Hið undarlega sálarástand

Ég er búin að vera kennari í 6 ár. Ég hef verið bitin, það hefur verið hent í mig bókum og mér og ástvinum mínum hefur verið hótað lífláti og öðru þaðan af verra. Um daginn átti t.d. að bíða heima hjá mér þekktur handrukkari. Vörpulegir drengir (rúmlega 180 cm og 100 kg) hafa stillt sér upp fyrir framan mig og spurt hvað ég myndi gera ef þeir berðu mig. ,,Ætli ég fari ekki bara að gráta" hef ég yfirleitt svarað. En núna get ég sagt: ,,Ég kæri þig og fæ 10 milljónir." Ég ætla að segja það beint út. Ég fagna þessum dómi.
Hingað til hef ég ekki upplifað neitt nema algjört réttindaleysi. Ég hef komið inn á það á þessum vettvangi áður að aðstandendur geta farið hamförum í rógburði sínum og við getum ekkert gert okkur til varnar.

Þessi kennari sem voru dæmdar 10 milljónir er 25% öryrki fyrir lífstíð. Hún má eiga von á því að fá höfuðverkjaköst alla ævi. Samt, samt dirfðist hún að fara fram á bætur! Þvílík frekja! Og það úr hendi forráðamanns barnsins sem slasaði hana! Þetta segir náttúrulega allt um hið undarlega sálarástand konunnar. Að ætlast til að foreldrar beri ábyrgð á börnum sínum. Þvílík ósvinna!
Það er vissulega rétt að barnið er með aspberger heilkennið en skólinn er fyrir alla. Það stendur hvergi í ráðningarsamningi starfsfólks skóla að í honum séu einstaklingar sem geti slasað það og viðkomandi sé réttlaus gagnvart því.
Ég sé um heimakennslu á meðferðarheimili. Allir mínir nemendur eru með einhverjar greiningar á bakinu. Þannig að ef þeir taka sig til einhvern daginn og berja mig í hakkabuff (af því að þeir misstu stjórn á sér vegna óviðráðanlegrar hvatvísi) þá á ég bara að sætta mig við það. Ef ég verð öryrki fyrir vikið og verð fyrir samsvarandi tekjuskerðingu þá verð ég bara að lifa með því. Því það er komið í ljós að skólar bera ekki ábyrgð, sveitafélögin bera ekki ábyrgð og maður er úrhrak mannkyns ef manni dettur í hug að lögsækja gerandann. Hann er jú barn með greiningu.

Bara svo það sé á hreinu þá er ég ekki að álasa þessu barni. Þetta var hörmulegur atburður. En hann varð og kennarinn situr uppi með skaða. Miklu meiri skaða en einhverjar 10 milljónir koma til með að bæta.

Mig grunar að þessi hneykslan á þessum dómi snúist um að sækjandinn er í fyrsta lagi kona og öðru lagi kennari. Setjum þetta öðru vísi upp. Iðnaðarmaður kemur inn á heimili. Hann leggur borvélina á borð og beygir sig niður til að aðgæta eitthvað. 9 ára gamalt barn sér borvélina, teygir sig í hana en nær ekki betra taki en það að borvélin fellur í höfuðið á iðnaðarmanninum og slasar hann. Maðurinn er 25% öryrki fyrir lífstíð og má eiga von á að fá höfuðverkjaköst alla ævi. Á hann ekki bara að sætta sig við þetta?

Ummæli

  1. Ég er þér algerlega sammála. Ég vil líka koma því að að hér fá börnin ekki að vera í skóla án þess að foreldrarnir leggi fram staðfestingu á fullri heimilistryggingu sem nær m.a. yfir allan þann skaða sem barnið gæti valdið í skólanum.
    Ég skildi aldrei þetta tryggingastaðfestingastress (skólastýran lá á mér í nokkra daga því ég trassaði að skila þessu inn) fyrr en ég las um þetta mál á Íslandi.

    SvaraEyða
  2. Mér finnst samt hrikalegt að skólinn skuli ekki bera meiri ábyrgð. Hvað er með skyldutryggingar á vinnustað?

    Ef ég skil dóminn rétt, þá ber tryggingafélagi móðurinnar að borga þessar milljónir, ekki hún sjálf úr eigin vasa, þannig að æsingurinn í sambandi við - ráðast að vesalings móðurinni sem ekkert gerði nema senda barnið í skólann - eru tómt rugl.

    SvaraEyða
  3. Mér finnst svo sem ekkert að því að aðgreina slys á vinnustöðum af völdum tækjabúnaðar eða einhvers innan skólans og slys af völdum nemenda í skólanum. Af hverju eiga nemendur ekki að bera ábyrgð á sér innan veggja skólans líkt og úti á götu? Og þá forráðamenn þegar um ólögráða nemendur er að ræða?
    Hins vegar er svo alveg stór spurning líka hvort mál séu ekki komin út í algera vitleysu þegar kennurum er falið að sjá um 25 krakka, þar af kannski 3-4 með greiningu. Hvernig á slíkt að geta gengið án þess að sífellt komi upp slys, svo ekki sé minnst á hvernig þetta skemmir fyrir eðlilegu skólastarfi? Það er fallegt og gott að taka við öllum inn í skólana, en það verður líka að taka þannig á móti þeim að allir geti vel við unað, jafnt kennarar sem nemendur.

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir