Til hvers er KÍ?

Undanfarin ár hefur staðið nánast blóðug barátta á milli Félags framhaldsskólakennara og Vísindasjóðs FF og FS. Nú er svo komið að báðir aðilar hafa ráðið sér lögfræðinga, já nokkra, og hvert lögfræðiálitið er skrifað á fætur öðru. Svo virðist sem persónuleg kerkja sé hlaupin í aðila og stjórni talsvert. Þetta er svo sem gott og blessað. Ef deiluaðilar borguðu þessu ósköp sjálfir, svo er ekki. Við félagsmenn borgum þennan sirkus fullu verði fyrir báða aðila. 
Ég er ekki að taka afstöðu í þessu máli, báðir málsaðilar hafa nokkuð til síns máls. Og bara svo það sé sagt þá tel ég að allir viðkomandi séu hæfir og starfi sínu vaxnir. Fólk er ósammála og deilir. Það er eðlilegt. Það truflar mig hins vegar ákaflega að því hafi verið hleypt í þennan farveg og á þetta stig. Framhaldsskólakennarar eru með lausa samninga, lífeyrismálin okkar eru í uppnámi og verið er að eyða tíma og orku í þessi ósköp.

Undanfarið hef ég verið talsvert hugsi yfir tilgangi KÍ. Satt best að segja hefur hvarflað að mér að betra væri fyrir Félag framhaldsskólakennara að segja skilið við sambandið. Ég á bágt með að skilja að í þessu bákni, því bákn er þetta orðið, sé enginn ferill eða viðbrögð við svona aðstæðum. Að vísu er upphafs þessarar deilu  að leita hjá KÍ svo kannski eðlilegt að annar aðilinn beri ekki traust til sambandsins. 

Margir leikskólakennarar landsins hafa líka velt fyrir sér tilgangi KÍ.

Grunnskólakennurum landsins er nóg boðið og sitja samningslausir líka. Þeirra samningsaðilar eru búnir að gera tvo samninga sem báðir hafa verið felldir. Samt situr þetta fólk sem fastast frekar en að játa sig sigrað og hleypa nýjum vöndum að.

Getur verið að KÍ sé klíka útvalinna sem er ekki í nokkrum tengslum við félagsmenn sína?


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Blikar á ljáinn

161 fm einbýlishús, 1/3 í kúabúi og gistikot til sölu á 73,5 milljónir

Að semja við narsissista