Mæðradagurinn

Varúð: Persónuleg færsla.

Ég hef einhverra hluta vegna gert frekar lítið úr mæðradeginum þegar kemur að sjálfri mér. Ég hringi í mömmu eða sendi blóm en ég minni strákana mína ekki á hann. Ekki eins og ég læt manninn minn vita af konudeginum með góðum fyrirvara og meiningum. Þetta er bara svona og var í raun ómeðvitað.
Það var ekki fyrr en í fyrradag að ég sá þessa færslu á facebook að ég áttaði mig á þessu.


Mig langaði alltaf til að eignast börn. Ég veit ekki af hverju. Einn harðsvíraðasti trúleysingi sem ég þekki segir að allar lífverur hafi þörf fyrir að bera erfðaefni sitt áfram. Kannski er það umhverfið sem þrýstir á því guð veit að nóg er af fólkinu.
Ég veit ekki af hverju og ætla ekki einu sinni að reyna að svara því en mig langaði að eignast börn og ég veit að fullt af konum langar að eignast börn. Við getum það bara ekki allar.
Og þó svo að ég hafi verið svo heppin að ná að eignast tvo stráka þá er það ekki sjálfgefið.

Ég hef svo sem sagt þessa sögu áður. Í fyrstu tilraun missti ég fóstur. Það er svo þögguð lífsreynsla að ég hélt raunverulega að ég væri ein af fáum konum sem hefðu lent í því. Svo kom nú upp úr dúrnum að æði margar konur hafa misst fóstur. En þið vitið þetta er lífsreynsla kvenna og svoleiðis þarf að þagga. Sem er skrítið því barnsfeðurnir finna svo sannarlega til líka.

Í næstu tilraun var ég gengin 24 vikur á leið þegar barnið hætti að hreyfa sig. Þetta gerðist í júlí og allir í sumarfríi. Fæðingin var framkölluð og við jörðuðum litlu stúlkuna okkar sem átti að heita Þórhildur en var nefnd Björg. Hún hvílir hjá langömmu sinni og langafa sem áttu 5 stráka og ég veit að þau hugsa vel um hana.

Þar sem það voru sumarfrí fengum við ekki niðurstöðu úr krufningunni. Við vildum vita hvað hefði gerst og systir mín læknirinn fullvissaði mig um að læknirinn sem framkvæmir krufningar á litlum krílum væri mjög vandvirkur og virðingarfullur. Ég efast reyndar ekki um að allir læknar séu það en á þessum tímapunkti skipti þetta mjög miklu máli að heyra.

Svo tók við biðin. Ég vissi ekkert hvað hafði gerst. Hvort það væri einhver genagalli eða eitthvað að hjá mér. Hvort ég gæti yfir höfuð eignast börn. Við vorum byrjuð að huga að húsbyggingu en hættum að hugsa um hana. Hversu stórt þyrfti húsið að vera? Til hvers að byggja hús? Allt í einu var ekki tilgangur með neinu.

Við hugsuðum mikið. Ég grét. Maðurinn minn var reiður út í heiminn. Fjölskyldan mín var miður sín. Systir mín á tvær flottar stelpur svo við vissum að ættboginn héldi áfram en okkur langaði í fleiri börn. Það var jafnvel rætt að systur mínar myndu gefa mér egg eða ganga með fyrir mig ef það kæmi í ljós að eitthvað væri að. Þess vegna get ég ekki verið á móti staðgöngumæðrun.

Í huganum ættleiddi ég tvær kínverskar stúlkur. Þá var ástæða til að byggja hús og halda áfram. Ég hugsa stundum um þessar stúlkur sem ég átti í mánuð í huganum. Kunningjakona mín sagði að ég ætti þær einhvers staðar og mér finnst það falleg og hugguleg tilhugsun.

Svo kom upp úr dúrnum að það hafði vafist upp á naflastrenginn, þetta var sorglegt slys.
Við erum alveg ofboðslega heppin. Við fengum að eignast tvo stráka og við vitum svo sannarlega að það er ekki sjálfgefið.

Munum bara að þetta getur verið erfiður dagur. Það eru ekki allar konur mæður sem vilja og það er alveg ofboðslega erfitt.



Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir