn, tilboð eru iðulega alls ekki jafngóð tilboð og þau virðast vera þegar sendingarkostnaðurinn bætist ofan á.

Mig langar auðvitað í marga pakka en verður úr að ég panta bara Lukku Láka pakkann upp á 10.767,- kr. Afslátturinn er  sagður 45%. Ég skoða sendingarkostnaðinn sérstaklega eins og ég geri alltaf. Þar segir að "sendandi greiði við móttöku" 

Vissulega skringilega orðað en engu að síður stendur beinum orðum að "sendandi greiði." Þá er einnig útlistað, eins og sést á skjáskoti, hvernig greiðslu fyrir aðrar sendingar er háttað og gefin upp verð. Mér finnst ekki óeðlilegt að ætla að inni í tilboðspakkanum sé tilboð á sendingu. 

Í dag fæ ég tilkynningu um að pakkinn sé kominn á pósthúsið og ég eigi að greiða 1.790,- fyrir sendinguna. Ekki nóg með að ég eigi að greiða fyrir sendinguna eftir allt saman heldur er sendingarkostnaðurinn hærri heldur allar aðrar tölur sem eru gefnar þarna upp.

Og sjáið nú til; ef ég hefði vitað að ég ætti að borga sendingarkostnaðinn þá hefði ég líka pantað Viggó viðutan pakkann sem mig langar í því þá hefði sendingarkostnaðurinn lækkað hlutfallslega.

Ég hringi í Frosk og get ekki sagt að ég hafi fengið vinalegar móttökur. Einhvern veginn er það mjög heimskuleg ályktun af minni hálfu að halda að sendandinn greiði þótt það standi á síðunni. Eina sem viðkomandi gat boðið upp á var að ég afþakkaði pakkann og fengi þá væntanlega endurgreitt. Ég benti viðkomandi á að upplýsingarnar á síðunni væru rangar en það skipti augljóslega ekki máli. Sá ég þá sæng mína útreidda og kvaddi.

Ég átta mig á að þetta var skringilega orðað en ég vil meina að upplýsingarnar séu í besta falli villandi og í versta falli beinlínis rangar. Þetta hefur verið lagað á síðunni núna eftir símtalið mitt.

Ég leysti síðan pakkann út þótt tilboðið góða sé nú aðeins 25%. Ég spurði að því hvað fyrirtækið myndi þurfa að borga fyrir þvælinginn á pakkanum ef ég hefði afþakkað. Það hefði þurft að borga fyrir sendinguna norður og fyrir að leysa hann út aftur fyrir sunnan. Ég hefði auðvitað átt að gera það en ég spara upp í þetta með því að eiga ekki frekari viðskipti við þetta fyrirtæki á næstunni.


laugardagur, október 29, 2022

Láttu börnin mín vera.

Börnin mín voru líka flæmd af heimili sínu. Líf þeirra var líka tætt upp. Þú tókst þátt í því.

Framvegis skaltu láta börnin mín vera.

http://astasvavars.blogspot.com/2021/12/tvofeldnin.html

fimmtudagur, september 29, 2022

Sagan af Narkissosi

 Það kannast flest við söguna af Narkissos í grískri goðafræði. Narkissos var fallegur ungur maður sem varð ástfanginn af eigin spegilmynd, veslaðist upp og dó. Það er sök sér að sjálfselskufullt fífl drepist úr heimsku en sagan er aðeins flóknari en þetta.



Frægasta útgáfa sögunnar kemur frá Ovid.

Liriope vatnagyðja á ungan son, Narkissos, sem er gullfallegur. Hún fær blindan sjáanda til að spá fyrir honum. Sjáandinn segir að Narkissos verði gamall maður ef hann sér aldrei spegilmynd sína. Narkissos eignast marga aðdáendur, bæði unga menn og konur, en hann endurgeldur aldrei aðdáunina og hrekur þetta fólk frá sér.

Einu sinni er Narkissos að veiða úti í skógi þegar gyðjan Ekkó sér hann og verður ástfangin af honum. Ekkó (bergmál) getur aðeins endurtekið síðasta orðið sem er sagt við hana svo hún getur ekki talað við Narkissos. Hann heyrir að verið er að elta hann og kallar og Ekkó bergmálar bara síðasta orðið sem hann segir. Hún kemur til hans og faðmar hann en hann hrindir henni frá sér. Ekkó veslast upp úr sorg og deyr og aðeins bergmálið lifir.

Það er ekki alveg skýrt hvernig hefndargyðjuna Nemesis kemur til sögunnar, hvort hún heyri af örlögum Ekkó eða einhver annar aðdáandi óski þess að Narkissos upplifi það að fá ekki þann/þá sem hann elskar. Nemesis kemur því alla vega þannig fyrir að Narkissos fær sér vatn að drekka úr á og sér sína eigin spegilmynd og verður ástfanginn. Hvort hann átti sig ekki á að þetta sé hann er ekki skýrt en hann alla vega veslast upp og deyr.

Í sumum útgáfum fremur hann sjálfsmorð en það  breytir svo sem litlu.

Í annarri útgáfu er það ungur maður, Ameinias, sem er hafnað af Narkissosi. Narkissos gefur honum sverð. Ameinias biður Nemesis um að Narkissos upplifi óendurgoldna ást og fremur síðan sjálfsmorð á dyraþrepunum hjá Narkissosi.



Það er mikilvægt að halda því til haga að fólkið sem elskar Narkissos þjáist vegna ástar sinnar á honum. Það má segja að Narkissos hafi fengið makleg málagjöld í goðsögunni en auðvitað dó hann úr hreinni sjálfselsku.

þriðjudagur, september 20, 2022

Flokkur (karl)fólksins á Akureyri - Grein Hjörleifs

 Þessi grein er reyndar opinbert harakiri en við skulum samt greina hana.


Mjög alvarlegar ásaknir á mig.

Það er stórt orð Hákot var sagt en miklu verra er að vera sakaður um kynferðislega áreitni og ýmsan annan óþverra og eiga karlmenn eðlilega erfitt með að þvo slíkan óþverra af sér, sér í lagi þar sem ég hef aldrei á langri ævi verið sakaður um slíkt fyrr en nú af svikakvendum þremur.

Karlmenn hafa ekki átt í neinum vandræðum með að "þvo af sér slíkan óþverra". Nokkrir hafa orðið fyrir tímabundnum óþægindum en hafa svo snúið aftur í opinbert rými. Er skemmst að minnast landsliðsfyrirliðans. 

Uppnefni hafa aldrei þótt vandaður málflutningur.

Sorgarumfjöllum sem er að stórum hluta lygi og óhróður hefur verið í gangi í fjölmiðlum nú um hríð og hefur aðallega beinst gegn tveimur heiðursmönnum þeim Jóni Hjaltasyni og Brynjólfi Ingvarssyni fyrsta og þriðja manni á framboðslista Flokks fólksins og í þriðja lagi mér undirrituðum eins og fyrr segir. Það eru upphlaupsmanneskjur og svikakvensur sem eiga hér hlut að máli en þær eru Málfríður Þórðardóttir, Hannesína Scheving og Tinna Guðmundsdóttir.

Hér er athyglisvert að notast er við orðalagið "að stórum hluta." Greinahöfundur viðurkennir sem sé að sannleikskorn séu inn á milli. Svo er aftur notast við uppnefni. Uppnefnanotkun er rökvilluaðferðin Ad hominem. Það er farið í manninn en ekki boltann.

Tinna ber að ég hafi boðið henni að heimsækja mig að kvöldi og boðið henni gistingu, sem er helber lygi eins og hennar er von og vísa sem ég trúi eftir að fólk hefur komið að máli við mig og lýst henni sem varasamri á geði eftir að hún hafi verið undir handleiðslu geðhjúkrunarfólks en þetta sel ég ekki dýrar en ég keypti. 

Þetta er svo ógeðslegt níð að ég á eiginlega ekki orð yfir það. Svo er borinn fyrir sig almannarómur. "Ólyginn sagði mér...."

Maðurinn er að segja að konan sé geðveik. Eitt af því sem konurnar hafa kvartað undan er að þær hafi verið sagðar geðveikar. Takk fyrir að staðfesta frásögn þeirra.

Sannleikurinn er sá að ég sem er kallaður með réttu guðfaðir framboðsins til bæjarstjórnar s.l. vor og á listann þar sem ég ræddi persónulega við allt það góða fólk sem er á listanum utan þessara þriggja svikakvensa. 

Nei, þú átt ekki listann. Það "á" enginn pólitískt framboð.

Þó að ég eigi listann var hann borinn fram í nafni Flokks fólksins og ég gerður að kosningastjóra sem svo umrædd Tinna hrakti mig úr starfi eftir að ég hafði útvegað húsnæði fyrir kosningaskrifsofu en það gerði hún með hávaða, svívirðingum og skítkasti á mig og hef ég mörg vitni að framkomu hennar áður en hún rauk á dyr og skellti hurðum. 

Hérna rekur Tinna hann.

Tinna kom oftar en einu sinni heim til mín að degi til vegna þess að hún sá um alla tölvuvinnu fyrir framboðið. 

Hérna heldur hún samt áfram að koma heim til hans. Skil ekki tímalínuna hérna.

Ég hefði einfaldlega ekki þorað að bjóða henni að kvöldi og alls ekki boðið gistingu þar sem ég hafði margt misjafnt um hana heyrt og sel ekki dýrar en ég keypti eins og fyrr segir e.t.v. minnugur þeirrar umfjöllunar um ýmislegt misyndisfólks sem er ekki heilt á geði og ber fyrir sig jafnvel hnífa.

Ólyginn sagði mér... Konan aftur ásökuð um geðveiki. Hinir karlarnir kannast samt ekkert við neinar geðveikisásakanir. Miðað við hversu sjálfsagt manninum finnst að bera þetta á borð í opinberri grein þá er þetta ekki eitthvað nýtt sem honum er að detta í hug.

Hvað Hannesínu varðar hef ég vart hitt ómerkilegri persónu enda svikakvendi. Lýsingar hennar á að hafa sett söfnunarlista inn um bréfalúguna og hlaupið í flýti í burtu vegna hræðslu við mig og símtöl mín við hana sem hún af „manngæsku sinni“ hætti að svars voru frá minni hálfu liður í því að bera klæði á vopnin þegar að ég skynjaði hvernig ástandið var að þróast og þetta er sannleikur málsins. Stundum heimsækja mig konur án hræðslumerkja enda fer vel á með okkur og þær verða ekki varar við kynlífstilburði af minni hálfu.

Uppnefni aftur og enn. Stundum, en bara stundum, heimsækja konur hann án hræðslumerkja. Þannig að stundum heimsækja konur hann sem eru hræddar. Kynlífstilburðir og kynferðisleg áreitni er tvennt ólíkt. 

Málfríði þýðir mér ekki að ræða um eftir að hún á hvæsti á mig á fundi í byrjun að ég væri að ljúga á sig þegar ég hafði orðrétt eftir fundargerð bæjarstjórnar og já fannst vel í lagt að svikakvensurnar þrjár höfðu raðað henni í 8 nefndir, fjórar sem aðal og aðrar fjórar til vara en ég veit ekki hverjar svo endalyktir urðu en í framhaldi af þessu bannaði hún mér að horfa á sig. Þegar ég tala um svikakvendi þá er skýringin sú að þegar ég raðaði fólkinu á framboðslistann þá vissi ég ekki um og þær höfðu ekki fyrir því að segja mér að Málfríður var í heilan mánuð alla kosningabaráttuna að spranga niður á Spáni og Hannesína hafði opinberlega auglýst íbúð sína hér í bæ til leigu á þeim forsendum að hún væri að flytja til Reykjavíkur.

Þetta gerist í kosningabaráttunni svo leiðindin eru greinilega ekki ný.

Nú spyr ég ykkur lesendur góðir hvort heilvita fólk geri svona lagað? Í 65 ár hef ég verið með í kosningabaráttu og komið að líklega 16-17 sveitar- og alþingiskosningum en aldrei á langri ævi orðið vitni að þvílíkri sviksemi. Ég vil líka geta þess að svikakvendin útilokuðu mig frá fundarsetu hjá framboðinu og sögðust ekki mæta ef ég mætti, sjálfur guðfaðir framboðsins. 

Þetta hljóta Brynjólfur og Jón að hafa vitað. Og þeim hlýtur að hafa verið ljóst, ef þeir hafa ekki beinlínis vitað, að þetta gerist ekki að ástæðulausu. Samt mæta þeir fram á ritvöllinn og kannast ekki við neitt! Af hverju neituðu konurnar að vera á fundi með þessum manni?

Á langri ævi hef ég kynnst fjölmörgum konum og var með sömu ágætu fyrrverandi eiginkonu í tæp 30 ár og þar af giftur henni í 25 ár og á með henni 3 yndislegar dætur og svo 2 flottar afastelpur sem eru læknar í dag og á ekki von á að þær né engin af þessum góðu konum brigsli mér um kynferðisáreiti á einn eða annan hátt.

Öh, hérna, öh... Ef dætur mannsins og afadætur brigsla honum um kynferðisáreiti þá erum við að tala um svolítið annað mál. En það að hann sé ekki í sifjaspellspakkanum þýðir ekki að hann sé ekki að kynferðislega áreita aðrar konur. Og það að afastelpur séu læknar er ekki trygging fyrir því að afinn sé fullkominn.

Ef hann er að vísa í allar þessar konur sem hann hefur kynnst yfir ævina þá hefur, alla vega ein af þeim, einmitt sakað hann um kynferðislega áreitni.

Að lokum þetta, ég er alvarlega að hugsa um að stefna þessum svikakvensum fyrir meiðyrði og það sem meira er kynferðisofbeldi, sem engin karlmaður hreinsar svo auðveldlega af sér og e.t.v. læt ég þau einnig vera með í stefnunni þau Ingu Sæland og Guðmund Inga sem hafa tekið dyggilega undir ósómann.

Takk fyrir mig.

Hjörleifur Hallgríms er „guðfaðir“ framboðslista Flokks fólksins á Akureyri

Persónulega fyndist mér frekari ástæða til að konurnar kærðu hann fyrir meiðyrði eftir lestur þessarar greinar.

Flokkur (karl)fólksins á Akureyri

 Það leynir sér ekki að kvenfyrirlitning og karlremba lifa góðu í Flokki fólksins á Akureyri. Þrjár konur hafa sagt frá óviðunandi hegðun og framkomu karla innan flokksins. Þær séu sagðar vitlausar, geðveikar og svo rógbornar. Hvernig bregðast þeir við? Jú, þeir segja að þær séu vitlausar, geðveikar og rógbera þær.

Við skulum byrja á grein Brynjólfs og Jóns. Strax í fyrirsögninni segja þeir að þær ljúgi:

Konurnar segja ósatt og varaformaðurinn lætur hafa sig að fífli - Vísir

Á þessum trúnaðarfundum hafa þær aldrei – við undirstrikum aldrei – verið lítilsvirtar, hvað þá kallaðar vitlausar eða geðveikar. Þvert á móti hafa þar allir setið við sama borð, verið jafningjar, og þær ekki síður en undirritaðir haft orðið.

Upplifun kvennanna er fullkomlega hunsuð. Þetta er rangt hjá þeim. Upplifun karlanna er rétt. 

Það hvessti hins vegar þegar umræðan hófst um tilraun hennar og stallsystra til að hrekja Brynjólf úr bæjarstjórn. Sem að vísu átti að gerast undir yfirskini mannkærleika. Semja átti „tilmæli“ þar sem Brynjólfur væri hvattur til að taka sér veikindaleyfi sem hafði þó aldrei verið borið undir hann sjálfan, er hann þó læknir að mennt.


Hvað kemur svo seinna fram

„Hann sagði í upp­hafi að hann myndi ekki sitja út tíma­bilið. Kannski í tvö ár og skipta svo við Mál­fríði. Svo ger­ist það fyr­ir tveim vik­um að hann fékk fyr­ir hjartað þannig að hann lét okk­ur vita að hann yrði núna að hætta.

Svo kom í ljós að þetta var ekki al­var­legt þannig að hann lét okk­ur vita á fundi að þetta hafi ekki verið neitt al­var­legt svo hann myndi halda áfram. 


Brynjólfur, sem sagðist ekki ætla að sitja allt kjörtímabilið (forsendur sem eru gefnar í upphafi) fær fyrir hjartað  (er veikur) og segist ætla að hætta! En svo kemur upp úr dúrnum að þetta var bara oggóponsu hjartaáfall svo hann hættir við að hætta. Væri Brynjólfur kona þá gæti einhverjum dottið í hug að segja hann óákveðinn. Jafnvel sakað hann um að segja ósatt. En alveg klárlega hjartveikur.

Hvað varðar meint ofbeldi þá er það tittlingaskítur. Maðurinn barði bara í borðið!

Þá barði Jón í borðið og heimtaði ákveðið svar.

Þetta er allt „ofbeldið“ sem þessar konur geta mögulega kvartað undan.

Karlar eru líkamlega sterkari en konur. Það er óumdeilt. Sagan er uppfull af ofbeldi karla gegn konum. Konur óttast ofbeldi karla. Spurðu hvaða konu sem er. Maðurinn sem rýkur upp í reiði og ber í borðið er að beita óttastjórnun. Hann er að láta þessar konur vita hvað hann getur gert. Og þær vita það. Við vitum allar hvað karlar geta gert. Já, þetta er ofbeldi.

Svo kemur að "bréfinu." 

Hvað varðar bréf oddvitans sem þær nefna og segja „hlaðið rógburði“ og öðrum ófögnuði þá höfum við skorað á þær að tilgreina allar þær „rangfærslur“ og „hótanir“ sem þar er að finna en ekki fengið svar.

Til er pólitísk taktík sem er kölluð "Let the bastards deny it". Útskýrð ágætlega hér. 

Þá gera þeir mjög lítið úr frásögnum kvennanna um kynferðislegt áreiti. 

Að lokum um hið „kynferðislega áreiti“ sem „sumar okkar“ hafa orðið fyrir svo vitnað sé beint í skrif kvennanna. Okkur setur einfaldlega hljóða við þessi orð og áleitin spurning situr eftir: Hversu lágt getur mannskepnan lagst til að koma höggi á náunga sinn?

Þær eru að ljúga bara svona ef einhver skilur ekki ásökunina. Sennilega af því þær eru svo geðveikar. En hvað kemur svo í ljós? Jú, konurnar halda blaðamannafund og gera betur grein fyrir reynslu sinni og upplifun.  Þannig að þeir eru ekki mennirnir sem hafa sýnt af sér kynferðislega áreitni. Enda var það aldrei sagt. En þeir tóku frásögnina og dæmdu hana ekki bara ómarktæka heldur illkvittna lygi. Já, það er eðlilegt að fólk spyrji hversu lágt (karl)mannsskepnan getur lagst til að koma höggi á náunga sinn.

þriðjudagur, september 13, 2022

Opið bréf til menntamálaráðherra

 Háttvirtur Ásmundur Einar Daðason.

Ég heiti Ásta Svavarsdóttir og kenni íslensku. Ég hef verið kennari í 20 ár.

Í gegnum árin hef ég reynt að temja mér nýja tækni eftir bestu getu til að geta sinnt vinnu minni sem best.

Til að byrja með notaði ég GoogleDrive. Þar gat ég deilt efni með nemendum en alveg sérstaklega notaði ég GoogleDocs, þá deildi ég skjali með hverjum nemanda og gat fylgst með ritgerðarskrifum, leiðrétt og gefið punkta.

Nokkrum árum seinna var ákveðið að færa skólann yfir í Office pakkann og þá þurfti ég að flytja talsvert af efni á milli kerfa. Persónuverndardæmi. Office Word online er alls ekki jafn lipurt og Google Docs svo ég get ekki lengur fylgst með ritgerðarskrifum í rauntíma en Office hefur upp á ýmislegt að bjóða. Sway er mjög skemmtilegt, Forms er ágætt líka. Teams er mjög gott og kom sér vel í fjarkennslu. Svo er rás sem heitir Stream. Ég hef undanfarin ár dundað mér við að taka upp kennslumyndbönd og er komin með nokkuð góðan pakka. Á Stream rásinni er hægt að bæta við til hliðar við myndbandið krækjum á verkefni og aukaefni.

Einhvern tíma í fyrra, eða hittifyrra,  ákvað forveri þinn í Menntamálaráðuneytinu, Lilja Alfreðsdóttir, að allir framhaldsskólar landsins skyldu færðir yfir í Menntaský. Hvers vegna veit enginn, það er ekki ódýrara fyrir skólana en allt í lagi.

Einn dag í febrúar var allt farið. Jú, ég hafði víst fengið póst. Póst um tölvumál. Tölvumál skólans eru ekki á minni könnu en allt í einu kom mér þetta við af því að ég átti að sjá um að logga mig inn hér og þar og gera hitt og þetta. Síðast þegar var skipt um kerfi þá sá tölvumaður skólans um það.


Ég er alveg ágæt í tölvumálum þótt ég segi sjálf frá. Ég get alveg loggað mig inn hér og hvar og gert hitt og þetta. Í þetta skiptið gekk það ekki. Í heilt kvöld sat ég yfir þessu og ekkert gekk. Samstarfsfólki mínu þótti sumu það frekar fyndið. Mér var ekki skemmt. Ég komst ekki inn í gögnin mín. Kom upp úr dúrnum að það var einhver villa í kerfinu sem ég og alla vega einn annar kennari í skólanum urðum fyrir barðinu á. Tölvumaður skólans gekk í málið og þessu var reddað. Ég fékk ekki laun fyrir kvöldið þar sem ég sat heima og barðist við kerfisvillu sem engin átti að vera.

Þá má benda á að yfirfærslan var í febrúar, þegar kennsla var í fullum gangi. Nemendur þurftu líka að ganga í gegnum innritunarferlið sem er til að byrja með ekkert sérstaklega einfalt og svo var litla kerfisvillan á sveimi. Þetta truflaði því starf skólanna talsvert.

Hefði þá allt átt að vera í lukkunnar velstandi. Ekki aldeilis. Í yfirfærslunni fluttust ekki öll gögnin yfir. Stream myndböndin og Forms fluttust ekki yfir. Mig minnir að Sway skjölin hafi ekki gert það heldur. Núna sat ég í heilt sunnudagskvöld og hlóð niður skjölum og skrám til að hlaða þeim upp í Menntaskýið. Ég fæ að sjálfsögðu ekki borgað fyrir þessa kvöldvinnu heldur.

Gekk nú þokkalega í nokkra mánuði. Ég, og allir aðrir framhaldsskólakennarar landsins, þurfum að vísu að skrá okkur reglulega inn í kerfið. Til þess þurfum við að nota símana okkar. Ekki mikið mál en hvimleitt vesen, satt best að segja.

Núna í haust hófst svo kennsla. Ég ætlaði, í frekju minni og tilætlunarsemi, að stofna Teams hóp utan um einn áfangann. Það gerðist ekki neitt. Sama hvað ég reyndi, það gerðist ekki neitt. Það þarf nefnilega einhver að samþykkja stofnun hópsins. Ég hélt að það hlyti þá að vera tölvumaður skólans eða kannski skólameistari minn. Nei. Það er eitthvað fólk fyrir sunnan sem þarf að samþykkja það að ég stofni Teams hóp fyrir áfanga. Væntanlega þarf þetta fólk fyrir sunnan að samþykkja alla áfanga allra framhaldsskólakennara alltaf. Enda tók það litla fjóra daga að fá samþykkið. Fjóra daga að fá samþykki til að stofna Teams hóp. Mér er ekki skemmt.

Allt í lagi, ég er ekkert nema þolinmæðin. Sætti mig við það sem ég fæ ekki breytt og svo framvegis. Nema hvað að ég ætlaði að deila með nemendum kennslumyndböndum. Þessum sem ég hafði talsvert fyrir að færa á milli skýja. Það er ekki hægt.

Ég hef samband við tölvumanninn, tölvumaðurinn hefur samband við Skynet Menntaskýið. Það berst svar:

Góðan dag / Good day

Allar líkur á að þetta sé eitthvað client vandamál hjá viðkomandi.

Láta hana prófa að nota annan vafra eða incognite/private browser window.

 

Mitt vandamál, ekkert hægt að gera fyrir mig. Ég dreg andann djúpt og tel upp á tíu. Ég prófa aðra vafra og private browser window. Það virkar ekki. Ég fer með æðruleysisbænina og ég er byrjuð að hlaða kennslumyndböndunum mínum upp á Youtube, persónuverndardæmi þið vitið. Launalaus vinna að sjálfsögðu.

En veistu Ásmundur, ég er eiginlega búin að fá nóg. Mér finnst þetta algjörlega óboðlegt vinnuumhverfi. Mér finnst þetta virðingarleysi gagnvart tíma og vinnu okkar kennara og annars starfsfólks skólanna sem þurfa að sitja undir þessu Menntaskýsrugli.

Í guðanna almáttugs bænum, lagaðu þetta!

Virðingarfyllst,

Ásta Svavarsdóttir

miðvikudagur, ágúst 17, 2022

laugardagur, ágúst 13, 2022

Lygin á sér mörg andlit

 Fyrir mörgum árum lenti ég í vandræðum. Einstaklingur sem fann fyrir vanmætti hreytti í mig: "Ég er bara vangefinn!" Þessu svaraði ég með setningunni: "Nei, þú ert ekki vangefinn." 

Ég veit að rétta orðið er þroskaheftur, það er bara ekki orðið sem einstaklingurinn sem ég var að svara notaði.

Þriðji aðili frétti af þessum orðaskiptum og fór í vegferð. Ástu Svavarsdóttur skyldi refsað fyrir fordóma sína gagnvart þroskaheftu fólki. Á þessari vegferð tókst viðkomandi að búa til alls konar hluti og setja fram alls konar ásakanir og fann mér flest allt til foráttu. Sjálf áttaði ég mig illa á þessum ásökunum og um hvað þær snerust. Þetta voru allt frekar óljósar aðdróttanir. Þetta var linnulítið. Að lokum snerist þetta um það að Ástu Svavarsdóttur skyldi refsað fyrir þá yfirgengilegu frekju að dirfast að vera til og taka pláss í heiminum. 

Þetta gekk upp allan stigann og loks var fulltrúi frá yfir-yfir yfirstjórninni kallaður til. Það var haldinn fundur með mér, viðkomandi, fulltrúanum og fleira fólki. Ég var búin á því, ég var örmagna, þetta var búið að ganga á í marga mánuði. Þarna sat viðkomandi og hélt langa ræðu um öll mín ömurlegheit. Ég svaraði og sagði hvað hefði gerst.  Þessu svaraði viðkomandi með: "Já, já, þú ert alltaf að segja það sama."

Mig minnir að það hafi verið á nákvæmlega þessum tímapunkti þar sem fulltrúinn frá yfir-yfir yfirstjórninni leit til mín og náði augnsambandi. Og ég sá á svipnum á honum að hann vissi. Hann vissi hvað var að gerast. Þetta var búið og ég gekk í burtu laus allra mála. 






föstudagur, júlí 01, 2022

Kynjaveröld

 

Ég er 52 ára gömul kona. Ég hef verið kona alla mína ævi. Ég hef upplifað, og upplifi enn, mikla kvenfyrirlitningu. Já, það er enn mjög mikil kvenfyrirlitning í heiminum og á Íslandi. Eftir að ég varð miðaldra kona þá er ég að upplifa nýjar víddir fyrirlitningar, ósýnileika og þöggunar.[i]

Þegar fyrri metoo bylgjan reið yfir þá voru margir svo hissa á framkomunni og áreitinu sem konur höfðu orðið fyrir. Ég var ekkert hissa. Ég hafði lifað þetta.

Það er mjög fróðlegt að greina orðræðu. Stúlkur niður í táningsár eru „ungar konur.“ Karlmenn hátt á þrítugsaldri eru „drengir.“


Við hjónin erum með sameiginlega facebook-síðu. Fyrst var hún mín en svo var ég allt í einu komin í hina ýmsu bílaklúbba svo greinilegt að eiginmaðurinn var að skoða facebook undir mínu nafni. Mér fannst því eðlilegt að hafa hana á báðum nöfnum. Eins undarlega og það kann að hljóma þá varð ég vör við breyttar undirtektir og viðbrögð þegar ég-ið sem tjáði sig gat mögulega verið karlkyns.[ii]

Stundum hef ég því gert mér far um það á facebook að það sé ekki augljóst að það sé ég, konan, sem er að skrifa.

Íslenskan er hins vegar mjög kynjað tungumál. Það verður því yfirleitt fljótlega augljóst hvaða kyn talar og við hvaða kyn er talað.

Komdu sæl/sæll/sælt. Ég er búin að fá nóg af þessari karlrembu. En þú? Ert þú orðinn þreyttur á þessu?

Það hlýtur líka að vera erfitt fyrir fólk sem upplifir sig í öðru kyni en því sýnilega að alltaf sé vísað til þess í röngu kyni.

Nógu erfitt er nú fyrir fólk sem hingað flytur að læra íslenskuna þótt ekki bætist við öll þessi kynjuðu orð í öllum föllum og fleirtölu.

Fyrir utan það hversu kynjuð íslenskan er þá er hún mjög karllæg líka. Karlkynið er hið ómarkaða kyn. „Eru ekki allir í stuði!?“ Konur hafa ítrekað talað um að þeim finnist þær útilokaðar í þessari orðræðu en þá kemur alltaf hið klassíska: „Konur eru líka menn.“



Hins vegar hafa rannsóknir sýnt að konur sækja síður um störf ef talað erum um væntanlegan umsækjanda í karlkyni. [iii]

Enskan er ekki svona kynjuð og ég myndi vilja losna við þessa endalausu kyngreiningu úr íslenskunni. Hvaða máli skiptir það nákvæmlega hvers kyns sá (karlkyn, hið ómarkaða kyn) sem talar er? Ef við komum ekki mismunandi fram við kynin þá ætti það ekki að skipta neinu máli, eða hvað?




[i] Nýverið átti ég í samskiptum við stofnun. Ég hafði haft netaðgang sem maðurinn minn átti í raun að hafa. Starfsmaður stofnunarinnar ákvað þetta. Svo er aðgangurinn tekinn af mér vegna nýrra reglna. Ég sendi bréf og segi að það sé allt í lagi að ég hafi ekki aðganginn en maðurinn minn eigi að hafa hann. Ég fæ svar um „nýjar reglur og þetta sé svona o.s.frv. o.s.frv.“ Allt í lagi segi ég, það breytir því ekki að maðurinn minn á rétt á þessum aðgangi og útskýri af hverju. Ég fæ aftur svar: „Það þarf að fylla út alls konar skjöl og fara í gegnum alls konar fimleika til að fá þetta í gegn.“ Ég sagði við manninn minn: „Ef þú vilt þennan aðgang þá verður þú að sjá um þetta.“ Hann fór, talaði við starfsmanninn og fékk aðganginn um leið. Allt sem ég hafði sagt í bréfunum var nefnilega rétt. Starfsmaðurinn hafði bara ekki lesið þau almennilega.

Stuttu seinna er ég að segja þessa sögu, sögu um að það sé ekki hlustað á konur, þegar einn hlustandinn hoppar inn í miðja frásögn og segir: „Þú áttir ekkert að hafa þennan aðgang hvort sem var“ og fer svo að tala um annað. Þöggunin algjör.

 

[ii] Ég hef líka tekið eftir því þegar við þurfum að senda tölvupóst í formlegum erindum að það er betra að eiginmaðurinn sendi þann póst.

 

[iii] Caroline Criado Perez: Invisible Women.


laugardagur, júní 18, 2022

Tíminn

 Tíminn.

Þetta er svo skrítið með tímann.

Eftir að ég lenti inni á radarnum hjá dauðanum þá hef ég þurft að fara oftar til Reykjavíkur en áður. Fjölskyldan mín býr enn í æskuhverfinu og á kvöldin fór ég með strákunum á leikvöllinn við Langholtsskóla. 

Það er svo furðulegt að vera þarna, leika sér þarna.

Öll mín grunnskólaganga var í Langholtsskóla. Ég man eftir að standa þarna á steyptu planinu, engin leiktæki þá auðvitað, standa í röð og bíða eftir að kennarinn kallaði okkur inn.

Meirihluti grunnskólagöngunnar var ágætur. Nema árin 1980-ca. 1982 þegar ég var 10-12. Þá var ég lögð í einelti. Uppnefnd í skólanum og svo eltu Guðrún og Sigga vinkona hennar mig heim á hverjum degi til að uppnefna mig og vera með leiðindi. Þessi spotti frá skólanum og heim í Álfheimana. Ég geng hann oft núna. Núna er hann malbikaður og upplýstur. En hann var það ekki þá.

Veggurinn undir skotinu sem við máluðum í unglingavinnunni 1984 undir verkstjórn Jóns kennara sem var leiðbeinandi í unglingavinnunni líka. Löngu búið að mála yfir myndina. Þetta sumar lifir sem eitt af þeim betri í minningunni.

Það er svo skrítið. að vera þarna. Sami staður, sama manneskjan. Bæði breytt auðvitað en engu að síður. Sami staður, sama manneskja. Allt breytt. Nema minningabókin í höfðinu.

Skrítið.




föstudagur, maí 27, 2022

Óverðugt fórnarlamb

 Fyrir mörgum, mörgum árum síðan sá ég í bíómynd fullyrðingu sem var eitthvað á þessa leið:

Ljótasta orð tungumálsins er fórnarlamb. Það vill engin/n vera fórnarlamb.

Þetta situr í mér og ég skil þessa hugsun. Það er eitthvað gert á hlut mans, eitthvað gert á hlut mans og man getur ekkert gert við því. Stundum er hægt að leita réttar síns en alls ekki alltaf. Og breytir því ekki að einhver braut á man, einhvern veginn situr eftir skítugt skófar á sálinni. Það er skammarlegt að vera fórnarlamb.

Svo, líka fyrir mörgum árum síðan, þá var farið að vinna gegn þessari skömm. Fórnarlambið er jú saklaust, það gerði ekkert af sér.

Íslensk nútímamálsorðabók skilgreinir fórnarlamb svona:





Við munum eftir því, alla vega  við sem erum fædd á og fyrir þriðja fjórðung síðustu aldar,  þegar fórnarlömb nauðgana voru fyrir rétti: "Hvernig varst þú klædd?" var t.d. algeng spurning. 
Nýlegri dæmi er sú fullvissa feðraveldisins að konur ljúgi alveg stöðugt upp á karlmenn.

Svo leið tíminn áfram og skyndilega var smart að vera fórnarlamb. Allt í einu voru allir og afi hans fórnarlamb.
Hvítir stútungkarlar, einhver mesti forréttindahópur heimsins, voru allt í einu fórnarlömb. Sumir töldu m.a.s. að hvítir, kristnir karlar væru júðar nútímans. 

Núna undanfarið hafa samfélagsmiðlar verið undirlagðir af fréttum af Amber Heard og Johnny Depp. Einhver sú ferlegasta sápuópera sem hefur sést lengi.
Mér finnst Amber Heard leiðinleg. Það er einhver leiðinlegur fýlusvipur alltaf á henni. Ég er hins vegar svolítið hrifin af Johnny Depp. Hann var hjartaknúsari í æsku minni, ofmetinn sem leikari en hann er skemmtilegur í Pirates of the Caribbean. Amber Heard, er hún ekki bara einhver gold-digger er reyna koma sér áfram á tengslunum við Depp?

Einhvers staðar pikkaði samt eitthvað. Johnny Depp, hvítur, ríkur, frægur, miðaldra. Var hann fórnarlambið? 
Svo poppaði upp vídeó:


Þarna er farið í það lið fyrir lið hvernig Amber Heard svarar Depp, hvernig hún hæðist að honum, hvernig hún... hagar sér ekki eins og fórnarlamb á að gera.
Þarna festi hönd á því sem var að velkjast um, hún er ekki nógu gott fórnarlamb!

Nokkrum dögum seinna horfði ég á nýjasta þátt Law and Order SVU S23E22 A Final Call at Forlini's Bar (hafið þolinmæði með mér,  þetta er á leiðinni) sem fjallaði um konu sem hafði þolað heimilisofbeldi árum saman. Hún hagaði sér svo heimskulega að það var að drepa mig!

Eruð þið að ná því hvert ég er að fara?
Óeðlilegar aðstæður kalla á óeðlilega hegðun. Barn sem lendir í einelti fer að haga sér skringilega. Svo er þessi skringilega hegðun túlkuð sem ástæða ofbeldisins þegar hún er afleiðingin. 
Fólk sem býr við langvarandi ofbeldi kemur sér upp varnarháttum sem eru, oft á tíðum, fáranlegir. Það vill enginn vera fórnarlamb, það vill enginn lúffa. Stundum rífa þolendur kjaft og hæðast.  Þegar fólk kemst út úr aðstæðunum þarf það að tala um þær, oft og mikið.
Þetta er óeðlileg hegðun en hún kemur ekki út frá því að þolandinn sé skrítinn og ömurlegur og hafi kallað þetta yfir sig. Það var ofbeldið sem framkallaði þessa óeðlilegu hegðun.

Ég ætla að ljúka þessu með tilvitnun í dr. Jessica Taylor:

I’ll always find it fascinating which women get picked as ‘worthy victims’ who get support, crowdfunds, love and compassion; and which women get labelled as liars, narcissists, attention seekers, grifters, mentally ill etc.
I’ve noticed more and more that which one you are labelled with depends on what purpose you serve to others at the time, and whether your face fits.
If you are useful or serve a purpose to observers, you are more likely to be perceived as a worthy victim of something.
If you have no use to others, are irrelevant, unimportant or cannot be used to further someone else’s aims or case, you are likely to be either ignored or recast as a liar.
If you contradict the ‘perfect victim’ stereotype, or you are too low down on the victim hierarchy, you are in dangerous territory. Psychological literature has shown that girls as young as 11 can tell whether they will be blamed or disbelieved - and decide whether to disclose or not.
I think recent events have really hammered this home for me. If you are a woman, and you are disliked, or you contradict the perfect victim stereotype, and you serve no purpose to others, and you can’t be used to prove a point or back up a case example - you are not a victim.
It’s so interesting to sit back for once and watch which women get respected and taken seriously when they are abused or attacked, and which ones are instantly recast as mentally ill dangerous liars.
Some of the patterns are becoming horribly obvious.

sunnudagur, maí 22, 2022

Jón bóndi er með stóran félaga!

 Jeddúdda mía, stelpur, guðs gjöf til kvenna, Jón Björn Hreinsson, er aftur á lausu!



Brought to you by

Jón bóndi, sem er reyndar fyrrverandi bóndi, er hress og skemmtilegur og til í allt! Hann er líka með stóran félaga! Hann er að vísu frekar lágvaxinn svo kannski er um hlutfallsstærð að ræða en...
Jón bóndi er líka vinur vina sinna og hvetur þá til dáða. Þegar vinir hans standa í deilum við ættingja sína þá hvetur Jón bóndi þá til að dreifa skít yfir húsið þeirra þar sem börnin þeirra búa. Það er alveg "geggjað flott!"


Þegar hann er beðinn um að standa fyrir máli sínu þá bregst hann við af hugrekki og einurð.




Þið látið auðvitað ekki svona eðalgrip sleppa, stelpur😉

Update:
Jón (ekki) bóndi hefur breytt auglýsingunni og tekið út sinna helsta kost. Sem betur fer tók ég skjáskot.





Vert er að taka fram að hér er vitnað til opinnar auglýsingar á alnetinu og opinnar færslu á facebook.






mánudagur, maí 02, 2022

Eignir bankanna

 Lækkið þá þjónustugjöldin😡




Myndatökumanninum fipaðist aðeins og kemur inn á 😉

miðvikudagur, mars 02, 2022

Grenndarréttur

 Skrifað 2020 og sent til sveitarstjóra Þingeyjarsveitar sem hefur ekki enn svarað erindinu.

 

Til þess er málið varðar.

Þannig er mál með vexti að eiginmaður minn, Marteinn Gunnarsson, á 1/3 í Hálsbúi ehf. sem er að Hálsi. Búið á hann með tveimur bræðra sinna. Árið 2010 byggðum við hjónin einbýlishús á Hálsi og skuldsettum okkur í kjölfarið.

Fyrir þremur árum komu upp leiðindi sem leiddu til þess rúmu ári seinna að Marteinn hætti að vinna á búinu. Til að sjá fyrir okkur og börnum okkar stundum við vinnu utan heimilis og einnig höfum við rekið ferðaþjónustu í gegnum miðilinn Airbnb. Airbnb vinnur eftir svokölluðu umsagnakerfi og stjörnugjöf. Því hærri einkunn sem gestgjafi fær því hærra lendir hann í leitarniðurstöðum. Því hærra sem eignin lendir í leitarniðurstöðum því líklegra er að hún sé bókuð. Þetta veit starfandi bóndi, hann hefur sjálfur verið með eign inni á síðunni.

Við áttum okkur að sjálfsögðu á að bændur heyja um sumur og stundum verður veðurs vegna að vinna lengi fram eftir til að ná inn heyjum. Það er sjálfsagt að taka tillit til slíks. En starfandi bóndi á Hálsi hefur tekið upp það vinnulag að byrja heyskap fjærst húsi okkar og enda næst því. Á heyskapartíma er því iðulega unnið í kringum húsið okkar eftir 22:00 á kvöldin. Þann 11. júlí síðastliðinn var rúllað niðri á túnum fram undir eitt um nóttina. Þessu verki fylgdi mikill hávaði.

Þegar borinn er skítur á tún þá vill svo til í 95% tilvika að vindáttin stendur á húsið okkar. Þá þarf einnig að bera skítinn á túnin langt fram eftir kvöldi. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá þarf að hræra í skítnum sem er gert með dráttarvél og er því dráttarvél drynjandi allan daginn langt fram á kvöld í 120 metra fjarlægð frá húsinu okkar.  

Í þann 18. júlí voru gestir í öllum herbergjum. Hér lá megn skítafýla yfir húsið, dráttarvélin drynjandi og keyrt fram og til baka á annarri dráttarvél fram til 23:00 . Ég tel nokkuð ljóst að einkunnin verði ekki góð.

Við áttum okkur á að við búum á miðri bújörð.  Undir öllum venjulegum kringumstæðum myndi starfandi bóndi taka tillit til okkar starfsemi rétt eins og við tökum tillit til hans. En hér eru ekki venjulegar kringumstæður. Þetta gerist ekki óvart.

Þann 26. maí sl. héldum við upp á átta ára afmæli sonar okkar. Skólafélagar hans komu og léku sér úti enda ágætt veður. Skítatraktorinn var drynjandi í þessa þrjá tíma sem afmælið varði og gaus upp megn skítagasfýla sem lagði yfir húsið. Vert er að taka fram að í þetta skipti varði þessi vinna aðeins í þessa þrjá tíma. Þá var borið á túnið næst húsinu, sama tún og var borið á daginn áður.

Er þá ótalið þegar hljóðvörn að kornþurrkara var stöðugt færð frá og kýrhræ var látið liggja á hlaðinu í beinni sjónlínu allan daginn.

Spurningar mínar eru því: Gilda einhverjar reglur um hávaða í dreifbýli? Gilda óskráðar reglur grenndarréttar ekki  í dreifbýli? Hvert get ég snúið mér til að fá úr þessu skorið?





þriðjudagur, febrúar 08, 2022

Maðurinn sem sagði nei

 Þetta er GBÞG.





GBÞG á einn þriðja (1/3) í Hálsbúi ehf. Síðastliðin 12 ár,   hefur GBÞG  haldið því fram að hann vilji selja hlutinn sinn í Hálsbúi.

GBÞG  voru boðnar 30 milljónir fyrir hlutinn. GBÞG  sagði nei.

GBÞG voru boðnar 28 milljónir fyrir hlutinn.GBÞG  sagði nei.

GBÞG  var boðaður á stjórnarfund til að ræða það að félagið keypti af honum hlutinn. GBÞG  sagði nei.

Á sama stjórnarfundi átti að ræða það að stjórnarmenn fengju borgað fyrir fundarsetu. GBÞG  sagði nei.

GBÞG  var spurður hvort hann ætlaði að mæta á fundinn. GBÞG  sagði nei.

GBÞG  var beðinn um að samþykkja að fella niður 33 milljóna króna skuld úr ársreikningi svo hluturinn hans myndi hækka um 11 milljónir. GBÞG  sagði nei.

Svo var GBÞG bent á að hann gæti fengið 1,8 milljónir úr dánarbúi. GBÞG sagði nei.

Hvað er GBÞG  að hugsa?




sunnudagur, febrúar 06, 2022

33 milljónir sem enginn á.

Í ársreikningi* Hálsbús ehf. hefur undanfarin ár rúllað um 30 milljóna króna skuld. Annars vegar er viðskiptaskuld upp á rúmar 11 milljónir og hins vegar er langtimaskuld upp á rúmar 22 milljónir.






Eins og glöggir lesendur sjá þá snarhækkaði þessi skuld úr ársreikningi 2018. Hækkunin er slík að hún fer fram úr hæstu okurvöxtum. Þá má líka teljast undarlegt að undanfarin ár var alltaf áætlun um hvernig afborgunum á þessari skuld skyldi háttað en eftir 2018 er því ekki lengur fyrir að fara.


Kröfuhafarnir að þessum skuldum eru annars vegar Félagsbúið Hálsi og hins vegar eigendur Fb Háls en það er aðeins skammstöfun fyrir Félagsbúið Hálsi. 

Hvað er Félagsbúið Hálsi sem á ríflega 33 inni hjá Hálsbúi ehf.? Félagsbúið Hálsi var félagsbú bræðranna Helga Marteinssonar, Hrólfs Marteinssonar og Gunnars Marteinssonar og Hálsbú ehf. keypti búið og búreksturinn af þeim. Reyndar var verðið ekki svona hátt svo hvaðan þessar tölur koma er mér óskiljanlegt.

Þannig að kröfuhafarnir og eigendur þessara skulda eru því væntanlega erfingar þessara manna.** En nú vill svo til að skipti hafa farið fram og er lokið.

Nú hefur Marteinn, maðurinn minn, verið flæmdur í burtu af Hálsi ásamt okkur fjölskyldunni. Það eina sem er í stöðunni fyrir okkur er að selja allt okkar á Hálsi. Marteinn á einn þriðja (1/3) í Hálsi. Þá kemur það upp að þessi 33 milljóna króna skuld lækkar hlutinn hans um 11 milljónir. (Hún lækkar vissulega hluti hinna tveggja eigendanna en þeir vilja ekki selja.)

Svo Marteinn vill að gengið verði frá þessari skuld. Fyrst það er enginn kröfuhafi þá vill hann að hún verði felld niður í ársreikningi. Hinir eigendurnir segja nei. Þá vill Marteinn að dánarbú Hrólfs og Helga verði tekin upp og sett í opinber skipti eins og dánarbú Gunnars föður hans sem hann fór fram á strax 2019 en Sýslumannsembættið á Norðurlandi eystra hafði ekki enn tekið til greina 2021.

Er skemmst frá því að segja að Sýslumannsembættið a Norðurlandi eystra neitaði að taka upp bú Hrólfs og Helga vegna þess að "engar nýjar upplýsingar komu fram" og hafnaði einnig að taka dánarbú Gunnars Marteinssonar til opinberra skipta því það var "eignalaust". 

Engu að síður var Sýslumannsembættinu fullkomlega ljóst að þessar skuldir voru til staðar og hefðu áhrif á verðmæti hlutanna.

Og skuldin, sem heldur áfram að hækka, er áfram í ársreikningi Hálsbús ehf. og lækkar eignarhlutinn hans Marteins um 11 milljónir.

Það er fullvissa mín að ef Marteini tekst að selja hlutinn sinn með 11 milljóna afföllum þá muni hinir eigendurnir ekki þurfa að verða fyrir svona afföllum. Skuldin verður þurrkuð út um leið og þeir vilja selja. Gott er sennilega að taka fram að það er framkvæmdastjóri sem ber ábyrgð á ársreikningum.

Núna er ég bara einföld kona og skil illa reikningskúnstir og hin fínni blæbrigði lögfræðinnar enda er mér alveg fyrirmunað að skilja þetta.

Það er búið að ganga frá dánarbúunum svo Sýslumannsembættið á Norðurlandi eystra er búið að lýsa því yfir af sinni hálfu að þau eigi engar eignir en samt á Félagsbúið Hálsi, sem var afskráð 2020, kröfu í 33 milljónir. Það er enginn kröfuhafi að þessum skuldum en samt er hægt að leika sér að því að hækka þær og lækka verðmæti hlutarins.

Hvernig í ósköpunum getur þetta staðist?


Næst: Maðurinn sem sagði nei.

*https://kjarninn.is/frettir/2021-01-06-svona-naerdu-i-arsreikninga-fritt/

**Helgi gerði ekki erfðaskrá svo bræður hans voru erfingjar hans. Börn þeirra eftir þeirra dag. 

10 milljónir deilt í fernt;  2,5 milljón sem deilast í fjölda barna. Ef við reiknum með 2,5 fyrir Suðurbæinn sem er enn ógreiddur og var vanmetinn á 5 milljónir þá eru þetta 12,5 milljón deilt í fernt = 3,125 milljónir deilt í fjölda barna.

miðvikudagur, febrúar 02, 2022

Enginn hagsmunaárekstur - alls enginn

 Þetta er Ólafur Rúnar Ólafsson. Hann á og rekur Lögmannsstofu Norðurlands. Skv. fyrirtækjaskrá er Ólafur 100% eigandi stofunnar.  Hann var/er líka lögmaður H.




Þetta er Sunna Axelsdóttir. Hún vinnur á sömu stofu og Ólafur Rúnar.




Sunna var sett sem skiptastjóri í opinberum skiptum dánarbús móður þeirra systkina. Eins ótrúlega og það kann að hljóma þá sagði Marteinn: "Nei, takk, þú ert vanhæf." Sunna sagði: "Nei, ég er það ekki neitt." Kemur í ljós að ÓRÓ sagði sig frá störfum fyrir H í kjölfar þess að Sunna fékk skiptin.

Marteinn kvartaði til dómarans sem skipaði Sunnu. Dómarinn heitir Hlynur Jónsson.


Marteinn sagði við dómarann: "ÓRÓ hefur verið lögmaður H lengi. ÓRÓ sagði sig frá störfum fyrir hann bara vegna þess að Sunna er með skiptin. Svo þegar skiptin eru búin mun hann taka aftur að sér hagsmunagæslu fyrir hann. Þetta er bara þykjustuleikur." Þá sagði Hlynur: "Það er allt í lagi ÓRÓ má alveg gera það. Sunna er samt ekki vanhæf vegna þess að akkúrat núna vinnur ÓRÓ ekki fyrir H."

Finnst ykkur réttarkerfið á Íslandi ekki dásamlegt?

Og hver haldið þið að niðurstaða Sunnu hafi verið? Hún var alveg nákvæmlega sú sem H vildi að hún væri.

Eruð þið ekki hissa? Finnst ykkur það ekki magnað? Hverjum hefði dottið það í hug!

Réttarkerfið á Íslandi, maður, það er geggjað.

föstudagur, janúar 28, 2022

Skilaboð til ungrar konu

 Vertu sæt og vertu prúð

Vertu stillt og lítillát.

Þrauka mannsins alla ást,

Enginn þolir konugrát.

 

Þú víst færð það sem vilt þú,

Þú veist, meyjar nei er já.

Vertu svæsin, vertu svöl

Svala allri karlsins þrá.

 

Mundu samt að setja mörk,

Sanna þó þá miklu ást.

Vertu stór og vertu sterk

Stundum þarftu líka‘ að þjást.

 

Þegar þú ert liðið lík

Liggur ástarbríma í.

Ef þú stundir ekki „stopp“

Staðfest sök þá öll er þín.

 

Gamall, reiður femmi




Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...