föstudagur, október 02, 2015

Leikur að tölum

Í gærkvöldi benti fréttamiðillinn 641.is á ansi látlausa og lítt uppgefandi klásúlu í fundargerð sveitarstjórnar frá 1. okt. sl. Þar reynist leynast upphæð starfslokasamninga sem gerðir voru við þrjá kennara og tvo skólastjórnendur Þingeyjaskóla í vor. Samanlögð er upphæðin 30,5 milljónir. Núna væri auðvelt að deila þessari upphæð í 5 hluta en við vitum að henni er ekki skipt jafnt á milli. Ég fór þá leið að leggja saman mánuðina sem eru skv. mínum útreikningum 56  (6+8+12+12+18). Mér skilst að einn einstaklingur hafi verið í 70% starfi svo miðað við það er verið að borga 53.7 heila mánuði. (8x0,7=5,6) Ef við deilum svo 30,5 milljónum í 53,7 fáum við meðaltalið (rétt tæplega) 568 þús. per einstaklingur á mánuði brúttó. Þessu er að sjálfsögðu ekki skipt svona en ef við gefum okkur að kennararnir séu með 420 þús á mánuði til að vanætla ekki þá eru skólastjórnendurnir tveir með um 600 þús. á mánuði. Þetta eru svo sem engar óskaplegar tölur og eðlilegt að fólk fái bætur fyrir atvinnumissi. Það sem er hins vegar ekki í lagi er klásúlan sem skv. heimildum 641.is er í samningunum á þá leið að fólk haldi starfslokagreiðslunum þrátt fyrir að það fái aðra vinnu. Og annar skólastjórnandinn sat ekki atvinnulaus eitt einasta sekúndubrot heldur gekk beint inn í sérhannaða stöðu í þessum nákvæmlega sama skóla. Fullkomlega eðlilegt að sumir fái tvöföld laun á kostnað okkar útsvarsgreiðenda. Fullkomlega.


Til að bæta gráu ofan á svart þá gengur sú saga að nýja kerfið í Þingeyjarskóla gangi nú ekki betur en svo að búið sé að stækka stöður flestra kennara. Fylgir sögunni stöðuhlutföll upp á vel rúmlega 100%. Við skulum hafa það á tæru að öll vinna kennara yfir 100% er yfirvinna. Sé þessi saga sönn þá erum við útsvarsgreiðendur í Þingeyjarsveit að borga starfslokasamninga hjá kennurum sem voru „óþarfir“ í eins-húss-Þingeyjarskóla og yfirvinnulaun hjá hinum af því vinnan er svo mikil! Næs...
Það er nú gott að það voru sparaðar spjaldtölvur við nemendur unglingadeildar Stórutjarnaskóla. Það hlýtur að vega upp á móti þessum útgjöldum öllum. Þessum mjög svo einstefnusinnuðu útgjöldum öllum.



En það er ekki bara verið að moka peningum í núverandi, fyrrverandi og fyrrverandi-næstum-því- fyrrverandi-áframverandi  starfsfólk Þingeyjarskóla, nei, það er verið að moka peningum í húsnæðið sjálft líka. Veitir svo sem ekkert af, það vita allir. Hins vegar læddi ólyginn því að að það væri ekkert verið að hengja sig mikið á fjárhagsáætlunina sem er auðvitað öllu verra ef rétt reynist.
En við skulum ekki blekkja okkur, við vitum alveg hvert er næsta skref. Sameining Þingeyjarskóla og Stórutjarnaskóla er næst á dagskrá. Eins og staðan er í dag þá hentar Stórutjarnaskóli miklu betur undir sameinaðan skóla. En þessi sameining verður ekki nefnd fyrr en líður að næstu sveitarstjórnarkosningum eftir tæp þrjú ár. Það er hægt að laga húsnæði Þingeyjarskóla heilmikið á þremur árum. 



sunnudagur, september 13, 2015

Að vera hæf eður ei

Ég hef talsvert velt fyrir mér eftir 5 ára reynslu sem óhæfur starfskraftur hvað hæfi sé og hvernig það er metið. Mér finnst alveg eðlilegt að gera kröfu um hæfi en það verður að vera kýrskýrt í hverju það felst. Það getur ekki bara verið "eitthvað óljóst". Fyrirtækið/stofnunin verður að setja sér skýrar reglur um til hvers sé ætlast og skilgreina það. Sbr. eineltisáætlanir. Það er ekki nóg að tilkynna að "einelti verði aldrei liðið" og kalla svo allt einelti "smá stríðni". Eða "fjölelti". Hvað sem það orðskrípi merkir.
Mér hefur því miður fundist "hæfið" iðulega byggjast á persónulegri skoðun þess sem metur. Þess vegna finnst mér algjörlega ótækt að verkalýðsfélög séu virkilega að semja á þá leið að einstaklingar geti "samið" við sína yfirmenn um hærri laun. Á meðan ekki er skýrt hvað er metið þá eru sumir í náðinni og aðrir ekki.
Sé starfskraftur ekki að "standa sig" miðað við skýran ramma um hvað felst í því, ber yfirmanni að veita honum aðstoð og ráðleggingar. Taki starfskraftur sig ekki á eftir það ber að veita honum áminningu. Taki hann sig enn ekki á er hægt að segja honum  upp.  Eftir-á-kjaftasögur um vanhæfi eru algjörlega ólíðandi vinnubrögð.
Vegna þessara hugleiðinga varð ég mjög glöð þegar ég rakst á þessa tilvitnun nýverið:
"Ah yes, but you see, “quality” is the new racism. It’s a code word. “Not good enough” is a code word for the exclusion of parties that used to be excluded on a more candid basis."
                   Barbara Kirshenblatt-Gimblett


föstudagur, september 11, 2015

Það er vont og venst illa

Jæja, þá eru þó nokkur sveitarfélög búin að lýsa yfir áhuga sínum á því að taka á móti flóttamönnum. M.a. nágranni okkar Norðurþing. Er það vel. Þingeyjarsveit er ekki þar á meðal. Málefnið hefur ekki einu sinni verið rætt í sveitarstjórn. Við hefðum getað verið með þeim fyrstu. En auðvitað ekki, guð forði okkur nú frá því að gera eitthvað gott. Og alveg sérstaklega frá því að fjölga íbúum í Þingeyjarsveit.
Hvorki með því að taka á móti flóttamönnum né ýta á kynjajafnréttisfræðslu í skólum sveitarfélagsins. Nei, við skulum endilega flæma stúlkurnar okkar í burtu og strákana á eftir. Höfum ekkert við þetta unga fólk að gera.

Um daginn var fundur um Heimaslóðarverkefnið. Ekki sást þar einn einasti fulltrúi atvinnumálanefndar enda skiptir landbúnaður í Þingeyjarsveit engu máli. Þessir örfáu bændur skila hvort sem er svo litlu í útsvarskassann. Nei, atvinnumálanefnd er upptekin af ljósleiðaravæðingu af því það kemur ferðaþjónustunni svo vel að geta rukkað fyrir nettengingu í hverju herbergi. Og ferðaþjónustan skilar svo miklu í kassann. Við sáum það öll á tekjulistanum um daginn.
Nei, það gæti nú eiginlega læðst að vondri konu sá lúmski grunur að það sé bara enginn vilji fyrir því að fjölga í sveitarfélaginu. Hver gæti nú mögulega verið ástæðan fyrir því?
Kannski sú að í fámenninu dafnar spillingin? Að það sé auðveldara að koma réttum aðilum á spenann?
Það myndi auðvitað aldrei líðast í fjölmennara sveitarfélagi að meirihluta-sveitarstjórnarfulltrúi og frænka hans fengju að ganga í óauglýstar stöður á sama tíma og annað fólk er enn með uppsagnarbréfið í höndunum.

Helvítis asnar.



fimmtudagur, september 03, 2015

Auglýsingaskylda starfa

Af engri sérstakri ástæðu langar mig til að fjalla aðeins um auglýsingaskyldu starfa í grunnskólum.
Meginreglan* er sú að auglýsa skal öll laus störf kennara. Á því eru þó ákveðnar undantekningar.
 
Í kjarasamningi grunnskólakennara14. grein segir:




Get ég ekki betur séð en að auglýsingaskyldan sé nokkuð skýr.
Nú hefur sá leikur verið leikinn sums staðar að ráða "tímabundið" í stöðu og framlengja svo ráðninguna. Eða að ráða bara í hlutastarf og stækka svo starfið. Það má vera að svona æfingar séu ekki beinlínis lögbrot en siðlausar eru þær.
Enda hef ég ekki nokkra trú á öðru en svona æfingar heyri til undantekninga. Gott fólk í góðu samfélagi gerir sér að sjálfsögðu ekki leik að því að fara í kringum lögin. Og heiðarlegt og hæft fólk vill ekki fá starf með þessum hætti.




*Stutt skilgreining: Meginreglur laga eru óskráðar reglur sem ályktað verður um á grundvelli einstakrar réttarreglu, fleiri réttarreglna, heils réttarsviðs eða laganna í heild
Ef tiltekin meginregla er skráð (sbr. t.d. 65. gr. STS) breytist réttarheimildarleg staða reglunnar
Eftir skráningu styðst hún við settan rétt

föstudagur, ágúst 28, 2015

Að meta hæfi

Það væri að bera í bakkafullan lækinn að rifja upp áratugalanga sameiningar(hörmunga)sögu
grunnskóla í núverandi Þingeyjarsveit. Við skulum samt, að gefnu tilefni, rifja upp andstyggilegar og vita þarflausar bréfasendingar sveitarstjóra Þingeyjarsveitar til fjögurra kennara Þingeyjarskóla í vor.
Það lá ljóst fyrir að segja þyrfti upp kennurum (ekki skólastjóra) vegna fyrirhugaðs flutnings grunnskóladeilda Þingeyjarskóla á eina starfsstöð. Fjórir einstaklingar voru valdir út og fengu áðurnefnd bréf. Skv. 641.is eru bréfin vægast sagt undarleg:
Í bréfunum eru settar fram dylgjur um hvers vegna viðkomandi kennarar séu ekki nógu góðir kennarar til að gegna áfram störfum við Þingeyjarskóla á komandi skólaári. Bréfin eru í raun óformleg uppsagnarbréf, en kennurunum er þó gefin kostur á því að andmæla innihaldinu.
Tilgangur þessara bréfasendingar er óljós enda óþarfi í uppsagnaferli að senda svona bréf. 
Að vísu tókst einum aðila að andmæla efni bréfsins og hélt vinnu. Skelfing hlýtur starfsgleðin þó að vera takmörkuð eftir svona trakteringar. Finnst mér þessi aðferðafræði til háborinnar skammar svo ég segi það hreint út. Þá hef ég fyllstu ástæðu til að ætla, án þess þó að fullyrða neitt þar um, að viðkomandi kennarar hafi fengið starfslokasamninga og þá ágæta einmitt vegna þessara ófaglegu og klúðurslegu vinnubragða. Væri það bæði rétt og sjálfsagt. Mér sem útsvarsgreiðanda finnst þó að sameiginlega sjóði okkar mætti nýta til þarfari verka en að þrífa upp mistök kjörinna sem handvalinna fulltrúa sveitarfélagsins.

En svo ég snúi mér nú að gefna tilefninu.
Í gær birtist á visir.is viðtal við Corneliu Thorsteinsson en hún er ein af kennurunum* sem var sagt upp í vor. Viðtalið er tekið vegna umræðu um byrjendalæsi en það sem stakk mig var þetta:
...þegar skipulagsbreytingar voru gerðar á skólanum í vor var gerður starfslokasamningur við Corneliu.
„Ástæðan sem mér var gefin er að ég hafi verið minna hæf en aðrir. En einnig að ég væri erfið í samskiptum og samstarfi.
(Feitletrun mín.)
Í vor þegar þessi ósköp gengu á var talað um dylgjur, jú, ég áttaði mig á því. En í bréfinu sem sent var segir:
Fram hefur farið samanburður á hæfi allra starfsmanna skólans. Eftir yfirferð gagna og þeirra upplýsinga sem fyrir liggja, bendir vinna sem farið hefur fram á vegum sveitarstjórnar vegna skipulagsbreytinga til þess að aðrir starfsmenn standi þér framar þegar kemur að því að ákveða hverjir muni áfram gegna störfum við Þingeyjarskóla.
Ég veit ekki hreinlega hvað ég hélt en sennilega vildi ég ekki trúa því sem ætti þó að blasa við. En eftir að ég las þetta viðtal þá hlýt ég að spyrja:

Hvaðan koma þessar upplýsingar? Hver segir að konan sé erfið í samskiptum og samstarfi? Hverjir  gætu mögulega haft þessa skoðun og komið henni á framfæri aðrir en samstarfsfólk konunnar?
Fólk sem er að keppa við hana um vinnuna!

Við erum öll mannleg, við vitum öll hvaða þýðingu þetta hefur. Ég álasa ekki fólki fyrir að reyna að halda lífsviðurværi sínu. En ég álasa svo sannarlega því ,,fagfólki" sem batt svona um hnúta. Það hlýtur hver heilvita maður að sjá að svona vinnubrögð geta ekki gengið enda vona ég svo sannarlega að mér skjátlist. Í guðs bænum segið að mér skjátlist!

En það hlýtur að vekja furðu að þau fyrstu fjögur sem voru valin koma öll úr Litlulaugadeild. Okkur finnst öllum betra að vinna með fólki sem við erum vön að vinna með og það voru fleiri starfandi í Hafralækjardeild. Einn kennari bjargaði sér fyrir horn eins og áður sagði og þá lenti kennari úr Hafralækjardeild í niðurskurðinum. En aðeins eftir, takið eftir, að um þessa tilhögun var efast á opinberum vettvangi og dregið í efa að hún stæðist lög um meðalhófsreglu.
Þá verður líka að teljast undarlegt að einstaklingar sem yfirgáfu Hafralækjardeild í vor, hvort sem það var sjálfviljugt eða óviljugt, eru komnir aftur til starfa í óauglýstar stöður.
Einhverjum verr innréttuðum en mér gæti dottið í hug orðið "slagsíða." En ekki mér. Ég trúi á tilviljanir.

Megi vináttan blómstra.

*Þeim hjónum var sagt upp. Heimilið var sem sagt svipt báðum fyrirvinnum sínum. Stay classy, Þingeyjarsveit.

mánudagur, ágúst 24, 2015

Ónýt sjálfsmynd þjóðar



Við höfum öll heyrt þessa sögu: Nokkrir smákóngar í Noregi undu ekki yfirgangi Haraldar hárfagra og fóru til Íslands. Hér settust þeir að til að njóta frelsis og sjálfstæðis. Synir þessara frelsishetja urðu miklir garpar, svo miklir að við erum enn að lesa af þeim sögurnar í Íslendingasögum. Slíkur og þvílíkur er uppruni íslensku þjóðarinnar. Sei, sei, já.

Þessi útgáfa hentaði Íslendingum afskaplega vel á nítjándu öld og öndveðri tuttugustu á meðan barist var fyrir sjálfstæðinu. Niðurlútir og langsveltir nýlendubúarnir þurftu svona tröllasögur til að ljúga í sig þróttinn. Ljúga segi ég því auðvitað stenst þetta enga skoðun.
Fyrir það fyrsta þá voru það engir smákóngar sem komu til Íslands, það voru yngri bræður sem fengu ekkert land. Við getum alveg gefið okkur að þeir hafi verið höfðingjasynir en ég er nokkuð viss um að þeir hafi ekki fjölmennt á skipin og skipt á milli sín verkunum. Nei, ég er nokkuð viss um að það hafi verið sirka einn höfðingjasonur á hverju skipi og fullt af vinnumönnum, þrælum jafnvel. Bergþórshvoll var fullur af fólki. Það var ekki bara höfðinginn Njáll og synir hans (fyrir nú utan að hvorki Njáll né Gunnar voru höfðingjar heldur bara stórbændur.) Nei, húsið var fullt af vinnumönnum, ambáttum og þrælum.  

Þessu hefur verið svarað á þá leið að m.a.s. þrælarnir okkar hafi verið konungbornir sbr. Melkorka. Þið vitið, Melkorka sem Höskuldur Dala-Kollsson keypti á Írlandi og nauðgaði svo reglulega.
Já, talandi um það. Við erum svo ægilega stolt af víkingunum okkar, þessum sem gerðu strandhögg í öðrum löndum og drápu mann og annan. Við erum svo stolt af þeim að við töluðum um „útrásarvíkinga“ í brjálæðinu sem gekk yfir hér um árið, í hreinu heiðurs- og viðurkenningaskyni. Réttara hugtak yfir víkinga sem við ættum frekar að nota er þjófóttir morðingjar. Já, elskurnar mínir, þetta voru ómerkilegir þjófar. Svolítið fyndið hvað við erum svo hneyksluð og miður okkar yfir Tyrkjaráninu þegar hingað komu Alsírbúar og gerðu nákvæmlega það sama á Íslandi og æðislegu forfeðurnir okkar gerðu á öldum áður. Okkar finnst bara ekkert töff við þetta Tyrkjarán.

Þetta er sem sagt sjálfsmynd þjóðarinnar. Við erum wannabe höfðingjar, uppfull af þrælsótta og lúffum um leið og einhver frekjuhundur kemur á vettvang og þykist flagga frumburðarrétti. Við föllum að fótum þeirra eins og hundar og leyfum þeim að traðka á okkur á skítugum skónum af því, já, af því að við trúum því virkilega að einn daginn muni okkar tækifæri til skítseiðisháttar koma. Og við ætlum sko að nýta það. Við ætlum svo sannarlega að nýta það. Þess vegna getum við ekki sameinast gegn frekjuhundinum þótt við vitum að sameinuð getum við sigrað hann. Af því að ef við lokum á möguleika „höfðingjans“ þá getum við ekki komist í hlutverk höfðingjans sem er okkar erfðaréttur! Fyrir þau okkar sem erum ekki af réttu kyni eða réttri ætt þá mun þetta tækifæri aldrei koma. Enda eigum við ekki að vilja svona andstyggðar tækifæri. Við þurfum að átta okkur á að samtakamátturinn er sterkari en höfðinginn. Og við þurfum svo sannarlega að átta okkur á að hér eru engir kóngar og hafa aldrei verið. Við þurfum nýja sjálfsmynd sem þjóð. Og þá getum við kannski siðmenntast.


mánudagur, ágúst 10, 2015

Reikningskúnstir

Það er ýmislegt sem konu langar. Mig langar t.d. til að gerast áskrifandi að Spotify Premium, bæði vegna þess að ég hef gaman að tónlist og mér þykir eðlilegt að listamenn fái laun fyrir vinnu sína. Það kostar hins vegar 9,99 evrur á mánuði eða 1.462,64 krónur sem gerir 17.552,- á ári. Mér finnst það fullmikið og læt það því ekki eftir mér.

Mig langar líka að geta búið til teiknimyndir fyrir vinnuna mína og börnin en bestu græjurnar á netinu krefjast áskriftar. 

Það er sem sagt ýmislegt sem ég leyfi mér ekki. Fjölskyldan sagði t.d. upp áskriftinni að Stöð 2 þegar hún fór upp í 8 þúsund krónur á mánuði. (96 þús. á ári.)

Ég er samt áskrifandi að ýmsu, hvort sem mér líkar það betur eða verr,  sem þátttakandi í samfélagi eins og t.d. heilbrigðisþjónustu og samgöngum
Sem íbúi í sveitarfélagi er ég áskrifandi að ýmsu öðru eins og t.d. menntun fyrir börnin mín og sveitarstjóra.

Þann 4. sl. birti fréttamiðillinn 641.is lista yfir 10 tekjuhæstu einstaklinga Þingeyjarsveitar. Sveitarstjórinn trónir þar í efsta sæti með 1.353.344 kr. í mánaðarlaun. (Rúmar 16 milljónir á ári.)
Jahá, ansi þykir mér vel í lagt. 

Ekki svo að skilja að mér þyki þessi einstaklingur ekki að þessum launum kominn, það er alls ekki málið. Og mér finnst satt best að segja ferlega vont að vera að gagnrýna há laun hjá konu. Hins vegar er ég ekki alveg viss um að embættið sem slíkt sé að þessum launum komið. Ég er reyndar alls ekki viss um að embættið þurfi að vera fullt starf né sé yfir höfuð nauðsynlegt en það er önnur saga.

Það má vel vera að sveitarstjórar séu með þessi laun. Ég veit það ekki þar sem ég finn það ekki í fljótheitum á netinu. Þá veit ég ekki almennilega hvað Samband íslenskra sveitarfélaga kallar „framkvæmdastjóra“ í Könnun á kjörum sveitarstjórnarmanna og framkvæmdastjóra sveitarfélaga 2014 en þar kemur þó fram að aðeins eitt sveitarfélag með íbúa á bilinu 500-999 greiðir sveitarstjóra sínum laun á milli 1.100-1.199 þús.kr. á mánuði. Þar sem ýmis sporslur og fríðindi eru ekki inni í hreinum launum þá segir þetta okkur ekki endilega að þetta sé okkar sveitarstjóri en þetta gefur þó alla vega einhverja hugmynd. 


Þá fann ég frétt frá 2012 þar sem segir að Jón Gnarr þáverandi borgarstjóri Reykjavíkur sé með 1,2 milljón í laun á mánuði. Aftur komum við að sporslum en þetta gefur hugmynd. Örlítill umsvifamunur, myndi ég halda.

Ástæða þess að mér þykir þetta ansi vel í lagt er helst hversu fámennt sveitarfélagið okkar er. Skv. Hagstofu Íslands voru í janúar 949 íbúar í Þingeyjarsveit. 
Hagstofan

Ég reiknaði út laun og launatengd gjöld á reiknivélinni hjá payroll.is. Skv. henni er heildarkostnaður launagreiðenda 1.572.986,- kr. á mánuði (tæpar 20 milljónir á ári) vegna sveitarstjórans. Aftur vil ég taka fram að ég veit ekki hver „launin“ eru nákvæmlega og hvað eru sporslur eins og t.d. fyrir fundarsetu, ökustyrkur, símastyrkur o.s.frv. einu upplýsingarnar sem ég hef eru frá 641.is svo ég verð að vinna út frá þeim.
Að þessum fyrirvara gefnum þá er hvert einasta mannsbarn í Þingeyjarsveit að greiða 1.658,-kr. á mánuði (tæpar 20 þús. á ári) í laun sveitarstjórans. Það er meira en mánaðargjaldið að Spotify Premium. Fyrir fjögurra manna fjölskyldu (mína) eru þetta 6.630,- kr. á mánuði. (Tæplega 80 þús. á ári.)  Það slagar nú hátt í áskriftina að Stöð 2.
Ef við reiknum bara 16 ára og eldri þá eru þeir 769. Þá er hver að borga rúmar tvö þúsund krónur á mánuði.

Í þriðja sæti listans er svo oddviti sveitarstjórnar með 1.158.202 kr. á mánuði. Hann er vissulega í annarri vinnu svo nú hef ég bara uppi hreinar getgátur en við skulum halda að hin vinnan borgi honum 600 þús. á mánuði. Þá eru eftir 558 þús. Við skulum halda að helmingurinn af því sé fyrir aðra vinnu, eins t.d. leikstjórn og slíkt. Þá standa eftir 280 þús. sem koma frá sveitarfélaginu á mánuði. Reiknivélin á payroll segir að það sé heildarkostnaður upp á 325.443 kr. Í hverjum mánuði fara 1.898 milljón til æðstu embættismanna sveitarfélagsins. (Tæplega 23 milljónir á ári.) Sveitarfélags sem telur 949 hræður. Láglaunahræður, því þessi listi segir okkur líka að meðallaun Þingeyjarsveitunga eru sorglega lág. Að vísu þykir mér skrýtið að eigendur laxáa séu ekki á listanum en ég voga mér ekki að geta þess til hvað valdi.

Það hefði verið fróðlegt ef 641.is hefði unnið framhaldsfrétt um málið og t.d. beðið um upplýsingar um laun og aðrar greiðslur, s.s. styrki,  til sveitarstjóra og sveitarstjórnarmanna skv. upplýsingalögunum góðu. Persónulega nenni ég ekki að standa í því. Það eru takmörk fyrir úthaldinu sem ein kerling hefur, þótt erfið sé.

Þá gæti sveitarstjórnin líka bara upplýst um það af sjálfsdáðum, svona til að sýna gegnsæi í stjórnsýslunni.

Góðar stundir.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...