Breiðavíkurbætur

Áður en ég byrja vil ég taka það fram að ég fordæmi alla kynferðislega misnotkun. Hvort sem hún beinist gegn börnum, konum eða körlum. Hún á aldrei rétt á sér, er aldrei réttlætanleg og aldrei skiljanleg.

Það er mjög auðvelt að dæma hluti út frá sjónarhorni samtímans. En er það rétt mælistika? Verður ekki að taka tillit til tíðarandans hverju sinni?
Breiðavíkurmálið hefur ekki setið vel í mér og ég ætla að gera grein fyrir hvers vegna.
Allt fór þetta af stað þegar fyrrum skjólstæðingar heimilis í Noregi voru dæmdar bætur.  Sú tilfinning að þetta snúist um peninga hefur aldrei vikið og hefur heldur eflst á síðustu dögum.

Málflutningur Breiðavíkurdrengja er að þeir hafi verið misnotaðir kynferðislega, þeim hafi verið misþyrmt líkamlega og þeir hafi verið beittir vinnuhörku.. 
Þá halda margir því einnig fram að þeir hafi verið teknir af heimilum sínum að ástæðulausu.

Ég er svo heppin að hafa alist upp í þeirri trú að kynferðisleg misnotkun á börnum væri ekki til. Ekki einu sinni í mínum hrikalegustu martröðum hefði mér dottið þetta í hug. Sá möguleiki að einhver gæti girnst barn var ekki til staðar í minni æsku. Foreldrar mínir hljóta nú samt að hafa haft einhvern grun því við systur vissum það að við áttum ekki að fara neitt með ókunnugum. 
Þegar ég var orðin unglingur blossaði þessi umræða upp og hefur verið mjög áberandi síðan.  Öll umræða er af hinu góða en hvort hún geti orðið of mikil er spurning sem ekki verður reynt að svara núna.
Núna þegar eitthvað er að hjá barni þá er þetta eitt af því fyrsta sem manni dettur í hug. En ef við bökkum fram fyrir 1980 myndi okkur þá detta þetta í hug? Ég held ekki. Ég held að misnotkun hafi, því miður,  fengið að viðgangast í skjóli sakleysis fólks. Því datt þetta bara ekki í hug. Ég man að þegar umræðan spratt upp þá var fólk hvumsa. Eflaust hafði fullorðið fólk heyrt um eitthvað einhvern tíma en að það væri svona algengt, því trúði enginn.

Eins og málflutningur Breiðavíkurdrengja hljómaði í byrjun þá virtist eins og starfsmenn heimilisins hefðu misnotað þá. Svo var ekki. Eldri drengir níddust á yngri drengjum og einn utanaðkomandi maður kom reglulega á heimilið. Þetta er óafsakanlegt. Eins og áður sagði þá held ég að fólki hafi hreinlega ekki dottið þetta í hug. Það er að sjálfsögðu engin afsökun. 
Í myndinni kom fram að einn drengurinn gat ekki sofið svo hann reyndi að læðast til eldri bróður síns. Þá kom vaktmaður og rak hann aftur í rúmið sitt. Í frásögninni var þetta mjög illa gert af vaktmanninum. En kannski var þessi vaktmaður að reyna að passa eitthvað.

Frásagnir af misþyrmingum hafa verið áberandi. Það vill reyndar svo heppilega til að mesti fautinn, forstöðumaðurinn, er dáinn og getur því ekki borið hönd fyrir höfuð sér.  Mér vitanlega hefur enginn staðfest þetta. Hins vegar held ég ekki að drengirnir á Breiðavík hafi verið eintómir englar frekar en börn eru á meðferðarheimilum nú til dags. Ég efast ekki um að það hafi verið tekið í þá. Ég hef heldur enga trú á því að það hafi verið að ástæðulausu.

Þegar ég var barn og unglingur var algengt að börn væru send í sveit. Og þau voru send í sveit til að vinna. Það þótti fullkomlega sjálfsagt. Fólk sem er eldra en ég kannast allt við talsverða vinnu. Mamma var farin að vinna 12 ára. Það unnu flestöll börn. Nema kannski börn af óregluheimilum í Reykjavík. Þetta var bara tíðarandinn og þótti eðlilegt

Þá erum við komin að ástæðu veru þeirra á Breiðuvík. Skv. heimildamyndinni þá var ,,smá" óregla á heimilum einhverra. Aðrir voru í ,,smá" afbrotum og einhverjir svona ,,smá" óknyttastrákar. Það var ekki nokkur ástæða til að senda neinn þeirra á meðferðarheimili.
Það má vel vera að barnaverndarnefndir hafi farið offari hér áður fyrr. Ég hreinlega veit það ekki. Hins vegar las ég Myndina af pabba eftir Thelmu og Gerði Kristnýju. Sterk bók og vel skrifuð. Eftir útgáfu þeirrar bókar var rætt við fólk og spurt af hverju enginn greip inn í. Af hverju barnaverndarnefnd gerði ekki neitt. Ekki fór barnaverndarnefnd offari þar. Því miður.

Mannfólkið er ekki fullkomið. Því miður þurfum við oft að læra af reynslunni. Sjúklingar þurftu að deyja til að við áttuðum okkur á að það væri til mismunandi blóðflokkar. 
Við vitum það í dag að það er ekki gott að hafa börn og unglinga saman á meðferðarheimilum. Það eru annars vegar heimili fyrir börn og hins vegar fyrir unglinga. Við vitum það líka að fjöldinn á hverju heimili má ekki fara yfir sex. Þetta er ekki hagkvæm rekstrareining en fólk hefur lært af reynslunni.

Nú vilja Breiðavíkurdrengir fá miklar bætur. 
Eiga allir að fá bætur? Líka þessir sem misnotuðu yngri drengina?
Er nóg að hafa verið á heimilinu? Þeir sem voru ekki misþyrmt né beittir vinnuhörku, eiga þeir líka að fá bætur?
Eiga allir skjólstæðingar allra heimila að fá bætur? Því þeir koma á eftir. Það er alveg 100% öruggt.
Hefði líf þessara manna hefði orðið eitthvað öðruvísi ef þeir hefðu ekki lent á heimilinu? Er hægt að sanna það?

Það hlýtur að vera huggun harmi gegn fyrir miðaldra menn sem horfa yfir brunarústir lífs síns að geta kennt öllum öðrum um. Og fá böns off monní.
Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Blikar á ljáinn

161 fm einbýlishús, 1/3 í kúabúi og gistikot til sölu á 73,5 milljónir

Að semja við narsissista