Varúð: Kattasaga

Þegar við Braveheart byrjuðum saman þá var einn köttur á bænum, læðan Lína. Um haustið fór mágur hans utan og læðan hans Lúna kom í fóstur. Því miður fór það svo að Lína varð fyrir bíl og þurfti að aflífa hana. Í kjölfarið var keypt endurskinsól á Lúnu.
Þegar líður á haustið fer Lúna að þykkna. Kemur upp úr dúrnum að í eitt skiptið hafði ekki sést á eftir pillunni ofan í hana. Í nóvember 2006 eignast hún svo þrjá kettlinga.
Hvað!
Það tekst að gefa einn en Lilla og Kató verða eftir og eru nú fastir fjölskyldumeðlimir. Kató er fljótlega geldur en Lúna og Lilla eiga að vera á pillunni eða fá sparutu. Eitthvað hefur klikkað því á haustdögum 2007 byrjar Lilla að þykkna. Þegar á líður byrjar Lúna að þykkna líka. Nú eru góð ráð dýr. Í nóvember eignast Lilla 5 kettlinga. Þegar þeir verða rólfærir reynir Lúna að stela þeim og fer að mjólka þeim. Skömmu seinna eignast hún sjálf tvo kettlinga. Endaði þetta í ákveðinni kommúnu þar sem mæðgurnar ólu kettlingana upp saman og nærðu.

Það var yfilýst markmið að engum yrði lógað og tókst okkur að koma út 5 kettlingum. Aðeins Gullbrá (þrílit læða) og Grámann urðu eftir. Var kattafjöldi heimilisins kominn í 5. Lúna og Lilla voru sprautaðar við fyrsta tækifæri, fljótlega eftir áramót, til að halda þessu í skefjum. Sprautan á að duga í hálft ár.
Í mars byrjaði Lilla að bústnast undarlega mikið. Lengi vel sannfærðum við okkur um að hún væri bara að fitna. En þegar spenarnir tóku að spretta fram var ekki lengur haldið í þá sjálfsblekkingu. 27. apríl voru fæddir 5 kettlingar, allt högnar. Lúna var alveg brjáluð og neitaði að koma fram í stofu þar sem kettlingarnir voru. Það batnaði ekki þegar hún, Gullbrá og Grámann fóru í hópferð til dýralæknisins og voru tekin úr sambandi. Dýralæknirinn fékk í leiðinni að heyra það að sprautan hefði ekki virkað. Núna eru kettlingarnir komnir af stað og Lúna hvæsir á þá og reynir helst að lemja þá aðeins líka. Grámann er hins vegar yfir sig hrifinn af litlu bræðrunum og þvær þeim og leikur við þá.
Það eru sem sagt 5 fullorðnir kettir á heimilinu og 5 kettlingar. Kettlingarnir eiga allir að fara og það er aftur yfirlýst markmið að engum verði lógað. Svo nú er bara að byrja að auglýsa. Langar einhvern í kettling?

Ummæli

  1. oh, rúsínurnar, þarna!

    Nei, ég á nóg með Loppu - og hún er NB tekin úr sambandi endanlega og var það þegar hún var bara 4-5 mánaða...

    SvaraEyða
  2. Gvuð hvað okkur langar í kettling en því miður er það ekki möguleiki. Ef ég væri á leið til Íslands í frí byði ég mér pottþétt í heimsókn með börnin, þú getur a.m.k. huggað þig við að það er ekki raunin þetta sumarið.

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Blikar á ljáinn

161 fm einbýlishús, 1/3 í kúabúi og gistikot til sölu á 73,5 milljónir

Að semja við narsissista