laugardagur, júní 13, 2015

Vinsamleg tilmæli til nýja skólastjórans

Velkominn til starfa. Ég vona innilega að þú verðir farsæll í starfi en ég skal viðurkenna að ég er ekki full bjartsýni.  Það er ástæða fyrir því að þú ert í þessu starfi. Þér ætti að vera sú ástæða ljós.
Þá skil ég engan veginn hvernig hægt er að rökstyðja það með málefnalegum hætti að aðstoðarskólastjórastaða sé lögð niður þegar hægt er að búa til aðstoðarskólastjórastöðulíki strax á eftir. Ég vona að um þann rökstuðning verði beðið með formlegum hætti.

Hitt er annað mál að þú sýndir sveitarstjórninni fingurinn og hún lýsti yfir fullum stuðningi við þig samt svo kannski er einhver töggur í þér. Það má vona.


Það er eitt sem mig langar að biðja þig um. Viltu vinsamlegast fara vel yfir eineltismál í skólanum. Einelti hefur því miður verið vandi í Hafralækjarskóla. En honum hefur verið afneitað. Kallaður eitthvað annað eins og stríðni eða eitthvað þvíumlíkt. Það breytir engu um þá staðreynd að sumir nemendur skólans hafa upplifað mikið einelti. Og upplifa enn mikið einelti. 
Áður en ég verð sökuð um niðurrifsstarfsemi og hvaðeina þá vil ég benda á að ég er alveg jafnsek og aðrir sem unnið hafa í skólanum. Ég var sannfærð um á þeim tíma sem ég vann þarna að ekkert einelti væri í skólanum. Viðhorfið var á þá leið að einn nemandinn væri t.d.bara ,,veiklundaður" á meðan annar ,,hafði ekki mikla félagsþörf." Þessir nemendur og fleiri frá sama tíma hafa komið fram og talað um einelti. Það er ekki upplifun okkar fullorðna fólksins* sem skiptir máli heldur upplifun barnanna. Ef þau upplifa einelti þá er það einelti. 
Þá vil ég einnig taka fram að ég álasa starfsfólki ekki fyrir að taka ekki eftir eineltinu. Það er mjög lúmskt og dulið. Þá eru þolendur eineltis iðulega sannfærðir um að þeir beri sök á eineltinu og segja ekki frá. Hins vegar álasa ég fólki fyrir að taka ekki á einelti þegar frá því er sagt.
Ég bið þig lengstra orða að athuga málið. Ef mér skjátlast þá er það bara fínt. Ef ekki viltu þá í guðanna bænum taka á því.




*Mig langar að benda hér á rannsókn Muzafer Sherif sem sýnir að fólk aðhyllist smám saman skoðun hópsins í stað eigins mats.

mánudagur, júní 08, 2015

Sambærilegt starf



Þar sem nokkur umræða hefur spunnist um rétt einstaklinga til starfstilboða langar mig að leggja orð í belg.

Þegar mitt starf var lagt niður 2010 stóð á þeim pappír sem ég fékk í hendur að ég hefði rétt til biðlauna, sem ég þáði, og að ég nyti forgangs í sambærilegt starf á vegum sveitarfélaga ef slíkt losnaði. Nú hef ég ekki haldið sérstaklega upp á uppsagnarbréfið, undarlegt nokk, en hægt er að sjá í Fundargerð fræðslunefndar frá 10.6.2013 að sama gilti um annan kennara.
Nú er það ákveðið sjónarmið að vinna sé vinna. Hitt er annað mál að það er lítið réttlæti í því að einstaklingur sem hefur unnið sig upp í starfi og staðið sig vel skuli þurfa að sætta sig við minni ábyrgð, lægri laun og, já, að lækka í virðingarstiganum fyrir engar sakir aðrar en þær að starfið hans er lagt niður. Að því gefnu að hann fái starf áfram.

Nú getum við haft hvaða skoðun á því sem við viljum. Mér fannst það t.d. fullkomlega skiljanlegt þegar þá menntaðasti starfsmaður og deildarstjóri stofnunar hér í sveit afþakkaði ræstingarstarf við sömu stofnun í kjölfar niðurlagningar starfs. Margir voru ósammála mér og hneyksluðust því: „honum var jú boðið starf.“*

Löggjafinn og dómsvaldið eru hins vegar þeirrar skoðunar að einstaklingur eigi rétt sambærilegu starfi, sé það í boði, og má finna marga dóma og úrskurði þar að lútandi.
Því þykir mér það bæði sorgleg og ósanngjörn umræða að einstaklingur sem hafnaði starfi sem ekki var sambærilegt við hið fyrra eigi þ.a.l ekki rétt á sambærilegu starfi þegar það býðst.


*Svona fékk ég söguna frá fyrstu hendi. Það má vera að ég sé auðtrúa en mér þykir eðlilegt að trúa því sem fólk segir mér af högum sínum.

sunnudagur, júní 07, 2015

Áríðandi skilaboð til grunnskólakennara landsins

Nú hafa kennarar aldeilis lent í niðurskurði og hagræðingaraðgerðum með sameiningum skóla og niðurlagningu starfa. Þótt kennarar séu starfsmenn sveitarfélaga þá hafa Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70 frá 1996 verið látin gilda um þá sem misst hafa starf sitt.

34. gr. Nú er embætti lagt niður og skal þá embættismaður jafnan halda óbreyttum launakjörum er embættinu fylgdu í sex mánuði frá því að hann lét af starfi, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en 15 ár, en ella í tólf mánuði, enda hafi hann þá ekki hafnað öðru sambærilegu starfi, óháð því hvort það er á vegum ríkisins eða annars aðila.
Nú tekur maður, er launagreiðslna nýtur skv. 1. mgr., við starfi í þjónustu ríkisins eða annars aðila áður en liðinn er sex eða tólf mánaða tíminn, og skulu þá launagreiðslur samkvæmt þessari grein falla niður ef laun þau er nýja starfinu fylgja eru jöfn eða hærri en þau er hann naut í fyrra embætti. Ef launin í nýja starfinu eru lægri skal greiða honum launamismuninn til loka sex eða tólf mánaða tímabilsins.

Síðastliðinn vetur var tekin sú ákvörðun hér í Þingeyjarsveit að sameina tvær starfsstöðvar Þingeyjarskóla á einum stað. Í kjölfarið misstu nokkrir kennarar vinnuna.* Í stað þess að notast við lög nr. 70/1996 og borga biðlaun var gerður starfslokasamningur við skólastjórann, annan (ef ekki báða?) aðstoðarskólastjórann og fjóra kennara. Þetta er mikilvægt; 

það er komið fordæmi fyrir því að gerðir séu starfslokasamningar við kennara.

Nú veit ég ekki hvernig starfslokasamningunum er nákvæmlega háttað nema það sem ég les í fréttamiðlinum okkar en eftir því sem þar segir þá skerðast greiðslur ekki þótt viðkomandi fái vinnu annars staðar.

Samkvæmt staðfestum heimildum 641.is eru ákvæði í starfslokasamningum amk. tveggja kennara við Litlulaugadeild Þingeyjarskóla, um að jafnvel þó að þeir fái vinnu áður en starfslokasamningurinn rennur út, skerðast greiðslurnar sem samningurinn kveður á um til kennaranna ekki. Og það jafnvel þó svo að þeir fái vinnu hjá Þingeyjarsveit, sem er sú sama Þingeyjarsveit og greiðir þeim laun samkvæmt starfslokasamningum. 

Þeta er afar mikilvægt því skv. 34. laga 70/1996 skerðast launagreiðslur ef launþeginn fær aðra vinnu. Hér er því um (mögulega) mikla kjarabót að ræða og ber að fagna framtaki Þingeyjarsveitar.

Mig langar þó að benda á að ég hnýt um setninguna: "Misjafnt er hve langir starfslokasamningarnir eru, en þeir eru frá fjórum upp í tólf mánuði í tilfellum kennaranna samkvæmt heimildum 641.is." Þarna virðist alla vega einn starfslokasamningurinn einungis gilda í fjóra mánuði en skv. gr. 34 laga nr. 70/1996 er biðlaunaréttur 6 mánuðir hið minnsta. En fólk verður auðvitaða að passa sig á því sjálft að semja ekki af sér.

Atvinna fyrir alla.

Þá gengur Þingeyjarsveit fram fyrir skjöldu með öðru góðu fordæmi sem vert að fagna. 
Eins og áður segir þá hefur verið niðurskurður og hagræðingar í rekstri grunnskóla út um allt land. Kennarar hafa misst vinnu sína þar sem ekki hefur verið næg kennsla fyrir alla. Hins vegar hefur Þingeyjarskóli nú ákveðið í samráði við sína yfirmenn að kennsla sé ekki forsenda ráðningar inn í skólann. Fyrrverandi skólastjóri hefur verið ráðinn aftur við skólann sem verkefnis- og teymisstjóri án kennsluskyldu.
Þann dag var fráfarandi skólastjóri ráðinn til eins árs í 50% stjórnunarstöðu sem verkefnastjóri hjá Þingeyjarskóla og á samkvæmt heimildum 641.is, að vera teymisstjóri yfir 4-7. bekk, án kennsluskyldu. Hann á auk þess að vera staðgengill skólastjóra þegar hann er ekki við.
Ég hélt reyndar að stjórnendur í fámennum skólum hefðu kennsluskyldu en það gleður mig ákaflega að skjátlast í því efni. Þetta opnar á óendanlega möguleika. Nú þarf engin/n með kennsluréttindi að sitja atvinnulaus heima í héraði. Hægt er að ráða fólk inn sem verkefnisstjóra án kennsluskyldu yfir hinu og þessu. Í fljótu bragði dettur mér í hug t.d. verkefnisstjóri yfir námsefni sem má brjóta niður í námsefni eftir námsgreinum, verkefnisstjóri yfir frímínútum, útileikjum, samkomum ofl ofl. Ég sé heldur enga ástæðu til þess að aðrir teymisstjórar séu með kennsluskyldu, þar eru strax komnar nokkrar stöður í viðbót. 
Með þessu framtaki sínu hefur Þingeyjarsveit ekki einungis tekið stórt skref fram á við til að bæta kjör kennara heldur einnig að búa til hálaunastöður á landsbyggðinni.
Frábært framtak.

*Annað starfsfólk hefur væntanlega einnig misst vinnu en þessi færsla lýtur að réttindum kennara.


Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...