Hitt og þetta

Þá eru páskarnir komnir og farnir. Ég er mætt galvösk í vinnuna nema hvað það er engin vinna! Samviskusemin ríður ekki við einteyming.
Við brugðum okkur suður fyrir páska til að fara í fermingu. Nú er litla frænka orðin stór. Sveitavargurinn brá sér vissulega í búðir og eyddi peningum. Okkar tókst samt alveg að klikka á að fara í matvöruverslun og komum heim að tómu koti seint á miðvikudagskvöld. Sem betur fer eigum við fína frystikistu sem ýmislegt leyndist í.
Þegar við fórum að mjólka á páskadagsmorgun var ein kýrin dottin í flórinn, hafði einhvern veginn tekist að lyfta grindinni og detta niður. Hún hafði greinilega verið búin að sprikla í einhvern tíma því hún var alveg að niðurlotum komin og komin með kölduna. Það var sprautað á hana heitu vatni og mikið mál að koma henni upp því hún sjálf gerði ekkert. Væntanlega orðin dofin í löppunum, greyið. Sem betur fer tókst að koma henni upp en hún er eitthvað dauf í dálkinn. Spurning að fá dýrasálfræðing til að veita áfallahjálp.
Snati vex og dafnar. Búinn að fá rauða flotta ól sem hann er ekkert hrifinn af. Um daginn steig á hann kálfur, skrítið hann var bara að þvælast í kálfastíunni, og hann ýlfraði þvílíkt og kom hlaupandi. Hann er alveg með það á hreinu hver tekur hann í fangið og huggar hann og ofdekrar. Það er dálítið sérstakt augnaráðið sem bændurnir senda mér. En okkur Snata er alveg sama:)

Að endingu legg ég til að Eiríkur Jónsson segi af sér sem formaður KÍ.

Ummæli

  1. En gaman að fá svona sögur úr sveitinni. Og get ég ímyndað mér augnaráðið, ójá. Skepnurnar sér, fólkið sér...

    SvaraEyða
  2. Þú og Snati haldið bara ykkar striki :-)

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Blikar á ljáinn

161 fm einbýlishús, 1/3 í kúabúi og gistikot til sölu á 73,5 milljónir

Að semja við narsissista