sunnudagur, apríl 12, 2015

Vandræðagangur vegna vinnumats.

Það kemur fyrir einstaka sinnum í lífi mínu að ég veit ekkert hvað ég á að gera. Ég er í þeim sporum nú og hef verið meira eða minna frá áramótum. Það sem setur mig í svona mikil vandræði er hvort ég á að segja já eða nei við nýju vinnumati framhaldsskólakennara.
Það eitt að ég sé í svona miklum vandræðum finnst mér slæmt. Vinnumatið er flókið og satt best að segja skil ég lítið í því. Ég þori að opinbera fávisku mína því ég var á fundi um daginn og þar kom í ljós að ég er alls ekki ein. Þetta eitt og sér er slæmt. Það er slæmt að vinnumat sem fólk á að vinna
It's complicated.
eftir sé ógegnsætt og flókið.
Ég get hins vegar sætt mig við það; það er flókið að meta þetta og ég sé fram á að vinnumatið munu slípast til með tímanum.
Sumir eru ósáttir almennt við vinnumat og það er alveg sjónarmið í sjálfu sér. Hins vegar er það alveg ljóst að framhaldsskólakennarar samþykktu vinnumat í síðasta kjarasamningi. Vilji fólk almennt ekki vinnumat þá hefði átt að fella þann samning.
Mér sýnist vinnumat geta verið hið þarfasta tæki. Ég hef kennt núna í framhaldsskóla í rúm tvö ár og fyrstu tvö árin sat ég við öll kvöld við undirbúning. Ég fékk ekki borgað fyrir þá vinnu. Ég er orðin sleipari í efninu núna og sit ekki jafn stíft við. En ég er alltaf eitthvað að garfa. En það er auðvitað bara mitt.
Vinnumatið virkar heldur ekki á þann hátt að við getum tínt til alla okkar vinnu og fengið borgað fyrir hana. Nei, ef við erum að vinna meira en við fáum borgað fyrir þá eigum við að vinna minna. Allt í lagi, ég get svo sem alveg sætt mig við það. Hins vegar kemur í ljós þegar mín vinna er sett í vinnumat að ég er ekki að fylla vinnuskylduna mína. Og núna hlýt ég að verða hvumsa. Ástæða þess er sú að ég kenni í litlum skóla sem og einn hægferðaráfanga. Á fundum hefur komið ítrekað fram að það sé meiri vinna að kenna fleiri nemendum. Ég get alveg viðurkennt það. Mér finnst samt óneitanlega eins og verið sé að mismuna mér og félögum mínum vegna búsetu. Þá á ég mjög bágt með að skilja af hverju hægferðaráfangar þykja minni vinna en aðrir. Mér þykir eðlilegt að meiri rækt sé lögð við þá nemendur.
Þá þykir mér afar slæmt að launahækkunin sé bundið við samþykkt vinnumatsins. Þetta er eins og gulrót. Þá skal ég viðurkenna að vegna eðlislægrar tortryggni minnar gagnvart valdhöfum þá efast ég um að eitthvað sem launagreiðandi heldur jafn stíft fram geti verið launþega til góðs. Það er önnur saga.
Þrátt fyrir mínar efasemdir og vandræðagang þá dettur mér ekki í hug að efast um heilindi samninganefndar okkar og forsvarsmanna. Þetta fólk er að gera sitt besta. Og við skulum horfast í augu við þá staðreynd að við samþykktum vinnumat. Í gegnum þetta ferli verður að fara.
Hitt er annað mál að miðað við 13. grein samningsins sem undirritaður var 4. apríl 2014 sé ég ekki betur en hann hafi verið felldur og gamli samningurinn tekið gildi. Ég get ekki séð að gert sé ráð fyrir Vinnumati töku 2 þarna inni.


 Að öllu þessu sögðu þá skal það upplýst að ég hallast að því að samþykkja vinnumatið. Launahækkunin sem fylgir er vegleg og blikur á lofti í samfélaginu. Stjórnvöld vilja greinilega setja alla kennara undir vinnumat, háskólakennarar eru með vinnumat (og ekki allir mjög ánægðir) og grunnskólakennarar einnig. Ég get ekki séð að undan þessu verði vikist. Og smá hræðsluáróður; ef við segjum endalaust nei, verða þá ekki bara sett á okkur lög?
Ef við samþykkjum vinnumatið núna þá verður það í gildi í eitt ár. Ef við erum mjög óánægð þá hljótum við að geta komið því að í næstu samningalotu. Og kannski ekki. Kannski er það uppgjöf að samþykkja.
Ég hreinlega veit það ekki.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...