miðvikudagur, maí 09, 2012

Hinar ofurfyndnu staðalímyndir.


Fyrir nokkrum árum sat ég á s.k. skólaþingi fyrir starfsfólk gunnskóla. Þar hélt m.a. sálfræðingur fyrirlestur. Sálfræðingurinn er skemmtilegur fyrirlesari og skaut inn nokkrum bröndurum hér og þar. Einn brandarinn var einhvern veginn á þá leið að konur litu á mennina sína eins og karlmenn á bíla; Þ.e. hversu mikið þyrfti að gera við þá.
Þetta þótti salnum, kjaftfullum af konum, alveg óskaplega fyndið. Nema mér. Mér fannst þetta bara ekkert fyndið.
Mér finnst svona steríotýpískur húmor hundleiðinlegur. Karlmenn eru nefnilega ekki ,,svona” eða ,,hinsegin”. Þeir eru alveg jafnmismunandi og þeir eru margir. Alveg eins og konur.
Ef við skoðum þennan ægilega fyndna brandara þá felur hann í sér... ja, fullt af hreinlega ógeðfelldum hlutum.
Það er gengið út frá því að kona líti á manninn sinn sem gallaðan á einhvern hátt. Það þurfi að laga hann. Þá vaknar umsvifalaust spurningin af hverju í ósköpunum var hún að giftast honum til að byrja með? Af hverju náði hún sér ekki bara í mann sem hentaði henni betur? Eða eru allir menn gallaðir? Hver metur það?
Er þá ónefnd óvirðingin gagnvart einstaklingnum; þ.e. að hann sé á einhvern hátt bilaður og hann beri að ,,laga”.  Við myndum aldrei samþykkja svona hegðun í öðrum samskiptum. Ef yfirmaður kæmi fram við starfsmann sinn á þann hátt að hann sé ,,bilaður” og hann  þurfi að ,,laga” á einhvern hátt. Við myndum aldrei samþykkja þetta. En í hjónabandi er þetta allt í lagi. Svakalega fyndið meira að segja.
En undarlegt nokk, þá á svona steríótýpískur húmor miklu fylgi að fagna.
Ég reyndi að horfa á ,,gamanþáttinn” Martein á sínum tíma en gafst fljótlega upp á klisjunum. Ég hef aldrei lagt það á mig að horfa á Hellisbúann en sá einleikur naut alveg gríðarlegra vinsælda á sínum tíma.
Ég hef engan skilning á þeirri þörf fólks að konur séu svona en karlar hinsegin. Að konur séu frá Venus en karlar frá Mars.
Prófessor í bókmenntafræði kom aðeins inn á þetta fyrir mörgum árum, þegar ég sat þar, og hélt að þetta fælist að einhverju leyti í tvíhyggjuþörf okkar. Við skilgreinum alla hluti í andstæður. Svart og hvítt. Gott og vont. Hægri og vinstri.
Ég veit það ekki. Kannski auðveldar það okkur lífið á einhvern hátt að þykjast ,,vita” eitthvað. Að vera alla vega með eitthvað á hreinu. Eins og t.d. það er karlar eru svona en konur hinsegin.
Hins vegar held ég að þetta sé alls ekki að auðvelda okkur lífið á neinn hátt.  Ég held að þessar staðalmyndir bindi okkur á klafa og haldi okkur frá hamingjunni.
Fyrir rúmum 10 árum síðan féll svokallaður öryrkjadómur. Hann fól í sér að ekki mátti tekjutengja örorkubætur einstaklings við tekjur maka. Dómurinn hafði áhrif á 676 einstaklinga. 660 konur og 16 karla.
Hvað segja þessar tölur okkur? Þær segja okkur í fyrsta lagi að konur eru með lægri tekjur en karlar. Þar sem heimilisfaðirinn er öryrki og konan útivinnandi eru ráðstöfunartekjur fjölskyldunnar minni.
En þessar tölur segja okkur því miður miklu meira en bara það. Staðalímyndin er nefnilega mjög skýr. Karlmaðurinn er fyrirvinnan, hann er ,,skaffarinn”. Hann er verndarinn. Ungur maður sem lendir í slysi eða veikindum á miklu minni möguleika á fjölskyldulífi en ung kona sem lendir í slíku. Nei, ég hef engar skýrslur á bak við mig. En ég vann á geðdeild. Konurnar voru mun oftar í samböndum.
Þessar staðalímyndir og þessar kröfur sem við gerum til karlanna okkar eiga sinn þátt í því að sjálfvígstíðni er hvað hæst á meðal ungra karlmanna og þeir eru líklegri til að misnota vímuefni.
Staðalímyndir eru ekki fyndnar. Þær eru báðum kynjum til bölvunar.

1 ummæli:

  1. Mikið sem ég er glöð að lesa þessa færslu því ég er svo hjartanlega sammála þér. Næ því bara ekki hvað er svona fyndið við að gera lítið úr hvort öðru á kostnað kynjanna.

    SvaraEyða

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...