Það hjuggu fleiri en ég eftir því í fréttunum um daginn þegar Finnbogi formaður félags grunnskólakennara sagði að samninganefnd kennara hefði gefið eftir en ekki samninganefnd sveitafélaganna. Þetta er verulega slæmt. Ég veit að allar samningaumleitanir fela í sér tilslökun en þegar annar aðilinn gefur eftir en hinn ekki neitt, þá er illt í efni. Enda er það alveg augljóst að samninganenfd sveitafélaganna er alveg skítsama um kennara. Lítilsvirðingin gagnvart samninganefndinni okkar og þ.a.l. okkur er algjör.

Varðandi vinnutímarammann. Ég er búin að fylla minn út og skv. honum hefði ég mátt fara klukkan tvö í dag. Ég komst hins vegar ekki út um dyrnar fyrr en nokkrar mínútur í fjögur. Ég þurfti að fylla út rammann svo ég fengi greidda yfirvinnu ef hún yrði einhver. Þegar fólk er að vinna fameftir þá fær það samt aldrei neina yfirvinnu því þá er alltaf vísað í ,,sveigjanleikann". Maður má sem sagt fara fyrr einhvern annan dag í staðinn. Yfirleitt kemur reyndar eitthvað upp á þann daginn svo maður kemst ekki út fyrr en klukkan fjögur en það er svona. Mér var líka sagt þegar ég var að fylla út rammann að hann væri ,,bara svona viðmiðun. Þú mátt alveg vinna lengur." Ó, vei.

Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja af hverju það er svona nauðsynlegt að binda kennara við bygginguna eftir að þeir eru búnir að kenna. Hvaða gríðar máli skiptir það hvort maður undirbúi kennsluna heima hjá sér eða í skólanum? Er ekki þróunin alls staðar annars staðar að losa um þessa bindingu? Þetta er bara vantraust á okkur, okkur er ekki treyst til þess að vinna vinnuna okkar.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir