Tíminn

Frá því ég komst til vits og ára hef ég vitað að tíminn líður. Ég átta mig fullkomlega á því að ég eldist með hverjum deginum sem líður og einhvern tíma verð ég gömul. Ef ég er heppin. Því það er jú ekki nema um tvennt að velja; eldast eða deyja. Á tilteknum tíma og rúmi beið mín öldrun. Þetta hef ég alltaf vitað. En satt best að segja þá trúði ég því aldrei raunverulega. Ég vissi að ég yrði einhvern tíma gömul en ég gerði ekki ráð fyrir því að einhvern tíma myndi breytast í núna.
Ég hef verið að upplifa ákveðna hluti undanfarin 10 ár eða svo:
Ég hætti að skilja hvað stóð í BT auglýsingabæklingunum.
Ég fer til læknis og það er barn sem tekur á móti mér. Við þetta barn á ég að tala eins og fullorðna manneskju sem viti hvað hún sé að gera. Fyrir nokkru lenti ég á svona læknabarni sem sagðist ætla að ráðfæra sig við sérfræðingana sem eru orðnir gamlir í hettunni, reynsluboltana. Þessir lífsreyndu karlar eru strákar á sama aldri og ég.
Þegar ég horfði á Live Aid í beinni á sínum tíma þá skildi ég ekkert hvað þessi gamli skröggur Mick Jagger var að vilja upp á svið. Fyrir stuttu horfði ég á tónleikana á DVD og var að velta fyrir mér hvað Jagger hefði verið ungur og sprækur þarna.
Í fyrra lendi ég svo í þeim ósköpum að verða fertug. Ég átta mig á því að fólk sem fæðist 1970 verður fertugt 2010 en ég samt ekki alveg að átta mig á því hvernig þetta gat komið fyrir mig. En svona er sem sagt staðan. Konan er orðin fertug. Og það er auðvitað eins og við manninn mælt það hrynur allt sem hrunið getur.
Hvítu hárin eru ekki lengur á stangli, þau eru búin að ummyndast í strípur. Gribbuhrukkan sem kom bara þegar ég setti í brýnnar er komin með heimilisfesti. Ég fæ stundum verk í hnéið. Ég get ekki vakað langt fram eftir nóttu og hef glatað skilningnum á að nokkur skuli yfir höfuð vilja það. Mér finnst vera alltof mikil læti og hávaði í barnamyndum nú til dags.
Í hitt-í-fyrra var ég að keyra og hlusta á útvarpið. Þá segir kynnirinn: ,,Hér er blast from the past. Þetta lag sat í toppsætinu fyrir aldarfjórðungi síðan." Í höfðinu á mér fór að spilast svart-hvítt rokkabillí. Nei. Wake me up before you go-go. Það lá við að ég keyrði út af. Og þetta var í hitt-í-fyrra.
To be continued....

Ummæli

  1. Skellihló meðan ég las þennan, þrátt fyrir að kannast við ansi margt...

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir