Ég er komin á þann stað i lífi mínu að ég get ekki lesið nokkurn skapaðan
hlut án gleraugna. Nýverið var ég að vinna í tölvunni og þurfti þá gleraugu.
Við hjónin kaupum gleraugu nánast í tugatali, frúin hefur þann ávana að leggja
þau frá sér hér og hvar. Aðallega hvar.
Hófst því leit að gleraugum. Leitin tók svolítinn tíma en hafðist að lokum.
Hins vegar kom ég gleraugunum ekki upp á nefið á mér því þar var fyrirstaða,
nefnilega gleraugu. „Jæja,“ hugsaði ég, „er ég nú komin þangað.“
Lífsleiðin er nefnilega mörkuð vörðum. Sumar eru stórar: byrja í skóla,
fermast, útskrifast, gifta sig, eignast börn.. Allir þessir stóru pólar. En svo
eru það litlu vörðurnar.
Sækja um kreditkort, fara til útlanda, vinna í fyrsta skipti. Missa vinnu í
fyrsta skipti, brjóta bein. Engir stórir hlutir en samt hlutir sem hafa áhrif.
Hár marka nokkrar vörður, fyrst hár á réttum stöðum og svo röngum. Liturinn
á hárinu er ein varðan. Fyrsta hvíta
hárið var þvílíkt áfall að ég lagðist í rúmið.
Fyrsta skiptið sem ég þurfti að velta mér fram úr rúminu út af bakverk.
Þegar ég haltra um af því að hnéið læsist.
Þegar ég gleymi gleraugunum og þarf að biðja afgreiðslufólkið í búðinni að
lesa dagsetningarnar á vörunni. Nýverið þurfti ég að biðja starfsmann um að
finna vöruna, ég var búin að leita í hálftíma. Sá. Ekkert.
Fer inn í næsta herbergi og man ekkert af hverju.
Systir mín, örfáum árum eldri, fór í bingó um daginn. Bingó. Mér fannst það
rosalega fyndið þegar ég sá það á facebook. Ég öfundaði hana líka pínulítið af
orkunni að geta verið úti á lífinu fram undir miðnætti á sunnudegi.
Nú væri auðvelt að leggjast í barlóm yfir þessum heldur harkalega ágangi
áranna. En þetta er allt í lagi. Þetta eru bara vörður á lífsleiðinni. Þær
brjóta upp ferðalagið og gera það skemmtilegra .
Engin ummæli:
Skrifa ummæli