Ég biðst afsökunar

Við búum í samfélagi. Forfeður okkar og –mæður komust að því einhvern tíma í fyrndinni að það væri illskárra að samþykkja einhvers konar reglur sem hefðu í för með sér vonandi meiri ávinning en fórnirnar sem þyrfti að færa. Hefur þetta oft verið nefnt samfélagssáttmálinn.
Við færum e.k. yfirstjórn í hendur ákveðið vald yfir okkur og borgum einnig til þessarar yfirstjórnar í formi skatta s.s. útsvars. Við treystum þessari yfirstjórn til þess að nýta þessa fjármuni á sem skynsamlegastan hátt.
Því miður hefur það reynst mörgum erfitt að kunna sér hóf þegar þeir komast í sameiginlega sjóði. Einhverra hluta vegna virðast þeir halda að þetta séu eigendalausir fjármunir sem ofgnótt sé af. Því fer fjarri; þetta eru peningar okkar allra sem á að nýta til góðra hluta. M.a. til að jafna lífsgæði.
Það er því eðlileg krafa að þeir sem umsjón hafa með sameiginlegum sjóðum okkar geri það af virðingu og sýni ábyrgð.

Nýverið birtist á vef Þingeyjarsveitar skýrsla unnin af hagfræðingnum Haraldi L. Haraldssyni um rekstur og framtíðarskipulag Þingeyjarskóla. Það er varla hægt að segja annað en að skýrslan sé svört. Fjármálastjórn skólans, ef stjórn skyldi kalla, er í molum.
Það væri of langt mál að rifja upp öll ósköpin en miðað við hvað þessi skýrsla er lítið í umræðunni er eins og fólk átti sig ekki á þeim upplýsingum sem þar koma fram.
Í staðinn fyrir að koma með tilvísanir hér í skýrsluna hef ég farið með yfirstrikun í það sem mér þykir merkilegt og sett við athugasemdir. Hægt að sjá hér.

Á þessari meðferð fjármuna hlýtur einhver að bera ábyrgð.
Núna væri ósköp einfalt og þægilegt að benda á skólastjórann og segja að ábyrgðin sé öll hans. Í grunnskólalögum segir:
7. gr. Skólastjóri.
Við grunnskóla skal vera skólastjóri sem er forstöðumaður grunnskóla, stjórnar honum, veitir faglega forustu og ber ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitarstjórn.
Ég finn svo sem enga beina tilvísun um ábyrgð stjórnenda hjá sveitarfélögum en ætla mætti að viðlíka reglur og um stjórnendur ríkisfyrirtækja giltu.
Ábyrgð stjórnenda. Stjórnendur þurfa að vera vel upplýstir um mikilvægi fjármálastjórnunar, enda er á ábyrgð þeirra að halda fjármálum innan marka heimilda. Hvetja þarf til þess að gerð fjárhagsáætlana og eftirfylgni með þeim sé vönduð og tryggja að stjórnendur axli ábyrgð á fjármálum.
Hins vegar er lífinu iðulega þannig farið að þótt það geti verið einfalt og sé á stundum þægilegt þá er það yfirleitt ekki bæði.
Skólastjórinn hefur nefnilega yfirmenn. Yfirmenn sem ber að líta eftir og bera ábyrgð á því sem undirmenn þeirra gera.
Fjárhagsáætlanir grunnskóla fara yfirleitt þannig fram að skólastjóri setur fram áætlun og leggur fyrir fræðslunefnd/skólanefnd. Síðan fer áætlunin inn á borð sveitarstjórnar sem samþykkir hana. Þingeyjarskóli var t.d. innan áætlunar í maí síðastliðnum.

Þá kemur fram í skýrslu HLH að:
Að sögn skólastjóra hefur hann lítið komið að fjárhagsáætlunargerð frá sameiningu skólanna. (bls. 2)
Hver er það þá sem býr til áætlunina? Í skýrslunni í beinu framhaldi að ofan segir:
Fjárhagsáætlunin hefur aðallega verið unnin af starfsmanni á skrifstofu. Nokkuð er um að áætlunin sé unnin þannig að áætlun líðandi árs er uppfærð. Að sögn fær skólastjóri áætlunina til að fara yfir með mjög stuttum fyrirvara og litlum upplýsingum. Það er skoðun skólastjóra að betur færi á að hann, ásamt starfsmanni ynni áætlunina saman fyrir skólann, en til þess þyrfti meiri tíma en skólastjóri hefur fengið til að yfirfara áætlunina.
Það er sem sagt einhver embættismaður á skrifstofu Þingeyjarsveitar sem ber ábyrgðina! Nei, það er ekki þannig. Að sjálfsögðu er það sveitarstjórnin sem ber ábyrgð á meðferð fjármuna.
Þar sem ég sat í sveitarstjórn á þessum tíma varð ég verulega miður mín þegar ég las skýrsluna. Mér þykir ákaflega leitt að þurfa að viðurkenna að ég áttaði mig ekki á að peningastreymið væri með þessum hætti.
Ég sá vissulega í ársreikningi að talsvert var farið fram úr (ég hélt ekki sérstaklega upp á þessi gögn eftir að setu minni lauk) en sú skýring var gefin að vegna mikilla veikinda hefði þurft mikla forfallakennslu. Auðvitað bar mér skylda til sem sveitarstjórnarfulltrúi að spyrjast fyrir um hverju þessu sætti. Og mig langar að halda til haga, mér til varnar af veikum mætti, að ég reyndi að spyrna við fótum þegar lagt var til að allir kennarar fengju eins tíma kennsluafslátt. Þeir fengu hann ekki en skólinn fékk fjármunina samt.

En það breytir ekki neinu. Ég brást skyldum mínum sem sveitarstjórnarfulltrúi í þessu máli og ég bið íbúa Þingeyjarsveitar afsökunar á því.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir