Þau eru ýmisleg heimilisverkin og taka mismikinn tíma. Að klæða sjálfa sig og börnin í sokka er samt eitt af því sem ætti ekki að taka mikinn tíma. Sá verknaður er þó með þeim tímafrekari því einhverra óskiljanlegra hluta vegna finnast aldrei samstæðir sokkar!
Þetta kristallaðist nýverið þegar ég stóð yfir sokkaskúffunni með sjö sokka í höndunum og engan samstæðan.
Mér er þetta óskiljanlegt. Það sem ég kaupi mest af, fyrir utan matvöru, eru sokkar. Ég fer sjaldan í Rúmfatalagerinn án þess að kippa með 10 para pakkningu af sokkum fyrir strákana. Aldrei samstæðir sokkar í sokkaskúffunum. Ef samstætt par finnst er það iðulega götótt.
Ég stend á gati fyrir þessum ósköpum. Ég skil ekki þessi undur.
Það skal viðurkennt að strákarnir hlaupa stundum út á sokkaleistunum og sokkar eru almennt ekki hannaðir fyrir steypu og möl. Ég stend á öskrinu og er orðin "þessi mamma" sem ég ætlaði aldrei að verða en það gengur illa að stöðva þetta. Það gæti skýrt götin á sokkunum. Það skýrir ekki hvarfið. Ég er 99% viss um að hundurinn át einn en eftir standa allir hinir horfnu sokkarnir. Ég bara næ þessu ekki.
Ég hef samt ekki ámálgað þetta við neinn í þeirri vissu að þetta vandamál hljóti að einskorðast við mig og gæti mögulega þýtt að ég sé ekki hin fullkomna húsmóðir sem við viljum allar vera. Ég er ömurleg húsmóðir en það má engin/n vita það. Þetta er gríðarlegt skammar- og feimnismál.
Um daginn lenti ég í því að finna ekki almennilega samstæða sokka á sjálfa mig svo ég brá á það ráð að fara í íþróttasokkum. Svona bleikum ökklasokkum. Ekki svo að skilja að ég sé mikil íþróttakona en sætir sokkar setja skemmtilegt yfirbragð á sjálfsblekkinguna. Hins vegar eru bleikir ökklasokkar við síðar buxur ekki lekkert. Það var líka kafsnjór og vont að fá snjó á beran ökklann svo ég sá þann kost vænstan að kaupa nýja sokka.
Svo sat ég fyrir framan kunningjakonur mínar að klæða mig í sokkana og opnaði þá á þetta langvarandi leyndarmál með sokkavandann. Þá komst ég að því mér til mikillar gleði að þetta er kosmískur og vel þekktur vandi. Þær voru algjörlega sammála að sokkar eru ekki jafngóðir í dag og þeir voru áður því það eru komin göt á þá alveg um leið (sokkaframleiðendur, takið eftir) Svo er það þetta stórundarlega og stöðuga sokkahvarf sem á sér stað greinilega mun víðar en bara á mínu heimili. Mér létti mjög mikið að heyra það.
En ég vil gjarnan fá skýringu á þessu dularfulla sokkahvarfi öllu. Þetta er með hreinum ólíkindum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli