Telur Félag grunnskólakennara óþarft að auglýsa stöður?

Öll störf skulu auglýst laus til umsóknar á opinberum vettvangi. Skal það gert með 14 daga fyrirvara að jafnaði. Þó er ekki skylt að auglýsa afleysingastörf, svo sem vegna fæðingarorlofs, námsleyfis eða veikinda, eða störf þar sem ráðning skal standa 12 mánuði eða skemur eða tímavinnustörf. Ef sveitarfélag lítur svo á að ráða skuli í starf með uppfærslu innan starfsgreinarinnar eða frá hliðstæðum starfsgreinum er heimilt að auglýsa á þeim vettvangi einum.
Eftir verulega ósmekklega aðferðafræði við einhliða uppsagnir kennara Litlulaugadeildar Þingeyjarskóla 2015 kom í ljós um sumarið sama ár að fv. skólastjóri skólans, sem var sagt upp þótt engar formlegar kröfur væru þar um og fv. aðstoðarskólastjóri Hafralækjardeildar sem hafði að sögn sagt upp sjálfur* voru þau ráðin aftur að skólanum án auglýsingar. Þessi gjörningur verður í ljósi undanfarans að teljast afar óeðlilegur. 
Ekki er hægt að telja að um tilfærslu innan stofnunar sé að ræða þar sem bæði voru með uppsögn í vasanum þótt mismunandi væru.
Haustið 2015 hefði verið hægt að telja að um tímabundna ráðningu væri að ræða en nú er 12 mánaða tímaramminn liðinn og viðkomandi enn í óauglýstum störfum við skólann. 

Til samræmis við hlutverk mitt sem erfiða konan sendi ég fyrirspurn á Félag grunnskólakennara um hvort því finnist þetta eðlileg vinnubrögð um miðjan ágúst síðastliðinn. Ég hef í gegnum tíðina talað við ýmsa starfsmenn án þess að fá skýr svör enda erfitt fyrir óbreytta starfsmenn að taka ábyrgð á einhverjum fullyrðingum svo ég sendi fyrirspurnina beint á formann félagsins. Ég sendi sýnilegt afrit (cc.) á ritstjóra 641.is þar sem ég vissi að hann var að velta fyrir sér að senda fyrirspurn á sveitarstjórn. Ég fæ svar þess efnis að frekari upplýsingar þurfi svo hægt sé að taka afstöðu til málsins. Ég upplifi svarið sem "dismissive" þ.e. að verið sé að vísa umleitaninni á bug en svara um hæl að ég geti gefið allar þær upplýsingar sem þurfi ég þurfi bara að vita hverjar þær séu. Tæpum sólarhring seinna hefur svar ekki borist svo ég sendi aftur póst þar sem ritstjórinn og formaður KÍ fá sýnilegt afrit (cc.) Pósturinn er harðorð ítrekun og ég áskil mér rétt til að fjalla um samskiptin á þessari bloggsíðu. Þá fæ ég svar samdægurs þess efnis að ég sé óþarflega óþolinmóð og að "hótanir" séu ekki vænlegar til árangurs og svo með spurningum um hver ég sé og hvort ég hafi áhuga á að sækja um og hvaðan upplýsingarnar komi.
Þessu svara ég öllu og bæti við að ég muni sýna biðlund. Þá fæ ég  það svar að lögfræðingur félagsins verði settur í málið. Þetta svar berst 17. ágúst síðastliðinn.

Síðastliðinn mánudag 3. okt. finnst mér ég hafa sýnt næga biðlund og sendi fyrirspurn á lögfræðing félagsins hvort eitthvað hafi komið út úr eftirgrennslan. Miðvikudaginn 5. okt. berst mér svar þar sem mér er bent að tala við formanninn og cc-að á formanninn. Þetta þykir mér sérstakt en sendi sömu fyrirspurn á hann. Það hefur ekki enn borist svar en fimmtu- og fösturdagur voru eins og allir vita venjulegir virkir dagar.

Það eru nokkrir möguleikar í stöðunni:

a) Erindið gleymdist.
Þá finnst mér samt eðlilegt að ég sé látin vita af því. Shit happens, það er bara þannig.

b) Erindið hefur ekki enn komið inn á borð lögfræðingsins.
Þá á lögfræðingurinn að segja mér það.

c) Að ég hafi verið dæmd erfið og hlutdræg kona sem verið sé að humma fram af sér.
Það veit Guð heilagur að ég er erfið kona og ég er svo sannarlega mörkuð af samskiptum mínum við forvera viðkomandi stofnunar og hlutdræg eftir því þótt ég virkilega reyni að vera það ekki. Ég hef aldrei reynt að leyna því. Hins vegar geta erfiðar konur haft rétt fyrir sér. Og hvaðan kæmu þessar upplýsingar ef þetta er tilfellið? Væntanlega frá aðila innan stofnunarinnar sem er í náðinni og þ.a.l. alveg jafn hlutdrægur og ég. Ég hefði haldið að það væri einmitt tilgangur stéttarfélags að kanna báðar hinar hlutdrægu frásagnir og komast að hlutlausri niðurstöðu.

d) Skólinn hafi verið að losa sig við vanhæfa einstaklinga og reyna að forðast að fá þá aftur til starfa og félagið horfi því í gegnum fingur við skólann.
Annað eins hefur gerst, mikil ósköp. En við komum aftur að hvaðan þær upplýsingar komi. Þær geta ekki komið frá öðrum en hlutdrægum aðila. Þeir einstaklingar sem sagt var upp voru dæmdir og léttvægir fundnir en það var gert á forsendum vægast sagt hæpins hæfismats. Aftur og enn fyndist mér eðlilegt að félagið myndi meta þetta.

Ég vona að það sé einhver einföld skýring á þessu svaraleysi því það hlýtur að vera öllum grunnskólakennurum í óhag ef stéttarfélagi þeirra finnst eðlilegt að stöður séu ekki auglýstar.

Ég er alls ekki að útiloka þann möguleika að rétt hafi verið að öllu staðið hjá skólanum en það er þá eðlilegt að það sé upplýst.

*Eftir því sem ég best veit. Kannski fékk hann starfslokasamning og var á tvöföldum launum líka í heilt ár.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Blikar á ljáinn

161 fm einbýlishús, 1/3 í kúabúi og gistikot til sölu á 73,5 milljónir

Að semja við narsissista