Hvar er ég?

Um aldamótin síðustu vann ég í um þrjú ár á nokkrum geðdeildum landspítalans. Á þessum tíma lærði ég þá dýrmætu lexíu að sjúklingurinn er eitt og geðsjúkdómurinn annað. Sjúklingur í maníu er ekki endilega sá sami og manneskjan sem ber sjúkdóminn dags daglega. 
Í minningunni þykir mér vænt um þennan tíma og minnist hans með hlýju. Ég lærði mikið og þroskaðist vonandi eitthvað. Stundum fæ ég nostalgíska þrá eftir sumrunum við sundin blá. Þá minnist ég fallegu konunnar sem sat við gluggann í reykherberginu og söng rámum rómi: Finnst þér Esjan ekki vera sjúkleg.
Ég vona að ég sé ekki að bregðast trúnaði þótt ég segi aðeins frá þessum tíma. Ég geri ráð fyrir að flestir viti að geðsjúkdómar geta verið illvígir og stundum fylgja miður skemmtilegir hlutir. Sjálf gekkst ég upp í því að vera hörkutól og geta gengið til flestra verka; ég þreif upp úrgang og ælu og plástraði eyðnismituð sár. Það var bara einu sinni sem ég þurfti frá að hverfa og á samstarfsmaður minn sem vann verkið ævarandi aðdáun mína. 

Svo kláraði ég námið og fór að kenna. Eitt sumarið vantaði mig pening og ákvað að fara í sumarvinnu á minn fyrri vinnustað. Þá brá svo við að eitthvað hafði breyst. Ég fór út að ganga með skjólstæðingi deildarinnar. Á miðri leið hóstaði hann eða snýtti myndarlegri horslummi í lófann, skoðaði stutta stund og henti svo frá sér í grasið við stíginn. Ég fékk hroll niður bakið. Þegar við komum inn sagði ég frá þessu á vaktinni. Í staðinn fyrir að hrylla sig eins og ég þá varð allt starfsfólkið mjög glatt. Hann hafði nefnilega hent slummunni frá sér en ekki stungið henni í vasann! Ég stóð bara þarna gapandi, hvar var ég eiginlega?
Þetta var augnablikið þar sem ég áttaði mig á að þessu tímabili í lífi mínu væri lokið. Svo var ég auðvitað inni á geðdeild.

Það hafa komið stundir þar sem þessi spurning kemur upp í hugann, ég litið í kringum mig og er ekki við Sundin blá.
Ein slík stund var í morgun þegar ég las erlendar fréttir.
Hvar er ég eiginlega?



Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir