Litlir (plast)kassar


Ég veit ekki af hverju en ég er merkilega heilluð af gjörningnum hans Almars. Ég er kona og hann er nakinn karl svo það væri auðvelt að ætla að það sé aðdráttaraflið en ég held ekki. Það er þá á einhverju ómeðvituðu plani. Hann er nógu ungur til að vera sonur minn svo... nei, andskotinn. Það bæri þá líka eitthvað nýrra við.
Nektin er samt alveg örugglega stór hluti af aðdráttaraflinu, ég efast ekkert um það.

Í byrjun þegar kassinn var tómur hafði ég miklar áhyggjur af því að hann fengi kannski ekkert að borða. Svo hafði ég áhyggjur af því að honum yrði kalt um nóttina. Þá áttaði ég mig á því að þessi, ungi, varnarlausi maður (já, nekt gerir fólk varnarlaust) í kassanum vakti hjá mér einhverjar móðurlegar kenndir. Það fannst mér áhugavert. Sennilega er það málið, alla vega miðað við athyglina; þessi gjörningur vekur upp kenndir hjá fólki. 
Sumum finnst þetta asnalegt, sumir verða reiðir, flestir virðast heillaðir eins og ég.

Tökum fyrir nektina. Af hverju þarf hann að vera nakinn? Mér finnst blasa við að fyrst hann ætlar að vera í glærum kassa í viku þá þurfi hann að ganga örna sinna, hann neyðist til að sýna prívat partana í beinni hvort sem er. 
Svo fróaði hann sér. Auðvitað, þetta er ungur maður. Það fer enginn 23 ára einstaklingur í gegnum viku án einhvers konar kynlífs. Hvorki karl né kona.
Það er annar punktur:
Hvað ef það væri nakin kona í kassanum?
Það væri allt annað. Já, ég veit, tvöfalt siðgæði en svona er það. Ber kona er þreytt fyrirbæri, útjaskað og klámtengt. Sérstaklega ef hún fróar sér.

Ég studdi samt freethenipple, þannig að ég er með tvöfalt siðgæði í tvöfalda siðgæðinu. "Það er svo erfitt að vera manneskja."

Auðvitað hefði hann alveg getað hamið sig með rúnkið í eina viku (karlmenn geta nefnilega alveg hamið sig) en hefði það verið satt? Hann ætlar að "lifa" í beinni í viku. Ef hann myndi hemja sig þá væri gjörningurinn lygi.

Margir spyrja sig að tilgangi verksins. Þarf að vera tilgangur? Þurfum við alltaf að greina allt í spað? Gjörningurinn vekur kenndir og hugsanir. Er það ekki nóg þegar kemur að list?

Sumir hafa bent á sambandið við dýravernd. Dýr lifa í búrum og eru algjörlega upp á aðra komin með allar nauðþurftir. Alveg eins og Almar, hann treystir á að annað fólk færi honum mat og nauðþyrftir. Hann getur að vísu yfirgefið kassann ef ekkert berst það geta dýrin ekki.

Aðrir tala um að hann þurfi að taka til í kassanum. Mér hins vegar finnst þetta vera merking verksins:
Við lifum öll í litlum kössum og söfnum að okkur drasli. Við viljum líka lifa í beinni, við sýnum beint frá lífi okkar á facebook og twitter. Við lifum fyrir lækin. Sumir eru reiðubúnir að koma naktir fram fyrir frægðina. M.a.s. Stuðmenn.
Almar heldur uppi spegli sem við horfum á sjálf okkur í. Þess vegna erum við dáleidd. Þess vegna er þetta list.



Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir