Brjálaða Bína

Eftir áramót fór ég að fara reglulega með Braveheart í fjósið. Er ég því starfandi fjósakona í sumar:) Í eitt skiptið beið kvíga eftir okkur til að bera og sá ég í fyrsta skipti kálf fæðast. Þetta er naut svo að framtíðin er nokkuð svona.. já, hamborgari.
Ég hef hins vegar alltaf verið hrifin af kúnni eftir þetta. Þar sem þetta var fyrsti kálfurinn hennar þá var hún nú komin í virðulegan hóp mjólkurkúa. Kýr eru alltaf með mótþróa fyrst eftir burð en þessi var í uppreisn lengi. Hún stikaði í mjaltabásnum og reyndi að sparka. Var hún óðar nefnd Brjálaða Bína. Þegar kýr láta svona þá er ekkert sem heitir, það verður að binda fót við rör og var það gert. Nú undir vor var farið að sljákka í minni og stendur hún hin þægasta og lætur mjólka sig.Hins vegar bar svo við þegar við settum þær út að mín vaknaði heldur betur aftur til lífsins. Hún æddi út með kúnum og var ekki vitund stressuð eins og hinar kvígurnar (ungar kýr, óbornar eða bara búnar að bera einu sinni). Nokkrar þustu niður heimreiðina eins og þær væru að flytja að heiman og Brjálaða Bína þar í fararbroddi. Þær voru sóttar þegar útlit var fyrir að þær myndu arka út á þjóðveg og sneru allar kurteislega til baka nema Brjálaða Bína sem þurfti að hoppa og skoppa út á tún og vildi bara alls ekki fara þangað sem hún átti að fara. Hún fylgir hinum kúnum en hún lætur ekki ná sér.
Um daginn var ég að mjólka og sótti þær og nú er búið að strengja bönd svo þær komast ekkert. En Brjálaða Bína ætlaði sko ekki í básinn sinn. Hún fór tvo hringi um mjaltabásinn áður en hún gaf sig. Ég verð að viðurkenna að mér finnst hún skemmtileg.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir