Fara í aðalinnihald

Grenndarréttur

 Skrifað 2020 og sent til sveitarstjóra Þingeyjarsveitar sem hefur ekki enn svarað erindinu.

 

Til þess er málið varðar.

Þannig er mál með vexti að eiginmaður minn, Marteinn Gunnarsson, á 1/3 í Hálsbúi ehf. sem er að Hálsi. Búið á hann með tveimur bræðra sinna. Árið 2010 byggðum við hjónin einbýlishús á Hálsi og skuldsettum okkur í kjölfarið.

Fyrir þremur árum komu upp leiðindi sem leiddu til þess rúmu ári seinna að Marteinn hætti að vinna á búinu. Til að sjá fyrir okkur og börnum okkar stundum við vinnu utan heimilis og einnig höfum við rekið ferðaþjónustu í gegnum miðilinn Airbnb. Airbnb vinnur eftir svokölluðu umsagnakerfi og stjörnugjöf. Því hærri einkunn sem gestgjafi fær því hærra lendir hann í leitarniðurstöðum. Því hærra sem eignin lendir í leitarniðurstöðum því líklegra er að hún sé bókuð. Þetta veit starfandi bóndi, hann hefur sjálfur verið með eign inni á síðunni.

Við áttum okkur að sjálfsögðu á að bændur heyja um sumur og stundum verður veðurs vegna að vinna lengi fram eftir til að ná inn heyjum. Það er sjálfsagt að taka tillit til slíks. En starfandi bóndi á Hálsi hefur tekið upp það vinnulag að byrja heyskap fjærst húsi okkar og enda næst því. Á heyskapartíma er því iðulega unnið í kringum húsið okkar eftir 22:00 á kvöldin. Þann 11. júlí síðastliðinn var rúllað niðri á túnum fram undir eitt um nóttina. Þessu verki fylgdi mikill hávaði.

Þegar borinn er skítur á tún þá vill svo til í 95% tilvika að vindáttin stendur á húsið okkar. Þá þarf einnig að bera skítinn á túnin langt fram eftir kvöldi. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá þarf að hræra í skítnum sem er gert með dráttarvél og er því dráttarvél drynjandi allan daginn langt fram á kvöld í 120 metra fjarlægð frá húsinu okkar.  

Í þann 18. júlí voru gestir í öllum herbergjum. Hér lá megn skítafýla yfir húsið, dráttarvélin drynjandi og keyrt fram og til baka á annarri dráttarvél fram til 23:00 . Ég tel nokkuð ljóst að einkunnin verði ekki góð.

Við áttum okkur á að við búum á miðri bújörð.  Undir öllum venjulegum kringumstæðum myndi starfandi bóndi taka tillit til okkar starfsemi rétt eins og við tökum tillit til hans. En hér eru ekki venjulegar kringumstæður. Þetta gerist ekki óvart.

Þann 26. maí sl. héldum við upp á átta ára afmæli sonar okkar. Skólafélagar hans komu og léku sér úti enda ágætt veður. Skítatraktorinn var drynjandi í þessa þrjá tíma sem afmælið varði og gaus upp megn skítagasfýla sem lagði yfir húsið. Vert er að taka fram að í þetta skipti varði þessi vinna aðeins í þessa þrjá tíma. Þá var borið á túnið næst húsinu, sama tún og var borið á daginn áður.

Er þá ótalið þegar hljóðvörn að kornþurrkara var stöðugt færð frá og kýrhræ var látið liggja á hlaðinu í beinni sjónlínu allan daginn.

Spurningar mínar eru því: Gilda einhverjar reglur um hávaða í dreifbýli? Gilda óskráðar reglur grenndarréttar ekki  í dreifbýli? Hvert get ég snúið mér til að fá úr þessu skorið?





Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Að greinast með krabbamein

 

Fáránleg staða

Eins og lesendur hafa kannski tekið eftir þá hef ég verið að endurbirta, lítillega uppfærða, greinargerð sem hefur verið aðgengileg á netinu frá því 7. júní í fyrra. Ég vakti reyndar ekki athygli á henni fyrr en í október eftir kattamálið og fékk hún talsverðan lestur þá.  Vegna þessarar endurbirtingar er núna verið að reyna að setja mér einhverja úrslitakosti. Það sem er nú kannski merkilegast við það er sú staðreynd að þetta er greinargerðin sem viðkomandi dreifði sjálfur út um allt í nóvember 2017.  Það eru ekki margar konur svo æðislegar að m.a.s. þegar menn hata þær þá vilja þeir samt búa sem næst þeim og gera allt til að svo verði sem lengst. En út á nákvæmlega það ganga þessir afarkostir. Ég verð að segja eins og er að þessi staða er einhver sú fáránlegasta sem ég hef upplifað og er þó orðin eins gömul og á grönum má sjá. Meðeigendurnir fullyrða báðir að þeir vilji selja. Við viljum kaupa. Peningarnir liggja í bankanum og bíða eftir að verða borgaðir út
Látið ekki sakleysislegt útlitið blekkja! Já, við fyrstu sýn virðist þetta ósköp eðlilegur köttur. En hún er það ekki! Ég var hringd út um tvöleytið í dag því að þessi vargur, þessi glæpaköttur hafði ráðist á litlu, sætu kisustelpuna mína þar sem hún svaf í sakleysi sínu. Þær voru í fangbrögðum þegar litla systir sleit þær í sundur! Og litla, sæta kisustelpan mín var öll útklóruð með, ég er gjörsamlega miður mín, bitsár á bringunni. Svo það var brunað upp á Dýraspítala þar sem hún var sprautuð með pensilínsprautu. Það er ekki nóg með að verða fyrir svona svívirðulegu launsátri heldur þurfti hún að fara í bíl! Og fá sprautu! Á meðan skraðræðisgripurinn var heima og hrósaði sigri og þóttist aldeilis hafa tekist að hrekja keppinautinn að heiman. Þegar við komum aftur heim og Snotra litla, fórnarlambið, faldi sig uppi í glugga og rétt gjóaði einu auga í genum rifu til að fylgjast með ofbeldisseggnum, þá lá Kolfinna í leyni fyrir Dúlla. Ég ætlaði að taka hana upp og ræða þessa hegðun