Það er vont, það er vont... og það venst ekki

Öllum ætti að vera það ljóst að það er að koma upp vond staða í grunnskólum landsins. Grunnskólakennarar hafa setið eftir í verðbólgunni og eru nú lægst launaða kennarastéttin. Sem væri kannski allt í lagi ef ekki munaði talsverðu. Eftir 7 vikna verkfall 2004 erum við nú verr sett en áður, kaupmáttur okkar hefur rýrnað töluvert. Nú er það alveg rétt að kennarastéttin samþykkti þennan samning sem fól ekki í sér nein rauð strik. Forysta kennarasambandsins reið um héruð og hvatti fólk til að samþykkja hann þó svo að teikn væru á lofti um aukna verðbólgu. Kannski hefur þetta 51% stéttarinnar sem samþykkti þetta treyst á enduskoðunarákvæði 16.1. Hvernig fólk gat trúað því eftir að stéttin var svínbeygð og svo sparkað í andlitið á henni að Launanefndin myndi henda í okkar plástri finnst mér óskiljanlegt með öllu. Enda hefur reynslan sýnt það að á okkur yrði ekki migið þótt í okkur kviknaði.
Á þessu ber enginn neina ábyrgð. Ríkisstjórnin enga ábyrgð. Það muna það væntanlega allir þegar 45.000 grunnskólanemar sátu heima í 7 vikur og það kom Menntamálaráðherra bara ekkert við.
Þegar grunnskólinn var fluttur til sveitafélaganna hafði hann verið fjársveltur í mörg ár. Kostnaðaráætlunin var því viðráðanleg. Þegar grunnskólinn var svo kominn á könnu sveitafélaganna þá fóru að berast nýjar kröfur um einsetningu og mötuneyti og svona ýmislegt. Þannig að jú, Geir H. Haarde, ríkið getur nefnilega alveg komið að þessu máli með sambærilegri tekjuskiptingu ríkis og sveitar og viðgengst á hinum Norðurlöndunum. Og ekki voruð þið að víla það fyrir ykkur að setja á okkur lög 2004. Hvern andskotann voruð þið að skipta ykkur af samningum þá fyrst þeir koma ykkur ekkert við?
Sveitafélögin bera það fyrir sig í fyrsta lagi skv. framansögðu að þau hafi ekki næg fjárráð. Það er ekki vandi grunnskólakennara. Við berum ekki ábyrgð á því að sveitafélögin hafi klúðrað sínum samningum við ríkið. Í öðru lagi bera sveitafélögin það fyrir sig að þau hafi framselt samningsumboðið til Launanefndarinnar og ef eitthvert sveitafélag gerir samning við sína kennara um betri laun þá er það samningsbrot því Launanefndin hefur umboðið. Samkvæmt þessari túlkun sitja grunnskólakennarar ein allra stétta í heljargreipum samnings sem kveður á um hámarkslaun. Aumingja litlu sveitafélögin, þau geta bara ekkert að þessu gert. Eru engin takmörk fyrir kjaftæðinu sem hægt er að bera á borð fyrir okkur? Þetta er sú besta staða sem launagreiðandi getur verið í. Það vill svo óheppilega til að kjarasamningar eru ekki gerðir bara í þágu launagreiðenda. Samkvæmt lögum eru kjarasamningar þannig að þeir kveða á um lágmarkslaun, þ.e. vinnuveitandi má ekki greiða lægri laun en kveðið er á um í samningi. Hins vegar er launagreiðandanum fullkomlega frjálst að borga meira, ef hann vill. Sveitafélögin vilja bara ekki borga meira. Komið úr felum og viðurkennið það, hættið að skýla ykkur á bak við lygar.

Ummæli

  1. Satt og rétt. Hrædd er ég nú um að fulltrúar sveitarfélaganna viðurkenni þetta seint...

    SvaraEyða
  2. já þetta er ógeð....

    SvaraEyða
  3. Kennarar og annað fólk sem vinnur við umönnun lifandi fólks ætti ekki að hafa verkfallsrétt eða lenda í þeirri aðstöðu að þurfa að fara í verkfall. Þegar launagreiðandinn hagnast fjárhagslega á verkfalli er það tilgangslaust eins og sýnir sig hvað eftir annað hjá kennararstéttinni. Verkfallið bitnar á saklausum en ekki á launagreiðandanum og þegar kennarinn kemur aftur tilk starfa er það hann sem lendir í því að reyna að púsla öllu saman þannig að skaðinn verði sem minnstur.

    Kennarar (og reyndar fleiri stéttir) ættu að krefjast þess að laun þeirra verði miðuð við laun þingmanna (og þá frekar við krónutölu en hlutfall) þannig að aldrei sé hægt að hækka laun þingmanna án þess að laun þessara stétta hækki í leiðinni.

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir