Ég er einlægur George Michael aðdáandi. Ég fylgdist með honum á hátindinum og ég fylgdist með honum í botnfallinu síðustu æviárin. Hann misnotaði eiturlyf og lifði ekki heilbrigðu lífi og dó að lokum langt fyrir aldur fram. Að sjálfsögðu var ég og svo mörg önnur algjörlega sannfærð um að hann hefði verið mjög óhamingjusamur. Af hverju? Jú, af því að öll viljum við eiga maka og börn. George Michael hins vegar, þótt hann ætti maka, var á stöðugu karlafari út um alla koppagrundir og átti ekki börn. Augljóst, ekki satt?
En svo gerðist tvennt; ég rakst á viðtal við goðið á Youtube þar sem hann er bara fokvondur yfir því að hann fái ekki að lifa lífi sínu í friði og svo heldur hann því fram að samkynhneigðir karlmenn hafi aðrar skoðanir tryggð í samböndum.
Mér finnast þessar skoðanir þarna dálítið karlrembulegar en ef makinn hans er sáttur við þetta hver er ég þá að dæma? Kemur mér þetta yfir höfuð eitthvað við?
Svo gerðist hitt. Ég las Kynjafræði fyrir byrjendur og þar segir:
Judith Butler gagnrýnir einmitt hinsegin samfélagið fyrir að gangast stundum of mikið upp í orðræðu hins gagnkynhneigða forræðis. Til dæmis þegar gengið er út frá því að hinsegin fólk (samkynhneigðir/trans o.s.frv.) vilji eiga eins líf og gagnkynhneigðir og leggi of mikla áherslu á að auðvitað vilji allir giftast og eignast fjölskyldu – hvers vegna eru ekki allir „penir“ í Gleðigöngunni? Hinsegin fræðin hrista einmitt upp í þessu!
Ég verð að viðurkenna að ég varð bara alveg rasandi hissa. En kannski er það tilfellið; kannski vilja ekki allir lifa samkvæmt þessari formúlu. Og er það ekki bara allt í lagi?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli