"Þú ert svo miklu sætari þegar þú brosir"


Bros er yfirleitt merki þessi að fólki líði vel og er ánægt. Þegar fólki líður vel og er ánægt þá lítur það betur út. Það gildir um alla, líka karla. Samt er fólk ekki að segja körlum að brosa í tíma og ótíma. Konum er hins vegar sagt alveg reglulega að brosa af því „brosandi er konan sætari.“ Frægur femínisti lenti í því á dögunum að sitja á kaffihúsi og vinna í fyrirlestri. Ég veit ekki af hverju hún fór á kaffihúsið til að vinna í fyrirlestrinum enda kemur mér það ekkert við. (Kannski í trausti þess að það sé meiri friður innan um ókunnuga en spjallandi vinnufélaga/fjölskyldu.) Hún vildi það og það nægir. 
Femínistinn segir svo frá því á facebook og frábiður sér fjölmiðlaumfjöllun að eldri maður hafi „vappað" í kringum hana (óþægilegt) og svo undið sér að henni og sagt henni að brosa meira því hún væri svo miklu sætari þannig. Femminn ferlegi brosti smá og sendi karlinum svo fingurinn.
Sumir eru alveg bit, kjaftstopp og hlessa. Ekki vegna dónaskaparins í manninum að trufla konuna þar sem hún er niðursokkin í vinnu sína. Ekki vegna þeirrar kröfu hans að hún eigi að brosa burtséð frá líðan sinni. Að hún eigi að sitja með frosið bros eins og fífl, ein yfir kaffibollanum sínum. Nei, fólk er alveg bit vegna þess að hún sendi þessum uppáþrengjandi, ókurteisa  og tilætlunarsama manni fingurinn.
Af því, krakkar, þetta er svo einfalt og svo undarlegt að femínistafjandar skuli ekki skilja þetta:

Tími kvenna skiptir ekki máli.
Vinna kvenna skiptir ekki máli.
Líðan kvenna skiptir ekki máli.

Svo við skulum bara halda kjafti og brosa í gegnum tárin.




Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir