sunnudagur, október 06, 2013

Haltu kjafti, vertu sæt og éttu skít.


Í 9. tbl. Nýs Lífs 2013 er viðtal við Guðnýju Rós Vilhjálmsdóttur þar sem hún lýsir samskiptum sínum við þekkt par sem endaði með að hún kærði þau fyrir nauðgun. Iðulega kom upp í hugann við lesturinn: ,,Af hverju sagðirðu ekkert? Af hverju gerðirðu ekkert?" 
Nema hvað að ég veit af hverju hún sagði ekkert né gerði ekkert því ég man eftir óöruggum stelpukjána fyrir um aldarfjórðungi síðan. Sem betur fer lenti ég aldrei neinum slíkum ósköpum en ég man vel eftir þegar ég fór sextán ára gömul, nýbyrjuð í menntaskóla, í klippingu. Sítt-að-aftan var að syngja sitt síðasta og ég vildi láta klippa mig þannig að ég væri með síðara að ofan og styttra í hliðum. Ég settist í stólinn hjá fullorðinni konu sem sagði um leið og ég settist: ,,Já, ég veit alveg hvernig þið viljið láta klippa ykkur." Svo eyddi hún tímanum í að spjalla við stöllu sína og ég gekk út með það ljótasta mullet sem ég hef nokkurn tíma séð. Af hverju sagði ég ekkert? Af hverju gerði ég ekkert?
Það er svo furðulegt að hugsa um þetta núna en ég man eftir þessu hryllilega óöryggi, þessari botnlausu þörf fyrir viðurkenningu, að falla í kramið, að reyna að þóknast...
En við skulum hafa alveg á hreinu að á þessum tíma var ég cocky, little shit og taldi mig fulla sjálfstrausts.

Það sem ég velti fyrir mér er:  Af hverju líður stúlkum eins í dag, rúmum aldarfjórðungi seinna? Hvernig í ósköpunum stendur á þessu?

Í framhaldsskólum eru kenndar nokkrar sömu skáldsögurnar. M.a.  Brennu Njáls saga, Salka Valka og smásagnasafnið Uppspuna.
Það er farið í þessar bækur í flestöllum framhaldsskólum landsins. 
Njála býr yfir þekktustu kvenpersónu Íslendingasagna, sjálfri Hallgerði langbrók sem hefur verið hötuð og fyrirlitin síðastliðin átta hundruð ár.
Salka Valka býr yfir kvenfrelsishetjunni Sölku sem vill ekki vera kona! Salka Valka er mín uppáhaldssaga og sýnir hversu mikill snillingur Kiljan var að geta skrifað svona um konu 1930.
Uppspuni er nýjust, gefin út 2003 og flokkast því undir samtímabókmenntir og lumar á ýmsu.
Nú ætla ég að leyfa mér að tengja saman það sem er kennt í framhaldsskólum landsins og þann veruleika sem ungmennin okkar búa við. Gætu verið tengsl þarna á milli? Erum við fullorðna fólkið að skapa þennan veruleika?


Haltu kjafti.

Það var einn dag er Gunnar gekk frá Lögbergi. Hann gekk fyrir neðan Mosfellingabúð. Þá sá hann konur ganga í móti sér og voru vel búnar. Sú var í ferðarbroddi konan er best var búin. En er þau fundust kvaddi hún þegar Gunnar. Hann tók vel kveðju hennar og spurði hvað kvenna hún væri. Hún nefndist Hallgerður og kvaðst vera dóttir Höskulds Dala-Kollssonar. Hún mælti til hans djarflega og bað hann segja sér frá ferðum sínum en hann kvaðst ekki varna mundu henni máls.
Njála, kafli 33,
Hallgerður hagar sér ekki eins og til er ætlast af konum. Hún heilsar Gunnari af fyrra bragði og talar til hans ,,djarflega". Hann ákveður að ,,varna henni ekki máls", hann leyfir henni að tala en konur áttu auðvitað almennt að þegja.
Það er svo auðvelt að kenna þetta. Njála er eldgömul og hlutirnir eru breyttir.  Konur mega alveg tala í dag. Eða hvað?

Nú höfum við málfrelsisákvæði í Stjórnarskránni svohljóðandi:
73. gr. [Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.
Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.
Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.]1)

Í skjóli þessa ákvæðis var kynfræðslutímaritinu Bleiku og bláu breytt í klámblað. Þáverandi ritstjóri fór mikinn í baráttu sinni fyrir tjáningarfrelsinu og hreykir sig af því enn þann dag í dag.
En þegar ung kona sagði hann ,,kynferðislega brenglaðan"[1] þá greip hann umsvifalaust til þess óyndis að hóta málsókn. Hann nýtur nefnilega tjáningarfrelsis. Ekki hún.

Hann má eiga að hann hætti við málsóknina og baðst afsökunar.
Hins vegar hefur mér alltaf þótt það ábyrgðarhluti að á sama tíma og hann ritstýrði þessu kvenfyrirlitningarblaði var hann fenginn til að vera spyrill í spurningakeppni framhaldsskólanema. Með því samþykktu ráðandi öfl samfélagsins ekki bara klám[2] og kvenfyrirlitngarfulla orðræðu og myndibirtingar heldur beinlínis ýttu samþykki sínu að framhaldsskólanemum.

Vert er að taka fram til varnar fjárhag fjölskyldunnar að eftirfarandi umfjöllun er um fígúru en ekki um manneskju.

Það er að bera í bakkafullan lækinn að rifja upp orðbragð og bloggfærslur  Gillzeneggers en því miður óhjákvæmilegt fyrir samhengið.
Gillzenegger átti greiðan aðgang að æsku landsins og allt sem hann gerði var í lagi. Þegar hann birti viðbjóðs bloggfærslu sína og við femínistarnir hneyksluðumst (og vonandi sem flestir) þá stökk fjöldinn allur til varnar fyrir fígúruna og málfrelsið í landinu. Einstaklingurinn að baki fígúrunnar tók færsluna út og segist margoft hafa beðist afsökunar.  Þá er fígúran ægilega sár yfir að fólk telji að hún hafi verið að hvetja til ofbeldis gagnvart þessum nafngreindu konum. Hversu firrt og málvillt getur ein fígúra verið ef hún áttar sig ekki á því?

Svo kom nauðgunarkæra, frávísun, kæra fyrir rangar sakargiftir og frávísun á því.
En fjölmiðlaveldið 365 á ósýnda þætti með fígúrunni þá hefur sumum dottið í hug að auglýsingastofa hafi verið fengin til að hanna atburðarás til að koma henni aftur fyrir almenningssjónir og í náðina hjá almenningi. M.a. var forsíðuviðtal í ungmenna-tímaritinu Monitor en Monitor er m.a. dreift í flesta framhaldsskóla landsins.  Það tókst nú ekki betur til en svo að fullt af fólki mislíkaði og mótmælti. Þá varð hliðarsjálf fígúrunnar svo sorrý, svekkt og sárt að það fór í fullt af meiðyrðamálum!

Staðan er sem sagt þessi: Til er fígúra er spýr hatri og fyrirlitningu í allar áttir undir yfirskyni húmors.[3] Ætlast er til að ,,allir" hafi húmor fyrir þessu og þeir sem hafa ekki húmor fyrir þessu eiga að þegja:


,,X er í fullri vinnu við að vera óþolandi og tala með rassgatinu og það er kominn tími til að þagga niður í henni endanlega." [4][1] (Undirstrikun mín.)
Og til að staðfesta það norm samfélagsins að karlar megi en konur ekki þá vann hann fyrsta málið.
Hið karllæga samfélag styður hann. Það má smána konur og niðurlægja í opinberri umræðu, svo ekki sé talað um einkarýmið auðvitað, og ekki nóg með það: Það má ekki gagnrýna það heldur.
Í gær birtist svo þetta á dv.is:
 Þetta nöldur var orðið verulega þreytt og kvöld nokkurt fór ég yfir öll velsæmismörk í skrifum mínum á Fréttastofu Gillz. Hefði mig grunað þá að ég væri að skrifa mest lesnu bloggfærslu Íslandssögunnar hefði ég hugsað mig um tvisvar áður en ég ýtti á “publish” en á því augnabliki var mér ekkert annað í huga en sæluvíman sem fylgdi því að ausa hressilega úr sér yfir þessar leiðindatruntur,“ segir Egill.
Hér er hliðarsjálf fígúrunnar að reyna að útskýra og jafnvel (sic) afsaka bloggfærsluna alræmdu sem hann birti 2007. Honum tekst samt ekki betur til en það að tal kvenna er ,,nöldur" og þær sem tjá sig eru ,,leiðindatruntur".  Hann er enn við sama heygarðshornið. Konur eiga að þegja og í þeim skal þaggað með öllum tiltækum ráðum. Ekki með ofbeldi að þessu sinni en háði og svívirðingum.




Vertu sæt.

Þórhildur gengur um beina og báru þær Bergþóra mat á borð. Þráinn Sigfússon var starsýnn á Þorgerði Glúmsdóttur. Þetta sér kona hans, Þórhildur. Hún reiðist og kveður til hans kviðling:
Era gapriplar góðir,
gægur er þér í augum.
"Þráinn," segir hún.
Hann steig þegar fram yfir borðið og nefndi sér votta og sagði skilið við Þórhildi "vil eg eigi hafa flimtan hennar né fáryrði yfir mér."
Og svo var hann kappsamur um þetta að hann vildi eigi vera að veislunni nema hún væri í braut rekin. Og það varð að hún fór í braut. Og nú sátu menn hver í sínu rúmi og drukku og voru kátir.
Njála kafli 34.
Þráinn Sigfússon, móðurbróðir Gunnars á Hlíðarenda, er þarna mættur í brúðkaup Hallgerðar og Gunnars ásamt eiginkonu sinni Þórhildi skáldkonu sem gengur um beina. Hann getur ekki haft augun af táningsstúlkunni Þorgerði Glúmsdóttur, dóttur Hallgerðar, sem er 14 ára.
Þessi stutti kafli sendir þrenn skýr skilaboð: Það er eðlilegt og sjálfsagt að fullorðinn maður girnist táningsstúlku kynferðislega, æskublóminn er eftirsóknarverður. Konur eiga að þegja, ef þær þegja ekki þá skilja karlarnir við þær. Og ekki nóg með það, þær eru settar til hliðar í samfélaginu, reknar úr partíinu.

Leikkonur hafa alltaf þurft að vera fallegar, að vera góð leikkona dugar ekki til. Þegar þær eru orðnar 35 ára eru þær orðnar of gamlar. Það skemmdi ekki fyrir söngkonum að vera sætar en það var ekki jafn bráðnauðsynlegt og fyrir leikkonur. Það er aldeilis breytt. En jafnvel það dugar ekki til. Þær þurfa einnig að lúta viðmiðum klámsins.
Þegar konur segja eitthvað, tala nú ekki um gagnrýna þá er umsvifalaust ráðist að þeim persónulega, útliti og kynlífi.[5] Kvenkyns femínistar eru t.d.  flestar svo ljótar að enginn almennilegur karlmaður vill vera með þeim.
Stjórnmálakonur sitja undir stöðugri fatagagnrýni. Ólafur Ragnar eru búinn að koma fram í sömu jakkafötunum margsinnis. Það segir enginn neitt við því.
Konur eiga að vera ungar, grannar og fallegar. En í rauninni skiptir engu hvernig konur líta út, þær verða aldrei, aldrei þóknanlegar.
Það er endalaust og óvinnandi stríð. En sjáið nú til: 
Einstaklingur sem skortir sjálfstraust mun aldrei ógna valdaskipulaginu. Til þess er leikurinn gerður.


Og éttu skít.

Mikið hefur verið rætt og ritað um ,,klámvæðingu" samfélagsins og sýnist sitt hverjum. Ég er, eins og áður sagði, á móti klámvæðingunni [6](og efast ekki um raunveruleika hennar) og tel klám skaðlegt. Íslandsvinurinn Gail Dines varar við:
"From Internet pornography to MTV, popular culture bombards us with sexualized images of idealized women and men, and conveys powerful messages that help shape our sexuality. These pictures jump off the screen and into our culture ..."
Það þarf auðvitað ekki nema hlusta á dægurlagatexta og fylgjast með ,,sjálfstæðisbaráttu" Miley Cyrus til að sjá þetta.
Það fer verr í mig er að klámvæðingin er farin að fikra sig inn í kennslubækur.
Áður er nefnd kennslubókin Uppspuni. Hún er sögð: "því allglögga mynd af stöðu smásögunnar á Íslandi um árþúsundamót". Það má vera. Það er margt gott í henni en annað sem mér líkar verr.
,,Ég hugsaði um það hvað ég væri falleg þarna í myrkrinu, ein með sjálfri mér að bíða eftir því að guð tæki mig til sín og fróaði mér þar til ég var orðin að einu brennandi ákalli."[7]

Konur fróa sér og það er vissulega gott að kynlöngun kvenna sé viðurkennd, því það hefur hún ekki alltaf verið. Hins vegar er sjónarhorninu/lensunni beint að líkama konunnar og hún sýnd í kynferðislegum stellingum. Ég hef ekki fundið sambærilega lýsingu á sjálfsfróun karls í heftinu.

,,...og æpt á hann að hann gæti aldrei fullnægt henni og nú var hann að hugsa um hvort það væri hans verk að fullnægja þessari konu, hann hefði haldið að það hlyti að vera samvinna en í staðinn lægi hún þarna undir honum sundurglennt og opin uppá gátt.."[8]
Sjónarhornið, konan er ,,opin uppá gátt."
,,Í kvennamálum þóttist Ari enginn aukvisi, hann hafði komist í tæri við öll litbrigði og allar stærðir kvenfólks á sinni sjómannsævi, komst meira að segja upp á eina svarta kerlingu í Grimsby, þá voru þeir líka stoltir af honum, félagarnir."[9]
Það er sigur (væntanlega á konunni) að ,,komast upp á hana."
,,Hún flennti skaut sitt móti honum og hnybbaði hann áfergjulega með munaðarhólnum, sökkti honum á bólakaf í hyl sinn, drekkti honum; blés lífi í hann aftur með geirvörtunum."[10]
Fyrir um áratug var endaþarmsmökum troðið upp á konur. (Já, já, samkynhneigðir karlar fíla þetta en þeirra sambönd byggja á jafnræðisgrunni og þeir eru ekki með píku sem er sérhönnuð fyrir samfarir. Endaþarmurinn ætti, frá hönnunarsjónarmiði, að vera exit only.)
Ég hef rætt það áður og nenni ekki að ræða mikið frekar fyrir utan eitt atriði:
Hvað er það hrikalegasta og mest niðurlægjandi sem getur komið fyrir gagnkynhneigðan karlmann? Að vera tekinn í rassinn. Hvernig dettur þessum sömu mönnum í hug að það sé í lagi að bjóða konunum sínum upp á þetta?

En svona hefur klámiðnaðurinn rutt sér leið inn í líf okkar. Endaþarmsmök hafa verið normalseruð á þann hátt að ungar konur virðast ekki geta hafnað þeim án þess auðvitað að vera teprur eða einhverjir ógeðslegir femínasistar.
Fígúran talar t.d. endalaust um að skurfurnar sem fundust á stúlkunni geti komið til við venjulegt kynlíf. Endaþarmsmök eru sem sagt venjulegt kynlíf fyrir honum.
Klám hefur þann andstyggðar eiginleika að þróast endalaust út í meiri og meiri viðbjóð.

,,Ég hef viss prinsipp þegar ég sef hjá stelpum. Ég er aldrei með stelpum undir lögaldri nema eitthvað mjög saklaust, ég kæri mig ekki um að rugla öllu saman á einu kvöldi, eins og anal, oral og kannski anal aftur eins og sumir vinir mínir, þarna koma heilbrigðismálin inn í þetta. " (RabBi, Þorsteinn Guðmundsson.)
Eins og allir vita (börn 13-14 ára í Bretlandi vita þetta en samt virðist þeim ekki líða neitt sérstaklega vel) þá stendur anal fyrir rassinn. Oral er munnurinn. Söguhetjan er ekki mikið (bara pínu) fyrir að rugla öllu saman en vinir hans eru það. Endaþarmsmök og ATM  í kennslubók fyrir framhaldsskóla?

Ég vil taka það fram að ég er ekki að gagnrýna sögurnar sem slíkar. Þær eru margar hverjar alveg ágætar og margt gott í heftinu. Hins vegar þykir mér valið afar karllægt. Þá geri ég fyrirvara við að svona efni, sérstaklega svona margar sögur með sambærulegu sjónarhorni, eigi erindi inn í framhaldsskólana.

Kannski er ég að gera of mikið úr þessu og vonandi. Hins vegar óttast ég að við séum komin á hættulegan stað. Við viljum vera ,,hipp og kúl" og geta talað við ungmennin á þeirra tungumáli. Ég held að það sé ekki það sem ungmennin okkar þurfa. Við fullorðna fólkið eigum að sýna þeim mörkin og skýra fyrir þeim valið. ,,Þið þurfið ekki að vera svona eða gera þetta en það er allt í lagi ef þið viljið það." 
Við eigum líka, og kannski fyrst og fremst, að kenna þeim sjálfsvirðingu og efla sjálfstraust þeirra. Hér tel ég að stúlkurnar okkar standi verr að vígi. Þá ætla ég ekki að gera lítið úr vanlíðan drengjanna okkar því þeim líður mörgum hverjum mjög illa. 
Hatur og fyrirlitning er slæmt fyrir alla, bæði þá sem fyrir því verða og hina sem bera þessar tilfinningar. Þá ætla ég að opinbera þá væmnu og hallærislegu skoðun mína að sönn ást geti ekki átt sér stað nema á milli tveggja jafningja og ef við kennum ungu mönnunum okkar að líta niður á konur þá erum við um leið að firra þá upplifun á ástinni.
Ég get fátt hugsað mér andstyggilegra en ræna ungt fólk ástinni.
Þessi útlitssjúki og kynferðislega brenglaði heimur sem við höfum skapað ungmennunum okkar er harður og grimmur og við eigum að taka afstöðu gegn honum.
Það ætla ég alla vega að gera, hér og nú.







[1] Það má nefna að í ritstjórnartíð sinni fjallaði hann alveg sérstaklega mikið um og bar í bætifláka fyrir gagnkynhneigð endaþarmsmök. Margar konur myndu vilja flokka það undir kynferðislega brenglun.
[2] Það eru skiptar skoðanir um klám og meinsemd þess. Ég tel engum vafa undirorpið að klám sé niðurlægjandi gagnvart konum og valdi skaða.
[3] Ekki bara gagnvart konum heldur einnig, blökkumönnum, samkynhneigðum, líkamshárum og bara flestöllu sem fígúrunni er ekki þóknanlegt.
[4] Alveg gáttaður að fólk skuli túlka þetta sem ofbeldishótun.
[5] Það mætti halda að kynlíf gagnrýninna kvenna sé undanskilið í réttinum til einkalífs en ég finn það undantekningarákvæði þó hvergi.
[6] Að sjálfsögðu eru einhverjir ósammála mér, eins og vera ber. Hins vegar hvet ég fólk til að kynna sér málin. Klám í dag á ekkert skylt við það klám sem mín kynslóð var að pukrast í.
[7] Hvenær á maður mann og hvenær á maður ekki mann. Guðrún Eva Mínervudóttir.
[8] Saga af bekknum. Elísabet Jökulsdóttir.
[9] Sjóarinn og hafmeyjan. Anri Snær Magnason.
[10] Dropinn á glerinu. Rúnar Helgi Vignisson.

2 ummæli:

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...