Sumir hlutir koma konu spánskt fyrir sjónir, að því virðist án skýringa. Svo heyrir kona kjaftasögu, sem gæti skýrt það sem áður virtist óskiljanlegt, reynist kjaftasagan sönn. Í upphafi skal tekið fram að efni umræddrar sögu, sem að sögn heimildarmanna er ,,altalað" hefur ekki verið staðfest.
Kjaftasagan er svohljóðandi:
Nýi stjórinn var beðinn um að sækja um stöðuna.
Hann sótti um á síðustu stundu.
Hann er í ársleyfi
frá sínu fyrra starfi.
Við skulum alveg hafa það á tæru
að þetta er kjaftasaga og um hana gilda sömu forsendur og aðrar kjaftasögur. Ég vona auðvitað að þetta sé ekki satt en það er tvennt sem ýtir undir grunsemdir:
Í fyrsta lagi ákvað
sveitarstjórnin að sjá sjálf um ráðninguna á nýja stjóranum í stað þess að fá
utanaðkomandi, óháðan aðila til þess. Það er mjög skrítið. Sérstaklega í ljósi
þess að flutningur í eitt hús var langt í frá sársaukalaus aðgerð.
Í öðru lagi dró sveitarstjórnin fram úr hófi að birta lista yfir umsækjendur og birti hann svo allt í einu. Það
vekur óneitanlega þá spurningu núna eftir hverju var verið að bíða?
Nú myndi ég halda að hafi einhver áhuga á starfi
þá sækti hann um það. Ef það þarf að biðja hann um að sækja um það þá hefur
hann væntanlega ekki mikinn áhuga á því, eða hvað?
Þá sýnir það nú ekki mikinn
skuldbindingarvilja að halda sínu gamla starfi svona til öryggis.
Er þetta kannski bara tímabundin
ráðning? Og hver væri tilgangurinn með því?
Þegar tvær stofnanir eru
sameinaðar þá er reynt að halda í menningu beggja. Það er reynt að taka það
besta frá báðum og skapa svo nýja, sameiginlega menningu. Það er m.a. gert með
því að halda svipuðu hlutfalli starfsmanna frá báðum stofnunum. Það er líka
gert til þess að rekja upp gömul bandalög og búa til ný.
Þá þykir mér það blasa við að ef
nýr stjórnandi ætlar sér að stjórna stofnun þá ræður hann ekki gömlu stjórnendurna
aftur inn. En það er auðvitað bara ég.
Sé kjaftasagan sönn þá gæti þessi litla, sæta samsæriskenning átt við:
Eftir eitt ár myndi nýi „stjórinn“,
sem væri þá búinn að sinna uppsagnarskítverkunum, hverfa aftur til síns fyrra starfs af
einhverjum ástæðum. Þegar hann
hverfur af vettvangi væri ákveðið að reyna hafa sem minnst umrót barnanna
vegna og staðgengill skólastjóra tæki bara við. Svona eins og gert var með sveitarstjórann, þið vitið. Það vantar ekki fordæmið.
Þetta myndi skýra af
hverju í ósköpunum uppsagði stjórinn, með góðan starfslokasamning í vasanum, sætti sig við stöðulækkun. Hver gerir það?
Hafralækjarskóli stæði eftir
óbreyttur með sína gömlu menningu og alla starfsmenn þótt hann gengi undir
dulnefninu Þingeyjarskóli.
Í næsta pistli mun ég svo segja ykkur hver skaut Kennedy.