Vitur eftir á

Þann 20. maí síðastliðinn voru útskrifaðir 34 nýstúdentar frá Framhaldsskólanum á Laugum. Í skólaslitaræðu sinni kom skólameistari inn á stöðu framhaldsskólanna almennt en einnig sagði hann þetta:

Það er ekki sjálfgefið að skólahald verði á Laugum um aldur og ævi þrátt fyrir að það hafi verið hér lengi. Ein leið til að styðja við skólann er sú hugmynd að sveitarfélögin Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur ættu að sameinast um rekstur unglingadeildar grunnskólanna á Laugum í samvinnu við Laugaskóla. Ég hugsa reyndar að sveitastjórnirnar og þá væntanlega meirihluti íbúa deili ekki þessari sýn með mér. Enda er hún kannski hugsuð út frá hagsmunum Laugaskóla, þó svo að ég haldi að hagsmunir Laugaskóla og sveitarfélaganna hljóti óneitanlega að fara saman.

Þegar sameining Litlulaugaskóladeildar og Hafralækjarskóladeildar undir eitt þak var í burðarliðum voru margir (aðallega á skólasvæði Litlulaugaskóladeildar) sem bentu á þá hættu að fjara myndi undan Framhaldsskólanum á Laugum ef sameinaður skóli yrði staðsettur í Aðaldal. Ég viðurkenni fúslega að ég óttaðist það ekki enda hélt ég að flestir nemendur kæmu annars staðar frá. En reyndin er greinilega sú að nemendur á Laugum var grunnstoð skólans. 
Ég tek heils hugar undir með skólameistara þegar hann heldur að hagsmunir Laugaskóla og sveitarfélaga fari saman. Hvernig fer fyrir Þingeyjarsveit t.d. ef þessi "stóriðja" fer?
Þá er tvennt sem ég velti fyrir mér og verð að varpa fram:

1. a) Eru nemendur Þingeyjarskóla ekki að skila sér í Laugaskóla með sama hætti og nemendur Litlalaugaskóla gerðu og b) ef svo er af hverju ekki?

2. Ef forsvarsmenn Laugaskóla telja að það skipti máli að unglingadeild sé rekin á Laugum af hverju í ósköpunum lögðu Laugaskólamenn ekkert til umræðunnar á þeim tíma sem verið var að flytja skólann í burtu?


Ummæli

 1. 1 a) nei b) við því er sjálfsagt ekkert eitt svar en er óhugsandi að það hafi frekar myndast tengsl og áhugi meðal nemenda við skólann þegar nemendur Litlulaugaskóla gátu fylgst náið með félagslífinu og jafnvel tekið þátt í því.
  2) Sá aðili sem í dag er í forsvari fyrir Laugaskóla var það ekki þegar ákveðið var að loka Litlulaugaskóla - en það veistu auðvitað mætavel og því skil ég ekki hvers vegna þú setur spurninguna fram.

  Það verður að teljast því sem næst víst að innan mjög fárra ára verður eingöngu einn hefðbundin framhaldsskóli í Þingeyjarsýslum. Hvar finnst þér að hann eigi að vera?

  SvaraEyða
 2. Skóli er ekki það sama og skólastjóri og ég sagði forsvarsmenn, ft. Ég var á sínum tíma undrandi á þögn Laugaskólamanna þegar gjörningaveður samþaksskólans gekk yfir og mér finnst allt í lagi að velta því upp hvort þeir séu að greiða gjald þagnarinnar núna.

  SvaraEyða
  Svör
  1. Þér er auðvitað frjálst að velta hverju sem er fyrir þér á þínu eigin bloggi. Forsvarsmenn Laugaskóla hafa alla tíð lagt sig fram við það að eiga gott samstarf við sveitarstjórn. Ég stórefa að skólinn væri betur staddur ef hann hefði skipt sér af og/eða tekið afstöðu í jafn erfiðu máli og þessu. Vandi skólans er að ég held að stærstu sá sami og annarra framhaldsskóla, fækkun nemenda vegna styttingar náms og fámennari árganga.
   Ætli megi ekki allt eins velta því fyrir sér hvort skólinn sé nú ekki enn frekar en áður en Litlulaugaskóli lokaði að gjalda þess illa umtals sem sumir íbúar Þingeyjarsveitar virðast njóta þess að gefa skólanum þá er færi gefst á. Mér kæmi ekki á óvart þó svo að í þeim hópi séu núna margir sem hlakka yfir versnandi stöðu skólans.

   Eyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Blikar á ljáinn

161 fm einbýlishús, 1/3 í kúabúi og gistikot til sölu á 73,5 milljónir

Að semja við narsissista