Ferðast innanlands

Fjölskyldan á Hálsi hefur rekið litla ferðaþjónustu undanfarin ár svo við höfum verið bundin heima við og lítið getað ferðast. Núna koma engir gestir til okkar og öll í sumarfríi í stutta stund svo við nýttum tækifærið og ferðuðumst sjálf aðeins um landið.

Vígalegur
Strákarnir luku vormóti á Akureyri í íshokkí á fimmtudagskvöldi svo við ákváðum að fara ekki mjög langt og gistum á Hótel Blöndu á Blönduósi.  Við fengum fjölskylduherbergi svo við sváfum öll fjögur í sama herberginu eins og við vildum. Er skemmst frá því að segja að herbergið er rúmgott, rúmin góð og sváfum við öll vel. Morgunverður var innifalinn og vel útilátinn. Það vantaði kúpul á eitt ljósið í herberginu sem var aðeins leiðinlegt á hótelherbergi en okkur leið vel og strákunum fannst gaman. Starfsfólkið var líka mjög kurteist oog elskulegt. Mælum eindregið með Hótel Blöndu.

Við vorum búin að panta á Hótel Blöndu þegar okkur var bent á að við yrðum að kíkja á Sögusetrið á Sauðárkróki svo við keyrðum aðeins fram og til baka. En það var fullkomlega þess virði! Við keyptum fjölskyldupakka á tæpar 9 þús. Fyrst er safn um Sturlungaöldina en svo er hægt að fara í 10 mínútna sýndarveruleika um Örlygsstaðabardaga. Það var mjög skemmtilegt, ég skil loksins alla þessa steina sem falla á hendur manna í Njálu. Strákunum fannst þetta auðvitað algjörlega frábært og vildu helst fara strax aftur. Frábær sögukennsla. Svo var hægt að klæða sig upp og taka myndir.


Þá litum við aðeins inn í Glaumbæ. Það var áhugavert en við erum auðvitað með Grenjaðarstað í næsta nágrenni.

Húsbóndann langaði að skoða Borgarvirki á leiðinni á Borðeyri. Ég hafði ekki hugmynd um þennan stað og það var mjög áhugavert að skoða hann.


Þessa nótt gistum við á Borðeyri í Tangahúsi. Við fengum neðri íbúðina fyrir okkur. Eina sem ég hef yfir þessari gistiaðstöðu að kvarta var að það vantaði tilfinnanlega sófa. Að öðru leyti mjög fínt.
Um kvöldið gengum við út á tangann og strákarnir náðu að fleyta kerlingar í fyrsta skipti. Svo allt í sáum við sel og svo annan. Þeir voru alveg jafn forvitnir um okkur og við um þá og góndum við á hvert annað í svolitla stund. Því miður tók ég ekki símann með í göngutúrinn svo það eru engar myndir af selunum. Við höfðum öll gaman að þessu.

Daginn eftir keyrðum við við Hólmarvíkur og litum inn á Galdrasafnið. Það er fróðlegt en byggir talsvert á lestri og strákarnir höfðu ekki mikla þolinmæði með foreldrum sínum sem vildu helst fá að lesa sem mest. En nábrókin náði vissulega athygli þeirra...


Við fengum okkur hádegismat á Café Riis á Hólmavík. Einhver besta pizza sem við yngri sonurinn höfum fengið og hinir ánægðir með með fiskinn og lamba file-ið. Flott gamalt hús og skemmtilegur staður. Ég verð að segja frá því að mér fannst dásamlega skemmtilegt að vertinn (kvk) var með rúllur í hárinu. Ég man eftir konum með rúllur úr æsku minni og fannst þetta frábært. Ég kunni ekki við að taka mynd þótt mig langaði😉

Síðustu nóttina gistum við í Heydal. Að öðrum ólöstuðum var það skemmtilegasti staðurinn. Þau hafa breytt útihúsunum í gróðurhús með sundlaug og strákarnir fóru strax þangað og vildu helst vera þar. Þau eru með tvo hunda, einn kött og talandi páfagauk. Hundurinn Loki reyndi að leiða okkur í ógöngur í kvöldgöngunni, hljóp yfir ána og þóttist svo ekki komast til baka. Yngri drengurinn var miður sín og reyndi mikið að hjálpa honum svo Loki fékk alla þá athygli sem hann vildi😁 Drengurinn skildi ekkert í vonsku móður sinnar sem sagði honum að skilja hundinn bara eftir og koma. Svo hljóp hundspottið fram úr okkur.


Kobbi páfagaukur bauð góðan daginn. Hann býður líka góða nótt ef honum finnst fólk sitja of lengi fram eftir í matsalnum. Hann hermir líka eftir símanum og svarar honum.




Ef fólk er að ferðast með börn þá mæli ég eindregið með Heydal.

Það er mjög gaman að sjá hversu mikil uppbygging hefur orðið víða í ferðaþjónustu og mikið að í boði. Hvet fólk eindregið til að ferðast um landið okkar í sumar.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir