Hægar og hljóðar en gagngerar breytingar



http://www.ljosmyndakeppni.is/

Í flestum framhaldsskólum landsins er nú verið að ræða, ef ekki ákveða, að stytta nám til stúdentsprófs. Hvernig á því stendur er hins vegar óljóst Engin lagasetning frá Alþingi, nema aukið svigrúm í nýjustu lögunum, engin sérstök umræða, ekkert samráð, bara skilaboð frá menntamálaráðherra.

Menntamálaráðuneytið hefur ekki sent stjórnendum framhaldsskólanna bein fyrirmæli um styttingu námsins, en ráðuneytið staðfestir að styttingin hafi verið rædd á fundum með skólameisturum, auk þess sem vilji stjórnvalda komi fram í námskrá, Hvítbók menntamálaráðherra og fjárlögum næsta árs. ruv.is

Nú hefur þessi umræða verið í gangi í u.þ.b. 10 ár. Ef það eitt að umræða sé í gangi langtímum saman án niðurstöðu nægir til breytinga þá ættum við að vera löngu gengin í ESB og búin að sameina skóla í Þingeyjarsveit. Svo er þó ekki. Enda þykir almennt viðkunnanlegra að fólk ræði sig að einhverri niðurstöðu og jafnvel að einhver meirihluti sé sæmilega sáttur við niðurstöðuna.

Nýlega framlagt fjárlagafrumvarp styður við markmið Hvítbókar um skerðingu náms á framhaldsskólastigi og takmarkað aðgengi. Enn er skorið niður til framhaldsskólans og gert ráð fyrir 5% fækkun nemenda.
Svo virðist sem menntamálaráðherra sé þegar búin að taka ákvörðun um meginbreytingar á íslenska framhaldsskólastiginu. Slík ákvörðun hefur verið tekin í einhverju bakherberginu og óljóst hverjir voru þar viðstaddir. Að minnsta kostir var þar enginn fulltrúi Kennarasambands Íslands. Guðríður Arnardóttir.

Helsta röksemd styttingarinnar hefur verið samanburður við nágrannaþjóðir. Hjá nágrannaþjóðunum hefur námsárið verið lengra enda er nú stefnt að því að skólaárið verði 10 mánuðir.

Á Íslandi hefur skapast hefð fyrir styttra skólaári en tíðkast hjá nágrannaþjóðum okkar. Orsök þessa má m.a. rekja til þátttöku barna og unglinga í lífi og störfum samfélagsins sem þurfti á starfskröftum þeirra að halda um sauðburðinn, við heyannir og í ýmsum störfum tengdum fiskveiðum. Menntamálaráðuneytið.

Ráðuneytið talar um sauðburð og heyannir en það er vissulega löngu liðin tíð. Hins vegar byggjum við talsvert á ferðamannaþjónustu núorðið og hún þarfnast þessara starfskrafta. Persónulega finnst mér nemendur vinna of mikið og vorkenni ferðaþjónustuaðilum lítið. Finnst hins vegar rétt að þessi punktur fljóti með.
Verði námsárið lengt samfara árastyttingunni (eða eininganiðurskurði) þá er þetta auðvitað hið besta mál. Þá erum við ekki að tala um niðurskurðaraðgerð í sparnaðarskyni heldur faglegt svar við kalli tímans.
Hins vegar hefur sá lúmski grunur læðst að konu að um sparnaðaraðgerð sé að ræða og kemur þar tvennt til:
  • Hugmyndin kemur fram í tíð menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins og er nú keyrð í gegn af ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Hugmyndafræði flokksins gengur út á að minnka ríkisumsvif.
  • Í síðustu samningalotu framhaldsskólakennara og ríkisins kom fram að launin gætu hækkað ef námið yrði styttra.
Það er nokkuð rökrétt að því færri kennarar sem eru við störf því stærri verði hver sneið kökunnar og virðist forysta kennara hafa veitt því þegjandi samþykki sitt. Hitt er annað mál að reynslan sýnir að kakan verði bara minnkuð í framtíðinni svo svona samningar eru skammgóður vermir.
Hvað varðar kall tímans þá veit ég ekki vel hvaðan það kall kom né hvers vegna enginn heyrði það nema Sjálfstæðisflokkurinn. Krafan um styttinguna kom ekki innan frá, fagfólk skólanna hafði ekki séð, og sumt ekki enn, þetta óþarfa ár sem flæktist fyrir og stóð allt og öllum fyrir þrifum.

Stúdentsprófið er aðgöngumiði inn í háskóla. Sú umræða hefur heyrst að stúdentar séu ekki nægilega vel undirbúnir nú þegar. Sífellt bætast við deildir sem láta nemendur þreyta inntökupróf til að komast inn. Hvernig stytting náms samræmist þessari staðreynd er illskiljanlegt.
Þá hlýtur líka að liggja ljóst fyrir að framhaldsskólinn mun gera meiri kröfur til grunnskólans um undirbúning nemenda.

Grunnáfangarnir eigi að færast niður í grunnskólann þar sem það hefur sýnt sig að það er mikil endurtekning milli skólastiga á Íslandi. vísir.is

Hér er því um ræða breytingar sem snerta fleiri en bara starfsfólk og nemendur framhaldsskóla og væri gaman að heyra frá fleiri aðilum.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir